Hleypidómar og kirkjunnar menn

Hleypidómar og kirkjunnar menn

Helga Vala Helgadóttir skrifar grein í 24 stundir þann 28. mars undir fyrirsögninni. „Hatur og hleypidómar biskupsins“. Tilefni greinarinnar er predikun biskups Íslands á páskadagsmorgunn og margt fleira. Helga Vala fer með stóryrðum gegn biskupi.
fullname - andlitsmynd Þorbjörn Hlynur Árnason
02. apríl 2008

Helga Vala Helgadóttir skrifar grein í 24 stundir þann 28. mars undir fyrirsögninni „Hatur og hleypidómar biskupsins“.

Tilefni greinarinnar er predikun biskups Íslands á páskadagsmorgunn og margt fleira. Helga Vala fer með stóryrðum gegn biskupi og ræðst gegn persónu hans og embættisfærslu og sakar hann um tvískinnung og hleypidóma gegn samkynhneigðu fólki.

Ekkert er fjær sanni. Biskup Íslands er heill og samkvæmur sjálfum sér í starfi sínu og boðun. Predikun hans á páskadag var sannarlega góð og sönn; hann talaði líkt og við margir kollegar hans um útlendingafóbíu sem er mikið áhyggjuefni. Það var gleðiefni að sjá hversu fjölmiðlar gerðu orðum biskups góð skil.

Biskup var að fjalla um allt þetta fólk sem flutt hefur til Íslands til að eignast betra líf og hefur lagt fram vinnufúsar hendur sem hafa í leiðinni skapað okkur gríðarlegan auð. Hvað verður nú þegar harðnar á dalnum ? Það verður prófið stóra sem við sem hér erum borin og barnfædd, og höfum alist upp með silfurskeið í munni, þurfum að standast. Mikið meigum við þakka að okkar ungmenni þurfa ekki að fara annað í erfiðisvinnu til að leita sér afkomu og styðja hina eldri sem heima eru.

Orð Helgu Völu um afstöðu biskups og þá kirkjunnar allrar til samkynhneigðs fólks og réttarstöðu þeirra varðandi sambúð eru alveg út í hött. Hún lætur falla orð sem eru bæði meiðandi og ósönn.

Á síðasta kirkjuþingi, í október 2007, var gerð samþykkt um að prestar yrðu vígslumenn staðfestrar samvistar, ef Alþingi myndi heimila það með sérstökum lögum. Þau lög hafa ekki enn séð dagsins ljós.

Þessi tillaga var borin fram af biskupi eftir umfjöllun í kenningarnefnd kirkjunnar. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Þessi afstaða kirkjunnar tekur öllu fram sem við þekkjum í nágrannalöndum okkar og með systurkirkjum í hinu lútherska samfélagi. Hvergi hefir verið gengið jafn langt í því að tryggja jafnræði fólks , burt séð frá kynhneigð.

Þá má nefna að íslenska kirkjan hefur aldrei samþykkt, né heldur rætt í alvöru, að láta kynhneigð fólks skipta einhverju hvað varðar embættisgengi eða störf í kirkjunni. Þannig hefur kirkjan gætt þess að sýna virðingu og samstöðu með þeim sem hafa sannarlega í gegn um árin þurft að gjalda fyrir kynhneigð sína.

Helga Vala klykkir út með því að segjast vera fyrrverandi sóknarbarn í þjóðkirkjunni. Það er merkilegt að fólk skreyti sig með slíku. Hún er líka fyrrverandi afleysingaritari á Biskupsstofu og þjónaði þar sem ritari minn, er ég starfaði sem biskupsritari og Ólafi biskupi frænda sínum - og með miklum ágætum. Þess vegna þykir mér vond grein hennar enn verri.

Að segja sig úr kirkjunni þykir sumum fínt. Þeir hinir sömu kalla síðan eftir kirkjulegri þjónustu þegar þeir þurfa - þetta hef ég margreynt á eigin skinni. Kirkjan spyr ekki um aðild fólks, þegar leitað er eftir þjónustu. Er þessi eða hinn búinn að borga sóknargjöldin sín? Þannig spyrjum við ekki og þannig vinnum við ekki og munum aldrei gera.

Úrsagnir úr þjóðkirkju hafa það eitt í för með sér, að sóknarnefndir fá minni fjármuni til að sinna sínum skyldum, borga laun organista, kirkjuvarða og gæta þess að kirkjur og safnaðarheimili fái sitt viðhald. Þetta ætti að vera umhugsunarefni fólks sem á annað borð vill hugsa.