Þræðir eru margslungin fyrirbæri. Oft fínlegir, slitna auðveldlega, bogna og sveigjast á alla kanta. Saman mynda þeir vefnað, dregla, mottur og flíkur sem geta staðist ýmsa ágjöf. Og hlutverkin eru mörg. Hljóðfæri senda frá sér hljóðbylgjur þegar strengir nötra eftir ákveðinni tíðni.
Heimur úr þráðum
Í norrænum átrúnaði var framtíðin vefur sem örlaganornir spunnu. fornmönnum vafalítið þótt það undrun sæta hvernig seglin ofin úr ótal þráðum gátu borið skip yfir úthöf og ár. Sjálf neitaði Hallgerður, eins og frægt er, Gunnari bónda sínum um lokk úr hári sínu sem hann vildi flétta í bogastreng þegar að honum var sótt. Enn skiptast fræðimenn á skoðunum um merkingu þess atburðar.
Við getum vart kvatt þessar vangaveltur án þess að minnast á sjálf strengjafræðin, sem ganga út frá þeirri forsendu að allur efnisheimurinn sé samsettur úr hárfínum einvíða þráðum sem titra og mynda með því öreindir og af þeim síðan allt hitt. Á Vísindavefnum lýsir Lárus Thorlacius því svo:
„Það er vel þekkt úr sígildri eðlisfræði að mismunandi tónar gítarstrengs svara til sveifluhátta hans og má segja að öreindir, eins og rafeindir, ljóseindir eða kvarkar, séu allar mismunandi tónar á einum og sama grundvallarstreng náttúrunnar.“
Að öðrum þræði
Já, og hér opnum við sýningu Guðrúnar Gunnarsdóttur, Að öðrum þræði. Hún vinnur með þessi margslungnu fyrirbæri sem hér hefur verið tæpt á. Hrosshárin kalla fram hugrenningartengsl við hið liðna en plastumbúðirnar snerta fremur á hversdegi okkar, eins og það er orðað í sýningarskrá. Svo eru það járnstrengirnir sem hún hefur fléttað saman af mikill list. Ég hvet ykkur til að standa við fínofið víravirkið sem ber heitið Ekki Netjuský og hugleiða þá miklu vinnu sem listamaðurinn hefur gefið í að fullvinna það.
Það er gleðiefni þegar listafólk opnar hér sýningu á Torginu. Við njótum þeirra forréttinda, við sem hér störfum, að geta virt listaverkin fyrir okkur, brotið heilann um merkingu þeirra og greint jafnvel í þeim nýjar víddir og sjónarhorn. Það er að sama skapi nokkur áskorun að flétta saman textana sem okkur eru úthlutaðir við boðskap listamannsins – auðvitað með það í huga að þau sem hér hafa sýnt hafa getið þess í óspurðum fréttum að þau séu ekki að predika. Eins og það sé nú eitthvað slæmt? spyr ég gjarnan á móti!
Hvern sunnudag vinnum við með ákveði stef, og í dag er það auðmýktin. Það er viðkvæmt hugtak eins og þræðirnir geta verið. Auðvelt er að misnota auðmýktina, boða fólki undirgefni og draga úr möguleikum þess til að lifa og dafna í fullri reisn. Já, eru það ef til vill andstæður, reisnin og auðmýktin?
Jesús segir sögu af veisluhöldum. Jesús bregður upp mynd af vægast sagt vandræðalegri uppákomu. Hann lýsir því hvernig kappsamur og ákafur gestur í brúðkaupi treður sér með tilþrifum í sæti við sjálft háborðið. Og þar sem hann situr þar fyrir allra augum kemur veislustjórinn og biður hann um að færa sig úr þessu virðingarsæti. Hann kemur honum fyrir við útganginn þar sem sístur sómi þótti vera af því að sitja. Æ, hvað þetta er klaufalegt og þarna situr sá framhleypni rjóður í framan af skömm, á þeim stað sem hann hefði síst viljað vera á.
Þetta er í eins og pínlegt grín, gæti komið fyrir vin minn hinn Frank Hvam úr dönsku Trúðaþáttunum.
„Dramb er falli næst/hroki veit á hrun“. Þetta stendur í lexíu dagsins sem er úr einu af spekiritum Gamla testamentisins – Orðskviðunum. Og í framhaldi: Betra er að vera hógvær með lítillátum en deila feng með dramblátum.
Auðmýktin er orð dagsins hér í kirkjunni. Á mörgum tungumálum er orðið sótt í latínu: Humilitas, sem er af sama stofni og orðið humus – mold. Homo, maður, á sér líka þær rætur. Auðmýktin er eðli málsins samkvæmt nokkuð sem þarf að halda að fólki og hampa því það er víst síður en svo sjálfgefið að fólk leiti hennar.
Skilningur margra á auðmýkt er líka held ég á villigötum. Því hún á ekkert skylt við undirlægjuhátt eða það að gera lítið úr eigin kostum og dygðum. Auðmýkt er einmitt það – mýkt sem leyfir okkur að vera manneskjur í umhverfi okkar, stundum berskjölduð í einlægni og auðsæranleika.
Hún er ekki veiklyndi, ekki skortur á sjálfstrausti eða sjálfsáliti. Heldur þvert á móti. Hún er getan til að líta verk okkar réttu ljósi, vera tilbúin að mæta gagnrýni og leita ráða hjá þeim sem betur þekkja til. Í henni býr í senn styrkur og sveigjanleiki.
Spekin hampar auðmýktinni. Það þarf ekki að undra. Fólk sem hefur tamið sér þá dygð er laust við þá firru að það viti allt og þurfi aldrei að spyrja eða leita nýrrar þekkingar. Íslenskan er svo skemmtilega gagnsæ á köflum. Orðið felur í sér að eiga auðvelt með að vera mjúk. Og ef við hugleiðum lífið í öllum sínum margbreytileika þá er það oftar en ekki einkenni þeirra lífvera sem eru á vaxtarskeiði að vera einmitt þetta – mjúk.
Grasið sem liðast í vindinum hefur jú fyrst og fremst þann eiginleika að vaxa. Það á við um lirfuna sem hámar í sig laufblöðin, þar til hún tekur hamskiptum og verður að flugu eða fiðrildi með harðan skráp. Þá lýkur öllum vexti. Bein hvítvoðungsins eru mýkri en verður síðar á ævinni enda á eftir að togna úr þeim allrækilega.
Auðmjúk manneskja hefur þessa eiginleika líka. Þar verður vöxturinn margbreytilegur, ekki síst á dýptina: „Ég á ekki svör við öllu, ég hef gagn af því að kynna mér það sem aðrir hafa fram að færa. Ég klúðraði þessu – já höldum áfram!“
Þar býr viljinn til að gera betur, halda áfram að sinna þeim grunnþörfum sem líklega búa í okkur öllum, sem er að tilheyra einhverju sem er dýpra og breiðara en við sjálf. Og lifir okkur þegar dagar okkar eru að baki.
Listin opnar hugann
Þetta kemur einmitt inn í frásögn guðspjallsins. Það er í raun hluti af ferðasögu þar sem Jesús er eins og ferðalangur á jörðu, útlendingur í framandlegum heimi. Og þá kemur upp þetta sístæða vandamál í guðspjöllunum – hvað má og hvað má ekki á hvíldardeginum.
Þar birtist okkur ein mynd trúarbragðana þar sem flóknar reglur öðlast eigið líf án tillits til þess hver tilgangur þeirra er. Fræðimenn hafa líkt því við ákveðna þráhyggju þar sem lífið er njörvað niður í strangar reglur án þess að neitt gagnlegt búi að baki þeim.
Jesús opnar þeim nýja sýn á hvíldardaginn, nefnilega að tilgangur hans sé að að frelsa fólk frá tímanlegum þörfum sínum. Hann á að vera næði fyrir sálina og næði fyrir jarðveginn svo að við getum dregið andann, fundið frið í hjartanu og mögulega gleggri mynd af því hver áfangastaður okkar er í tilverunni.
Þræðirnir sem Guðrún vinnur með, hún sýnir hvað unnt er að gera með því að beygja þá og flétta já þeir eru mjúkir og laga sig að þeirri mynd sem listamaðurinn hefur í huga. Upp úr því verður listaverkið til.
Þetta á ekki síst við um hugmyndalistina, konseptlistina, en sú liststefna ef svo má kalla er ráðandi hér á Torginu í Neskirkju. Þar birta listamenn myndir og skúlptúra sem krefja okkur um að hugleiða, íhuga hvað býr þar að baki. Velta vöngum yfir ætlunarverki þeirra sem verkin unnu og þá mögulega fá þeir okkur til að spyrja um það sem okkur þótti áður sjálfsagt.
Er það ekki líka eðli listarinnar að opna augu okkar fyrir hlutunum, hvernig þeir geta tekið á sig nýja mynd og hvetur okkur að sama skapi til að sveigja huga okkar í nýja átt, horfa annað en við höfum áður gert, sjá heiminn út frá öðru sjónarhorni.