Það sem við gefum gerir okkur rík

Það sem við gefum gerir okkur rík

Henry Ward Beecher sagði: „Í þessum heimi er það ekki það sem við tökum okkur, heldur það sem við gefum frá okkur, sem gerir okkur rík.“ Samkvæmt þessu er íslenska þjóðin mjög rík.
fullname - andlitsmynd Bjarni Gíslason
10. janúar 2013

Á nýju ári vill Hjálparstarf kirkjunnar þakka fyrir stuðning og velvild Íslendinga. Jólasöfnun fyrir vatnsverkefni í Afríku er enn í gangi og tölur liggja ekki fyrir en samt er ljóst að stuðningurinn er mikill, jafnframt er mikill stuðningur við starfið á Íslandi. Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og samtök hafa lagt lið með myndarlegum hætti, sem ber að þakka.

Henry Ward Beecher sagði: „Í þessum heimi er það ekki það sem við tökum okkur, heldur það sem við gefum frá okkur, sem gerir okkur rík.“ Samkvæmt þessu er íslenska þjóðin mjög rík.

Í byrjun árs er gott að líta til baka og læra af reynslunni en um leið horfa til framtíðar og hyggja að og reyna að tryggja betri tíð. „Stór stóll býr ekki til konung“ segir spakmæli frá Súdan, sem minnir okkur á að huga að innihaldi og manneskjum en ekki ytri auði og mikilleika. Annað afrískt spakmæli segir: „Farið yfir ána saman í hóp, þá mun krókódíllinn ekki éta ykkur“. Það er einmitt grundvöllurinn að öllum verkefnum Hjálparstarfsins. Við viljum standa með þeim sem á að liðsinna og saman vinna að betri framtíð, ekki fyrir heldur með þeim sem stefna á betra líf. Hindranirnar og erfiðleikarnir eru af mörgum toga, t.d. vatnsskortur, barnaþrælkun, sjúkdómar og fátækt, en ekkert af þessu er ómögulegt að yfirvinna – saman.

Á nýju ári vill Hjálparstarfið með frá- bærum stuðningi Íslendinga horfa til framtíðar þar sem fleiri fá aðgang að hreinu vatni í Malaví, Eþíópíu og Úganda, börn á Indlandi eru leyst undan vinnuþrælkun og íslenskar fjölskyldur losna úr viðjum fátæktar. En um leið megum við ekki gleyma að allt starf þarf að vinna faglega og skipulega, árangur næst ekki á einni nóttu. Gleymum heldur ekki afrísku spakmælunum: „Ef þið viljið komast hratt yfir farið ein, ef þið viljið ná langt, farið saman“ og „Að vera alltaf að flýta sér kemur ekki í veg fyrir dauða, að fara sér hægar kemur heldur ekki í veg fyrir líf“. Áfram að markinu.