Hvað sjáum við í dag?

Hvað sjáum við í dag?

Guðspjall: Jóh. 9. 1-11 Lexia: Sálmur: 30: 1-6 Pistill: Fil. 4. 8 – 13

Guðspjall þessa Drottins dags er kraftaverkafrásaga og greinir frá því þegar Jesús læknar mann sem hefur verið blindur frá fæðingu.

Guðspjöllin greina frá mörgum kraftaverkum sem Jesús gerði á hans dögum. En guðspjall þessa dags er sérstakt fyrir það að þetta er eina guðspjallið þar sem greint er frá því að Jesús hafi læknað einstakling sem hafi verið blindur frá fæðingu.

Það er erfitt fyrir okkur sem höfum öll skilningarvitin í lagi að setja okkur í spor þeirra sem hafa þau ekki í lagi. Okkur finnst svo sjálfsagt að geta séð, heyrt og talað að við leiðum vart hugann að því að þetta er ekkert sjálfsagt.

Við förum jafnvel illa með þau skilningarvit sem okkur hafa verið gefin t.d. tunguna. Við vitum það að tungan er lævís og lipur. Hún getur eitrað út frá sér. Af mannkynssögu síðustu aldar má ráða að betra hefði verið að sumir hefðu aldrei lært að tala. Þá á ég við þá sem hrundu heimsstyrjöldinni síðari af stað. Í huga minn koma orð þjóðskáldsins sr. Matthíasar Jochumssonar:

Ó skapari hvað skulda ég? Ég skulda fyrir vit og mál Mín skuld er stór og skelfileg Ég skulda fyrir líf og sál.

Guð gaf okkur skilningarvit til þess að við færum vel með þau en ekki illa. Alltof margir eru kærulausir um sín skilningarvit. Þeir bera út róg um náungann með tungu sinni sem getur tekið á sig ótrúlegustu myndir þegar hann berst mann frá manni.

Aðrir láta sig sýnilega neyð náungans afskiptalausa. Hinir eru fleiri sem betur fer í þjóðfélaginu sem vilja ganga inn í neyð náungans og gera það með ýmsum hætti. Það er til margt fólk sem er nærfærið og hugulsamt og setur sig í spor annarra líkt og Jesús Kristur gerir í guðspjalli dagsins.

Jesús sá neyðina á leið sinni. Lærisveinar hans vildu setja ástand blindfædda mannsins í samband við syndugleika hans eða foreldra hans sem hefðu syndgað. Lærisveinarnri voru í raun og veru að spyrja Jesú að því hvers vegna sumt væri ófullkomið og illt í þessum heimi ef Guð væri almáttugur og góður? Það er mannlegt að líta á þjáningu manna sem refsingu fyrir eitthvað sem þeir gerðu rangt eða forfeður þeirra. En þessi rökhugsun lendir í ógöngum þegar þjáningin er meðfædd eins og hjá þessum blindfædda manni sem Jesús hjálpar.

Jesús reynir ekki að útskýra fyrir þeim hvers vegna þessi maður sé blindfæddur vegna þess að hann getur það ekki. Þjáningin og neyðin er einfaldlega til staðar líkt og nú á tímum eins og við vitum öll mæta vel. Hins vegar bendir Jesús á með viðmóti sínu gagnvart blindfædda manninum að það verður að mæta þjáningunni og neyðinni strax með öllum tiltækum ráðum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Það má ekki láta blindfædda manninn afskiptalausan frekar en aðra sem eiga um sárt að binda.

Hvað gerir Jesús við þennan blindfædda mann? Jesús er ákaflega nærfærinn við hann og hugulsamur þrátt fyrir það sem hann gerir í fyrstu. Það kann að koma okkur undarlega fyrir sjónir að sjá mann skyrpa á jörðina og búa til leðju úr munnvatninu og strjúka siðan leðjunni á augu blindfædds manns. Augnlæknar í dag myndu varla samþykkja þessa meðferð á sjúklingum sínum. En Jesús vissi að þetta var siður lækna á þessum tíma. Fólk trúði því að í munnvatninu og moldinni fælist lækningarmáttur. Það var þá kunnugt alþýðumeðal eða húsráð til lækninga.. Jesús gerði þetta til þess að öðlast tiltrú blindfædda mannsins þótt hann vissi að senn yrði verk Guðs sjálfs gjört opinbert á honum en ekki lækningarmáttur moldarinnar eða munnvatnsins.

Allt til þessa dags er sú staðreynd viðurkennd hjá heilbrigðisstéttum að árangur meðferðar á sjúklingi sé ekki síður komin undir tiltrú sjúklingsins á meðferðinni en læknisins og annars starfsfólks á sjúkrastofnunum. Af þessu má ráða að Jesús reyndi að öðlast tiltrú blindfædda mannsins á nærfærinn hátt líkt og vitur læknir myndi gera við sjúkling sinn sem væri kvíðinn og óöruggur.

Þegar Jesús hafði smurt leðjunni á augu blindfædda mannsins þá sagði hann honum að fara og þvo augu sín í Sílóam laug við musterisfjallið sem hann og gerði. Nafnið Sílóam þýðir sendur. Blindfæddi maðurinn þarf að fara til Sílóam því að þar fær hann vísbendingu um það að Jesús er sá sem er sendur af Guði því að hann fær sjónina eftir hafa þvegið augu sín í lauginni. Þessi fyrirmæli minna á verkefni sem spámaðurinn Elísa fól holdsveikum manni löngu fyrir daga blindfædda mannsins á dögum Jesú. En Elísa fól holdveika manninum að fara og baða sig sjö sinnum í ánni Jórdan. Þá yrði hann heilbrigður og það gekk eftir. Því má segja að fyrirmælin sem blindfæddi maðurinn fékk hjá Jesú hafi verið spámannleg og þau rættust er blindfæddi maðurinn varð alsjáandi. Ný veröld opnaðist fyrir þessum manni á einu andartaki.

Þannig er Jesús. Ákaflega nærfærinn, virðir hefðirnar en kemur jafnframt með nýtt innlegg sem er kraftaverkið sjálft. Það er svo sannarlega óvæntur og óútreiknanlegur atburður þar sem blindfæddi maðurinn fékk að sjá verk Guðs. Kraftaverkið gekk þvert á eða sneiddi hjá sjónarhornum náttúrulögmálanna. Lækning blindfædda mannsins setur spurningamerki við það hvort meðfædd blindni þurfi að vera viðvarandi blindni. Sjónleysi er ekki líkt og ásköpuð örlög sem heftir manneskjuna niður.

Jesús er sendur af Guði föður til mannanna. Hann stendur andspænis því er virðist vera óbætanleg röskun á sköpuninni og mannleg úrræði finnast engin. Þegar hann mætir neyð þessa blindfædda manns þá kemur í ljós að sending hans í þennan heim nær til og snertir alla mennsku, allan manninn.

Yfitleitt voru kraftaverk Jesú og annarra margræð í augum fólks. Jesús lagði jafnan áherslu á að þau koma ekki í staðinn fyrir trúna heldur eru til að skýra hana. Þau eru táknræn og undirstrika það sem hann sagði um sjálfan sig. Kraftaverk blindfædda mannsins er sterk yfirlýsing þess að Jesús er ljós heimsins, sendur af Guði, sem jafnvel nafn laugarinnar bendir á.En lækningin opinberar lika verk Guðs gagnvart óleysanlegum vanda og þjáningu. Hér er það sýnt með nokkuð ljósum hætti að Guð svarar spurningunni um almætti með táknrænu kraftaverki. Af lífi þessa blindfædda manns er hægt að sjá hvernig við upplifum það sem er mikilvægast öllum heilbrigðum, sjáandi augum: En það er áform Guðs til góðs með hvert og eitt okkar.

Líf sem hingað til var líf í guðlegri refsingu fær allt í einu nýja vídd, nýtt sjónarhorn, sýn út fyri sjóndeildarhringinn. Blindi maðurinn getur nú séð.

En hvað sjáum við?

Guðspjallið gefur til kynna að fleiri en blindfæddi maðurinn séu blindir. Nágrannar hans þekktu hann varla eftir að hann fékk sjónina. Kraftaverkið snerti verulega við öðrum sem gerðu sér grein fyrir því að maðurinn sem fengið hafði sjónina var áður blindfæddi maðurinn sem hafði beðið sér ölmusu við musterisdyrnar fyrr um daginn.

Hvað sjáum við í dag? Erum við mörg hver blind á Jesú Krist? Erum við blind gagnvart þörfum þeirra sem þarfnast stuðnings okkar og kærleika í þessum heimi? Erum við fjötruð við jarðnesk lögmálsviðmið auðhyggjunnar sem ræna okkur frelsi til að sjá með augum trúarinnar? Að sjá það merkir hér að treysta orðum Jesú og vita af vísbendingum Guðs í sögunni og í lífi sérhvers manns.

Sjáandi augu og vakandi skilningarvit geta líka verið blind. Blind á veruleika Guðs. Þannig sjónleysi er lífshættuleg því það sviptir líifð frelsi, gleði og tilgangi, sambærilegt því sem blindum er áskapað.

Þegar sjúkur maður treystir Kristi, væntir alls hjálpræðis af honum einum, orði hans og sakramentum þá opinberast verk Guðs á honum, líka þótt hann læknist ekki.

Eitt sinn gekk ég í myrkri vantrúarinnar og sá ekki Krist í lífi mínu. En þá slóst Kristur í för með mér og gaf mér vísbendingar um að hann væri samferðamaður minn. Ég fór smátt og smátt að sjá þessar vísbendingar og ég fór þá að sjá veruleikann betur með augum trúarinnar. Nú er lífið mér Kristur. Hann er samferðamaður minn sem ég get treyst á degi sem nóttu.

Ég las einu sinni frásögu um konu sem hét Helen Keller. Hún fékk heilabólgu þegar hún var tveggja ára gömul og lá vikum saman milli heims og helju. Hún hélt líf en missti bæði sjón, heyrn og mál. Hún lifði langa ævi, alltaf blind, heyrnarlaus og mállaus. En hún lifði ekki til einskis. Hún vann mikið og blessunarríkt ævistarf. Guð gaf henni mikla hæfileika og trú sem starfaði í kærleika. Guð lýsti upp huga hennar og hjarta þannig að hún gat fært öðrum birtu sem bjuggu við svipuð kjör og hún. En það var einmitt hennar ævistarf. Hún gat vakið vonir með vonlausum og gefið þeim frið sem örvæntu. Eftir heimsstyrjöldina síðari fór hún um og vitjaði þeirra sem misstu augun eða heyrnina í stríðinu og vakti hvarvetna von, tiltrú og lífskjark.

Þannig sneri Drottinn böli hennar til blessunar. Þannig heyrði Guð bænirnar fyrir henni. Hún varð vitnisburður um það að Guð fer ekki frá þeim sem í myrkri lenda heldur fær ljós Guðs að skína í gegnum þetta fólk. Hann var og er fær um að opna dyr, - gefa lífi fólks með sérþarfir markmið og tilgang. Hann er einnig fær um að veita ljósi sínu til þeirra sem eiga erfitt með að skynja Guð að verki í daglegu lífi sínu, hvernig hann kemur sínum góðum áformum í gagnið í lífi hvers og eins.

Hvað veldur því að svo erfitt reynist að ná eyrum fólks þegar lífsins og sannleikans orð er boðað? Hvernig stendur á því að kristin kirkja virðist svo oft tala fyrir daufum eyrum nú á tímum?

Fjölmiðlafárið hefur fyllt hlustir fólks af endalausum orðaflaumi, stórum ábyrgðarlausum slagorðum og linnulausum hávaða. Fólk þarf nú að vinna langan vinnudag til að brauðfæða sig og sína Það þarf að stytta vinnuvikuna fyrir meira kaup til að fólk geti sinnt hugðarefnum sínum, sjálfu sér og fjölskyldunni betur.

Hafa menn ekkert tóm, enga eirð í sér eða frið til þess að hverfa afsíðis með sjálfum sér og Guði?

Jesús Kristur þarf að fá að taka okkur afsíðis eins og blindfædda manninn forðum. Hann þarf að fá orðið einn í kyrrð til þess að getað opnað augu okkar fyrir því að hann er ljós heimsins og frelsari þinn og minn.

Þá fer okkur smáltt og smátt að skiljast að hann hefur góð áform í huga sem hann þráir að verði að veruleika í lífi okkar. Amen.