Hugleiðingar í Hvalsneskirkju

Hugleiðingar í Hvalsneskirkju

Til eru fegurri minnismerki og bautasteinar. En steinninn sem stendur við hlið altarisins í Hvalsneskirkju er áhrifameiri en flestir þeirra. Þessi steinn fannst hulinn moldu fyrir framan kirkjudyrnar fyrir mörgum árum. Á hann er meitlað hrjúfu letri nafn, Steinunn. Við vitum hver það er, og við vitum hver ritaði það í steininn. Hún var dóttir prestsins og trúarskáldsins, Hallgríms Péturssonar, og dó á fjórða aldursári, mikill harmdauði. Hún var augasteinninn hans og eftirlæti. Menn hafa haldið því fram að helstríð og andlát Steinunnar litlu hafi orðið Hallgrími kveikjan að stórvirki hans og kórónu, Passíusálmunum.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
14. september 2004

Til eru fegurri minnismerki og bautasteinar. En steinninn sem stendur við hlið altarisins í Hvalsneskirkju er áhrifameiri en flestir þeirra. Þessi steinn fannst hulinn moldu fyrir framan kirkjudyrnar fyrir mörgum árum. Á hann er meitlað hrjúfu letri nafn, Steinunn. Við vitum hver það er, og við vitum hver ritaði það í steininn. Hún var dóttir prestsins og trúarskáldsins, Hallgríms Péturssonar, og dó á fjórða aldursári, mikill harmdauði. Hún var augasteinninn hans og eftirlæti. Menn hafa haldið því fram að helstríð og andlát Steinunnar litlu hafi orðið Hallgrími kveikjan að stórvirki hans og kórónu, Passíusálmunum.

Legsteinn Steinunnar.Þennan þunga stein, -hann er víst um 100 kg að þyngd, og því ekki á færi nema heljarmennis að burðum, -hefur Hallgrímur borið heim. Hver vöðvi, sin, æð og bein hefur verið við að bresta þegar hann hóf hann upp og bar hann ofan úr heiði og heim. Þó er steinninn léttur í samanburði við það ógnarbjarg sorgar sem á hjarta Hallgríms hvíldi. Stormurinn hvein, særokið sló andlit hans, og blandaðist saltri táradögg á hvörmum. Og svo buldu hamarshöggin og klingjandi söngur steins og járns er nafnið hjartfólgna meitlaðist í klöppina hörðu.

Þessi steinn gefur okkur fágæta, einstæða innsýn í það hvern mann Hallgrímur hafði að geyma. Hann sýnir okkur mann sem finnur til, en sem rís upp í sorg sinni. Sorgin bugar hann ekki, hún eflir hann til átaka. Trú sem glímir við Guð og sleppir honum ekki fyrr en hann blessar. Trú sem er enginn svæfill, trú sem er ekki flótti frá raunveruleikanum, heldur ný sjón, sem veitir birtu yfir lífsveg manns. Trúin sem Hallgrímur vitnar um og hefur lagt íslenskri þjóð á hjarta og varir er borin uppi af styrk og karlmennsku, glaðlyndi og lífsþrótti. Og hugrekki er hann kemur til varnar hinum snauða og varnalausa og afhjúpar spilling og tvöfalt siðgæði auðævaoflæti hinna háu og voldugu. Það er trú sem heldur sér við krossinn, krossins orð. Öll boðun Hallgríms, öll hans ljóð leiða að krossfaðmi Krists. Já, sú trú sem Hallgrímur vitnar um, syngur og tjáir er ekki veiklun hins veikgeðja, yfirborðsleg tilfinningasemi og froða, heldur styrkur þess sem rís gegn ofureflinu og hefur sigur. Í ljóðum Hallgríms er lifandi maður í glímu við lifandi Guð. Og bautasteinninn við altari Hvalsneskirkju gefur okkur innsýn í það.

Við, tuttugustu aldar börn, höfum lært, okkur hefur verið innrætt að trú sé veiklyndi. Við þóttumst hafa sigrast á ofurefli tilverunnar, unnið bug á viðjum náttúruaflanna, sjúkdóma, jafnvel dauðans. Framfaraöld, atómöld, fjarskiptaöld, upplýsingaöld gaf svo fögur fyrirheit, og hefur brugðist þeim flestum. Af því að manneskjan er söm við sig. Maðurinn gat sigrað allt, nema sjálfan sig. Og okkar öld hefur fleytt honum fram með meiri hraða en nokkur öld önnur út í brimgarð tortímingarinnar.

Bautasteinninn huldist í jörðu í Hvalsnesi. Hve margir skyldu hafa í áranna rás gengið á honum, flutt hann til, án þess að gera sér grein fyrir því hvílíkur dýrgripur þarna var? Eins eru kjör fagnaðarerindisins í samtíð okkar. Eins og hulið við alfararleið, menn vita af því en vita þó ekki. Biblían, bænin, Skírnin og kvöldmáltíðin, trúin, vonin og kærleikurinn, krossfórnin, Jesús Kristur. Eins og falinn fjársjóður innan seilingar, undir fótum manns, já, reyndar bjargið trausta, sem allt hið besta í menningu okkar og samfélagi byggir á. En furðu framandi og ókunnugt þorra manns. Huggunin, styrkurinn, lífsþrótturinn sem stendur þér til boða, sú trú, sem blessar og reisir.

En veruleikinn sem trúin vitnar um er nákomnari okkur en við alla jafna viljum við kannast, og verður svo meðan hjarta slær og finnur til í brjóstum okkar. Ráðgáta þjáningarinnar er jafn lifandi nú sem nokkru sinni. Jafn nístandi nöpur í örbirgðinni í Hvalsnesi forðum og í dag á gjörgæsludeild spítalans þar sem barnið heyr helstríð sitt, eða við hvílu öldungsins sem getur hvorki lifað né dáið. Ráðgáta syndarinnar er jöfn og raunveruleiki hennar hinn sami í glitljósum nútímans og við grútartýrur fyrri alda. Og enn er það svo að hið eina sem svalar hjarta manns og sál, enn sem þá, er trúin ein, Kristur einn og krossinn hans.

Hann stendur í næðingnum og klappar nafnið hjartfólgna í hart bergið, Steinunn. Einnig batt hann nafn hennar inn í yndislegt ljóð, þannig að bókstafir nafnsins mynda fyrsta staf hvers vers. Seinna varð honum ljóst, eða varð það honum ef til vill þegar, að það sem mestu varðar er ekki það sem klappað er í stein eða meitlað í orð, heldur sú náð að nafnið er geymt í því hjarta sem elskar og aldrei gleymir. Og hann orti bæn sem er svona:

„Veit ég, minn Guð, þú manst til mín þá mótgangstíminn stendur. Feginn í allri freistni og pín fel ég mig þér á hendur. Nafn mitt vel þekkir þú, þess em eg fullviss nú. Það er og skrifað inn í handarlófann þinn. Sigur er mér því sendur.“