Látum það gerast með þokka

Látum það gerast með þokka

Eitthvað er til sem aldrei má svíkja og enginn má eigna sér eða virkja í eigin þágu. Þetta er það sem kallað hefur verið heilagt. Þetta sem áfram verður heilagt hversu mjög sem við höldum að við afhelgumst. Þetta er líka í náttúrunni, þetta er í samskiptum elskenda, í tengslum foreldra og barna og í trúnaðinum sem ein þjóð á við sjálfa sig.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
12. september 2010
Flokkar

„Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin?” spyr hann okkur í dag, hann Jesús.  Og þú veist svarið um leið. Lífið þitt, líkaminn þinn! þú veist að þar er eitthvað meira en fæði og klæði, eitthvað dýpra og merkara, svo gaman sem það er að kaupa föt og elda góðan mat. Það er eitthvað við lífið sem er svo dýrmætt að við verjum það með kjafti og klóm, önnumst það, fögnum því, undrumst það. Og þannig er líka líkaminn. Ég hef áður spurt að því hér í prédikun hvort við eigum ekki flest í vitund okkar minninguna um það að vera barn, vera barnslíkami. Ég man t.d. mjög vel eftir fimm ára afmælinu mínu. Það var haldið uppi í sumarbústað stórfjölskyldunnar í Svínadal og ég hafði fengið nýja strigaskó og prestur einn sem síðar varð kennari minn við Guðfræðideildina og var í vinfengi við fólkið mitt hafði gefið mér ilmandi pening með mynd af fallegum manni. Það var gamli hundraðkallinn með Tryggva Gunnarssyni framan á. Og með þennan seðil í buxnavasa skæddur skínandi strigaskóm úr búð sem líka höfðu sinn sérstaka ilm fór ég út á veginn við Eyrarvatn þar sem bústaðurinn stendur enn til þess að hlaupa.  Og minningin um þetta hlaup á nýjum skóm með pening í vasa sannfærður um að ég væri orðinn stór og gæti hlaupið hraðar en nokkru sinni er sterk líkamleg minning.  - Ilmur af nýfengnu fé og skóm og birki og blóðbragð í munni í einhverju óskilgreindu langhlaupi í kappi við það að verða eitthvað, geta eitthvað.  Og í minningunni voru það ekki bara skórnir og aurinn, heldur ekki síður lífið og líkaminn.  Það er flókið og heillandi að vera manneskja. Það er unaðslegt og það er sárt. Lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin.

Í dag fáum við enn aðra spurningu flutta úr orðabrunni ritningarinnar. Spurningu sem rétt eins og hin fyrri vekur sjálfkrafa svar úr reynslubrunni hverrar manneskju: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?”  (Jes 49. 13-16a)

Jú, einmitt, barn er ekki afurð.  Í barninu kristallast allt sem skiptir máli. Þar er lífið í ríkdómi sínum holdi klætt og þar blasir lífið við í varnarleysi sínu hrópandi á samstöðu. Myndi kona gleyma brjóstbarni sínu? Sínu eigin lífsafkvæmi? 

Báðar þessar mögnuðu spurningar, spurning Jesú um lífið og líkamann og spurning Jesaja spámanns um stöðu reifabarnsins snúa beint að þeim lífsgildum sem öllu varða, þeim lífsgildum sem eiga rót sína í þekkingunni á hinu heilaga. Sumt er heilagt.  Lífið er heilagt. Það er líkaminn einnig. Börn eru heilög. Og enda þótt mörgum leiðist í dag allt kirkjulegt og trúarlegt tungutak, og ég lái það engum, þá þurfum við og megum til að finna leiðir til þess að lýsa þeirri vitneskju að eitthvað er þarna í veruleikanum sem felur í sér dýpstu dauðans alvöru og bjartasta fögnuð. Eitthvað er til sem aldrei má svíkja og enginn má eigna sér eða virkja í eigin þágu. Þetta er það sem kallað hefur verið heilagt.  Þetta sem áfram verður heilagt hversu mjög sem við höldum að við afhelgumst. Þetta er líka í náttúrunni, þetta er í samskiptum elskenda, í tengslum foreldra og barna og í trúnaðinum sem ein þjóð á við sjálfa sig. Þetta sem ekki má svíkja, eigna sér eða virkja í eigin þágu, hið heilaga, er við hvert fótmál.

Í gær voru þingmenn að stynja upp nöfnum ráðherra sem e.t.v. yrði að ákæra í tengslum við bankahrunið. Öllum leið mjög illa. Þá minntumst við líka árásanna á tvíburaturnana hér um árið, og áfram leið okkur illa. Þessir tveir ólíku atburðir, atburðarás bankahrunsins og árásirnar 11. september, eru svo sárir sem raun ber vitni, ekki bara vegna þess að þar hafi í öðru tilvikinu glatast mikið fé en í hinu bæði efnisleg verðmæti og mannslíf. Það vonda við þessa atburði tvo, svo ósambærilegir sem þeir eru að öllu öðru leyti, er vanvirðan sem þeir eiga í sér fólgna.  Og nú bið ég alla um að skilja að ég er ekki að líkja hruninu við 11. sept. en bendi á einn þátt sem er sameiginlegur; vanvirðuna. Sú afstaða til samborgaranna að líta á lifandi manneskjur sem leið að eigin markmiði án frekara tillits til afdrifa þess.  Það er vanvirðan sem er svo skelfileg í þessum atburðarásum báðum. Það er tilfinningaleysið fyrir því sem er heilagt sem kremur eitthvað inni í okkur.  Það er skeytingarleysið um  hin djúpu verðmæti sem m.a. eru fólgin í því að mega vita að líf manns og heilsa sé virt og varin, að eigum manns sé ekki stolið, að ákvarðanir um hagsmuni almennings séu ekki teknar í þröngu samráði sérhagsmunaafla; það er þetta sem við getum bara ekki kyngt. Við getum ekki látið eins og hrunið hafi verið óvart, hversu leiðinlegt sem það er. Við verðum að ljúka þessu erfiða máli, vita svo vel sem unnt er hver bar ábyrgð á hverju og að hvaða leyti ábyrgðin má teljast samfélagsleg. Og okkur verður að auðnast að gera þetta án þess að viðhalda á sama tíma valdsmenningunni sem leiddi til hrunsins. Uppgjörið þarf að fara fram með þokka. Við megum til að stíga út úr gamla morknaða valdakerfinu sem áratugum og öldum saman hefur þróast í landinu og allir vita að á sinn stóra þátt í vandanum.  Hvernig gerir maður svoleiðis?

Jesús er einmitt að lýsa því í guðspjalli dagsins. Valdakerfið sem hann þurfti að glíma við hafði alla sömu eiginleika og þreytta valdakerfið okkar. Sami óttinn, sama hótunin, sami sjálfbirgingshátturinn. Mannlegt eðli hefur ekkert breyst í tvö þúsund ár. Við erum alltaf að kljást við sömu brestina í sjálfum okkur?  „Lítið til fugla himinsins.” Segir Jesús. „Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?”

Tilgangur 11. septembers var ekki sá að drepa á fjórða þúsund manns í sprengingum.  Markmiðið var það sem einmitt tóks svo ágætlega, að gera hótunina að gjaldmiðli í samskiptum þjóða. Óttinn var settur á dagskrá með algerlega nýjum og áhrifaríkum hætti. Þetta er höfuð einkenni þvingunarvaldsins í veröldinni, hvort sem það birtist í milliríkjasamskiptum eða innanríkisstjórnmálum, innan fyrirtækja og stofnana eða bara í fjölskyldunni þinni. Hótunin þarf að liggja í loftinu, óttinn skal ná til hjartans og þá er auðvelt að stjórna. Hrætt fólk gerir u.þ.b. hvað sem er í von um skárri líðan.

„Lítið til fugla himinsins!” segir Jesús. „Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!”

Það er nákvæmlega þarna sem byltingin hefst! Það er í óttaleysinu þegar sál mannsins sér og meðtekur að lífið er heilög gjöf sem aldrei verður þegin úr hendi þeirra sem teljast ráða.   Þess vegna er svo frelsandi að vera lærisveinn Jesú frá Nasaret. Á fylgd með honum verða hótanir svo hlægilegar, heimsendaspádómar svo yndislega máttlausir, staðhæfingin um að allir vegir séu barasta að lokast ef ekki verði gripið til dýrra örþrifaráða á kostnað almennings og náttúru í þágu einhverra fárra verður ekki sérlega sannfærandi lengur. Lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin og maður gleymir ekki barninu sínu.

Amen.