Skaupið, árið eitt

Skaupið, árið eitt

Hvernig fannst ykkur skaupið? Svona spyrja menn gjarnan á þessum fyrstu dögum ársins. Viðmælendur mínir eru flestir sáttir við skaupið í ár. Sérstaklega finnst fólki lokaatriðið gott þar sem ,,skrúðkrimmarnir“ voru leiddir í fangabúningum út úr hrunadansinum.

Hvernig fannst ykkur skaupið? Svona spyrja menn gjarnan á þessum fyrstu dögum ársins. Viðmælendur mínir eru flestir sáttir við skaupið í ár. Sérstaklega finnst fólki lokaatriðið gott þar sem ,,skrúðkrimmarnir“ voru leiddir í fangabúningum út úr hrunadansinum.

Fábrotið og stórt

Að þessu sinni var efniviður skaupsins nánast ótæmandi. Stórir atburðir hafa gerst. Við sem erum vön því að karp stjórnmálamanna snúist um kjördæmapot og önnur afmörkuð málefni, horfum nú fram til stórra viðburða og mikilla örlaga.

Mitt í þessari atburðarrás höfum við lesið á jólahátíðinni lesið söguna af því fábrotna og einfalda. Í upphafi aðventu reið frelsarinn á asna inn í borgina helgu. Á aðfangadagskvöld var sami reiðskjóti hafður undir parinu helga – Maríu og Jósef sem svo þurftu að leita ásjár í fjárhúsi af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. Sögur þessar setja hinn almáttuga Guð í sæti þeirra sem lægstir eru. Þannig lægði hann sig og varð maður, segir í játningunni. Já, og saga hans öll er lýsing á því hvernig hið fábrotna verður stórbrotið sem nær ákveðnu hámarki – ekki í fæðingu Jesú heldur í dauða hans á krossi er hann var tekinn af lífi eins og hver annar sakamaður.

Hvers vegna þessi fjarstæðukennda lýsing á lífi frelsarans? Hvers vegna snýr ritningin öllu á höfuðið og lætur hinn stærsta taka á sig hlutskipti hins lægsta?

Flóttamaður

Ekki fækkar spurningunum þegar við hugleiðum guðspjall þessa dags – sunnudags milli nýárs og þrettánda. Þarna lesum við um frelsara okkar – ekki útskúfaðan frá gistiheimilum eða fórnarlamb ofstækismanna, heldur er hann þarna flóttamaður. Hann hefur flúið samfélagið sem hann fæddist inn í – og er nú í fjarlægu landi.

Í öllum þessum tilvikum er okkur fluttur sami boðskapurinn. Manneskjan á sér bandamann í Kristi sem talar til hennar eins og sá sem sjálfur hefur staðið í þeim sporum að vera útilokaður, yfirgefinn og brottrækur. Skilaboðin eru þau að þegar við leitum huggunar í trúnni á Jesú, þá mætir okkur ekki umvöndun þess sem allt veit en ekkert hefur reynt. Ekki heldur skeytingarleysi þess sem þekkir ekki hlutskipti þess sem þarf að þola hlutskipti sem er óréttlátt og erfitt. Þvert á móti mætir okkur hluttekning, sem sá einn getur sýnt sem getur raunverulega hefur gengið í gegnum þá erfiðleika sem mæta mannkyni á öllum tímum.

Jafnframt gefur Kristur okkur það fordæmi að hver einstaklingur sem staddur er í sömu sporum er óendanlega dýrmætur í sjálfum sér. Það er skylda okkar að leggja honum lið rétt eins og við eigum að gera gagnvart hverjum okkar minnsta bróður. Svona er kristin trú, kæru gestir, og þetta hefur verið aðalsmerki hennar allt frá upphafi. Þegar kristnir menn hófu starf sitt byrjuðu að safnast saman í hópa vakti það athygli, já og aðdáun þeirra sem í kringum stóðu hversu mjög þeir ólu önn fyrir þeim sem utangarðs voru og áttu undir högg að sækja. Þeir buðu öllum samskiptareglum byrginn – hömpuðu frekar hinum smæsta heldur en hinum æðsta.

Reiðilesturinn

Þetta á um margt sameiginlegt með skaupinu sem hrakin þjóð hlær yfir nú á þessum síðustu og verstu tímum. Þar er öll snúið á haus. Dreginn er fram styrkur og tign þeirra sem orðið hafa undir en bubbarnir – ,,skrúðkrimmarnir" fá á baukinn.

Með þessum hætti dregur guðspjall dagsins dár að Heródesi og lýsir hömlulausri reiði hans - svo að hinn hátt setti harðstjóri verður hjákátlegur í augum þeirra sem textann lesa. Rétt er að geta þess áður en lengra er haldið að Þessi dagur – sunnudagur milli áttadags og þrettándann hefur auðvitað sérstaka þýðingu í íslensku máli. Einhver kjarnyrtasta predikun sem samin hefur verið í íslenskri kirkju var einmitt flutt á þessum degi – sem er í raun svolítil synd því þessi sunnudagur kemur ekki fyrir hvert ár og ekki er alltaf haft fyrir því að messa þegar svo skammt er liðið frá áramótum. Meistari Jón Vídalín horfði á grátlega smæð hins hæsta þegar hann lagði út frá guðspjallinu í postillu sinni frá árinu 1718. Honum var starsýnt á sjálfan Heródes sem á að vera hinn alvaldi í sögunni en eins og frásögnin ber með sér er hann harla máttvana og magnlítill þarna. Það er eins og skaupið sé hér flutt, löngu fyrir daga sjónvarpsins. Frásögnin hefst á þessum orðum:

Þá sá Heródes að vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri en það svaraði þeim tíma er hann hafði komist að hjá vitringunum.

Ólíkt því sem margir halda, er predikarinn alls ekki reiður í hinni nafntoguðu predikun sem kölluð er „Reiðilesturinn“. Nei, reiðilesturinn hans Vídalíns fjallar um reiðina og svo mjög liggur honum á hjarta að útlista ókosti þess að láta reiðina stjórna sér að hann fer á þvílíkt flug að enn vitna menn til þeirrar samlíkingar sem hann dregur upp:

En sá, sem reiður er, hann er vitlaus. Og því segir Horatíus, að hún sé nokkurs konar stutt æði, teiknandi þar með, að enginn sé munur þess, sem reiður, og hins, sem vitstola er, nema að reiðin varir skemur, æðið lengur, og eru þó dæmi þess, að sumir hafa búið svo lengi að heiftinni, að þeir hafi aldrei orðið heilvita aftur.

Já, sá sem lætur reiðina hlaupa með sig í gönu afsalar sér því dýrmæta frelsi sem felst í þeirri guðsgjöf sem skynsemin er. Sá hinn sami hugleiðir ekki athafnir sínar – hann er eins og skynlaus skepnan sem hegðar sér í einu og öllu í samræmi við það áreiti sem hún verður fyrir. Hinn máttugi Heródes er eins og ótaminn rakki í höndunum á meistara Jóni. Og áfram heldur hann og nú beinir hann orðum sínum til áheyrenda:

Heiftin er eitt andskotans reiðarslag. Hún afmyndar alla mannsins limi og liði, hún kveikir bál í augunum, hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann, svo sem þegar hafið er upp blásið af stórviðri. Og í einu orði að segja: Hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra, sem heilvita eru.

Einmitt þetta – hömluleysið gerir manninn að ófreskju. Það rænir hann mennskunni og því ómetanlega frelsi sem felst í því að geta sjálfur ráðið viðbrögðum sínum við því sem að okkur sækir. Loks segir:

Og ef hún svo afskræmir ásýnd mannsins fyrir öðrum mönnum, hverninn mun hún þá ekki afmynda sálina í guðs augliti? Segið mér, hvílíkur djöfull mun þar inni búa, sem álit mannsins verður hið ytra svo afskræmt, hvílíkur eldur mun vera í því hjarta, er hann lystir sig þanninn út í hvern lið og lim.

Skaupið árið eitt

Svona birtir Biblían okkur háttarlag hins hæsta mitt í því sem hún hefur upphafið mennskuna í allri sinni hógværð –en um leið í því mikla hugrekki og þeirri reisn sem kærleikanum fylgir. Hetjurnar í sögunni eru hinir fábrotnu. Hetjurnar eru þessir einstaklingar sem eru fulltrúar nafnlausa hópsins sem reikað hefur um söguslóðir án þess að saga þeirra hafi nokkru sinni verið sögð. Markmið mannsins er ekki að stjórna lýðum og ráða yfir þjóðum. Markmiðið er að hafa stjórn á eigin tilfinningum og eigin viðbrögðum. Fyrst sigrum við eigin veikleika og í framhaldi vinnum við sigra á umhverfi okkar.

Þetta er hlutverk skaupsins. Það minnir okkur á þetta. Um áramót hlægjum við að þeim sem mestu ráða og mestan peninginn eiga. Og við hömpum þeim sem lifa sínu lífi í auðmýkt og hógværð – sinna því litla sem þeim er trúað fyrir og trúa á það stóra sem helgar þá og geur lífi þeirra svo ríkulegt inntak.