Hið lifandi orð

Hið lifandi orð

Hin síðari ár fá Gídeonmenn ekki að fara í alla skóla eins og áður. Börnum er því mismunað hér á landi hvað þetta varðar. Það er því ekki ólíklegt að innan tíðar verði þjóðin ekki lengur handgengin orðfæri Biblíunnar eða sögum hennar. Þekki ekki miskunnsama Samverjann, tvöfalda kærleiksboðorðið eða gullnu regluna, söguna af þeim systrum Mörtu og Maríu og skilji ekki tilvísanir og túlkun í myndlist og bókmenntum.

Biðjum með orðum sr. Páls Jónssonar: Orð þitt, Drottinn, veg oss vísi villustigum heimsins á, oss þitt blessað ljósið lýsi ljóss til byggða jörðu frá. Á þig einan vonum vér, veit oss náð að treysta þér, þig að elska' og þér að hlýða, þínum undir merkjum stríða. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag er Biblíudagurinn en á þeim degi þökkum við fyrir að eiga Biblíuna á okkar tungumáli. Ekki veit ég hvort lestur biblíunnar er meiri eða minni en áður en það veit ég að sífellt fleiri eru ekki handgengnir orðaforða hennar eða innihaldi. Á biblíudegi erum við því hvött til að lesa biblíuna og kynnast boðskap hennar.

Biblían og sögur hennar hafa verið undirstaða fyrir svo margt í samfélagi okkar svo ekki sé talað um áhrifin sem hún og innihald hennar hafa haft á einstaklinga.

Í fyrri ritningarlestri þessa dags var lesið úr spádómsbók Jesaja. Úr þeim hluta ritsins sem talinn er vera skrifaður á þeim tíma er margir Júdamanna voru í útlegð í Babýlon, beygðir og vonlitlir. Í þessu riti er fluttur boðskapur vonar og kærleika og á það minnt að Guð hefur ekki gleymt sínu fólki. Þráin eftir að komast heim úr útlegðinni var sterk í huga fólksins og lestur hins heilaga orðs gaf þeim von um að sá dagur myndi renna upp að þau gætu aftur snúið heim. Í textanum sem lesinn var hér áðan er enginn efi í huga spámannsins. „Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur.“ „Já, þér skuluð fara burt fagnandi og örugg verðið þér leidd af stað.“

Það þarf ekki að efast um það að slík orð hafa áhrif á þann er heyrir einkum og sér í lagi ef viðkomandi býr við óviðunandi aðstæður. Sagt er að bænin sé tungumál vonarinnar og á sama hátt má segja að Orðið, orð Guðs sé boðskapur vonarinnar. Textar Biblíunnar eru oft nefndir Orð Guðs og í texta fyrri ritningarlestursins er talað um áhrifamátt þess orðs: „Eins og regn og snjór fellur af himni og hverfur ekki þangað aftur fyrr en það hefur vökvað jörðina, gert hana frjósama og gróandi, gefið sáðkorn þeim sem sáir og brauð þeim er eta, eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því.“ Kraftur þessa orðs hefur áhrif á fjölda fólks um heim allan og gefur von og þrótt. Það eru margir í sporum Júdamanna og eru flóttamenn. Flóttamenn hafa ekki verið fleiri frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þetta fólk heldur í vonina um friðsamt líf í landi sem veitir þeim vernd gegn því sem eyðir og deyðir. Hér á landi koma hælisleitendur saman í kirkjum okkar og fá kraft og von við lestur guðsorðsins og helgihald því tengdu.

Hið íslenska Biblíufélag er ekki eyland. Félagið „tekur þátt í alþjóðlegu starfi og að þessu sinni er ætlunin að safna fyrir barnabiblíum til Úkraínu. Stríðið austur í Úkraínu hefur hrakið rúmlega eina milljón manna á flótta. Margir hafa misst nána ástvini. Það sem hófst með friðsamlegum kröfugöngum á Maidan-torginu í Kænugarði, hefur endað sem blóðug borgarastyrjöld á milli aðskilnaðarsinna, sem eru hliðhollir Rússum, og úkraínskra stjórnarliða. Margir hafa þurft að yfirgefa hús sín og heimili og allir landsmenn eru áhyggjufullir og órólegir vegna þess sem er að gerast. Hið íslenska biblíufélag vill ekki aðeins stuðla að útbreiðslu Biblíunnar á Íslandi heldur út um allan heim.

Orð Guðs hefur áhrif og milljónir manna um alla heim lesa það orð og fá þar sína andlegu næringu. Margir eiga erfitt með að meðtaka það að Biblían og innihald hennar skipti máli og þekkt er að þau sem heyra orðið meðtaka það alls ekki eða það hefur ekki mikil áhrif á viðkomandi. Það er ekki bara í sorg eða þegar lífið leikur ekki við mann sem gott er að grípa til hinnar helgu bókar. Erindi Jesú Krists er kallað fagnaðarerindi og það er fagnaðarerindi vegna þess að það flytur boðskap sem byggir upp og bætir. Við leitum oft langt yfir skammt að tilgangi og lífshamingju. Páll postuli sem ofsótti kristna menn varð fyrir trúarreynslu sem breytti honum og lífsafstöðu hans. Í dag var lesið í síðari ritningarlestrinum úr bréfi hans til safnaðarins í Korintuborg. Þar talar Guð sjálfur við hann og segir: „Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“

Náð Guðs er ný á hverjum degi. Hún er gjöf sem við meðtökum í trú og trausti. Náð Guðs gerir okkur kleift að vakna til nýs lífs á hverjum morgni. Náð Guðs leyfir okkur að lifa í þeirri trú að við getum ekki allt og vitum ekki allt, enda þurfum við þess ekki. Við höfum leyfi til að vera lítil og aum, jafnt sem stór og sterk, því mátturinn fullkomnast í veikleika. En heyrum við guðsorðið? Um það snýst guðspjallatexti Biblíudagsins. Hann segir frá sáðmanninum sem fór út að sá. Dæmisöguna segir Jesús og það sem meira er hann útskýrir hana sjálfur. Það er ekki algengt í hinni helgu bók. Sæðið féll í mismunandi jarðveg, hjá götunni, á klöpp, meðal þyrna og sumt féll í góða jörð. Skýring Jesú á dæmisögunni er þessi: „Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.“

Sæðið féll í mismunandi jörð. Orð Guðs hittir okkur fyrir þar sem við erum stödd í lífinu. Stundum erum við móttækileg fyrir því, stundum ekki. Það þykir ekki fínt að meðtaka Guðs orð svona almennt. Þau sem lesa í Biblíunni og tileinka sér boðskap hennar eru álitin undarleg. En þau sem lesa og finna samhljóm með orðinu og lífinu eru eins og góða jörðin í dæmisögunni. Það gefur fyllra og innihaldsríkara líf og löngun til að lesa meira. En það er ekki nóg að lesa. Það þarf líka að iðka boðskapinn. Það er ekki nóg að hafa vitneskju ef hún er ekki notuð.

Þau fjölmörgu sem farið hafa í andlega ferðalagið sem byggist á 12 sporunum eru þess meðvituð að líf án trúar er ekki líf í fullri gnægð. 12 sporin byggjast á orði Guðs og ferðalagið sem þeim fylgir er byggt á lífsreynslu viðkomandi sem spegluð er i orði Guðs beint eða óbeint. Þau sem farið hafa í þetta ferðalag vita að það styrkir sjálfsmyndina, kærleikann til sjálfs sín og annarra og virðinguna fyrir öllu lífi. Það færir von og trú á Guð og lífið sem Guð gefur. Um það vitna hinar fjölmörgu reynslusögur þeirra er lifað hafa og er hægt að lesa sumar þeirra á síðunni viniribata.is.

Þrá mannsins eftir lífi í fullri gnægð býr í hverju hjarta. Fólkið sem svo mjög hefur verið í fréttum undanfarið, hælisleitendur og flóttafólk leggja mikið á sig til að fá að lifa í friði og búa við öryggi. Við verðum að finna leið til að láta mannúð móta lög og reglur varðandi málefni þeirra. Fólkið sem hefur stöðugar áhyggjur af því að hafa ekki í sig og á, aldraðir, öryrkjar þurfa á mannúð samfélagsins að halda eins og við öll, þó sum meira en önnur. Kristin trú kennir að við eigum að elska og gæta náunga okkar. Þess vegna búum við í samfélagi en ekki ein og sér án sambands við annað fólk.

Guðspjall dagsins minnir okkur á að okkur getur hlotnast gott og gefandi líf ef við leggjum okkur fram um að vera góð jörð sem tekur á móti orði Guðs, sem nærir, styrkir, gefur kraft og þor. Það kennir okkur að treysta á handleiðslu Guðs. Kennir okkur þolinmæði í þrengingum og óbilandi trú á því að við erum ekki ein í amstri daganna.

Því miður er jarðvegurinn ekki alltaf móttækilegur fyrir þessu orði. Á því er hneykslast, það er vanvirt og efast um tilveru þess og áhrifamátt. Ef við trúum þá treystum við áhrifamætti þess eins og Jesaja spámaður segir í texta sínum.

Biblían er stundum nefnd hið lifandi orð. Við lestur hennar er hún eins og náð Guðs, ný á hverjum degi. Við lestur hennar opnast nýjar gáttir, ný sjónarhorn, ný umhugsunarefni. Undanfarna áratugi hafa öll börn á Íslandi fengið að gjöf Nýja-testamentið frá Gídeonfélaginu. Hin síðari ár fá Gídeonmenn ekki að fara í alla skóla eins og áður. Börnum er því mismunað hér á landi hvað þetta varðar. Þau eiga þess ekki kost að eignast þann fjársjóð sem Nýja-testamentið geymir. Það er því ekki ólíklegt að innan tíðar verði þjóðin ekki lengur handgengin orðfæri Biblíunnar eða sögum hennar. Þekki ekki miskunnsama Samverjann, tvöfalda kærleiksboðorðið eða gullnu regluna, söguna af þeim systrum Mörtu og Maríu og skilji ekki tilvísanir og túlkun í myndlist og bókmenntum.

Þau sem tileinka sér boðskap Biblíunnar eiga fjársjóð er mölur og ryð fær ekki grandað. Jesús sagði: „yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ Guð gefi okkur trú og djörfung til að ganga til móts við hvern nýjan dag í trausti til Orðsins sem Guð gefur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.