Vændi og viðjar kynlífsþrælkunar

Vændi og viðjar kynlífsþrælkunar

Lagasetning sem lítur á manneskjuna sem tæki og horfir fram hjá því að verið er að versla með mennskuna á kostnað þeirri milljóna stúlkna og kvenna sem föst eru í viðjum kynlífsþrælkunar er skref í ranga átt. Þó ,,sænska leiðin” sé ekki gallalaus af mörgum ástæðum er hún þó í þeim anda sem birtist í guðspjalli dagsins.

Í liðinni viku hefur farið hátt í fjölmiðlum ákvörðun Amnesty International að beita sér fyrir afglæpavæðingu vændis á heimsvísu. Ákvörðunin er að mati samtakanna ígrunduð og er ætlað að tryggja mannréttindi þeirra sem draga lifibrauð sitt af því að selja kynlífsþjónustu. Samtökin telja að hin svokallaða ,,sænska leið”, sem gerir sölu vændis ekki refsiverða en bannar kaup á vændisþjónustu, sé gölluð þar sem hún neyðir vændisfólk til að fara með starfsemi sína í felur.

Markmið Amnesty er að tryggja að vændisfólk geti lifað við öryggi, viðunandi heilbrigðisþjónustu og mannlega reisn og samtökin telja að þeim markmiðum verði best náð með því að lögleiða vændi. Með því móti er hægt að beina kröftum löggæslu í þá átt að berjast gegn mansali og kynferðisofbeldi í kynlífsiðnaðinum. Frá því að tillagan kom fram hafa fjölmörg samtök gagnrýnt ákvörðun Amnesty og það er til marks um þá athygli sem ákvörðun þeirra hefur fengið hérlendis að sjö kvennasamtök fordæmdu stefnu þeirra og utanríkisráðherra tjáði sig gegn tillögunni.

Umræðan birtir með skýrum hætti þá samstöðu sem Íslendingar vilja sýna mannréttindum og þeim baráttumálum sem Amnesty samtökin hafa beitt sér fyrir á undanförnum áratugum. Hin hörðu viðbrögð hérlendis varða ekki einungis afstöðuna til afglæpavæðingar vændis, heldur þykir ákvörðunin kasta rýrð á trúverðugleika samtakanna og varpa skugga á það traust sem starfsemi Amnesty hefur notið til þessa.

Ég hef ekki þekkingu til að taka afstöðu til þess hvaða lagalega leið er best til þess falin að tryggja þeim sem flækjast í vef vændis mannréttindi, á borð við þau sem forsvarsmenn Amnesty nefna, en ég hinsvegar tek undir með þeim sem efast um að þau markmið fari saman með hagsmunum kynlífs- og klámiðnaðarins.

Alþjóðatölur um umfang kynlífsþrælkunar á heimsvísu eru sláandi og talið er að um 21 milljón stúlkna og kvenna séu föst í viðjum glæpahringja sem selja aðgang að kynlífsþjónustu. Hingað hafa leitað konur sem flýja úr slíkri vændisánauð frá Evrópu og leitað hælis í von um að brjótast úr viðjum kynlífsþrælkunar.

Því er oft haldið á lofti að vændi sé elsta starfsgrein veraldar, en það rangnefni gefur til kynna að þær konur sem til forna veittu aðgang að líkama sínu hafi gert það af fúsum og frjálsum vilja. Því fer þó fjarri og í hinum forna heimi voru konur víða álitnar eignir og þarmeð ekki sjálfráða yfir eigin líkama og kynlífi. Í Rómarveldi til forna var það talinn réttur karla að geta keypt kynlífsþjónustu og þá, líkt og nú, var kynlífsþrælkun milli landa ábátasöm iðja.

Þegar hin forna borg Pompeii var grafin upp á 19. öld var margt sem kom fornleifafræðingum á óvart en hún, eins og alþekkt er, var grafin í ösku eldfjallsins Vesúvíus í ágústmánuði árið 79. Meðal annars kom það í ljós að kristindómurinn hafði borist til Pompeii en áletranir á veggjum borgarinnar bera þess vitni þar sé vísað til bænar Jesú með orðaleik. Jafnframt uppgötvuðu fornleifafræðingar, sér til skelfingar, vísbendingar um að vændi hafi verið mjög útbreitt á götum borgarinnar og víða eru útskot þar sem hægt var að fara afsíðis með kúnna en á veggjunum þeirra voru erótískar myndir. Af viðkvæmni voru þessar myndir ekki birtar almenningi á 19. öld og kom þar ekki einungis til trúarleg blyðgunarkennd, heldur einnig upphafning á Rómarveldi í anda endurreisnarinnar sem þessar erótísku myndir skyggðu á.

Í Biblíunni er vændi víða fordæmt, þó geri verði greinarmun á því hverskyns kynlífsþjónusta er til umfjöllunar hverju sinni, því á stundum er fordæmingin á grundvelli trúarlegra siða nágrannaþjóða. Í samfélagi Jesú stóðu þær sem seldu líkama sinn á jaðri samfélagsins og nutu ekki mannlegrar reisnar. Í guðspjöllum Nýja testamentisins eru víða frásagnir af samskiptum Jesú við konur sem féllu utan við viðurkennda kynhegðun og þekktust er líklega frásögnin af hórseku konunni sem átti að grýta. Jesús bjargar lífi hennar með því að sefa múginn með orðunum ,,sá yðar sem syndlaus er kastið fyrsta steininum”.

Í guðspjalli dagsins er vændiskona í forgrunni og eru samskipti hennar við Jesú sláandi. Sögusviðið er hús Farísea að nafni Símon og sá hinn sami afskrifar Jesú sem spámann á staðnum fyrir það eitt að eiga við hana samskipti, bersynduga konuna. Konan sýnir Jesú alúð sem hefur erótíska undirtóna en hún þvær fætur frelsarans með tárum sínum og þerrir með hári sínu og smyr loks með dýrum alabasturs-smyrslum. Við hneykslan faríseans kennir Jesús í dæmisögu að ást er þeim mun dýrmætari sem fórnin er meiri.

Hann segir við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ [...] En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“

Sú alúð sem Jesús sýnir þeirri vændiskonu sem hér er lýst og sú nánd sem hann þiggur af henni er sláandi fyrir þá stöðu sem hún hefur í sínu samfélagi. Þrátt fyrir eðlismun á samfélagsgerð og gildum Gyðinga og Samverja, Rómverja og Grikkja, eiga öll samfélögin það sameiginlegt að líta niður á og fordæma vændiskonur. Í því felst tvískinningur vændiskaupa að í sama samfélagi sé eftirspurn eftir líkama vændiskvenna og fordæming í þeirra garð fyrir að selja aðgang að líkama sínum. Jesús fer þá leið að refsa ekki konunni fyrir stöðu sína, heldur eiga við hana ástrík samskipti án tillits til þess að það vakti hneykslan samborgaranna.

Ef fordæma á vændi verður það gert á grundvelli þeirrar samfélagsgerðar sem gerir kynferðisofbeldi að söluvöru, ekki á grundvelli þess að ræna þau sem leiðast út í vændi eða kynlífsþrælkun reisn sinni. Í kristinni siðfræði er lögð áhersla á helgi manneskjunnar og það er lagt til grundvallar í nálgun siðferðislegra álitamála. Sú nálgun nær útfyrir kristindóminn, en Immanuel Kant taldi vændi vera sterkasta dæmið um það þegar manneskjan er rænd mennsku sinni og notuð sem tæki en ekki markmið í sjálfu sér.

Í umræðu um vændi, klám og kynlífsþrælkun þarf manneskjan að vera í forgrunni, fremur en fordæming á þeim sem hafa viljug eða nauðug verið þáttakendur í því að selja líkama sinn til kynlífsiðkunar. Það er sannarlega ástæða til að taka undir með ályktun Amnesty International þess efnis að þessi samfélagshópur, sem svo víða er neitað um grundvallarmannréttindi, eigi að njóta öryggis, viðunandi heilbrigðisþjónustu og mannlegrar reisnar. Það má hinsvegar deila um hver sé besta leiðin til að ná þeim markmiðum.

Lagasetning sem lítur á manneskjuna sem tæki og horfir fram hjá því að verið er að versla með mennskuna á kostnað þeirri milljóna stúlkna og kvenna sem föst eru í viðjum kynlífsþrælkunar er skref í ranga átt. Þó ,,sænska leiðin” sé ekki gallalaus af mörgum ástæðum er hún þó í þeim anda sem birtist í guðspjalli dagsins, að árétta mennsku og reisn þeirra sem eru fórnarlömb kynferðisofbeldis kynlífsiðnaðarins.

Það er ábyrgð kristinnar kirkju að standa með þeim sem fara halloka í samfélagi okkar og í kynlífsþrælkun samtímans er sannarlega brýn þörf fyrir stuðning. Það verður einungis gert með því að virða og elska manneskjur, orða og mótmæla ofbeldi, og skapa lagalega umgjörð sem vinnur gegn hagmunum þeirra sem hagnast á neyð annarra.