Logatungur og leiðarljós, vegferð og vegarnesti

Logatungur og leiðarljós, vegferð og vegarnesti

Hingað erum við komin í Strandarkirkju á helgum hvítasunnudegi, flest hver eftir langa gönguleið frá Hafnarfirði eða Bláfjöllum á fornri Selvogsgötu. Fyrri kynslóðir gengu hana löngum, bæði hingað í Selvoginn og héðan til Hafnarfjarðar.

Hingað erum við komin í Strandarkirkju á helgum hvítasunnudegi, flest hver eftir langa gönguleið frá Hafnarfirði eða Bláfjöllum á fornri Selvogsgötu. Fyrri kynslóðir gengu hana löngum, bæði hingað í Selvoginn og héðan til Hafnarfjarðar. Nú er jafnan ekið á milli á skömmum tíma eftir greiðfærum vegi. Gott er samt að ganga, einkum úti í náttúrunni, enda þótt fagna beri öllum samgöngubótum. Heilsusamlegt er að teyga að sér andann í fersku útilofti og heilnæmu umhverfi, og þarft er að hreyfa sig og reyna á sig og fagnaðarefni að geta það.

Ganga að vori í sumarbyrjun um fagurt landslag, líka skörð og hæðir, er fjörgandi og nærandi, einnig í regni og stormi, þar sem lífið er að vakna, grös að grænka, blóm að lifna og blómstra, mosinn að taka á sig sumarliti sína og farfuglinn syngur eftir flug yfir haf. Dýrmætt er að skynja og finna tengsl sín við náttúruundur og lífríki í margvíslegum myndum og þroska með sér virðingu og lotningu fyrir lífinu, skynja og nema, að það er sköpunarverk, gefið á hverju andartaki og með hverjum einasta hjartslætti. Trúin í Jesú nafni nemur þar Guðs Anda og virkni og bendir á gildi þess að stilla sig inn á bylgjulengd hans í trú og bæn til þess að vera í réttum lífstakti og varast hvaðeina sem ógnar lífsláni og heill.

Á göngunni hingað í kirkju var staldrað við í tvígang til að bæna sig að fyrri tíðar sið, þegar farið var um óbyggðir og fjallaslóðir. Ritningarorð voru lesin og líka innhaldsrík ljóð um vorið og undur þess. Einnig var farið með fornt keltneskt bænarefni og verndarhjúpun, líkt og ég gerði í upphafi helgistundarinnar með signingunni sérstæðu, sem kennd er við landnámskonuna merku, Auði Djúpúðgu, og gæti verið afar forn.

Þessi helgistund í Strandarkirkju við göngulok ber líka með sér fornkeltneskan blæ svo sem fram kom í trúarjátningunni írsku, sem við fórum áðan með. Engar sagnir eru þó um keltneska kristni og menningu hér í Selvogi fyrr á tíð, en keltneskir menningarstraumar hafa borist með landnámsmönnum, er komu að vestan, eins og sagt var, frá Írlandi og skosku eyjunum. Þeirra hefur síðan gætt með ýmsu móti í sögu þjóðarinnar ekki síst fyrstu aldir landnáms og byggðar. Krossinn fyrir ofan innri hurð Strandarkirkju vísar í þá átt með koparhring utan um krossmiðjuna og myndar þannig keltneskan sólar- og upprisukross.

Á þessum malarkambi reis kirkja snemma á öldum, en hennar er fyrst getið um 1200 í kirknaskrá Páls Jónssonar, Skálholtsbiskups. Fornar sagnir geymast er greina frá tilurð kirkjunnar. Sú lífsseigasta hefur borist mann frá manni gegnum aldir. Hún greinir frá því, svo sem margir vita, að ungur bóndasonur úr Árnessýslu, sem stýrði eigin skipi á siglingu til landsins með húsagerðarvið frá Noregi, lenti í hafvillum og sjávarháska með áhöfn sinni og hét í örvæntingu að gefa allan viðinn til kirkjubyggingar, þar sem hann næði landi heilu og höldnu. Honum birtist þá ljósengilsmynd, sem hann fylgdi og lenti skipi sínu hér skammt undan í mjúkum fjörusandi eftir að hafa notið leiðsagnar engilsins um úthafsbrim og boðasker. Hann efndi heit sín og sá til þess að hér risi kirkja úr viðnum sem hann kom með að utan.

Sögnin um engilsleiðsögina gefur Strandarkirkju sérstöðu sína og veldur því að oft hefur verið og er enn hugsað til hennar og á hana heitið í háska og raunum, enda gefist vel. Kirkjan hefur oft verið endurbyggð og endurreist hér á melnum. Það stóð nokkrum sinnum til að flytja hana og þá helst til Vogsósa, því að hér hefur oft verið veðrasamt og blásið hart af hafi með sandfoki. En ekkert varð úr því. Það er sem Strandarkirkja eigi að vera hér og minna á þann verndarkraft og leiðarljós í Jesú nafni sem hún á uppruna sinn að rekja til. Síðast var Strandarkirkja endurvígð eftir endurbyggingu og stækkun árið 1968 á þeirri kirkju, sem reist var árið 1887. Nýja kirkjan er vel smíðuð og fögur en látlaus samt og laðar fjölmarga til sín og enn berast mikil áheit til kirkjunnar.

Strandarkirkja heillar okkur til sín á afmælisdegi kristinnar kirkju. Hún fæddist af logatungum andans helga, sunnunnar hvítu. Kirkjan er í senn gömul og ung, gömul því að hún er meira en tvö þúsund ára en ung vegna þess að lífskraftur hennar og andi er ávallt ferskur og nýr.

Hvítasunnuhátíðin á sér forvera. Gyðingar heldu hátíð fimmtíu dögum eftir páska til þess að minnast lögmálsins sem Móse hafði opinberast á Síonsfjalli og jafnframt var fyrstu uppskerunni þá fagnað. En þessi hátíð fær eins og páskarnir nýtt innihald og merkingu vegna þess sem Guð hefur gjört í Jesú Kristi. Páskar, sem merkja ,,framhjáganga dauðans”, verða kristnum mönnum ekki aðeins minning um brottför Guðs lýðs úr þrælahúsinu í Egyptalandi forðum daga heldur fela þeir í sér vitnisburðinn um upprisu og nýtt líf, sem gefst í og fyrir Jesú Krist, Og ,,fimmtugasta –dags-hátíðin frá páskum” verður þeim ekki lögmálshátíð heldur hátíð hinnar hvítu sunnu, Andans logandi, sem miðlar þeim hjálpræði Jesú Krists.

Helgur andi gjörir trúna á frelsarann lifandi á hverri tíð, svo að við fáum nálgast lífsleyndardómana er honum tengjast - ekki þó kannað þá og skilið til fullnustu hér í heimi en notið samt blessunar þeirra. Samkvæmt vitnisburði kirkjunnar og játninga hennar er Andinn helgi þriðja persóna Guðdómsins, samur og jafn Föður og Syni að eðli, vilja og mætti, þess Guðdóms, sem er samt einn, líkt og frumeindin, atómið og ódeilið er eitt, enda þótt að það sé samsett úr þrenningu; róteinda, nifteinda og rafeinda. Guð Faðir er uppspretta sköpunar og lífs, Guð Sonurinn, Orð og mannsmynd Guðs, og Andinn helgi, nálæg virkni Guðs, lífstraumur hans og endurnýjunarmáttur á hverri tíð.

Helgur andi Guðs er lífsaflið í sköpuninni vitna ritningin og trúin. Hann sveif yfir vötnunum í árdaga, við því búinn að lýsa og lífga. Og Andi Guðs miðlar ávallt nýsköpuninni í Jesú Kristi. ,,Kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir Heilagan anda”, segir postulinn, þannig að kærleikssamfélag verður til, kirkja þar sem hver og einn hefur hlutverki að gegna og meðlimirnir eru hver annars limir á líkama Krists, svo að lífræn líking sé dregin upp, sem var frumkirkjunni sjálfssögð og töm. Orðið kirkja er úr grísku og merkir Guðs eign og á bæði við kristin söfnuð og helgan samkomustað hans.

Tungutalið, sem lýst er í sérstæðri hvítasunnufrásögn Postulasögunnar, er þess konar, að allir áheyrendur, er voru af ýmsu þjóðerni, skildu orð postulanna. Það er sem læknirinn Lúkas, er skráir söguna, lýsi þar jafnframt því, sem var að gerast um hans daga, að fjöldi fólks af ólíku þjóðerni og mismunandi stéttum gerðist aðili að náðarsáttmála Guðs í Jesú Kristi, sáttmála er boðar að umsnúið sé því óheillatákni, sem leiddi af smíði Babelsturnsins og var tungumálasundrung og skilningsleysi manna á meðal. Kristin kirkja og trú glæddu samkennd og umhyggju. Mál kærleikans skildu allir, þó svo að hver talaði sína tungu. Og ávallt, þegar það mál hljómaði skært, var kristnin öflug, ljós hennar skært, en drægi úr hljómi þess, missti hún mátt og styrk.

Kirkjunni hefur verið líkt við skip á siglingu á ólgusjóum. Oft hefur gefið á bátinn og hún hefur vikið af réttri leið, en Andinn var hvarvetna að verki þar sem lifað var og starfað af fórnfýsi til gagns og heilla og vitnisburðurinn um lífið í Jesú Kristi fékk verulegan framgang. Andi Guðs í trúuðum hjörtum hefur verið drifkraftur góðra og nýtilegra uppbyggingarverka. Hann hefur streymt fram fyrir trú og bænir liðinna kynslóða, bænir þeirra fyrir framtíðinni.

Framþróun vísinda og þekkingar er að sjálfsögðu Andanum að þakka, sem upplýsir huga og hjörtu um leyndardóma og undur sköpunarverksins. En þekkingin er tvíbent. Hún gagnast lífi, ef hún er ábyrg og þjónar göfugum hugsjónum og lífsvirðingu en verður skaðvænleg, ef Guðsvitundin þver og lífslotninguna skortir.

Við greinum þann háska í samtíðinni, en fátt er að gert og viðhlítandi viðbrögð skortir. Fjölmargt viðgengst, sem vegur að lífi og lífsheill, án andstöðu og raunhæfra viðbragða. Mismunur auðs og örbyrgðar er ávallt hættumerki. Gróðahyggjan er það, sem níðist á umhverfi og lífríki og hagnast á auðnuleysi og dauða, elur á ofbeldi og kveikir og glæðir ófriðarelda. Sinnuleysið er það líka gagnvart yfirvofandi umhverfisvá og hag og velferð uppvaxandi og komandi kynslóða.

,,Fjármálmarkaðir samtímans eru stjórnlausir og fá ekki staðist”, segir dr. Mark Taylor, hag- og heimspekingur, sem er forseti trúarbragðadeildar Columbíu háskólans í New York. Hann flutti merkan fyrirlestur í Þjóðminjasafninu á fimmtudaginn var, með yfirskriftinni: ,,Fjármálamarkaðir: Trúarbrögð núímans”. Taylor heldur því fram, að ráðandi auðhyggjuhagkerfi sé aftengt raunveruleikanum, stjórnlaust, tillitslaust og auðvitað gangslaust til að byggja lífstraust sitt á og stefni mannkyni og öllu jarðarlífi í mikinn voða, verði ekkert að gert.

Ganga á fornri slóð, þar sem hægt er farið yfir, er andstæða þess hraða og asa samtíðar, sem tapar áttum, glepst inn á villu- og háskabrautir og sker á lífsrætur. Hún glæðir vitund um sögulegan arf og líf fyrri kynslóða. Hún gefur færi á að nema gróanda vorsins og skynja og styrkja tengsl sín við náttúru og lífríki, finna öran hjartslátt í barmi og blóðstreymi, afl í vöðvum og sinum, reyna á sig, stælast og styrkjast

.,,Ég á líf, ég á líf yfir erfiðleika svíf. Ég á líf, ég á líf vegna þín. Þegar móti mér blæs, yfir fjöllin há ég klíf,, söng Eyþór Ingi í söngvakeppninni evrópsku. ,,Ég á líf, ég á líf, ég á líf.” Lífið er mest um vert, lífið í eigin brjósti og í víðara samhengi, ástin og elskan, sem metur gildi þess að lifa og þakkar það og sýnir lífi og lífríki lotningu. Sé lagt við hlustir í þeim anda og vitund heyrist hjartsláttur Guðs í sköpunarverkinu. ,,Hjartsláttur hans og andardráttur eru grunnveruleiki og grunntónn allrar sköpunar og tilveru,” sögðu spakvitrir Keltar á fyrri tíð, upplýstir af Orði Guðs. Þörf er á að glæða þá skynjun og vitund í samtíðinni og breiða hana út sem víðast, lífi og heimi til bjargar á hraðri háskatíð.

Þið hafið gengið Selvogsgötuna fornu leynt og ljóst í þessari vitund á hátíð Andans, hvítasunnunnar og hún skerptist hér í Strandarkirkju. Kirkjan er vissulega fagurt takmark vegferðarinnar. Hún er reyndar sem smámynd þess ferðalags sem jarðlífið allt er um dagana og árin, frá vöggu til grafar og lengra enn í trúarljósi, ef rétt er stefnt. Höfum það í huga, þegar ég helga brauð og vín í Jesú nafni og rétti ykkur sem vegarnesti á Guðríkisbraut.

Viatecum merkir vegarnesti á latínu til hinstu ferðar. Það vísar til kærleiksmáltíðar Jesú Krists, einfaldrar ásýndum en djúprar merkingar. Hann er brauð lífsins og lífsins lind, segir hann sjálfur, og kristin trú og kirkja taka undir, því að fyrir Heilagan anda nærir hann í Guðs nafni lífið allt í dýpsta skilningi hér í heimi og einkum í komanda ríki sínu. Þökkum það og fögnum því, að þangað er lífsferð stefnt og siglingu kirkju hans fyrir Heilagan anda og við fáum tilheyrt henni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum Anda um aldir alda Amen. Post 2. 1-4