Blindir og sjáandi

Blindir og sjáandi

Þegar barn hefur verið skírt ganga stundum einhverjir þeirra sem viðstaddir eru að skínarlauginni, dýfa hendi í vatnið og bera á augu sín. Ástæður þessa geta verið ýmsar. En allar eiga það vafalítið sammerkt að fólk hefur trú á nálægð Krists. Skírnin hefur áhrif, Kristur er með einhverjum sérstökum hætti viðstaddur. Þessi athöfn er eins og bæn í verki.

Þegar barn hefur verið skírt ganga stundum einhverjir þeirra sem viðstaddir eru að skínarlauginni, dýfa hendi í vatnið og bera á augu sín. Ástæður þessa geta verið ýmsar. En allar eiga það vafalítið sammerkt að fólk hefur trú á nálægð Krists. Skírnin hefur áhrif, Kristur er með einhverjum sérstökum hætti viðstaddur. Þessi athöfn er eins og bæn í verki.

Stundum örlar á forlagatrú hjá okkur – og stundum því, að erfiðleikar og áföll séu eitthvað sem fólk vinni fyrir. Kristur tekur af allan vafa í guðspjalli þessa dags. Það er ekkert orsakasamhengi þarna á milli. Hann er ekki einu sinni tilbúinn í neinar vangaveltur um það hvers vegna maðurinn sé blindur. Það þarf hins vegar að vinna að lækningu. Ekki að hvarfla frá kjarna málsins. Í guðspjallinu er hann að hvetja okkur til þess sama. Ein hvatning af mörgum af hálfu Krists og kirkjunnar hans að lækna, lenda ekki í þrætu og flækjum heldur auka á heilbrigði í heiminum. Hann vill með því opna augu okkar.

Við fæðumst öll blind rétt eins og kettlingarnir. Við erum öll fædd blind eins og maðurinn í guðspjallinu. Smám saman tekur heimurinn þó að skýrast fyrir okkur. Við förum að sjá. Myndin af heiminum verður skýrari.

En hversu vel sjáandi erum við? Hvað sjáum við – í hvaða ljósi og undir hvaða sjónarhorni? Hversu vel þekkjum við veröldina?

Hvaða möguleika eigum við til að dæma um þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni? Og einkum á tímum þegar klögumálin ganga á víxl. Mér finnast það ekki skemmtilegir tímar eða aðstæður þegar deilt er um málefni sem þar til bært dómsvald hefur þau til meðferðar. Ég hef hugsað það oft undanfarið: Er þetta nú sæmandi vel upplýstri þjóð? Mér finnst einfaldlega vanvirðing og niðurlæging fólgin í þessu.

Með því að opna fjölmiðil eða fletta blaði erum við látin hnýsast í einkahagi fólks, sem fæsta langar til að gera. Þess vegna er sómatilfinningu alls þorra landsmanna ofboðið. Fólk vill þetta ekki. Ekki svona deilur, ekki svona upplýsingar.

Alþingi var sett í gær, hér í kirkjunni og í Alþingishúsinu. Nú hvílir talsverð ábyrgð á á þeirri samkundu að sýna ábyrgð, falla ekki í sömu gryfjurnar sem stundum áður. Hlutverk þingsins er að leggja stærstu línurnar í þjóðfélaginu, rammann, umgjörðina um lífið í landinu. Lagasetningin sjálf er meginhlutverkið, ekki það að skapa ólgu. En róstusamir tímar eru þó alltaf sóknarfæri fyrir hinar verri og lægri hvatir mannanna. Nú veltur mikið á að sýna ábyrgð og þroska. Gott er að muna kvæði skáldsins:

Kastið ekki steinum í kyrra tjörn. Vekið ekki ólgu óvita börn. Gárið ekki vatnið en gleðjist af því að himinninn speglast hafinu í. Gunnar Dal

Góðlátleg tilmæli, yfirveguð orð sögð af mannviti og góðsemi.

Í Ritningunni eru víða frásagnir af slæmum hlutum. Það er ekki rétt að ekki sé gaman að guðspjöllunum því að enginn sé í þeim bardaginn. Þar eru átök, mikil átök milli góðs og ills. Þar er Kristur að koma með boðskapinn, lífið, úr ljóssins veröld, friðarins, kærleikans, inn í heim sem var farinn út af sporinu; inn í heim sem hefur spillt eðli. Og hann kemur til þess að lækna heiminn, leiðrétta hann, gera hann heilan. Það er ekki áhlaupaverk. Hver og einn er vettvangur þessarar baráttu. Og ekki er heldur liðin tíð að mennirnir vilja fóstra bölið í sjálfum sér og samfélagi sínu. En einn og sérhver hefur sína ábyrgð. Sjáum hvernig Kristur gekk fram gagnvart þessu. Illvirkin eru hvarvetna, fylgja manninum og sögu hans. Fólk, einkum konur, var grýtt til að jafna við það reikningana. Það var látið gjalda fyrir syndir sínar. Réttlætið var talið ná fram með slíkum refsingum. Ég man hins vegar ekki til annars en Kristur hafi verið alfarið á móti grimmdinni. Hann bjargaði fólki undan slíku “réttlæti” þegar kostur var.

Gætum við kannski lært af þessu enn í dag?

Er þetta ekki ennþá iðkað, hvað sem líður kærleiksboðskap trúar og kirkju?

Sjáum við ekki aðferðir, sama eðlis stundaðar?

Í nafni Krists heldur kirkjan áfram að flytja sinn boðskap: Syndin verður ekki rekin út með grjótkasti. Hversu mikinn sem látið er, hversu hátt sem reitt er til höggsins. Hversu stórum steinum sem menn eru tilbúnir að fleygja hver í annan. Grjótkastið undanfarið, meiðingarnar, munu ekkert bæta, - fjarri, fjarri því. Atgangurinn veldur bara sárum og vanlíðan. Og gerir samfélag okkar svolítið ráðvilltara um tíma.

Af þessum ástæðum hvílir mikil ábyrgð á stofnunum þjóðfélagsins. Alþingi ekki síst á næstu vikum og mánuðum.

Stundum er talað um að hræra þurfi upp í stöðnuðu þjóðfélagi. Stöðnun er hins vegar það sem síst á við okkar þjóðfélag. Það hefur verið á fleygiferð. Og nú er nauðsynlegt að muna máltækið um sterk bein og góða daga. Einna mikilvægast er að hafa einhver gildi í heiðri. Hyggja að undirstöðunum, hvað það er sem gerir lífið gott og fallegt. Hvernig við getum notið hamingjunnar sem fólk, sem þjóð, sem einstaklingar. Álitamál og ágreiningsefni ber að leiða til lykta eftir aðferðum lýðræðisins í þroskuðu þjóðfélagi, ekki á götunni. Við þurfum þess ekki.

Því skulum við nú ljúka með því að fara yfir pistilinn saman. Er þetta nokkuð úreltur boðskapur?

“…allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. 9. Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður….” Fil.4: 8-9