„Örlát iðgnótt jarðar“

„Örlát iðgnótt jarðar“

Þessi litskrúðugi ævintýraleikur er léttur en ekki laus við átök enda þótt séu með öðrum hætti og niðurstaða hans sé allt önnur en í harmleikjum Shakespeares eins og Lé konungi. Ofviðrið virðist valda miklum spjöllum.

Úr sýningunni Ofviðrið

Ofviðri og undur í Borgarleikhúsinu

Sýning Borgarleikhússins á leikriti W. Shakespeares, Ofviðrinu, í leikstjórn Oskaras Korsunovas og leikmynd Vyttautas Narbutas, sem báðir eru Litháar, er mikið ævintýraspil og augnayndi. Slíkt reyndar að hægt er að fá ofbirtu í augun og ruglast í ríminu og dáleiðast, svo að svefn og draumar sækja á í leikhúsinu og vandasamt verður að skilja og skilgreina þetta undraverk. Leikverkið felur enda í sér seiðandi töframátt og byggist mjög á færni aðalpersónunnar Prosperós, hertoga af Mílanó á Ítalíu, (Ingvar Sigurðsson) í töfrabrögðum, sem verkið mótast mjög af.  

Þessi litskrúðugi ævintýraleikur er léttur en ekki laus við átök enda þótt séu með öðrum hætti og niðurstaða hans sé allt önnur en í harmleikjum Shakespeares eins og Lé konungi. Ofviðrið virðist valda miklum spjöllum. Því fylgir mikið umrót fyrir þau sem fyrir því verða en ekkert varanlegt tjón hlýst af því og það endar vel.  

Ofviðrið mun vera síðasta leikrit stórskáldsins enska. Þar gefur hann enda hugarflugi og skáldskap lausan tauminn svo að hann virðist fjarri öllum raunsönnum veruleika. Meistarinn er samt samur við sig. Hann talar inn í samtíð sína með þessu verki sem og öðrum og hefur líka sitt að segja þeim sem horfa á það síðar og heyra.  

Á dögum Shakespeares var heimsmyndin á hverfanda hveli. Jörðin hafði tapað miðlægu hlutverki sínu í alheiminum og var litin með augum, skilningi og túlkun rannsakandi vísindamanna og stjörnuskoðenda. Með uppgötvun stjörnusjónaukans sáust tungl reikistjarna og óþekktar fastastjörnur á himni. Sjófarendur og landkönnuður höfðu sýnt, að jörðin var vissulega hnöttur og ein af reikistjörnum sólar eins og Kóperníkus hafði haldið fram. Kepler og Galilei gerðu gleggri grein fyrir því með stærðfræðilegum útreikningum á hreyfingum og hraða reikistjarna. Beitt var eðlisfræðilegum rannsóknum og tilraunum á efnisveruleikann án sömu afskipta og fyrr af íhaldssömu kirkjuvaldi og forsjá þess. Smásjáin birti fjölbreytt undur í lífheimi, hringrás blóðsins uppgötvaðist og skilningur jókst á starfsemi líffæra. Lönd og heilar álfur fundust og auðvitað fjölmargar eyjar bæði stórar og smáar. Hugsýnir um gæða- og gósenlönd í vestri urðu að fögrum raunveruleika. Keltneskar fornsagnir höfðu  fjallað um undraeyjar og lönd í vestri árhundruðum fyrr. Vel má vera að Shakespeare hafi þekkt til þeirra og nýti sér slík sagnastef í Ofviðrinu þótt leiðin frá Ítalíu til Túnis  á Miðjarðarhafi sé sú sem hann hafi helst í huga í leikverkinu.   

Drepsóttir og galdrafár á tímum Shakespeares sýndu að gagnrýnin skoðun og þekkingarleit leystu ekki allan aðkallandi vanda eða mótuðu einhlítt viðhorfin.  

Leikritið tekur mið af sviptingasömu sviði mannkynssögunnar, þegar þekking og framsækni á fjölbreyttum sviðum rjúfa mörk og opna nýja vegi og víddir en margt er þó óútskýrt og undarlegt og vekur spurnir. Hvað eru töfrar? og hvað máttug þekking á lögmálum efnis og orku/anda? Hvaða lífsform og óþekktar myndir væri að finna á nýjum slóðum? Var slyngur vísindamaður ekki töframaður á sinn hátt, er næði tökum á innri og ytri lögmálum og nýtti þau sér til framdráttar og gæti því haft gjörtæk áhrif á umhverfi og aðstæður, verk og viðburði?  

Leiklýsing  

Prosperó hertogi er slíkur vísinda, kunnáttu- og töframaður. Hann hafði sökkt sér svo djúpt í fræði sín og rannsóknir í Mílanó, að Antóníó bróður hans (Sigrún Edda Björnsdóttir) gafst færi á því að bregða trúnaði við hann og taka af honum völdin með liðsinni Napólíkonungs. Garpasveit/ víkingasveit Antoníós, sem handtók Prosperó, skorti þó kjark til að lífláta hann og Míröndu dóttur hans á þriðja ári. (Lára Jóhanna Jónsdóttir) Þau voru þess í stað flutt á skip og varpað í fúafleytu úti á regin hafi, sem hvorki fylgdi ,,reiði, voð né sigla.” (keltneskt útlegðarstef) ,,Við höfðum lögg af vatni og ögn af vistum sem Gonzaló hinn göfgi í Napólí, (Hanna María Karlsdóttir) sá sem var falin framkvæmd þess verks gaf mér af sinni góðvild, ásamt klæðum... Hann vissi og skildi ást mína á bókum, enda fékk hann mér nokkur þau bindi úr bókasafni mínu sem ég mat hærra en ríki mitt.” Þetta segir Prosperó Míröndu tólf árum síðar og það líka, að þau hafi náð landi fyrir guðlega forsjón á eynni, sem hefur verið heimili þeirra síðan. Hann segist hafa veitt henni þar betri fræðslu en flestar þær furstadætur njóti, sem fái meira af tómstundum en mennt og minna af alúð.   

Ný þýðing Sölva Björns Sigurðsson á Ofviðrinu hljómar vel í eyrum. Hún hefur ekki verið gefin út svo að í þessari umsögn er stuðst við afburða góða eldri þýðingu Helga Hálfdánarsonar sem er bæði beinskeytt og fáguð.  

Míranda hefur horft á veðurofsa tæta skip í spón við eyjuna, að því er henni virtist að minnsta kosti. ,,Róleg! Hættu að fárast, segir faðir hennar,  ,,og segðu við þitt milda hjarta: hér varð ekkert tjón... Enginn skaði! Allt sem ég gerði, það var vegna þín.” Faðir hennar hafði með kynngi-krafti kallað á brimsins gný. ,,Með furðu-hending hefur örlát Gæfan, sem nú er drottning mín, sent fjendur mína hingað á land; það hef ég séð í spásýn að mikil heilla- stjarna stendur nú í hvirfilmarki mínu.”  

Antóníó hefur fylgt Alonsó Napólíkóngi til Túnisar, þar sem kóngur gifti dóttur sína Klaribellu Túniskonungi. Ferdínand sonur hans og bróðir hennar eru með í för og einnig Sebastían bróðir konungsins og Gonzaló ráðherra og fleiri tignir aðalsmenn. Prosperó hefur loftandann Aríel (Kristín Þóra Haraldsdóttir) í þjónustu sinni og fleiri huliðsverur. Hann gerir meistara sínum grein fyrir hve vel hafi  tekist að magna upp ofviðrið og láta líta svo sem konungsskipið hefði logað stafna á milli og steytt á skeri. ,,Ég hljóp á konungsskip og fór með óttans báli borða milli um söx og lyfting, stafn og hverja hvílu; svo brá ég mér á dreif, og logum lék hásiglu, bugspjót, rá og reiða í senn... Engin sál gat varizt æði og örvæntingar fáti;... og allir nema hásetarnir... steyptu sér í saltan löðurhylinn, Ferdínand kóngsson fyrst, með hárið úfið sem illgresi;... Og öllum borgið?  spyr Prospéró. Hverju höfuðhári... Ég dreifði þeim um eyna smáhópum saman, samkvæmt þínu boði.  

Ofviðrinu og sjávarháskanum er lýst á sviðinu með snotrum hætti án mikils fyrirgangs.  Farþegar og skipverjar sitja ýmist í hnipri í keri eða brunnopi á sviðinu eða skipslíkan af þrímastra seglskipi veltist þar um líkt og í ölduróti. Það minnir á barnaleiki og spennu er þeim getur fylgt og skerpir ævintýraminnið. ,,Vel er unnið, Aríel verk þitt. Samt skal sinnt um fleira,” segir Prosperó við þennan röska þjón sinn, sem gerir sér von um frelsi og kvartar undan fjötrum sínum. Prosperó minnir hann þá á, að ver hafi verið komið fyrir honum, þegar Síkórax norn, sem hafði hann áður í þjónustu sinni, hefði keyrt hann í æðis-fólsku fastan í klofinn trjábol, er hann hafði gert uppsteyt gegn henni á eyjunni. ,,Þú veist sú bölvuð norn var fyrir glæpi og galdra, hryllilegri en hæfir mennskum hlustum, útlæg ger frá Algeirsborg... Þetta hvarmablá flagð var hingað flutt með barni, og skilið eftir af sjómönnum... þarna hírðist þú læstur í kreppu og öllum þrautum þjáður í tólf löng ár; en á þeim tíma dó hún... það var mín list sem leysti þig úr klípunni, er ég kom og heyrði til þín.” Prosperó heitir að sleppa loftandanum að tveimur  dögum liðnum fylgi hann enn vel sínum boðum.  

Aríel flögrar um á sviðinu í góðu gervi og hefur virk áhrif á atburðarásina enda þótt komumenn séu sjálfum sér líkir og fylgi hugdettum sínum og hvötum. Hann er ýmist miðsviðs eða uppi á svölum og horfir yfir vettvanginn. Sviðið myndar tilkomumikið leikhús í leikhúsinu. Á því eru megin svið og hliðarstúkur, innra svið og efra svið og einnig stjarna- og himinsvið, þar sem glæstum myndum af jarðarhnetti, stjarnhvelfingunni og svo mannsformum og myndum með barokk-tign og glæsileika er brugðið á loft.   

Áður en skipbrotsmenn láta að sér kveða á eyjar-sviðinu er þó Kaliban (Hilmir Snær Guðnason) kynntur til sögunnar, afkvæmi nornarinnar Síkórax, ,,sem fjandinn sjálfur gat við dækjuflagði.” Útlit hans er í samræmi við það og óklárt í leiktextanum hvort það er fremur manns eða fisks... ,,Með fætur einsog maður! og uggarnir einsog handleggir!” Hilmar Snær sýnir Kaliban í miklu loðskinni og langur limurinn lafir niðurúr eins og um skynlausa skepnu sé að ræða. Kaliban er aumkunarverð persóna sem kemst ekki frá uppruna sínum og líður fyrir hann svo sem vel kemur fram í túlkun Hilmis Snæs.   

Kastast hefur í kekki milli Kalibans og Prosperós sem þrælar hann, en samskiptin voru bærileg í fyrstu svo sem rifað er upp. ,,Þegar þú komst fyrst, þá straukstu mér með gælum”, segir Kaliban... ,,og lést mig læra að nefna ljósin, það stærra og minna, er ýmist brenna um dag og nótt; mér þótti vænt um þig, sýndi þér gæði og allsnægt eyjarinnar”... Ég sýndi þér í öllu mildi og mannúð, svarar Prosperó ,,og hýsti þig, þinn hundur, unz þú reyndir að svívirða mitt barn. ,,Ó hó, hó!  Það hefði farið betur! Þú greipst mig; ella hefði hólminn fyllst af Kalibönum, segir þá skoffínið.” ,,Viðbjóðslegi vargur, sem forðast mark hins góða, en gleypir við því illa”, segir Prosperó. ,,Af vorkunn braut ég mig í mola að kenna þér að tala og fjölmargt fleira... Ég vakti vitund þinni máls á vilja þínum. Þó var allt þitt eðli, hvað sem þú lærðir, haldið ættar óhvöt, sem góðar sálir hryllir við; því varstu maklega heftur hér við þennan klett...” ,,Ég lærði að tala,” svarar Kaliban, ,,og því á ég að þakka að ég get bölvað. Blóðrauð pest þig tæri fyrir þann lærdóm!” ,,Farðu, nornar –hvolpur!”, skipar Prosperó, ,,og sæktu brenni! fljótur! Þér er þarfast að hlýða mér!”  

Ferdínand er fyrstur á vettvang af skipbrotsmönnum. Aríel, ósýnilegur, seiðir hann með söngvahljómum og dregur til Míröndu, sem hrífst af honum, enda til þess leikurinn gerður. ,,Ég gæti nefnt hann goð, því ekkert jarðneskt hef ég svo fagurt séð”, segir hún við föður sinn. ,,Þetta er gyðjan sem tónar þessir tigna!”, segir hann. Prosperó þykir helst til hratt ganga er þau tala opinskátt um hrifningu sína hvort á öðru enda aðkomumaðurinn, sem telur að hann hafi einn lifað af sjóslysið, aðeins þriðji herramaðurinn sem Míranda man eftir að hafa séð. Prosperó vill hemja flaustrið ,,svo allt of auðsótt tafl verði ekki til að rýra sigurlaunin.”og ögrar Ferdínandi og ber á hann sviksemi og vilja til að véla af sér eyjuna og bendir á að hann geti lítið gert þótt bregði sverði gegn sínum staf og mætti. Ferdínand stenst þessa raun og vottar óvéfengjanlega hrifningu sína og ást.  

Á öðrum stað á eyjunni eru Alonsó kóngur, Sebastían bróðir hans, (Halldór Gylfason) Antóníó, Gonzaló, Fransiskó hirðmaður (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) og fleiri aðalsmenn. Þeir sýna sig sem ólíkar manngerðir og afhjúpa er frá líður vel hvaða mann þeir hafa að geyma.  Gonzaló hvetur til þess að bera sig vel og vera hress! ,,því frelsun vor skal metin meir en tjónið.” ,,Ef hverri sorg, sem svíður mætti þjóna, þá myndi þeim, sem þjónar, hlotnast...” Og Sebastían botnar, ,,króna”! ,,Já, honum myndi hlotnast þyrni-króna! Þar ratast yður óvart satt á munni,” svarar Gonzaló.  Og setur þar fram djúpvitra skírskotun til kristinnar trúar.

Þegar Gonzaló bendir á, að hér sé allt sem henti góðu lífi, svarar Sebastían; ,,Nema lífsbjörgin” Gonzaló bendir undrandi á fötin þeirra ,,svo rennvot af sjó sem þau urðu, þau halda ei að síður sínum nýjablæ.” Hann segist myndu hafa endaskipti á öllu í ríkinu (miðað við það sem tíðkast) yrði hann kóngur á eyjunni; ,,því engan vott af verslun, skyldi ég leyfa, og engin yfirvöld, né heldur bókvit, hvorki auð né fátækt... lén né landamerki,... Öllum skal heimill auður jarðarinnar án sveita og strits, en lögbrot öll og landráð, sverð, spjót og byssur, hnífa og hverskyns vél skyldi ég banna. Örlát iðgnótt jarðar skal allra þarfir bæta og viðgang veita vammlausri þjóð.” Við vorum að hlæja að yður", segir Antóníó og Gonzalo svarar: ,,Sem í slíkum fíflaskap er ekkert á borð við ykkur, svo þið getið haldið áfram að hlæja að engu.”  

Það sýnir sig brátt að enda þótt eyjan gæti verið sælustaður breytir hún ekki hugarfari aðkomumanna og innri eigindum og því eru launráð upphugsuð þar sem víðar. Aríel sér til þess, að í ljós kemur hverjir þeirra eru velviljaðir og hverjir ekki. Við hljómleik hans sækir svefn að öllum nema Alonsó kóngi, Sebastían og Antóníó. Kónginn sifjar þó brátt líka og hinir gefa í skyn að honum sé alveg óhætt. ,,Herra minn, við tveir höldum hér vörð um yðar líf, á meðan þér hvílist”, segir Antóníó. Kóngur er þó ekki fyrr fallinn í svefn en Antóníó fer að hvetja Sebastían til stórræða. ,,Ó! Þvílíkt tækifæri! Sebastían! hvað mætti?.. Ég sé í anda konungs-krúnu hníga að höfði þínu... og þér mun veitast, viljirðu mín orð heyra, þreföld upphefð.” Antonío telur fráleitt að sonur kóngsins lifi og björgun hans fráleita firru og Karabellu systur hans, Túnis drottningu, dveljast í ævileiðar-fjarska og frétta ekkert að heiman. ,,Já, hvílík framabraut væri þér svefninn þessi! Skilur þú? ... Og þóknast þér að rétta gæfunni feginshönd?, spyr hann Sebastían, sem svarar: ,,Ég veit þú veltir frá völdum bróður þínum Prosperó... En samviskan?” ,,Já, hvar er hún? Ég gengi á inniskónum ef hún væri líkþorn”, segir hinn veraldarvani og kaldrifjaði Antoníó. ,,Sú gyðja á ekki heima í mínu hjarta.” ,,Vinur, gata þín skal þrædd; Mílanó, það átt þú, ég Napólí”, svarar Sebastían...,, Þú bregður! eitt högg læt ég leysa þig frá skatta-kvöðum; konungs hylli mín kemur í staðinn.”,,Báðir bregða í senn”, segir og hvetur Antoníó. ,,Þú lyftir hendi um leið og ég, og hæfir Gonzaló.”  

Aríel kemur í veg fyrir tilræðið. ,,Herra minn sá af sinni list, hver háski beið vina hans, og flýtti minni för að frelsa þá, svo ráð hans gangi fram.” Hann syngur í eyra Gonzalós... ,,Sé þér lífið nokkurs vert, þá vak þú! Vak!” ,,Hví er bröndum brugðið? Og hví sá ógnarsvipur”, spyr Alonsó kóngur, er hann vaknar. ,,Við vorum hér á verði um yðar hvíld, og heyrðum, rétt í þessu, dimmar drunur, líkt bölvi í nautum eða ljónum”,  svarar bróðir hans.” ,,Leggjum af stað”, biður kóngur, ,,og leitum enn sem fyrr míns vesalings sonar!”  

Annað samsæri er í uppsiglingunni á eyjunni og öllu kostulegra. Þar eiga hlut að máli fíflið Trinkúló, (Hilmar Guðjónsson) sem hittir Kaliban fyrir og furðar sig á útliti hans, og svo Stefánó drykkfelldur brytinn, (Guðjón Davíð Karlsson) er komst af á vínámu og nær hylli Kalibans með því að hella upp í hann víni úr flösku úr trjáberki, sem brytinn hefur búið til. ,,Ég sver við flösku þína að lúta þér, því þessi drykkur kemur ekki af jörðu”, segir vanskapningurinn við brytann.”og sér í honum færi á að skipta um húsbónda enda stælist kjarkurinn við drykkjuna. ,,Ég gef þér berjalönd og hollar lindir, ég veiði fisk og ber þér nóg af brenni. Bölvaður hrottinn sem ég þjóna skal enga spýtu fá! Ég fylgi þér, þú undur meðal manna.” Þessi samskipti fá skemmtilega meðferð á sviðinu í mjög galsafengnum og fjörlegum leik góðra gamanleikara. Stefanó telur að þeir geti tekið hér allan arf þar sem kóngurinn sé drukknaður og allir samferðarmenn. Kaliban kvartar við Stefanó yfir því að hann skuli vera undirgefinn galdramanni sem hafi vélað eyjuna undan honum... ,,Ef yðar Hátign vildi hefna fyrir það verk... Ég framsel hann í fasta- svefni, herra; þér getið rekið nagla í höfuð honum.” Aríel sem fylgist með segir: ,,Þú lýgur því; það geturðu ekki gert.” Svo virðist sem fíflið hafi sagt þetta, sem veldur ringulreið í uppreisnarhópnum. Kaliban leggur til enn fleiri drápsaðferðir, ,,en munið: bækurnar fyrst! Án þeirra er hann jafn-heimskur og ég, og hefur engan anda að siga.” Þegar Kaliban segir húsbóndanum nýja frá fagurri dóttur galdramannsins sem fari vel í rúmi þá kveðst Stefanó ætla að drepa þennan mann. ,,Við verðum kóngur og drottning, hún dóttir hans og ég,... og þið Trinkúló varakóngar.”  

Antónío og Sebastían hafa ekki gefið frá sér valdtökuáformin og hyggjast nýta næsta tækifæri betur en hið fyrra. En undur gerast. Ýmsar kynjaverur koma dansandi með veisluföng en hverfa svo. Dansararnir eru fimir og liprir á sviðinu og glæða ævintýratöfrana, enda tilheyrandi Íslenska dansflokknum. Gonzaló dáist að þessari eyþjóð, sem ,,reyndar væri vættum lík í sjón en, takið eftir, bæri í fögru fasi og háttum langt af flestu mennsku fólki.” Og Prosperó fjarri telur vel mælt og tekur undir ,,því nokkrir yðar eru verri en djöflar.”  

Skyndilega heyrast skruggur og veisluföngin hverfa enda Aríel á ferð í líki refsinornar og segir í drununum: ,,Þið flæmduð Prosperó þann mæta mann, frá Mílanó, þið hröktuð hann til hafs og saklaust barn hans. Gjaldið nú þess glæps, er máttarvöldin geymdu en ekki gleymdu; þau espa nú gegn ykkur höf og strendur og allar skeppnur... hér dynur yfir ykkur reiði þeirra á þessum dapra eyðihólma, og ekkert má hér til varnar verða, nema iðrun og afturhvarf til hreinna lífs.”  Prosperó þakkar Aríel. ,,Minn galdur hreif; nú fjötrast fjendur mínir í eigin sturlun. Allt á mínu valdi!”  

Alonsó heyrist sem öldu gjálpið tali til sín og vindurinn kveði og váleg þruma druni með organ bassa Prosperós nafn og hrópi synd hans og telur son sinn af þeim sökum hafa hlotið votan bana.  Og Sebastían og Antóníó þykir sem hart sé að þeim sé sótt. ,,Þeir eru að sturlast allir þrír;”, segir Gonzaló; ,,þung sektin nístir nú þeirra sálir eins og eitur sem hrífur aðeins eftir langa bið.”  

Prosperó felur Ferdínandi heill Miröndu sinnar og segist hafa með strangleik sínum viljað treysta þolrif ástar hans sem reynst hafi undra sterk. Prosperó felur honum hana sem gjöf frá sér og jafnframt verðskuldaðan vinning, en segir jafnframt að gæfa þeirra sé háð því að þau hafi taumhald á sér og hlíti helgum vígslusiðum. Hann felur því næst Aríel að safna hópnum tvístraða saman, svo að hann geti sýnt ,,augunum ungu” vott af sinni list.  

Prosperó setur á svið furðuspil anda og dísa. ,,Til þess að blessa ást í ungum hjörtum og auðnu vekja á gleðidegi björtum með vinargjöf”, eins og Íris ein þeirra segir. ,,Má trúa því að andar séu að verki?”, spyr Ferdínand. ,,Já, andar, sem mín kynngi kveður hingað til að leika list míns hugarflugs”, svarar Prosperó. Hann gerir jafnframt eftirtektarverðar heimspekilegar athugasemdir við ,,spilverkið”, sem samræmast trúarlegu raunsæi án þess þó að vísa á æðri sýn upprisunnar. ,,Og einsog þessi glapsýn, gerð úr engu, mun gnæfur turn við ský og hnarreist höll, musteri vígt, vor mikli hnöttur sjálfur, já, öll hans dýrð, hjaðna sem svipult hjóm og eftir láta hvorki ögn né eyðu fremur en sýning sú. Vér erum þelið sem draumar spinnast úr; vor ævi er stutt og umkringd svefni.”  

Prosperó lætur anda í líki hunda elta uppi sprelligosana sem Kaliban vill að vegi að honum. ,,Lát elta þá!” segir hann. ,,Nú hef ég hvern fjandmann ofurseldan minni miskunn; senn lýkur mínum þrautum... Þótt misgjörð þeirra mér í kviku brenni, skal reiðin lúta lögmálum virðuleikans; fegurri dáð er drengskapur en hefnd. Þegar þeir iðrast hjaðnar strax mín heift.” Prosperó kemur fram fyrir þá í sínu gamla gervi Mílanó-borgar herra. ,,Til þess að þú trúir, að sá lifir sem við þig talar, faðma ég þig  fast, segir hann við Alonsó kóng, ,,og bíð þig velkominn af heilum hug og föruneyti þitt." ,,Ég skila ríki þínu, og sárbið þig að fyrirgefa mér”, svarar kóngurinn. Prosperó faðmar líka Gonzaló með þessum orðum: ,,Lát mig fyrst faðma þig, gamli göfuglyndi vinur; þitt hrós á engin orð:” Þegar Prosperó sýnir þeim Ferdínand og Míröndu að tafli, í fagurri senu á innra sviði, er allt endurheimt sem virtist glatað. ,,Ó, undur! hér er svo margt af yndislegum verum!” segir Míranda undrandi, ,,Vænn er mannheimur! Veröld ný og góðu með slíku fólki!” Því svarar faðir hennar af meiri lífsreynslu og raunsæi. ,,Þér er nýtt um þetta.”   

Gonzaló þykir allt þetta undursamlegt, er hann lítur Ferdínand og Míröndu heitbundin hvort öðru og sér forsjá og samhengi í einkennilegum hendingum og spyr sjálfan sig: ,,Var Mílanóar-fursti til þess flæmdur frá Mílanó, að kyn hans yrði að kóngum?” ,,Sú frétt er best”, segir bátsmaðurinn, sem vakinn hefur verið upp af svefni,  ,,að fundinn er vor kóngur með föruneyti sínu. Svo er skip vort,- sem fyrir stuttri stund var talið af, - jafn- heilt með rá og reiða sem þann dag er fyrst var lagt í för.” Aríel endar smölunina á ,,sauðunum” týndu og dreifðu með því að reka á undan sér furðufuglana Kaliban og nýju vinina hans, er nappað hafa skrautklæðum frá Prosperó, sem biður þó Aríel að gefa þeim frelsi og rjúfa seiðinn.  

Prosperó býður ferðalöngunum næturgistingu í ,,hreysi” sínu og segir við Alonsó, að hann muni segja þeim sögu sína og að morgni fara með þeim til skips og svo til Napólí að horfa á vígslu barna þeirra kæru en svo þaðan til Mílanóar. ,,Jafnan uppfrá því”, segir hann líka, ,,skal þriðja hver mín hugsun vera gröfin.” Prosperó afsalar sér töfravaldi sínu og viðurkennir takmörk sín gagnvart óhjákvæmilegum lögmálum lífs og dauða. Hann biður Aríel að lyktum að sjá til þess að góður byr veitist og sléttur sjór á siglingunni að heima-landi og síðan sé loftandinn frjáls ferða sinna út í bláinn.  

Leikritið endar á sérstökum eftirmála Prosperós sem virðist tala beint til leikhúsgesta og líka framtíðar. ,,Týnt hef ég mínum töfrastaf, svo treysta verð ég héðanaf á eigin mátt. Í yðar hendi er enn mitt ráð, og hvar ég lendi... Ef segl mín fyllir yðar andi, mun örugg von mín ná að landi. ...Nú munuð þér sjá leik á borði, sem framast þráið frelsi og náð, og frelsið mig í lengd og bráð.”  

Túlkun og mat 

Prospero á latínu merkir ,,Ég næ árangri, ég þrífst vel. Prosperó nær vissulega árangri með þekkingu sinni og færni. Honum tekst að ná valdi á fjandmönnum sínum en sýnir þá visku, yfirvegun og yfirburði að gera vel við þá, fyrirgefa þeim eftir að innræti þeirra hefur enn sýnt sig og afhjúpast svo á eyjunni hans að knúið hefur þá til iðrunar. Hann er það vitur að skilja og lúta þeim skilningi, að drengskapur er fegurri dáð en hefndin. Hann miðar enda helst að hamingju og farsæld töfrandi dóttur sinnar Míröndu. Prosperó hefur með þekkingu sinni öðlast vald til að móta mjög umhverfi sitt og aðstæður en kann með það að fara og misbeittir því ekki til hefnda heldur til græðslu og gagns. Hann er vissulega leikstjóri þess leiks sem fram fer á eyjunni hans. Það kemur vel fram í leik- og persónugerð vel unninnar sýningar Borgarleikhússins. Ingvar sem Prosperó situr enda oft í stúku og horfir yfir leiksviðin. Persónur leikverksins birtast þar í litskrúðugum og margbrotnum klæðnaði er hæfir ritunartíma þess og glæsilegri umgjörð sýningarinnar. Prosperó sker sig úr hópnum, í svörtum buxum og peysu eins og væri ljósmyndari Fréttablaðsins eða Morgunblaðsins, sem kæmi til að taka myndir á listsýningu nema þegar hann breiðir yfir sig glæsta skikkju, sem dregur fram áhrifavaldið.  

Sem leikstjóri sýningar sinnar mótar Prosperó umgjörð og aðstæður þar sem komumenn sýna hverjir þeir eru innan settra marka. Hann hefur að vissu leyti guðlega stöðu sem áhrifavaldur og skapari en hann viðurkennir jafnframt takmörk sín og það einnig að sjónleikur hans er glapsýn. En sjónarspil jarðneskrar tilveru er það líka að hans mati, þegar alls er gætt. Er hann hefur á orði: ,,Vér erum þelið sem draumar spinnast úr”, er hann sjálfur ekki undanskilinn. Ævin stutta er umkringd svefni og því hyggst hann við leikslok ætla að gefa gröfinni góðan gaum. En til hvers þá? Ef til vill til þess að skynja og reyna traustari grundvöll allrar tilveru, þessa heims og annars.  

Shakespeare hefur getað séð og túlkað sjálfan sig í persónu Prosperós. Sem áhrifaríkt leikskáld skapar hann sérstæðan heim á leiksviði með verkum sínum. Hann fær í þeim útrás fyrir hugmyndir sínar og hugarflug og töfrar fram atburðarás og örlög sem eru sinnar eigin gerðar og takmarkast ekki við áþreifanlegan efnisheim en hafa þó áhrif á hann og móta viðhorf og verk. Huliðsverur og andar gegna sínu hlutverki á leiksviðinu án þess að tilvist þeirra sé þar með boðuð heldur eru þær táknmyndir um óræð öfl og áhrif sem hafa sitt að segja í framvindu viðburða í raunheimi. Loftandinn Aríel ber nafn erkiengils sem getið er í gyðinglegum og kristnum dulhyggjuritum og mun á hebresku merkja altari Guðs og jafnframt ljón Guðs. Í dulspeki hefur Aríel engill áhrif á höfuðskepnurnar. Um Aríel er þar líka fjallað sem loftanda er ráði yfir skapandi kröftum og leyndardómum og einnig öðrum öndum og refsi þeim illu. Hann er jafnframt kynntur til sögu sem verndari og hollvættur listamanna og einkum rithöfunda. Shakespeare nýtir sér þessi minni og dulhyggjustef í Ofviðri sínu og túlkar þau inn í samtíð sína. Loftandinn Aríel þjónar Prosperó, sem hefur leyst hann úr viðjum náttúrunnar í mynd klofins trjábols. Með því vísar hann til þess að bókvitið, sem birtist í töfrum vísindaþekkingar og nýrrar véltækni, sýni vald sitt yfir náttúruöflunum og hagnýti þau til verka og þjónustu og muni hafa mikil og umbreytandi áhrif í framtíðinni.  

Vísinda- og tækniundur víkkuðu mjög sjónhringi og gáfu nýjar furðusýnir út um jarðarheim og til himinstjarna þegar á 17. öld. Vísindaþekkingin töfrum líkust veitti mátt til margs konar framfara, nýrra gjörða og framkvæmda. En til hvers myndi slíkur töfra- og þekkingarmáttur leiða og hverjum var treystandi fyrir honum? Hvert yrði helsta hreyfiaflið, sem ráða myndi ferðum í sögu og samfélagi? Hörð og óvægin stjórnmálabarátta og hagsmunárekstrar, tillitslaus valdafíkn og græði? Eða upplýst hugsun, næm samviska  og ábyrgðarkennd?  

Þegar leiksýning endar hverfur heimur hennar sem hjóm. Hún hefur samt áhrif áfram hafi hún vakið áhorfendur til skilnings og sýnar ekki bara á leiklistinni sem slíkri heldur getað endurspeglað veruleikann, gefið þá sýn yfir hann, undur hans og furður sem skerpir skilning á samhengi viðburða og hjálpar til við að taka afstöðu til þeirra og hafa áhrif á framvinduna. Eftirmáli Ofviðrisins dregur þetta skýrt fram.   

Ofviðri Shakespeares fer og endar vel og er gleðileikur. Harmleikir skáldsins gera það ekki. Hver ógæfan rekur þar aðra sem svik og meingjörðir valda og endalokin eru illar afleiðingar þeirra sem dauði, harmur og hörmungar fyrir bæði saklausa og seka.  Ofviðrið geymir þó áþekkan efnivið skelfinga, en vald og viska fara þar saman, sem úrslitum veldur. Það er sem skáldið spyrji í þessu lokaverki sínu. Mun svo verða í framtíðinni eða heldur hráskinnaleikurinn áfram með siðblindri valdatogstreitu, undirferli og ofbeldi er valda endurteknum hörmungum? Sú framtíðarsýn, sem Gonzaló bregður upp í leikverkinu, er annar kostur og betri og felur í sér, að töfrar vísindaþekkingar upplýsist göfugum hugsjónum og lífsvirðingu í samræmi við visku Prosperós svo að öllum verði ,,heimill auður jarðarinnar og hvorki þar auður né fátækt”, en miðað að allra farsæld. Með því móti fengju ást og fegurð þrifist og dafnað að óskum og fordæmi hinnar töfrandi Míröndu og hins göfuga Ferdínands.  

Verk Shakespeares, bæði harmleikirnir og gleðileikirnir, eru áhrifarík og sígild fyrir það, að í þeim felst máttugur siðferðisboðskapur. Þau afhjúpa þverbresti samskipta og samfélags og knýja á um iðrun, afturhvarf og endurmat. Vel er til fundið að setja upp verk skáldjöfursins enska á leikfjölum helstu leikhúsa íslenskrar þjóðar þegar hún eftir efnahagshrun þarfnast iðrunar og endurmats, nýrra viðmiðanna og framtíðarstefnu.  

Ofviðrið í sýningu Borgarleikhússins er heillandi sviðsverk, marglitt og ægifagurt og gerir leikverki Shakespeares skil á töfrandi og tilkomumikinn hátt. Sýningin virkar þó helst til yfirþyrmandi á þá sem ekki hafa haft kynni af leiktextanum eða aflað sér upplýsinga um efni leikritsins svo að þeir geta tapað þræði og misst af töfrunum. Góð leikskrá bætir þó mjög úr því. Eftirkeimurinn af sýningunni er góður og kostir hennar ljúkast upp við ígrundun og nánari skoðun. Mikill fengur er að vönduðum og lærdómsríkum vinnubrögðum leikstjórans og leikmyndahönnuðarins lettnesku. Leikarar og dansarar skila hlutverkum sínum einkar vel. Athygli vekur að konur eru í nokkrum karlhlutverkum. Það gæti vísað til þess að ólíkt því, sem gerðist forðum daga er karlar léku öll hlutverkin á leiksviði líkt og oftast á opinberum vettvangi, láti konur vel að sér kveða í samtíðinni og gegni ýmsum hlutverkum sem fyrr voru einvörðungu körlum ætluð. Það gæti jafnframt bent til þess, að leikverk Shakespeares falli vel að hverri tíð sé vel að sýningum þeirra staðið eins og gerist í sýningu Borgarleikhússins á Ofviðri hans.  

Stjörnugjöf:  

*** eftir sýningu en við nánari ígrundun bætist ein stjarna við *