Gefum þeim séns

Gefum þeim séns

Það skein gleði, áhugi og ákefð úr hverju andliti í verkmenntamiðstöðvunum. Margar stúlkur voru uppteknar við að greiða og flétta hár, greinilega að læra hárgreiðslu.
fullname - andlitsmynd Bjarni Gíslason
11. apríl 2017

Í janúar síðastliðnum byrjaði Hjálparstarfið með nýtt verkefni í Kampala höfuðborg Úganda en þangað liggur þungur straumur ungs fólks í von um betra líf. Því miður bíður flestra þeirra hins vegar atvinnuleysi og eymdarlíf í fátækrahverfum og mörg ungmenni leiðast út í smáglæpi og vændi til að lifa af.

Kampalaverkefnið er í þremur fátækrahverfum í höfuðborginni og varir í 3 ár. Það er unnið í samstarfi við Lútherska heimssambandið og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link) með góðum stuðningi utanríkisráðnuneytisins.

Markhópur verkefnisins er 1500 börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára. Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það geti nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

UYDEL hefur rúmlega tuttugu ára reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. Samtökin reka verkmenntamiðstöðvar þar sem ungmennin geta valið sér ýmis svið og öðlast nægilega hæfni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð.

Ég er nýkominn úr vettvangsferð til Kampala þar sem ég hitti ungmenni og stjórnendur verkefnisins. Það skein gleði, áhugi og ákefð úr hverju andliti í verkmenntamiðstöðvunum. Margar stúlkur voru uppteknar við að greiða og flétta hár, greinilega að læra hárgreiðslu. Aðrir, mest drengir, voru með andlitin ofan í tölvuboxum og rafmagnssnúrum að læra grunnatriði í rafvirkjun. Enn aðrir voru uppteknir við dans og söng þar sem þungur trumbusláttur stjórnaði ferðinni.

Ung stúlka sem ég hitti í einni af miðstöðvunum sem ég sótti heim hafði sterk áhrif á mig. Hún býr við fötlun og ferðast um á hjólastól í fátækrahverfinu þar sem hún býr. Nú er hún að læra að sauma og hanna föt. Hún sýndi mér nokkrar fallegar flíkur sem hún hafði saumað. Þegar ég spurði hana hvaða skilaboð hún hefði til ungs fólks á Íslandi svaraði hún að við ungt fólk sem byggi við fötlun eins og hún vildi hún segja: „Verið hugrökk, ekki gefast upp, það er alltaf von“.

Tökum undir orð hennar en beinum þeim líka til ungmenna í Kampala sem búa við örbirgð og eru þess vegna útsett fyrir misnotkun af ýmsu tagi. Gefum þeim von um betra líf með því að styrkja Kampalaverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Greiðum valgreiðslu í heimabanka (2.400 krónur) eða leggjum inn á söfnunarreikning: nr.: 0334-26-050886, kt. 450670-0499.

Þitt framlag gefur þeim séns.

Pistillinn var fyrst birtur í Fréttablaðinu