Ég er eins og ég er

Ég er eins og ég er

Ef einhver hópur í samfélaginu þekkir hvernig það er að vera í þessari stöðu þá er það samkynhneigt fólk. Lengi vel var gerð sú krafa að þau væru ekki þau sjálf, heldur einhver önnur.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
13. ágúst 2015
Flokkar

Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina í Grafarvogskirkju

Jesús fær nóg Ég veit ekki hvort hann er meira þreyttur eða reiður. Hann er í það minnsta uppgefinn á fólkinu í kringum sig. Það er alveg sama hvað hann gerir, fólk finnur alltaf eitthvað til þess að kvarta yfir. Í hans tilfelli varð það kannski ekkert undarlegt. Hann var ekki eins og fólk vildi hafa hann. Hann olli svo mörgum vonbrigðum. Hann vara ekki fínum fötum og bar sig ekki eins og konungur. Hann umgekkst ekki rétta fólkið, lét ekki sjá sig í réttu partýunum.

Ég veit ekki hvort þú hefur einhvern tíma verið í þeirri stöðu að fólk hafi bundið vonir við þig, haft til þín væntingar sem þú veist að þú getur aldrei staðið undir? Eða væntingar sem þú vilt ekki standa undir því þær eru ekki réttlátar eða sanngjarnar? Ég hef fundið þess háttar væntingar og kvíðann sem fylgir því að þurfa að valda fólki vonbrigðum.

Þessi staða sem Jesús er í hljómar verulega alvarlega því fólk er farið að breiða út sögur um hann. Hann er búinn að hjálpa fólki, lækna, boða von og kærleika og fólk er að pirrast yfir því að hann skuli ekki umgangast rétta fólkið. Fólk vill stjórna því hvernig hann er, hvað hann gerir og hvaða fólk hann umgengst.

Ekki var það skárra með Jóhannes skírara sem kom á undan honum. Þegar hann ekki hegðaði sér eins og fólk vildi, þegar hann stóð ekki undir væntum lýðsins, var hann álitinn geðveikur. Það að vera haldinn illum öndum á þessum tíma gat verið sambærilegt því að vera með geðsjúkdóm í dag. Hjálpin á þessum tíma var líka ekki upp á marga fiska.

Víst er það góð tilfinning þegar við getum verið alveg eins og allir vilja að við séum, þegar við völdum engum vonbrigðum og allir elska okkur. En hjá flestum okkar gerist það afar sjaldan. Við þurfum yfirleitt að bregðast vonum einhverra og það ber vott um ákveðinn þroska þegar við skiljum að við munum alltaf þurfa að valda einhverjum vonbrigðum.

Loks kemur að því að Jesús fær nóg þegar hann horfir upp þessa stöðugu ósanngirni fólks í hans garð. Hann nennir bara ekki að brosa fallega, þrátt fyrir hnútinn í maganum, og bíða þetta af sér.

Hann ákveður að standa með sjálfum sér og láta allt flakka. Hann ákveður að standa með sjálfum sér og leyfa sér að reiðast.

Að standa með sér Að standa með sjálfum sér er það sem mig langar að gera að umræðuefni í dag.

¨Ég er eins og ég er hvernig á ég að vera eitthvað annað? Hvað verður um mig ef það sem ég er, er bölvað og bannað?”

Þetta söng Páll Óskar við texta Veturliða Guðnasonar við lagið I´m what I´m sem varð vinsælt á níunda áraugnum. Þessi texti lýsir því vel hvernig það er að vera í þeirri stöðu að uppfylla ekki allar væntingar annarra.

Ef einhver hópur í samfélaginu þekkir hvernig það er að vera í þessari stöðu þá er það samkynhneigt fólk. Lengi vel var gerð sú krafa að þau væru ekki þau sjálf, heldur einhver önnur. Og jafnvel þó við séum komin langt í dag í viðhorfsbreytingum og flest okkar séu ekki að hafa áhyggjur af kynhneigð annars fólks þá er ég nokkuð viss um að það sé ekki auðvelt að tilkynna mömmu og pabba, og fólkinu í kringum þig, að þú sért lesbía ef þau hafa ekki haft nokkurn grun um það, hversu opin sem þau eru. Ég held að flestum foreldrum finnist ekki auðvelt að heyra að börnin þeirra séu samkynhneigð einfaldlega vegna þess að þau vita að lífið getur orðið flóknara fyrir barnið en ef það væri gagnkynhneigt.

Og stundum verðum við að standa með okkur sjálfum hvað sem umhverfið segir.

En það er ekki alltaf nóg að standa ein með okkur sjálfum. Stundum þurfum við fólk sem stendur með okkur og gefur okkur styrk til að gera það sjálf.

Í gær lauk Hinsegindögum hér á landi með gleðigöngu í Reykjavík. Þátttakan var mikil eins og venjulega þrátt fyrir blautan dag. Þátttakendur eru taldir hafa verið um 30 – 40 þúsund, ef ekki fleiri, og það er hátt hlutfall íbúa hjá svo lítilli þjóð. Fyrir mörg okkar er gleðigangan svolítið eins og þjóðhátíðardagurinn þar sem fjölskyldur fara

saman í bæinn með regnbogafána og gleðjast með samkynhneigðu-, tvíkynhneigðu-, asexual-, pankynhneigðu-, intersex- og transfólki yfir því hversu langt þau eru komin í réttindabaráttu sinni og hve langt við erum komin sem þjóð. Reyndar eru allir þessir hópar ekki komnir jafn langt í að fá mannréttindi sín viðurkennd og er samkynhneigt fólk komið langlengst.

Það sem eitt sinn var baráttuganga er nú að orðið að fjölskylduhátíð.

Ég tel að það sé afar jákvætt að við lítum á gönguna sem fjölskylduhátíð og að sum börn þekki varla muninn á íslenska fánanum og regnbogafánanum. En það er mikilvægt að um leið og við gleðjumst yfir því hversu vel gengur hér þá gleymum við því ekki að það gengur ekki jafnvel alls staðar. Í mörgum löndum á samkynhneigt fólk langt í land að fá full réttindi og viðurkenningu samfélagsins. Í sumum löndum er samkynhneigð jafnvel bönnuð og fordæmd. Í síðustu viku sá ég þrjár fréttir í fjölmiðlum um ofbeldi tengdu samkynhneigð. Í Rússlandi varð þarlendur bloggari fyrir aðkasti og árásum þegar hann leiddi annan karlmann á götu í Mosvu um daginn. Fyrir nokkrum dögum urðu samkynhneigðir karlar fyrir ofbeldi á götu úti í Úkraínu og sagt er að almenningur líti réttindabaráttu samkynhneigðra hornauga þar og að fátt fólk styðji hana. Þriðja fréttin sagði frá því að stúlka hefði verið stungin til dauða í gleðigöngunni í Jerúsalem nú í júlímánuði og að nokkrir þátttakendur hefðu verið særðir af sama manni. Árásarmaðurinn var víst rétt sloppinn úr fangelsi fyrir að hafa ráðist á fólk í gleðigöngunni árið 2005 og sært nokkra einstaklinga.

Ástæðan fyrir því hversu langt við erum komin hér á landi er m.a. sú að samkynhneigt fólk hefur staðið með sjálfu sér. Það hætti að láta stjórnast af væntingum annarra um að þau hegðuðu sér eins og gagnkynhneigt fólk, giftu sig og eignuðust börn og hættu þessu veseni.

Þau stóðu með sjálfum sér og það var ekki alltaf auðvelt. Það var ekki auðvelt að standa með sjálfri sér eða sjálfum sér þegar fólk var barið eftir böll niðri í bæ fyrir það að vera hommi eða lesbía. Það var ekki auðvelt að standa með sjálfum sér eða sjálfri sér þegar HIV hræðslan var í hámarki og allir hommar voru taldir vera með dauðlegan smitsjúkdóm.

Við höfum komið um langan veg og ég er stolt af Íslendingum þegar kemur að réttindum samkynhneigðra og almennu viðhorfi Íslendinga til samkynhneigðar þó ýmislegt megi enn bæta eins og réttindi trans- og intersexfólks.

Jesús stóð með sér Jesús stóð með sjálfum sér þegar fólk var farið að bera út sögur um hann og var stöðugt vanþakklátt, kvartandi og kveinandi yfir því að hann væri ekki eins og það vildi. Hann stóð reyndar svo rækilega með sjálfum sér að það endaði með krossfestingu. Hann gaf aldrei afslátt af því sem hann vissi að var satt og rétt.

Kannski hefði ekki farið eins fyrir Jesú Kristi ef samstaðan með honum hefði verið meiri. Það er nefnilega ekki alltaf nóg að við stöndum með sjálfum okkur. Við þurfum á stuðningi annars fólks að halda líka.

Samkynhenigt fólk stóð ekki eitt og sér á móti öllum. Fjölskyldur þeirra, vinir og við hin sem vildum að þau fengju full mannréttindi, stóðum með þeim.

Samkynhneigt fólk í Úkraínu, Rússlandi og annars staðar þar sem mannréttindi erum fótum troðin þarf á stuðningi okkar halda. Við sem höfum það betra getum sýnt þeim stuðning í orði og í verki. Við getum t.d. staðið með þeim með því að styðja þau og hvetja eins og gert var í göngunni í gær.

Það skiptir miklu máli að við stöndum með sjálfum okkur en stundum er það ekki nóg. Stundum er nauðsynlegt að finna stuðninginn utanfrá til þess að fá kjarkinn til að standa með okkur sjálfum.

Þegar þetta snýst um sjálfsögð mannréttindi og um það að fá að vera við sjálf eigum við oft ekkert val, hverjar sem afleiðingarnar verða.

“Ég er eins og ég er hvernig á ég að vera eitthvað annað” söng Palli.

Stundum reynum við einmitt að vera eitthvað annað til að passa inn. Brosum í gegnum tárin og látum sem ekkert sé þó verið sé að traðka á öllu þvi sem okkur er kært og jafnvel á okkur sjálfum.

En þegar upp er staðið erum við bara við sjálf og öll eigum við að fá rými til og rétt til þess að vera þau sem við erum.

Þegar Jesús reiddist þeim sem vildu að hann væri annar en hann var sýndi hann okkur að það er í lagi að standa með sjálfum okkur. Þegar hann gekk alla leið í að standa með sjálfum sér, okkur öllum og öllu því sem er satt og gott sýndi hann okkur að það er í lagi. Hann sýndi okkur að það er í lagi að standa með sjálfum okkar jafnvel þegar hann var krossfestur, því þegar við héldum að allt væri tapað og hann dáinn kom annað í ljós. Það sem gerðist, öllum að óvörum, var að lífið og hið góða sigraði.

Það gefur mér von um að lífið og hið góða sigri að lokum þó stundum þurfum við að bíða nokkuð lengi.

Jesús gefur okkur kjark til þess að standa með okkur sjálfum og sagan sýnir okkur að það er nauðsynlegt að standa með hvert öðru, alla leið. Alla leið að sigrinum. Að upprisunni. Amen.