Tómas

Tómas

Tómas, þú varst fyrstur lærisveinanna til að skilja alvöru þess sem var að gerast. Þú skildir að hótanirnar voru alvara, að velvildin og vinsældirnar og hrifningin var svikult, undir lágu þungir straumar haturs og heiftar. Þú sást skugga krossins á baksviði þess sem var að gerast.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
20. apríl 2009

„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“

Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“ Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Jóh.14.1-6

Tómas, þú varst fyrstur lærisveinanna til að skilja alvöru þess sem var að gerast. Þú skildir að hótanirnar voru alvara, að velvildin og vinsældirnar og hrifningin var svikult, undir lágu þungir straumar haturs og heiftar. Þú sást skugga krossins á baksviði þess sem var að gerast. Þegar Jesús talaði um að fara upp til Jerúsalem varstu fljótur til að segja við þá hina: við skulum koma með honum og deyja með honum! Hvaða leið getur legið gegnum hatur, heift og dauða? Þú komst ekki auga á neina leið, og því ekki að undra að eftir upprisuna þá varst þú sá sem þurftir að fá að sjá og snerta til að geta trúað.

Trúað. Þetta var hneykslunarhellan þín, Tómas. Jesús fullyrti að þú og þið hinir þekktuð veginn þangað sem hann var að fara. En þú sást bara ógöngur, ósigur, dauða. Eins og ég svo oft, Tómas, ég sem spyr, leita eftir tilgangi með þessu öllu, merkingu í ósigrum, áföllum lífsins öllum. Er vegur úr þeim ógöngum, er fær leið? Er svör að finna? Við vildum svo gjarna fá svör, svör við ráðgátunum og raunaspurningunum og geta þannig séð og snert og trúað. En Kristur bendir á sjálfan sig, hann er að tala um þann veg, það svar sem kallast trú. Ekki trú sem maður á eða hefur, heldur sem maður ER. Hann fer fram á trú, tryggð, trúfesti, traust, sem reiðir sig á að hann þekki leiðina og geti leitt og borið, og það eignaðist þú um síðir. Þú fannst þennan veg, þennan sannleika, þetta líf, gegnum ógöngurnar, gegnum gjörningaþokur lyginnar, gegnum sjálfan dauðann. Drottinn minn og Guð minn, það var játningin þín. Ég vil gera hana að minni játningu, minni bæn er ég feta veginn fram.

Drottinn minn og Guð minn, gef mér trú sem treystir, trú sem æðrast ekki, trú sem elskar, vonar, biður.