Gegnum glerþakið

Gegnum glerþakið

Hvað er málið með íslenska glerþakið? Hvers vegna eru konur á Íslandi ekki biskupar?
fullname - andlitsmynd Sigríður Guðmarsdóttir
13. desember 2011

Á borðinu er lilja í mjóum vasa, hugsaðu þér, sprottin upp um miðjan vetur

og send með augum hans niður í saltvatnið. Liljan snýst

í þöglu djúpi sínu í vasanum á leðurhlíf skrifborðsins. Umsækjandinn gengur inn

á hörðu parketinu á háu hælunum og umsóknin berst eins og sjúkdómur

í hendur hans hinum megin eikarborðsins: hann veit efni hennar segir hann við sjálfan sig: eins og skyttufiskur

spýtir vatni upp í loftið í lóni Queenslands og skýtur niður drekaflugur.

(„Glerþakið“ eftir Robert Adamson (1943) úr ljóðabókinni Waving to Heart Crane (1994))

Gler hefur áhugaverða eiginleika, vel fægt er það ósýnilegt, en veitir engu að síður þeim sem reyna að fara í gegnum það fullkomið viðnám. Myndlíkingin um glerþakið er mikið notuð í jafnréttismálum til að fjalla um hindranir sem heft geta framgang kvenna og minnihlutahópa á vinnumarkaði, óháð frammistöðu þeirra og hæfni.

Ástralska ljóðskáldið Robert Adamson túlkar þetta glerþak með athyglisverðum myndum, kvenlegri lilju er haldið lifandi með saltvatni og hún hringsólar í eigin djúpi undir vökulu auga eiganda síns. Valdið er undirstrikað með skrifborðinu og hið kerfislæga viðhorf sem skipar konum lægra en körlum er málað með sterkum litum skyttufisksins. Ástralski skyttufiskurinn eða Archer fish er af Toxotidaeætt og veiðir sér til matar með því að spýta vatnsdropum á engisprettur, kóngulær og fiðrildi sem sitja á greinum ofan við vatnsborðið. Drekafluguna fögru sem flýgur um loftin og fellur í lónið má túlka sem tákn um vonir kvenna um að fá að njóta sín til fulls til jafns við karlmenn. Þessar vonir eru skotnar niður af skyttufisknum, sem undirskipar konum og gefur þeim ekki tækifæri til jafns við karla.Heimspekingurinn Luce Irigaray ræddi eitt sinn um jafnrétti kvenna og karla á þennan hátt:

Einu sinni vorum við fiskar. Svo virðist að framtíð okkar liggi í því að verða fuglar.” (Luce Irigaray, í greinasafninu Sexes and Genealogies (1993), 66).
Fiskarnir hringsóla í þöglu djúpi sínu undir glerþakinu. Fuglarnir fljúga gegnum það. Það geta drekaflugurnar líka, þegar skyttufiskurinn hefur verið fjarlægður.

Nú þegar mikilla breytinga er að vænta á næsta ári  velti ég fyrir mér framtíð Þjóðkirkjunnar sem mögulegum stað fyrir fugla og drekaflugur. Við upplifum breytingaskeið í samfélaginu. Eflaust er einsdæmi að kosið sé um biskupsstólana þrjá á einu og hálfu ári. Það hefur orðið hrun í samfélaginu og við höfum háð okkar eigin glímu í kirkjustofnuninni líka. Ef einhvern tímann var tækifæri til breytinga þá er það við slík skilyrði. En hvers konar breytinga er þörf?  Hvers konar breytingar geta orðið í núverandi árferði? Spurningin um breytingar fjallar um Þjóðkirkjuna í heild, stofnanir hennar og söfnuði en ekki aðeins biskupana þrjá. Engu að síður geta kosningar um æðstu embætti kirkjunnar markað ákveðin vatnaskil hvað varðar guðfræði kirkjunnar og áherslur í kirkjupólitík. Kallað er eftir breyttri ímynd og nýjum áherslum. Einnig er kallað eftir því að ákvarðanir í öllum lögum kirkjunnar séu teknar jafnt af konum og körlum og að öll þjónusta kirkjunnar endurspegli jafnræði og jafnrétti.

Að sönnu fara ekki umsóknir á milli í biskupskosningum „eins og sjúkdómur“, svo vitnað sé í ljóðið um glerþakið. Engu að síður hafa þau sem fengið hafa atkvæðisrétt fengið vald til að velja og þurfa að hafa það að leiðarljósi að kjósa í takt við það sem þau telja að komi íslensku Þjóðkirkjunni best. Þau sem kjósa í biskupskosningum geta farið með atkvæði sitt eins og samviska þeim og skoðanir þeirra bjóða þeim. Þau hafa vald til að kjósa liljur, drekaflugur eða eitthvað allt annað.

Þegar biskupar eru valdir horfir fólk til þeirra sem geta orðið andlegir leiðtogar kirkju og þjóðar. Biskupar þurfa að rækja tilsjónarhlutverk sitt af alúð og festu, sýna aga í eigin stjórnsýslu og hafa gott eftirlit með öðrum. En fjölmargt meira en þessi atriði geta haft áhrif á biskupskosningar. Þar getur ekki síst glerþaksins sem áður er nefnt, ósýnilegu hindrananna sem verða á vegi kvenna í nútíma samfélagi vegna hefbundinnar undirskipunar þeirra.

Sumir segja reyndar að glerþakið sé ekki til og það sé niðurlægjandi fyrir konur að kynferði eigi að hafa eitthvað með valið að gera. Umræðan um að kjósa konu er alltaf tvíbent. Enginn kýs frambjóðanda eingöngu vegna kynferðis hans eða hennar. Við eigum að styðja frambjóðendur á grundvelli þess sem við teljum þau hafa fram að færa. Það er grundvallarregla. Jafnframt verður líka að taka þá jafnréttiskröfu sem kemur utan úr samfélaginu og innan úr kirkjunni af fyllstu alvöru. Kallað eftir því að æðstu stöður í samfélaginu séu ekki aðeins skipaðar körlum, heldur konum líka og þeirri kröfu á kirkjan að svara ef hún ætlar að standa undir hugsjónum um manngildi og jafnræði. Það er önnur grundvallarregla. Með öðrum orðum, þá verðum við að finna góðar leiðir til að samþætta tvær grundvallarreglur, þá að velja hæfasta einstaklinginn og að sumir einstaklingar standi ekki höllum fæti við valið vegna kynferðis. Það er mikil þörf á drekaflugum og drekafluguvinum við núverandi aðstæður. Ekki skyttufiskum. Ekki liljum í vasa.

Það er ekki í anda jafnræðis kynjanna að kona hafi aldrei verið kosin biskupskosningu og að enginn biskupsstóll sé setinn konu. Því hlýtur spurningin um konu á biskupsstóli að verða knýjandi í næstu kosningum. Ísland sker sig úr hvað varðar kynjahlutföll biskupa í lúthersku kirkjunum á Norðurlöndum. Fyrsta konan á Norðurlöndum til að vígjast biskupskosningu var Rosemarie Köhn sem varð biskup í Hamarstifti árið 1993. Af ellefu biskupum í Noregi eru fjórir kvenkyns, og Helga Haugland Byfuglien er forsætisbiskup norsku þjóðkirkjunnar. Í Danmörku voru tvær konur vígðar biskupsvígslu árið 1995, Lise-Lotte Rebel í Helsingjaeyrisstifti og Sofie Petersen í Grænlandsstifti og nú þjóna þrjár konur sem biskupar í dönsku kirkjunni af tólf. Fyrsta konan í Svíþjóð til að vígjast biskupsvígslu, Christina Oderberg vígðist til Lundar 1997, en nú eru tveir af hinum þrettán biskupum í sænsku kirkjunni konur. Hinn róttæki guðfræðingur Irja Aksola varð biskup í Helsinki 2010 fyrst finnskra kvenna. Það má því spyrja, hvað er málið með íslenska glerþakið? Hvers vegna eru konur á Íslandi ekki biskupar?

Ekki er ólíklegt að sú umræða sem nú á sér stað um konur og biskupsdóm sé á svipuðum nótum og umræðan um konur sem presta var fyrir tuttugu til þrjátíu árum. Margir komu fram við fyrstu prestsvígðu konurnar eins og hálfgerðar furðuverur. Það var hneykslast á hárinu á þeim, útganginum, mjóróma röddunum. Sumir vildu ekki láta konu jarða sig. Aðrir hafa talið að konum væri helst treystandi fyrir sálgæslu og barnastarfi, en ekki skipulagi og stjórnun. Barátta kvenna fyrir embættum og faglegum vinnubrögðum á jafnræðisgrundvelli á Íslandi er vel þekkt. Sem betur fer er hin karllæga táknfræði sem tengd var prestsembættinu smám saman að hopa, en biskupsembættið er enn sem fyrr ónsnortið karlavígi. Glerþakið er fyrir hendi og ótal ósjálfráðar og kyngerfðar myndir til staðar um það hvernig biskupar eigi að vera, byggðar á því hvernig biskupar hafa verið síðustu tvö þúsund árin. Engin þeirra biskupsímynda sem undirmeðvitundin, minningin og hefðin leggur okkur til er kona. Því er það mikilvægt að hugsandi fólk sem ber jafnrétti og hag Þjóðkirkjunnar fyrir brjósti sé virkt í að styðja konur sem það treystir til að fara takast á hendur þetta mikla breytingaverk með hvatningarorðum , samtölum og atkvæði ef því er að skipta. Til þess þurfum við velflest að takast á við skyttufiskinn í sjálfum okkur og taka þátt í að gera vonir kvenna og karla um jafnrétti í öllum lögum Þjóðkirkjunnar að veruleika.

Kosningar síðasta sumars í Skálholti hafa fært fólki heim sanninn um að við erum komin nálægt því að kona geti orðið biskup. Í kosningum um Skálholtsstólinn munaði einungis hlutkesti því að þær tvær konur sem gáfu kost á sér yrðu hlutskarpastar í seinni umferðinni. Það er ekki lengur óljós draumur um fjarlæga framtíðarsýn að kona á Íslandi verði biskup, heldur geta næstu kosningar brotið blað í kirkjusögunni.

Það gerum við þegar atkvæðin okkar fljúga gegnum glerþakið.