Kirkjugestrisni

Kirkjugestrisni

Sum hús eru undarlega köld enda þótt kynding og einangrun séu í fínasta lagi. Önnur heimili geta verið furðu hlý þótt napur gustur gnæði um glufur og skrúfað sé fyrir ofnana. Ekki bara tölurnar á hitamælunum sýna hversu hlý húsin eru. Þar skipta móttökurnar líka máli. Er tekið á móti manni með opnum örmum og brosandi vörum? Eða fær gesturinn á tilfinninguna að hann sé að trufla?
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
31. mars 2008

Sum hús eru undarlega köld enda þótt kynding og einangrun séu í fínasta lagi. Önnur heimili geta verið furðu hlý þótt napur gustur gnæði um glufur og skrúfað sé fyrir ofnana.

Ekki bara tölurnar á hitamælunum sýna hversu hlý húsin eru. Þar skipta móttökurnar líka máli. Er tekið á móti manni með opnum örmum og brosandi vörum? Eða fær gesturinn á tilfinninguna að hann sé að trufla?

Sumar kirknanna sem ég kem í á ferðalögum eru bæði fallegar og tilkomumiklar. Of margar þeirra eru samt kaldar. Þar er enginn eða ekkert sem tekur á móti manni. Og sé þar einhver virðist hann fyrst og fremst hafa það hlutverk að passa upp á að ekkert sé tekið ófrjálsri hendi úr kirkjunni eða þar unnin skemmdarverk.

Kirkjur eru heilög hús. Þar á maður að finna fyrir helginni. Kirkjur eiga líka að taka vel á móti þeim sem þangað koma. Kirkjur eiga að sýna gestrisni. Mér finnst hæpið að kalla þær guðshús sé maður ekki boðinn velkominn þangað inn.

Mér finnst að hver kirkja eigi að minna mann á opinn faðm frelsarans.

Mig langar að beina þessu til presta og forsvarsmanna kirknanna í landinu. Kirkjurnar okkar eru dýrgripir. Þangað á að vera gott að koma. Í þeim á fólki að líða vel. Bæði ferðafólki og öðrum.

Og ég minni á að klukkur eru yfirleitt aðeins utan á kirkjum en ekki inni í þeim.

Þegar maður er kominn inn í kirkju skiptir tíminn ekki meginmáli.