Vörðuð gata pílagrímsins á aðventu

Vörðuð gata pílagrímsins á aðventu

Við göngum af stað. Ég leiði gönguna sem leiðsögumaður, vel skóaður, fús til að bera út fagnaðarboðskap friðarins, með göngustafi í höndum. Ég treysti því að ég njóti leiðsagnar heilags anda á þessari hættulegu vegferð. Í veröld eru margir stígir hálir.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
20. desember 2007
Flokkar

Ljósið er táknrænt.  Við skulum í huganum taka logandi kerti  í hönd og stinga því inn í luktarker því að ég ætla nú með ykkur í ferðalag út í niðdimma nóttina til þess að hjálpa ykkur að undirbúa ykkar innri mann fyrir jólin. Þetta er pílagrímaferð í anda hirðanna sem fóru til þess að leita að jötu lausnarans.

Við stöldrum við fjórar vörður á vegferð okkar. Þessar vörður eiga að vísa okkur leiðina heim að föðurhjarta Guðs ef við leggjum við hlustir og hyggjum að táknum og orðum ritningarinnar. Í 139 Davíðssálmi er að finna falleg bænarorð sem við pílagrímarnir skulum gera að okkar í upphafi ferðar en hún hljóðar svo:

 ,,Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg".
Við göngum af stað. Ég leiði gönguna sem leiðsögumaður, vel skóaður, fús til að bera út fagnaðarboðskap friðarins, með göngustafi í höndum. Ég treysti því að ég njóti leiðsagnar heilags anda á þessari hættulegu vegferð. Í veröld eru margir stígir hálir.  Á brattann er að sækja í upphafi. Þá kemur í ljós að háhælaðir skór eru ekki góðir gönguskór og kjölföt eru fráleitur göngufatnaður. Því dragast sumir aftur úr.  Þá er gott að að eiga skilningsríka að í hópnum sem styðja hina óstyrku. Fyrir hreint kraftaverk verða þeir sér úti um nýja gönguskó og viðeigandi fatnað til ferðarinnar.   Reyndar tel ég að einhverjir í hópnum hafi verið svo forsjálir að vera með vaðskó.  Ég verð var við  að sumir hafa skilið göngustafina eftir heima sem reynist  ekki skynsamlegt.

Ég er að reyna að fá ykkur áheyrendur / lesendur góðir til að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Brátt komum við að fyrstu vörðunni upp á háheiði, hlaðinni úr steinum sem göngumóðir pílagrímar hafa reist í aldanna rás úr smásteinum. Við leggjum litla steina í vörðuna sem við finnum í vegkantinum.

Á henni er skilti sem á stendur:  

,,Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip”.
   Ég tek til máls við vörðuna og segi:
,,Hér vísar guðspjallamaðurinn Matteus til orða spámannsins Sakaría mörgum öldum fyrir Krists burð og heimfærir þau upp á Jesú er hann ríður inn um vesturhlið borgarmúra Jerúsalem borgar á asna sem hann lét lærisveina sína færa sér. Blendnar tilfinningar bærðust innra með fólkinu sem fagnaði honum við borgarmúrana. Það var hneykslað á því að Jesús, sjálfur konungur Gyðinga skyldi hafa valið sér asna til fararinnar en ekki gæðing.  Í fyrsta lagi gerði mannfjöldinn sér ekki grein fyrir því að ríki hans væri ekki af þessum heimi. Í öðru lagi skyldi það ekki táknið sem það hafði fyrir augunum en asninn táknaði auðmýkt og þjónustu. Þessi viðburður við borgarhliðið var stutt kennslustund í auðmýkt en fyrir okkur er lífið löng kennslustund í auðmýkt því að Guð stendur alltaf við dyr okkar í líki bróður okkar og systur. Það er mikilvægt að fela sig algerlega á vald Guðs því að annars getum við ekkert numið. Asninn minnir okkur  á það að okkur ber fremur að fullnægja þörf náunga okkar fremur en eigin græðgi. Þannig minnir hann okkur á kærleiksþjónustuna sem við sjáum svo mörg dæmi um í samfélagi okkar í dag”.  
Nú hafa flestir kastað mæðinni, sumir hafa dottað undir ræðunni en nú er mál að rísa af svefni og halda áfram. Aðrir mótmæla og vilja fara til baka en hætta við þegar ég fæ þá ofan af því með hrósyrðum og hvatningarorðum. Við höldum niður af heiðinni. Um krókóttan brattan stíg og lækjarsprænur er að fara. Luktirnar gera sitt gagn í niðdimmri þokunni sem er skollin á. Sumir vökna í fæturna og áræða vart að halda áfram en þó fyllast þeir sömu eldmóð við að sjá aðra í hópnum sem halda ótrauðir áfram. Eftir drjúga stund kemur gönguhópurinn niður í dalverpi þar sem önnur varða finnst. Innanverð læri sumra göngumanna eru farin að loga enda óvanir brattri göngu niður í móti.  Við leggjum vörðunni  til steina og lesum á skiltið. 

Á henni stendur eitt orð: ,,Fíkjutré”. Þar tek ég öðru sinni til máls og vona að göngumenn haldi nú vöku sinni og hlusti á mig: 

,, Það tekur fíkjutré venjulega þrjú ár að taka út þroska. Það minnir okkur á að það tók frelsarann þrjú ár að fullna starfstíma sinn hér á jörðu.  Jesús talar um að sumarið sé í nánd þegar fíkjutréð brumi.  Hann bætir við og segir: “Þegar þér sjáið þetta verða, þá er Guðs ríki í nánd. Og svo til að bæta um betur þá segir hann: “Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða”. Við vitum á sjálfum okkur að eitt orð getur flekkað heila mannsævi en orð frelsarans eru dýrmætari en gull. Þau brenna í hjörtum okkar ef við tökum við þeim í auðmýkt og leitumst við að tileinka okkur þau í lífi og starfi”.   Ég hætti að tala og mér er öllum lokið. Sumir göngumennirnir hafa lagt sig milli þúfna, aðrir sitja niðurlútir á þúfum eða steinum. ,,Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest”, hugsa ég vongóður um að þau sömu munu nú senn vilja af eigin hvötum rísa á fætur. Ég sé kraftaverkið gerast fyrir augum mínum. Það virðist sem þúfubani fari um svæðið því að allir rísa seint og um síðir á fætur og halda í humátt á eftir leiðsögumanni sínum. 

Áður en farið er af stað hvet ég gönguhópinn í þess að íhuga dæmið af fíkjutrénu. Sumir líta undrandi á mig og skilja mig ekki. Ég veit að það voru þeir sem sváfu.  Ég held af stað þrátt fyrir það og förinni er heitið út dalinn eftir krókóttum kindagötum sem eru vísandi í næturmyrkrinu. Augun eru ótrúlega fljót að aðlaga sig myrkrinu. Það glittir í steinana í tunglskininu. Ég heyri brátt skaðræðisóp. Í ljós kemur að einn göngumanna hafi orðið fyrir því að ganga inn í geitungabú. Ég legg til að hópurinn dragi nú fram nestið meðan hugað er að andlegum og líkamlegum sárum göngumanna sem sumir hverjir eru orðnir mjög þreyttir, sumir aðframkomnir.  Það er mín andlega fæða að hugsa um ritningarversið sem hópurinn fór með í upphafi ferðarinnar. Svo bið ég fyrir þeim í hljóði. 

Ég fæ bænasvar þegar hópurinn felst á að halda áfram göngunni varasömu. Um hlykkjótta stíga er að fara og margir göngugarparnir falla um koll þegar þeir steyta fót sinn við steinum. Þá er gott að njóta styrkrar hjálparhandar engla í mannsmynd. Ég hvet þá til þess að gæta þess að ljósið slokkni ekki á vegferðinni. 

Ég eygi loks þriðju vörðuna framundan  sem er öllu stærri um sig en hinar tvær. Hún stendur uppi á hálsi og ber við stjörnubjartan himinninn. Á henni stendur skrifað: ,,Ert þú sá sem koma skal?

Þegar allir hafa lagt vörðunni til efni þá tel ég hópinn og kemst mér til skelfingar að því að það vantar einn mann. Uppi verður fótur og fit í hópnum sem tvístrast út í myrkrið. Mér tekst að koma skipulagi á óreiðuna og sendi björgunarsveit af stað til að finna manninn sem finnst sofandi undir steini. Hann er vakinn harkalega af værum blundi. Hann segist hafa dreymt Jakobsstigann og séð engla ganga upp og niður stigann en aldrei hafi hann sjálfur náð upp í neðsta þrepið af einhverjum ástæðum. Þegar björgunarsveitin kemur að vörðunni með dreymandann tek ég til máls Ég reyni að brýna röddina svo að sérhvert orð nái að smjúga inn í eyru göngumóðra pílagrímanna: 

,,Brenna orð Krists í hjarta þér, áheyrandi góður? Hefur þú þrátt fyrir það efasemdir um Krist?  Er líkt fyrir þér komið og  Jóhannesi skírara sem velti fyrir sér hvort Jesús væri sá sem koma skyldi eða ekki samkvæmt vitnisburði Matteusarguðspjalls? Svar Jesú er einmitt þriðja  stefið sem ég íhuga með ykkur en þetta stef er jafnan íhugað þriðja sunnudag í aðventu.  Svarið er síður en svo stutt og laggott já. Það er fremur langt og innihaldsríkt jáyrði því að Jesús bendir Jóhannesi fyrirrennara sínum á það markverðasta sem hann gerði á sínum þriggja ára starfstíma. ,,Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi”. Þessi stórkostlegu verk ættu að vera Jóhannesi skírara og okkur sem hér erum saman komin nægileg tákn um það að Jesús er sá sem koma skal. Ég tek undir orð heimspekingsins Decartes sem sagði eitt sinn um efann: ,,Ég efast, þess vegna hugsa ég, ég hugsa, þess vegna er ég”.  Ég tek undir þessi orð vegna þess að efinn leitar í sífellu svars. Það er stundum sagt að til að eignast fullvissu trúarinnar verðum við að byrja á því að efast”.
Skjótt skipast veður í lofti. Kólguský hafa þverað himininn í einu vettvangi. Það fer að hvessa og rigna. Ég veit að björgunarskýlið er handan við fjallið en þangað er förinni heitið. Göngugarparnir draga fram skjólflíkur og vettlinga og halda af stað, enn nokkuð rakir í fæturna. Fótasár eru farin að gera vart við sig. Sárfættir pílagrímarnir halda af stað upp hlíðina og kasta loks mæðinni í henni miðri í kindagötu. Það drýpur af kinnum og vöðvar loga sem aldrei fyrr í handleggjum og fótleggjum. Tilvist skýlisins gerir það að verkum að hópurinn heldur áfram upp fjallshlíðina og nær loks brúninni eftir mjög erfiða og hættulega för í hvassviðrinu. Sumum bregður  við að koma upp á brúnina því að þar getur að líta snarbratt hyldýpi í sortanum. Þröngur stígur er til hliðar og leiði ég hópinn niður mjög bratta hlíðina. Margir eru  skelfingu lostnir en halda samt áfram að feta sig niður að áeggjan samferðamanna sinna. Fegnir og lúnir pílagrímar ná loks næsta áfangastað sem er brimströndin. Þar stendur mikilúðleg varða í fjörunni sem hefur látið á sjá í brimróti tímans. Tímans tönn hefur mótað landið. Áður stóð varðan innar í landinu.  

Á henni stendur þessi setning: ,,Hver ertu Jóhannes?”. Allir leggja vörðunni til stein. Síðan ávarpa ég hópinn eftir að hafa talið pílagrímana samviskusamlega:

,,Fjórða stefið er íhugað fjórða sunnudag í aðventu. Þar er Jóhannes skírari spurður að því hver hann sé? Hann segist hvorki vera Kristur né Elía spámaður heldur sé hann rödd hrópandans í eyðimörkinni sem hafi gjört beinan veg Drottins með því að bjóða fólki að skírast iðrunarskírn. Hann sé ekki  verður að leysa skóþveng þess sem kemur á eftir sér. Hann skíri sjálfur með vatni en þeir þekki ekki þann sem stæði mitt á milli þeirra  þrátt fyrir allt sem á undan væri gengið.    ,,Það er nú þrautar heimsins mein að þekkja hann ei sem bæri”, yrkir Einar Sigurðsson í sálminum góðkunna: ,,Nóttin var sú ágæt ein”. Við skulum minnast þess að við steypum kerti til þess að tendra ljós, lesum bækur til þess að afla okkur þekkingar. Ljóssins leitum við til þess að lýsa upp dimmt herbergi, þekkingarinnar til þess að upplýsa hjörtu okkar”.  
,,Eigum við ekki að halda áfram og vera samferða?”, spyrja nokkrir pílagrímarnir. Ég undrast og gleðst í senn við þessa spurningu, þykist sjá og skynja að áhugi þeirra hafi aukist til muna. Við höldum af stað áleiðis að björgunarskýlinu sem nú er handan við höfðann sem skagar út í brimsorfna fjöruna. En það veit enginn nema leiðsögumaðurinn í þessu hávaðaroki og rigningu. Ég þvera mjúka sandfjöruna og leiði hópinn upp á höfðann. Þegar þangað kemur sést björgunarskýlið skyndilega undir hamrinum í skjóli fyrir veðravítinu. Þeir sem geta hlaupið taka undir sig stökk. Sumir eru bornir síðasta spölinn að dyrunum.  Ég lýk þeim upp og fyrr en varir eru allir komnir í skjól, fótsárir og lemstraðir, kaldir og hraktir, reiðir og glaðir, hryggir og fegnir, áveðra og berskjalda. Ég kveiki upp í kamínunni. Þegar flestir eru búnir að ná úr sér mesta hrollinum kveiki ég á stóru kerti sem er í skýlinu og set það á mitt gólfið. Síðan bíð ég viðstadda að safnast saman um ljósið. Því næst tek ég til máls og segi:  
,,Konungur dýrðarinnar stendur við hjartarætur ykkar  með ljóslukt í hendi og hann lyftir luktinni upp til þess að lýsa upp dyrnar. Sjáið þið ekki fyrir ykkur ljósgeislamyndina gömlu sem þið fenguð í barnastarfi kirkjunnar forðum? Við dyrnar hefur konungur konunganna upp raust sína og segir: “Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér”.   Hjartadyrnar eru umvafðar gróðri, líkt og þær hafi ekki verið opnaðar um tíma. Á þeim er enginn snerill vegna þess að hann er og verður ætíð í ykkar höndum. Þið þurfið að ganga til dyra og opna fyrir konunginum Kristi og bjóða hann velkominn í bæinn. Þar þarf allt að vera sópað og prýtt fyrir jólin.  Við þurfum að sönnu að taka til innra með okkur til þess að Jesú geti tekið sér sæti. Hér eiga kvöldbænarorðin fallegu vel við sem móðir mín kenndi mér forðum og hafa þau ætíð fylgt mér síðan:  
Láttu nú ljósið þitt, loga við rúmið mitt. Hafðu þar sess og sæti, signaði Jesú mæti  
 Þið þurfið að eignast  hugarró, hófstillingu, hjartans kyrrðarþel sem samfélagið við Jesú leiðir af sér og nærist af orði Guðs og sakramentunum, skírninni og heilagri kvöldmáltíð. Það gerist ekkert nema fyrir bæn og beiðni ásamt þakkargjörð. Það skulið þið jafnan muna. Ef ykkur auðnast þetta að morgni sem að kveldi þá eignist þið varanlega jólagleði sem verður ykkur að sönnu haldreipi í lífsins ólgusjó. Það er reynsla kynslóðanna. Þá verður trúin ekki málefni sunnudagsins heldur hversdagsins”.
Það voru þreyttir en ánægðir pílagrímar sem gengu til náða í björgunarskýlinu. Þegar lýsti af nýjum degi hafði nafnið á skýlinu fengið nýja merkingu hjá sumum því að þar hafði fimmta varðan opinberast þeim, ekki síst draumamanninum. Á henni stendur skýrum stöfum: ,,Jesús Kristur”.

Það er komið að kveðjustund og leiðsögumaðurinn tekur til máls:  

,,Pílagrímaganga er mikil lífsreynsla. Þið hafið verið berskjalda og áveðra fyrir náttúruöflunum og upplifað tilfinningar sem þið vissuð ekki að þið ættuð til.  Þið hafið verið hugrökk og fús til að styðja hinn óstyrka. Við skulum ekki leggja stein í götu hvers annars, látum frekar uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús. Við megum ekki kasta steinum í hvert annað, leggjum þá frekar í vörðurnar sem varða götuna heim að föðurhjarta Guðs. Styðjum stoðir hins íslenska samfélags sem hafa í áratugi varðað leiðina að gæfuríku samfélagi, t.d. kærleiksþjónustuna, hjónabandið, fjölskylduna, skólana, réttarkerfið og kirkjuna.   Framtíðin er okkur hulin en það varðar öllu að þið hafið fastan grundvöll undir fótum í víðsjárverðum heimi. Sá grundvöllur er Jesús Kristur. Á þeirri vegferð er mikilvægt að þið leitist við að vera hvert öðru góður og gegn prestur samkvæmt hinum almenna prestsdómi.  Við skulum að lokum íhuga aftur bænarorðin sem við fórum með í upphafi:  
            ,,Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg".  ,,Engill Drottins verndi ykkur og varðveiti á vegum ykkar”.