Vanmáttur og vald

Vanmáttur og vald

Ræturnar liggja djúpt í sálu þeirra sem grimmdarverkin vinna. Hvað lýsir betur djúpstæðri vanmáttarkennd og ræfilshætt en það að beita liðsmun, aflsmun og yfirráðum til þess að knýja aðra manneskju svo undir vilja sinn?

Nú er þrettándi dagur jóla. Þetta er einn þeirra daga sem vekja blendnar tilfinningar hjá mörgum. Bernskuminningarnar geyma margar svipmyndir af því þegar fjölskyldan safnaðist fyrir framan hið sígræna tré og tók af því skrautið. Glansandi kúlurnar voru teknar varlega niður hver af annarri, vafðar þunnum pappír og lagðar í öskjur. Sumar hverjar voru með gegnsæju loki svo litadýrðin blasti við þar sem skrautið lá í kassanum. Það yrði ekki notað að nýju fyrr en næstu jól þegar eftirvæntingin væri í hámarki og hátíðin í burðarliðnum.

Breytt hlutverk

Því fylgir sérstæð tilfinning að afskrýða svo þetta lífsins tákn sem jólatréð er. Slík iðja minnir okkur á hverfulleikann og svo skyndilega breytir tréð um hlutverk. Hátíðin er liðin og nú verður gleðiefnið hálfgert vandamál. Sveitarfélögin sum hver tilkynna nákvæmlega hvenær gagnslausum trjánum verður safnað saman og barrnálarnar vilja leynast innan um þræðina í mottum og teppum og koma í ljós á næstu vikum.

Þrettándi dagur jóla miðlar sannarlega skilaboðum til okkar um það hverfulleikann og það hvernig eitt tímabil tekur við af öðru. En um leið fylgir því ákveðinn léttir að finna tilveruna ganga inn í þær skorður sem við köllum hversdagslegar. Ekki viljum við snæða veislumat á hverjum degi, efna til stórveislu, hengja skraut í hvert horn eða færa hvert öðru dýrar gjafir. Þetta verður aðeins merkilegt og dýrmætt vegna þess að jólin og hátíðin eru frávik frá hinu venjulega. Dagarnir sem eru framundan eru í rauninni jafn nauðsynlegir helginni eins og öll litadýrðin. Þeir minna okkur á það að eitt af því mikilvægasta í tilverunni er vitundin um það að "öllu er afmarkaður tími", eins og Predikarinn í Gamla testamentinu segir. Allt á sér upphaf og endi og því skiptir það svo miklu máli að við nýtum það meðan kostur er og bíðum ekki af okkur það sem tilveran býður upp á.

Jólaskrautið tekið niður

Á þrettándanum erum við minnt á þennan veruleika. Í guðspjalli Mattheusar er jólaskrautið tekið niður. Fallega sagan af fæðingunni í Betlehem er að baki og nú sýnir tilveran á sér aðra hlið. Heimurinn er stundum átakanlega vondur eins og Megas kvað og nú eru þau Jósef og María rekin á flótta með hið nýfædda barn. Sagan af því þegar þau héldu til Egyptalands birtir okkur ógnarmyndir valdsins og þess hversu máttvana fólk getur verið andspænis þeirri grimmd sem af því getur stafað.

Jósef fær þar viðvörun í draumi. Engill Drottins birtist honum og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“

Hér skynjum við skuggahlið tilverunnar og þann lamandi ótta sem því fylgir að vita að hinu veikburða lífi er ekki aðeins ógnað af völdum náttúru, sjúkdóma, kulda, skorti eða því öðru sem reynist ungu lífi hættulegt. Yfirvaldið hefur einnig fengið fregnir af því að stöðu þess er ógnað. Veiklyndið dvelur undir skrúðanum. Óttinn nagar sálina og nærist því hversu ótraustar þær eru stoðirnar sem halda valdhafanum uppi.

Þetta þekkjum við úr umhverfi okkar. Myrkur sjálfhverfunnar leynist víða og grefur undan því sem gott er en bætir þess í stað við öðrum þáttum sem miða að því einu að vernda þann sem valdið hefur. Þetta vald birtist með margvíslegum hætti. Við sjáum það í fari þeirra sem stýra löndum, samfélögum og fyrirtækjum.

Við skynjum þennan vanmátt í fari karla sem beita konur ofbeldi. Lýsingarnar frá Nýju Dehli á Indlandi eru hrollvekjandi en þær sýna þó aðeins yfirborðið á þeim veruleika sem kynjamisréttið er og það ofbeldi sem því fylgir. Þetta tiltekna mál fær þá athygli sem það verðskuldar en í bakgrunni þess eru öll tilvikin þar sem manneskjan er brotin niður, sár veitt sem aldrei gróa og sálarmorð og mannsmorð framin í krafti þess óréttlætis sem þar býr að baki.

Valdið misnotað

Mörgum þætti þægilegt til þess að hugsa ef sá vandi væri afmarkaður innan landamæra eins ríkis. Sú er þó auðvitað ekki raunin. Saga indversku stúlkunnar á sér hliðstæðu út um allan heim. Líka hér á Íslandi þar sem menn beita valdi sínu til þess að kúga og undiroka þótt frásagnirnar rati sjaldnast í fjölmiðlana. Ræturnar liggja djúpt í sálu þeirra sem grimmdarverkin vinna. Eða hvað lýsir betur djúpstæðri vanmáttarkennd og ræfilshætt en það að beita liðsmun, aflsmun og yfirráðum til þess að knýja aðra manneskju svo undir vilja sinn? Ofbeldið og vanmátturinn eru tvær hliðar á sama peningnum.

Sagan af því þegar þau Jósef og María þurfa að flýja með Jesúbarnið er verðugur endir á hátíð jólanna. Hún minnir okkur á það að enginn er undanskilin þeirri grimmd sem býr í heiminum. Jafnvel sá sem Guð sendi í heiminn er í hættu þegar valdið birtir sínar skuggahliðar. Andstæðurnar, hið hjálparvana barn og hinn alvaldi landstjóri tala til okkar í guðspjallinu en þær lýsa því líka sem er kjarni í boðskap Biblíunnar. Hið sanna afl býr ekki í vopnum þess sem situr á valdastólnum. Mátturinn leynist í brjósti þess sem á kærleikann og á sér leiðarljós sem vísar til réttrar áttar.

Hinn nýi Móses

Guðspjallamaðurinn Mattheus kallar fram hugrenningatengsl í þessari frásögn. Þegar Jesús dvelur í Egyptalandi rifjast upp atburðir sem dvöldu djúpt í vitund þeirra sem á hlýddu. Þar dvöldu Ísraelsmenn í þrælahúsinu undir oki þeirra valdhafa sem nýttu sér bjargarleysi þeirra og kúguðu til hlýðni. Upp úr þeirra hópi reis leiðtoginn Móses og hann leiddi þjóðina yfir til fyrirheitna landsins sem Drottinn hafði úthlutað þeim.

Þegar frásögnin af dvöl Krists í landi Egypta var lesin vaknaði sú von í huga þeirra sem undir okinu voru að nýr leiðtogi væri risinn upp.

Og sú varð raunin. Ekki aðeins fyrir eina þjóð heldur heilt mannkyn. Einkum þá sem finna fyrir þunga óréttlætis og grimmdar. Á Indlandi starfa kristnir söfnuðir meðal þeirra sem engra réttinda njóta, Dalía, og opna augu þeirra fyrir því að þeir eru jafn dýrmætir í augum Guðs og fólk af öðrum stéttum. Réttindabarátta ýmissa hópa hefur sótt til frásagna Biblíunnar – hver kannast ekki við söngva blökkumanna í Bandaríkjunum af því þegar Móses og eftirmaður hans Jósúa sigruðust á hverri hindrun og múrarnir hrundu? Þarna samsömuðu þeir sér hinum hugrökku guðsmönnum sem fylgdu kallinu og sigruðust á valdinu.

Hversdagurinn og skyldur okkar

Nú er jólahátíðin á baki. Við erum minnt á það að hversdagurinn tekur við, veruleikinn heilsar okkur og veruleikinn skrýðist ekki þeim skartklæðum sem hátíðin gerir. Okkur er það nauðsynlegt að horfast í augu við það að heimurinn er vondur, já átakanlega vondur eins og dæmin sýna. Úr vanmættinum sprettur illskan. Upp frá óttanum vex grimmdin og skeytingarleysið. Hin helgustu vé eru svívirt. Sá stóri hópur sem á sér lifandi trú í brjósti og lítur á Krist sem leiðtoga sinn og fyrirmynd finnur fyrir því að ábyrgðin kallar.

Hið hvunndagslega líf mætir okkur en við göngum þangað inn ríkulega nestuð af öllu því góða sem hátíðin gefur okkur. Fyrst og fremst þeirrar litadýrðar sem á að einkenna sálarlíf okkar og huga á þessum tíma. Það minnir okkur á skyldur okkar hvert gagnvart öðru í heimi sem þarf svo mjög á hugsjónum okkar og kröftum að halda.