Sól í hæstum hæðum

Sól í hæstum hæðum

Þeim þótti sem hún væri svo smá og látlaus, að ekkert sæist þar né fyndist nema nærvera Guðs. Þeir náðu þar áttum, fundu veru og virkni Guðs í eigin hjartslætti og jafnframt í undrum sköpunarverksins allt í kring, í hróstrugu hrauni, fjöllum og blásandi hverum, orkulindum lífríkis og á himinhvelfingunni.
Flokkar

Prédikun í helgistund við grunn Krýsuvíkurkirkju á sumarsólstöðukvöldi 20. júní 2012

Við komum hér saman við grunn Krýsuvíkurkirkju, eins og hefur verið gert síðustu tvö árin í vor eða sumarbyrjun, til þess að horfa fram til þess, að ný Krýsuvíkurkirkja rísi og verði hér á þessum stað eins og hinn fyrri, sem brann. Hún hafði mikið aðdráttarafl og dró að sér fjölda manna innlendra og erlenda. Þeir fundu þar fyrir Guði og helgi hans með sérstæðum hætti, svo sem þeir vitnuðu um á fjölda tungumála í gestabókum kirkjunnar. Þeim þótti sem hún væri svo smá og látlaus, að ekkert sæist þar né fyndist nema nærvera Guðs. Þeir náðu þar áttum, fundu veru og virkni Guðs í eigin hjartslætti og jafnframt í undrum sköpunarverksins allt í kring, í hróstrugu hrauni, fjöllum og blásandi hverum, orkulindum lífríkis og á himinhvelfingunni.

Við sem erum í Vinafélagi kirkjunnar og aðrir velunnarar hennar finnum til þess, að þessar kenndir og tilfinningar gefa endurreisnarverkinu styrk, byr og vængi. Við fögnum því, að vel miðar að smíða nýja kirkju sem nemendaverkefni Iðnskólans í Hafnarfirði.

Þeir bjartsýnustu höfðu reyndar gert ráð fyrir því, að smíðinni væri nú lokið og ný kirkja vígð á þessu vori. Ekki varð af því enda ekki rétt að rasa um ráð fram heldur vinna svo, að sem mest gagn hljótist af fyrir kennara og nemendur skólans, er vilja læra af smíðinni.

Fylgt er nákvæmum teikningum sérfræðinga Þjóðminjasafns, og þótt ytra útlit nýju kirkjunnar verði áþekkt hinni fyrri munu innréttingar, altari, prédikunarstóll og bekkir verða með öðru sniði en var enda farið þar að fyrirmyndum frá því í byrjun fyrri aldar. Þess ber líka að gæta að flytja verður kirkjuna til Krýsuvíkur, þegar þar er frosin jörð, væntanlega á komanda vetri, svo að viðráðanlegt sé að koma henni fyrir og klára svo smiðina, þegar sól hækkar enn á lofti á nýju vori.

Sólin er nú hæst á himni, og því er lengsti dagur ársins að líða. Sólstöður bæði að sumri og vetri hafa vakið athygli og lotningu í sögu mannkyns frá örófi alda. Sólarmusteri eins og það, sem er að finna í Steinhengi nærri Sarum eða Salesbury á Englandi, vitnar um það. Háir og mikilir steindrangar mynda þar hring og falla geislar sólar nákvæmlega inn í hann á sumarsólstöðum. Þetta mannvirki mun vera um 2500 árum eldra en það tímatal, er miðast við Kristsburð. Drangarnir eru taldir vera komnir frá Wales, sem er í 200 km fjarlægð. Hvernig hafa þeir komist þangað og með hvaða orku og afli? Því hefur enn ekki verið svarað með sannfærandi hætti.

Keltnesk menning barst frá meginlandinu til Albion, eins og Bretland mun hafa kallast fyrir daga Rómverja og skráðrar sögu þess, mun síðar eða um 700 fyrir Krist í fyrri bylgju en þeirri síðari um 400 fyrir Krist. Eftirtektarvert er að orðið Albion kann að þýða og merkja Sólris.

Keltneski sólar- og upprisukrossinn með hring um krossmiðju, dregur fram bæði forna sólarhelgi og kross Krists, sköpunina og endurlausnina í Jesú Kristi. Keltar fyrri tíðar hafa litið rosabaug á sólu sem opinberun þessarra trúarsanninda. Rosabaugur mun sýna stækkaða sól með umgjörð kringum sig og fjórar minni aukasólir efst og neðst og til hiðar á gjörðinni, og geislastrengir eru á milli megin sólar og auka sólna. Við það myndast fagur keltneskur sólkross á himni. Hann vitnar um að Guð, sem gefur sól og sólargeisla, opinberast í fórnandi elsku Jesú Krists og að sú elska sé kjarni og uppspretta sólar, sköpunar og lífsins linda.

Tíðindi berast nú af því, að á sviði vísinda- og stjarneðlisfræði sé að verða slík umbylting vegna nýrrar sýnar, uppgötvana og þekkingar á sólu, að gjörbreyta muni stjarnfræðum og alheimsmyndinni, enda þótt tregðu gæti til að viðurkenna viðhorfin nýju hjá fyrri kenningasmiðum stjarnfræðanna.

Albert Einstein sýndi á fyrri öld fram á afstæði rúms og tíma og tengsl orku og efnis og lýsti sveigðum geislum í tímarúmi. Steven Hawkins og fleiri stjarneðlisfræðingar síðari tíma hafa útvíkkað afstæðiskenningu hans og haldið því fram, að þyngaraflið væri ráðandi orka alheims.

Nú er annað að koma í ljós með nýjum rannsóknum á sólu og leyndardómsfullum fyrirbrigðum hennar, sem erfitt hefur reynst að útskýra. Tveir helstu upphafsmenn hinnar nýju sýnar og stjarnfræða virðast koma gjörsamlega úr öndverðri átt. David Talbot er tákn- og mýtufræðingur en Wallace Thornhil rafgaseðlisfræðingur. Walace varð fyrir hugljómun, þegar hann hlýddi á fyrirlestur Davids um forn sólartákn víðsvegar úr veröldinni, sem hann sýndi með ljósmyndum. Á þeim birtust strengir og hjúpur um sólu, er voru sláandi lík myndum af brautum rafmagns í plasmahjúpi, sem Walace var að rannsaka á tilraunastofum.

Hann sá fyrir sér, að þannig hefði sólin getað litið út séð frá jörðu fyrir árþúsunum. Sem slíkt rafsegulsvið í plasma væri sólin ekki helst kjarnaofn, sem gæfi frá sér geislaflóð með stöðugum kjarna- eða samrunasprengjum, heldur drægi hún fremur til sín og varpaði frá sér í samþjöppuðu formi, utanaðkomandi rafögnum og rafvirkni í geimnum, sem væri þá máttugasta þekkta aflið þar og margfalt öflugra en þyngdaraflið.

Þessi opinberun útskýrði t.d. hvers vegna sólin er 6000 gr. heit á kelvinkvarða við yfirborðið en tvær milljónir gráða hiti er hundrað þúsund kílómetrum ofar. Hún skýrði líka hví myrkir sólblettir fyrirfinnast inni í sólu, sem eru um helmingi kaldari en yfirborðið og útskýrði einnig tilvist sólvinda. Þessi uppgötvun þýddi jafnframt, að algjört tóm væri ekki á milli sólna og stjörnuþoka og - kerfa í alheimi, eins og talið hefur verið, heldur væri máttug rafvirkni þeirra á milli, er tengdi öll fyrirbrigði stjarnheims saman í tengslanet og virka heild. Þessi sýn og skoðun skýrði líka mun betur en nokkur fyrri kenning lögun og form stjörnuþokanna.

Í samanburði við þessi tímamót og stórmerki í heimi vísinda og heimsskilnings virðast umskipti í okkar samfélagi ekki mikils verð. En þau varða okkar þjóð, land og samfélag og við komum þar við sögu. Forsetakjör dregur fram nýjar áherslur og viðmið í starfi forseta Íslands í framtíð, enda þótt að yfirgnæfandi líkur séu á því að sitjandi forseti verði endurkjörinn.

Kröfur um árvekni í stefnumótun varðandi umgengni við landið, orkulindir þess og auðlindir sjávar, til þess að þær haldist sjálfbærar og séu í þjóðareign, verða ekki kæfðar með þjóðinni, þrátt fyrir öfluga þrýstihópa og sérhagsmunasamtök. Við sem metum undur Krýsuvíkur verðum að halda vöku okkar og árvekni, svo að ásýnd hennar skaðist ekki varanlega af yfirgangi gróðahyggjunnar.

Endurnýjun stjórnarskrár lýðveldisins verður vart frestað lengur, svo sem stjórnlagaráð hefur knúið á um. Hver verður staða kristni og kirkju í nýrri stjórnarskrá? Verða lífstengsl þjóðar og kirkju metin þar sem skyldi jafnframt því sem virðing og umburðarlyndi verða sýnd öðrum heiðarlegum og einlægum lífskoðunarfélögum? Vígsla konu, sr. Agnesar Sigurðardóttur, á komandi Jónsmessu til biskups Íslands eru mikil tímamót í þjóðar- og kirkjulífi. Þau gætu þýtt sóknarfæri fyrir þjóðkirkjuna eftir undanhald síðustu missera en líka réttmætt mat á því sem gerðist, dug og dáðum þeirra, er voru í forystu í byljum og gjörningahríð.

Jesús minnir á það í fjallræðu sinni hve miklu varði að tengjast Guði, lífi hans og lífsreglum, gera þær að innlifuðum og elskuðum veruleika í huga og sál. Með því einu sé líf og samfélag byggt á traustu bjargi. Sé það ekki gert, er byggt á kvikum sandi. Spádómar Jeremía spámanns rætast í Jesú Kristi, um ævarandi sáttmála við lifanda Guð, sem mun leggja guðsótta í hjarta þeirra, sem við fagnaðarerindi hans taka, 41 ,,Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti”, segir Guð fyrir munn spámannsins.

Við megum og eigum að taka þessi orð til okkar, sem erum helguð honum í Jesú nafni hér á Íslandi sem Pétur Gunnarsson rithöfundur lýsir svo í nýju fjallkonuljóði sínu; það var í árdaga, það er í dag allsnægtalandið, eilífðarlandið.

Vitundin um Guð má þó aldrei sljóvgast og dofna og verða sem óvirkt salt og myrkvað ljós. Aukin vísinda- og stjarnþekking dregur ekki í sjálfri sér úr trúar- og Guðsvitund heldur fær hún fremur í einlægum huga aukið undur og virðingu fyrir sköpunarfyrirbrigðum nær og fjær, samspili sólkrafta og frumeinda í alheimi, og frumna og lífsvefnaðarins alls hér á jörðu.

Trúin í Jesú nafni greinir þar í stóru og smáu, Orðið, Logos, rök og guðlega skynsemi, þá visku og elsku, sem birtast í mannsmynd Jesú Krists. Lífið allt verður ávallt að nærast af lifanda Guði. Orði hans og Anda til þess að vera til og þrífast. Aldrei má skera á þá líftaug trúar og bænar sem frá og til hans liggur, síst á óvissu og ólgutíð. ,,Á Guð skal heita til góðra hluta,/ þann er hefur skatna skapað”, segir í 13. aldar kvæðinu, Sólarljóðum. Og framhaldið er svona: ,, Mjög fyrir verður, (sem þýðir, milu glatar) manna hver,/ er seint finna föður.” Og þá er einkum átt við föður heims og lífs.

Samt er sem þessa skynjun, sýn og þekkingu skorti á mörgum sviðum. Framþróun þekkingar er oft tekin fram yfir Guðsvitundina, í stað þess að tengjast henni á virkan og fagran hátt. Því er enda lífsins þrá og þörf, kærleikskrafan svo æði oft svikin og sérhyggja og gróðafikn ráða för og skyggja á lífsfarnað og heill.

,,Gæti ég lesið ljóð jarðar/ þessum augum,/ þessum stóru skæru augum/ í vagninum lita á stignum, /vorljóð sólar og jarðar”, segir Snorri Hjartar, í fyrra ljóðinu, ,,Ljóði jarðar”, sem sr. Þórhallur mun hér lesa, og á væntanlega við, að hann þrái að eiga enn móttökuhæfni, tiltrú og traust ungbarnsins til að glæða skáldskap sinn skapandi lífi. Í seinna ljóðinu, ,,Ungri móður”, yrkir Snorri um yndisleik vorsins í þeirri fegurð og góðvild, sem ung móðir og barn eru hvort öðru, en hann spyr jafnframt um það hvað sé umkomulausara í rangsnúnum heimi?

Skáldið svarar sjálft, að þessi fagra Rafaelsmynd sé þó mest af öllu og muni sigra allt. Með því að vísa í miðalda listmálarann Rafal tengir skáldið ljóðmyndina fögru jólabarninu og hinum krossfesta og upprisna frelsara, sem var helsta myndefni Rafaels.

Grunnur brunnins helgidóms hér í Krýsuvík birtir vissulega rangsnúinn heim, en trúin, vonin og kærleikurinn, sem byggja nýja kirkju, vitna um sigur lífs og grósku á illsku og eyðingaröflum; sigur Jesú Krists. Tilveran öll er í Guðs hendi þrátt fyrir hvaðeina, sem á hann og hana skyggir. Strengirnir sem tengja stjörnur í alheimi birta það, ylgeisar himinsólar, sem vekja og næra líf á jörðu í hans nafni.

Hverju mannslífi er ætlað að átta sig á því og þroskast á Guðsríkisbraut, og gerast vakandi og virkt, lifandi grein á lífsins tré, bjartur strengur, sem ómar af lofgjörð og þökk og fagnar lífi og fyrirheitum þess í Jesú nafni. Á sumarsólstöðum fögnum við því og að ný kirkja rísi brátt hér í Krýsuvík til að glæða slíka trúarvitund og skerpa þá tilverusýn í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen