Ríkidæmi þakklætisins

Ríkidæmi þakklætisins

Tíu menn fengu bænasvar, lækningu er þeir ákölluðu Jesú um miskunn. Tíu menn gengu glaðir frá Guði, með nýja krafta og nýja möguleika. Einn maður gekk sannarlega ríkur frá fundi Jesú.Hann hafði beðið, læknast og þakkað. Níu menn skynjuðu ekki gjöfina sem þeim var gefin.

Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: Jesús, meistari, miskunna þú oss!

Er hann leit þá, sagði hann við þá: Farið og sýnið yður prestunum. Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir.

En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur? Síðan mælti Jesús við hann: Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.Lúk.17.11-19

Mikil er náð og miskunn þín, Minn Jesús hjartakæri, Þú virtist svo að minnast mín, Þó maklegur þess ei væri. Lofuð veri þín líknin góð, Lofað sé orð þitt mæta, Sem böl kann bæta. Lofi himnar og heimsins þjóð Helgasta nafn þitt sæta. Hallgrímur Pét. Sálmab.411 v.2

I

Þakkaróðinn sem ég gerði að bæn í upphafi predikunar er þakkargjörð Hallgríms Péturssonar fyrir bata. Þess Hallgríms sem gjörði nafn sitt ódauðlegt í Passíusálmunum og kirkjan okkar ber nafn sitt af.

Talið er að Hallgrímur hafi verið líkþrár eins og mennirnir tíu sem gengu fyrir Jesú og fengu lækningu. Af því sem vitað er um Hallgrím má draga þá ályktun að hann hafi verið farinn að kenna sér meins undan líkþránni þegar hann orti Passíusálmana.

Það dýrasta sem kveðið hefur verið á íslenska tungu var ort undir þjáningu sjúkdóms og sorgar. Nýlega hafði hann misst Steinunni, ástkæra dóttur á unga aldri.

Í þeirri kröm kom Hallgrímur fram fyrir Drottinn sinn bað og þakkaði.

Af heimildum má ætla að veikindi hans hafi gengið til baka að mestu leiti um nokkurt skeið. Þá slóst Hallgrímur í för með manninum eina sem þakkaði.

Þakklæti eins hefur gert íslenska þjóð svo margfalt ríkari. Útlendingar sem þekkja til skáldamáls hans sjá hvílíkan risa og andans jöfur þjóðin hefur alið.

Líf Hallgríms var þó aldrei sérstök sæluganga. Hann eignaðist með Guðríði Símonardóttur um tug barna og sá á eftir þeim öllum í gröfina fyrir utan frumburðinn.

Eyjólfur sem getinn var í synd komst einn til fullorðinsára. Úr þröngri aðstöðu voru hjónaleysurnar vegin af almenningi og léttvæg fundin.

Brauð var honum skenkt sem óásjálegt þótti og litla velvild fengu hjónin á Suðunesjum. Blessun var þeim í barninu Eyjólfi og blessun var þeim að komast á Saurbæ í Hvalfirði. Þar áttu þau góða daga. En þar varð kvölin þeim einnig sárari en nokkru sinni. Ávöxtur af þeirri kvöl er ein af perlum þjóðarinnar. Ljóðin sem lifa sig svo vel inn í pínu og kvöl frelsarans. Ljóðin sem lýsa svo vel trúarlífi kristins manns. Ljóðin sem færa Guði þakkargjörð.

II

Tíu menn fengu bænasvar, lækningu er þeir ákölluðu Jesú um miskunn.

Tíu menn gengu glaðir frá Guði, með nýja krafta og nýja möguleika.

Einn maður gekk sannarlega ríkur frá fundi Jesú.

Hann hafði beðið, læknast og þakkað.

Níu menn skynjuðu ekki gjöfina sem þeim var gefin.

Níu menn tóku það sem sjálfsagðan hlut að þeim væri borgið, þeir ættu heiminn og gætu gert hvað sem væri. Níu menn misstu af þeirri gleði að þakka Guði.

III

Leyndardómur þakklætisins er mikill. Sá eða sú sem lærir að þakka fær margfalda uppskeru af lífinu. Ekki að sjáist endilega á velgengni.

Það verður skynjað af innri gleði. Því þakklætið opnar augu okkar fyrir þeim gæðum sem við búum við. Þegar við þökkum fyrir að geta hreyft okkur án erfiðismuna, förum við að skilja að heilsan er ekki sjálfsögð eins og okkur finnst í fyrstunni.

Þegar við förum að þakka fyrir að hafa fæðst á þessu skeri á þessari öld, förum við um leið að veita athygli þeim gæðum sem aðrir búa við og sem forverar okkar bjuggu við. Og við sjáum að um margt eru Íslendingar mikillega lánsamir. Þegar við þökkum fyrir daglegt brauð í veraldlegum jafnt sem andlegum efnum, lærum við að meta gæðin sem við höfum.

Þakklætið opnar á - örlæti, - gleði, - samúð.

Þakklætið lokar á neikvæðni.

Þakklætið kennir okkur að meta það sem við höfum og skapa það besta úr aðstæðunum hverju sinni. Stóri leyndardómurinn við þakklætið er, að þegar maður lærir að „þakka Guði í öllum hlutum“ eins og postulinn segir, þá lýkst upp fyrir manni leyndardómur þakklætisins. Takið eftir að þakka Guði í öllum hlutum, ekki sumum eins og okkur er gjarnt.

Það verður aldrei sett í orð, en komast má nærri því með því að segja að þakklætið opni áður luktar dyr. Að þakka Guði af hjarta gefur nýja möguleika, sem ekki voru séðir fyrir áður.

„Gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni, ásamt þakkargjörð“ þannig talar Páll postuli enn.

Okkur reynist hins vegar erfitt að þakka í öllum hlutum, við erum til í að þakka fyrir það góða, en það sem okkur virðist vont um þessar mundir, það er erfitt að þakka fyrir.

Leyndardómurinn lýkst upp fyrir þeim sem lærir að þakka.

Hinir níu ganga sjálfumglaðir heim til sín. Fátækari í anda, vanfærari um að takast á við skakkaföll lífsins en hinn eini sem kunni að þakka.

Hann fékk kveðju Drottins:

„Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“

IV

Það er dýrmætt að fá slíka kveðju: Trú þín hefur bjargað þér.

Það er dýrmætt að læra að þakka.

Það veldur mér hins vegar ugg ef að það er ekki nema einn af hverjum tíu sem að þakkar. Hvar stöndum við, ég og þú í þökkinni? Teljumst við með hinum eina eða þeim níu sem ekki kunnu að þakka. Hér er enginn öruggur með sig og hver maður í sífelldri endurskoðun.

V

“Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottinn…sem skapað hefur himin og jörð…sem varðveitir trúfesti sína…sem rekur rétt kúgaðra og veitir brauð hungruðum.” Sl.146.5-7 Þannig mælir manneskjan í Davíðssálmum og hefur væntanlega reynt á eigin skinni hvers Drottin Guð er megnugur.

Þannig mætti Jesús líkþráu mönnunum. Þannig svalaði Jesús Hallgrími og það sama tilboð stendur okkur til boða. Komið til hans sem þoldi háðung og pín okkar vegna. “…vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði…Hegningin sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.” Jes.53.4,5. segir spámaðurinn Jesaja.

Það er sá Jesús sem býður okkar með opinn faðminn og undina sína sem græðir undir okkar. Erum við þau sem að þökkum eða hverfum við sjálfumglöð á braut? Það þurfum við að hugleiða. Við þurfum að biðja þess að við lærum að vera þakklát svo að auður þess leyndardóms megi verða okkar. ‘I þakklætinu uppskerum við einnig ávexti andans sem eru: “Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi. En þá þurfum við að berjast gegn freistingu okkar eigin vilja, eða holdsins eins og Biblían segir, sem gengur frá Jesú um leið og við höfum fengið okkar.

Ég vil vekja athygli okkar á lokabæninni sem meðhjálparinn les. Hún er á bls. 18 í sálma¬bókinni.Við ættum öll að lesa hana í hljóði áður en við göngum út.

Þar er þakkargjörð. Þar er hvatning og von fyrir kristinn einstakling.

Lærdóm getum við enn fremur dregið af 411 sálmi Hallgríms sem ég hóf mál mitt á. Þar segir:

…daglega jafnan þakka þú þínum lifandi Guði, hver þér líf, kraft og heilsu gaf, hjálp, náð og miskunn veitti, nær þjáning þreytti, leysti þig öllu angri af, eymd þinni í farsæld breytti.

Hér er þakklætið haft í heiðri og geri ég þau orð að mínum lokaorðum:

Nú skal ég héðan af sérhvert sinn með sál, hug, raust og munni lífgjafara og lækni minn lofa af hjartans grunni. Blessuð veri þín blessuð hönd, blessuð sé þín aðhjúkan við mig sársjúkan. Hirtingarstraffsins harðan vönd hefur þú gjört mér mjúkan.