Frá því sól að morgni rís: Bænadagur kvenna

Frá því sól að morgni rís: Bænadagur kvenna

Í bæn frá Íslandi er minnst kosningaréttar kvenna í 100 ár og 200 ára afmælis Hins íslenska biblíufélags og þess að 80 ár eru liðin frá því að bænadagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur hérlendis. Konur á Bahamaeyjum fengu kosningarétt árið 1962 og er forvígiskvennanna sérstaklega getið í efninu sem sent var út í gegn um alþjóðaskrifstofu bænadags kvenna í New York.

Fyrir 80 árum, þann 8. mars 1935, var Alþjóðlegur bænadagur kvenna haldinn hátíðlegur á Íslandi í fyrsta sinn. Það voru konurnar í Kristniboðsfélagi kvenna sem boðuðu til almennrar bænasamkomu í Betaníu síðdegis þann dag undir forystu Guðrúnar Lárusdóttur, rithöfundar og alþingismanns. Engar fregnir er að finna af bænadeginum næstu áratugi en frá 1957 höfðu Hjálpræðisherskonur frumkvæði að árlegri samkomu af þessu tilefni. Á sjöunda áratugnum safnaði Auður Eir Vilhjálmsdóttir, síðar séra, saman samkirkjulegum hópi kvenna til undirbúnings og framkvæmdar deginum og starfar sá hópur enn, þó aðrar konur hafi komið í stað frumherjanna.

Fagnað með konum um víða veröld Alþjóðlegur bænadagur kvenna á sér rætur í kristniboðsstarfi kvenna á 19. öld í N-Ameríku og er ávallt haldinn fyrsta föstudag í mars, að þessu sinni 6. mars. Deginum er m.a. fagnað með kvöldsamkomum í Reykjavík, í Miðfirði, á Akureyri og í Stykkishólmi. Í Vestmannaeyjum er gengin bænaganga frá Landakirkju kl. 17, beðið fyrir stofnunum og fyrirtækjum bæjarins og síðan safnast til bænastundar kl. 18 í Stafkirkjunni. Víða munu prestar og forstöðumenn trúfélaga taka undir bænarefni dagsins í guðsþjónustum og samkomum helgarinnar sem á einkar vel við þann 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Upplýst bæn, bæn í verki Yfirskrift dagsins er: Upplýst bæn, bæn í verki. Mismunandi lönd eru í brennidepli hverju sinni og áhersla á að fræðast um veruleika kvenna á fjarlægum slóðum til að geta beðið með skýrum hætti og veitt hagnýta aðstoð þegar svo ber undir. Fræðslu, bænar- og myndefni kemur frá Bahamaeyjum þetta árið og er orðalag Bahamakvenna litríkt og djúpt. Sérstök bænarefni eru fátækar konur, þolendur heimilisofbeldis, flóttafólk, hælisleitendur og þolendur mansals, ungar mæður og einstæðir foreldrar, fólk með HÍV/alnæmi og konur sem greinst hafa með brjóstakrabbamein. Þakkað er fyrir gjöf lífsins og margbreytileika sköpunarinnar, ást Guðs í Jesú Kristi og einingu í trú, von og kærleika í samfélagi kvenna um allan heim.

Kosningaréttur kvenna Í bæn frá Íslandi er minnst kosningaréttar kvenna í 100 ár og 200 ára afmælis Hins íslenska biblíufélags og þess að 80 ár eru liðin frá því að bænadagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur hérlendis. Viðburða bænadags kvenna er getið á viðburðaskrá afmælisnefndar kosningaréttar kvenna í 100 ár, http://kosningarettur100ara.is/. Konur á Bahamaeyjum fengu kosningarétt árið 1962 og er forvígiskvennanna sérstaklega getið í efninu sem sent var út í gegn um alþjóðaskrifstofu bænadags kvenna í New York.

Bæn frá Íslandi

Guð, við þökkum þér fyrir kosningarétt íslenskra kvenna í eitthundrað ár og þær góðu aðstæður sem konur njóta almennt á Íslandi. Sýndu okkur leiðir til að mæta þeim konum sem búa við erfið kjör, vegna veikinda, aldurs, fátæktar, heimilisofbeldis eða annarra aðstæðna.

Við biðjum fyrir flóttafólki og hælisleitendum á Íslandi, sérstaklega þeim sem koma hingað vegna mansals. Gefðu að við sem þjóð mættum bera gæfu til að greiða úr málum hverrar manneskju sem hingað kemur.

Við þökkum þér einnig fyrir alþjóðlegan bænadag kvenna sem fyrst var haldinn hérlendis fyrir áttatíu árum og Biblíufélagið sem hefur starfað í tvö hundruð ár. Lof sé þér fyrir þá stóru keðju í tíma og rúmi sem við erum hluti af. Minn okkur á að biðja án afláts hver fyrir annarri og hvert fyrir öðru og sýna djúpstæðan kærleika þinn í allri okkar framgöngu.