Nú er lag

Nú er lag

Skýrslan alræmda virðist góð. Í henni koma fram hlutir sem skipta máli. Samtöl eru rakin, atburðir skráðir og viðtöl birt. Hrun efnahagslífs og siðferðis er tekið alvarlega og talað er tæpitungulaust.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
13. apríl 2010

Skýrslan

Skýrslan alræmda virðist góð. Í henni koma fram hlutir sem skipta máli. Samtöl eru rakin, atburðir skráðir og viðtöl birt. Hrun efnahagslífs og siðferðis er tekið alvarlega og talað er tæpitungulaust.

Nú er ekki lengur hægt að segja: „Við bíðum bara eftir skýrslu rannsóknarnefndarinnar“.

Skýrslan er svolítið eins og sjúkdómsgreining sem beðið hefur verið eftir í langan tíma. Óvissuþáttum hefur verið eytt og við vitum (nokkurn veginn) hver staðan er. Oft er sagt að óvissan sé verri en vond vitneskja og það á sannarlega við hér.

En nú er lag.

Nú er búið að greina sjúkdóminn. Hvernig eigum við að bregðast við honum?

Enn sem komið er vill enginn játa mistök enda hefur það aldrei verið sterkasta hlið valdamikilla Íslendinga, sem hingað til hafa komist upp með hvað sem er.

Nú er lag að breyta leikreglunum.

Nú þarf að finna út hvort hefja eigi réttarhöld yfir þeim sem grunuð eru um vanrækslu eða eitthvað verra.

Nú þarf að bæta stjórnarskrá þessa lands.

Það þarf að setja siðareglur og fara eftir þeim.

Það þarf að byggja upp stjórnsýsluna og kenna fólki að fara réttar boðleiðir með öll mál, ekki bara sum.

Við viljum ekki vinapólitík, rán, þjóðrembu og græðgi hér lengur.

Við tökum ekki þátt í meiri vitleysu.

Í Grafarvogskirkju verður Reiðimessa á föstudagskvöldið kl. 20:00. Í kirkjunni munum við tjá eitthvað af þeirri reiði sem kraumað hefur í óréttlátu samfélagi okkar í langan tíma. Í kirkjunni er rúm fyrir allar tilfinningar, líka reiði. En markmiðið er að finna reiðinni góðan farveg sem leiðir til réttlætis.

Nánar

Reiðimessumyndbönd