Jesús bregst ekki

Jesús bregst ekki

Smám saman rann það upp fyrir þeim að dauði, ógn og eyðing á ekki síðasta orðið. Sá sem dauðinn virtist hafa yfirbugað – hafði yfirbugað dauðann. Tóma gröfin var vísbending um sigur Guðs. Myrkur vonleysis vék fyrir ljósi trúar og fullvissu. Myrkur föstudagsins langa vék fyrir ljósi páskasólar.

Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“

Þeir segja við hann: „Við komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert. Þegar dagur rann stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki að það var Jesús. Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þið nokkurn fisk?“

Þeir svöruðu: „Nei.“

Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn og þið munuð verða varir.“ Þeir köstuðu og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar Símon Pétur heyrði að það væri Drottinn brá hann yfir sig flík - hann var fáklæddur - og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum.

Þegar þeir stigu á land sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.

Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum sem þið voruð að veiða.“

Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki þótt þeir væru svo margir.

Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.Jóh 21.1-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Í dag er áttundi dagur páska eða átti dagur páska.

Með áttadegi páska lýkur páskahátíðinni sjálfri en gleðidagarnir halda áfram og kveðjan hljómar: Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Guðspjall áttadags páska bendir til að gleði páskanna og vissa hafi lengi verið að búa um sig í hugum lærisveina Jesú og efinn hafi átt þar stórt rými.

Guðspjallið birtir að lærisveinarnir hafi ekki látið sannfærast af atburðum páskadagsins heldur haldið heim á leið, norður til Galileu, og ákveðið að taka upp fyrri iðju og fara út að fiska.

Þeir höfðu yfirgefið þá atvinnu sína um þrem árum fyrr þegar Jesús, farandprédikarinn ókunni, hafði kallað þá frá vinnu sinni og til fylgdar við sig. Þeir höfðu fylgt honum í þeirri trú að hann væri konungur kominn til að sigra.

Vonbrigðin sem þeir urðu fyrir á Golgata bjuggu enn í hugum þeirra.

Ljós páskasólar var ekki tekið að skína í hjörtum þeirra. Þar ríkti enn myrkur efa og vonleysis.

Þeir lögðu net sín um nóttina en fengu engan fisk.

Þegar þeir halda til lands um morguninn stendur ókunnur maður á ströndinni og biður þá um fisk. Hann hafa þeir engan en ókunni maðurinn skipar þeim að kasta netinu hægra megin við bátinn.

Þetta er undarleg skipun. Fiskur veiðist á nóttunni þarna suður frá og ef fiskur fæst ekki um nótt er hæpið að hann láti sjá sig þegar dagur er á lofti og síst uppi við landsteina.

En eitthvert vald fylgir orðum ókunna mannsins og þeir fara að orðum hans. Og þá gerist hið óvænta. Þeir fylla net sitt og eiga í erfiðleikum með að draga það til lands.

Þá rennur upp fyrir lærisveinunum að ókunni maðurinn á ströndinni er Drottinn.

Þeir urðu óttaslegnir, einkum þó Pétur. Það var ekki langt liðið frá því er hann hafði þrisvar afneitað Jesú. Var hann nú kominn til að láta hann kenna á því, gjalda fyrir aumingjaskap sinn og hugleysi? Var nú hinn upprisni Kristur kominn til að ávíta hann fyrir trúleysið, heigulskapinn?

En það gerðist ekki. Þegjandi og hljóðalaust útbjó Drottinn þeim máltíð og gaf sínum óttaslegnu lærisveinum brauð og fisk. Þeir höfðu viljað flýja vettvang atburðanna og gleyma því sem hafði gerst.

En hinn upprisni Kristur gleymdi þeim ekki heldur leitaði þá uppi.

Þótt þeir reyndu að flýja hann og köllun hans kom hann til þeirra þar sem þeir voru og kallaði þá enn og aftur til að þjóna sér og vitna um sig.

Þeir brugðust. Hann brást ekki.

Þeir reyndu að flýja. Hann leitaði þá uppi.

Og smám saman rann upp fyrir þeim gildi þeirra atburða sem orðnir voru.

Smám saman rann það upp fyrir þeim að dauði Krists á krossi var sigur yfir dauðanum og öllu því sem ógnar lífinu.

Smám saman rann það upp fyrir þeim að dauði, ógn og eyðing á ekki síðasta orðið.

Sá sem dauðinn virtist hafa yfirbugað – hafði yfirbugað dauðann.

Tóma gröfin var vísbending um sigur Guðs.

Myrkur vonleysis vék fyrir ljósi trúar og fullvissu.

Myrkur föstudagsins langa vék fyrir ljósi páskasólar.

Ljós og myrkur, trú og efi.

Þarna eru andstæður á ferðinni sem svo oft koma saman í hugskoti okkar hvers og eins.

Hvenær er trúin svo sterk að efinn eigi þar ekki rúm?

Hvenær er ljósið í sálunni svo sterkt að allt myrkur, allir skuggar, hverfi? Í hverjum heilbrigðum manni eiga sér stað átök, barátta, milli trúar og efa, milli ljóss og myrkurs.

Sú barátta er nauðsynleg til að maðurinn, manneskjan, þroskist og eflist að vilja og kjarki.

En efi er meira en hugrænt ástand, meira en ástand hugar og skilnings.

Efi, líkt og trú, er líka málefni hjartans, okkar innstu veru.

Og þegar efi nær tökum á hjartanu og ætlar að slökkva ljósið sem þar skín megum við ekki láta hann verða að lífsafstöðu okkar heldur beita honum í þeirri trú að það er til leið út úr ógöngum.

Þegar ljósið virðist hverfa og myrkrið sverfa að verðum við að muna að við skynjum myrkrið og skuggana vegna vitundarinnar um ljósið.

Og yfir okkur öllum vakir Guð. „Þú umlykur mig á bak og á brjóst,“ segir sálmaskáld Biblíunnar.

Sú návist getur vissulega dæmt okkur og sýnt okkur hversu skammsýn við erum.

Jesús kunngjörir okkur að návist Guðs er frelsandi nálægð.

Því að Jesús er ásjóna Guðs.

Hann leitaði uppi hrædda, áhyggjufulla, vonlitla lærisveina og fann þá. Og hann fann þá ekki til þess að bera þeim dómsorð eða ávítur heldur til að leiðbeina og hvetja með stillingu. Sjá, ég hef nýtt í huga, sagði hann. Það er leið til úr öllum ógöngum ef þið reiðið ykkur á návist mína til góðs.

Og einmitt ykkur vil ég nota sem verkfæri mín.

Í öllum aðstæðum lífs okkar er Jesús nærri. Og þegar myrkrið er dimmast, áhyggjan og þjáningin sárust ber hann okkur á örmum sér: „Þá varstu sjúkur, blessað barn, þá bar ég þig á herðum mér.“

Þannig sungum við í sálminum áðan.

Í öllum hremmingum lífs okkar megum við ekki láta bugast og ekki láta áhyggjur og efa ná tökum á okkur. Það getur vissulega orðið vetur í hjörtum okkar. En bænina heyrir Jesús þegar við biðjum hann að láta góð sáð vonar og trausts lifa í sálum okkar svo að við beitum dómgreind okkar og skynsemi til réttrar áttar og horfum fram á við í von, fram til vorsins, í ljósi páskasólar.

Við höfum Íslendingar í sögu okkar oft lifað hamfarir, harðindi og þrengingar bæði af völdum náttúrunnar og af mannavöldum.

Hremmingarnar sem yfir okkur dynja nú eru ekki af völdum blindra náttúruafla.

Hremmingarnar nú eru af völdum manna. Í góðærinu gleymdum við þeirri hagfræði sem Jósef beitti forðum og fólst í að nota góðu árin til að safna forða til vondu áranna sem óhjákvæmilega koma. Í stað nægjusemi og hófsemi lifðum við eftir lögmálinu að framleiðsla og eyðsla jarðneskra gæða væri tilgangur og ánægja lífsins.

Það lögmál kemur okkur nú í koll enda lögmál sem ræktar eigingirni og græðgi. Gegn því lögmáli stendur lögmál skaparans sem segir: Elska skalt þú! Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllum kröftum sálar þinnar! Elska skalt þú náunga þinn eins og sjálfan þig!

En þetta boðorð stendur ekki sem skipunin tóm.

Guðs orð er ekki aðeins lögmál, boð og bönn.

Guðs orð er fyrst og fremst gleðiboðskapur, fyrirheit, fagnaðarerindi Guðs sem segir: Ég er með þér, ég ann þér.

Skipunin um að elska byggist á fyrirheitinu um náð.

Við hvert og eitt af okkur segir Jesús: Þú ert dýrmætt barn mitt sem ég vil annast.

Hann hefur gefið okkur samvisku og hann vill upplýsa samvisku okkar með orði sínu bæði boðorði þess og fyrirheiti.

Okkur kann að finnast við standa í sömu sporum og lærisveinarnir forðum, hnípin, full af efa, áhyggju og kvíða. Net okkar er tómt. Við komum að landi með engan afla.

Á ströndinni stendur Jesús, ekki sem dómari, heldur sem hjálpari.

Hann hvetur okkur til leggja net okkar hinum megin við bátinn.

Þar er fisk að finna. Þar er björg að fá.

Á Golgata virtist myrkur og dauði hafa sigrað.

En sigurvegarinn er Kristur. Hann vann sigur á dauðanum með dauða sínum.

Sá sigur veitir okkur von og ljós, þrek og þor til að vinna að framgangi lífgefandi krafta fyrirgefningar, sátta og kærleika.

Tökum undir sigursöng páskanna og látum hann aldrei hljóðna. Gerumst boðberar vonarinnar í umhverfi okkar:

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.

Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.