Þorðu að efast

Þorðu að efast

Þolir trú nokkuð efa? Er það ekki markmið trúmannsins að útrýma efanum? Eða eigum við kannski að efast um slíkan efa?

Sjálfstæð hugsun Eitt merkasta tímabil í sögu vestrænnar menningar er Upplýsingartímabilið. Þá var lagður grunnur að nútímavísindum. Margt var sagt og skrifað á því tímabili og fáa tel ég betur túlka erindi eða stefnu upplýsingarinnar en heimspekinginn Immanuel Kant. Hann er einn merkasti hugsuður síðustu alda. Íbúarnir í Königsberg, þar sem hann bjó, vissu hversu nákvæmur Kant var og stilltu jafnvel klukkur sínar eftir gönguferðum hans! Bækur hans eru enginn skyndibiti og verða eru ekki lesnar í hasti. En lestrarlaunin eru jafnan mikil. Ég hvet til lesturs Kantsbóka!

Í samhengi guðspjallsins langar mig að minna á tvö orð úr einni ritgerð hans, sem heitir Hvað er upplýsing. Ég man enn þremur áratugum frá fyrsta lestri hvað þessi ritsmíð var áhugaverð og hvernig þessi tvö orð brenndust í vitundina. Sapere Aude skrifaði Kant, en hvað þýða þau orð? Þorðu að hugsa, hugsaðu sjálfur eða sjálf. Og meiningin er auðvitað, að enginn annar ætti að hugsa fyrir fólk. Boðskapur Kants er, að við erum öll kölluð til að hugsa sjálfstætt. Það merkir ekki, að við eigum ekki að hlusta á aðra. Við eigum svo sannarlega að hlusta á fólk, hlusta á það sem vel er ígrundað og læra af því. Sapere Aude þýðir líka, að við eigum ekki að hlýða neinu valdi bara af því að það hefur vald. Við eigum ekki að láta þrællyndi og þjónkun stýra hugsun eða atferli okkar. Við eigum aðeins að trúa því, sem við vitum best og réttast.

Sapere Aude, þorðu að hugsa þitt. Þetta er arfur upplýsingarinnar, þetta er leiðarhnoð vísinda, þetta er eitt dýrasta djásn vestrænnar menningar og hefur haft blessunaráhrif á allar greinar mannvísinda.

Þorðu að hugsa, þorðu að efast, þorðu að skoða allt, þorðu að velta öllum steinum. Þorðu að gagnrýna hugsanir og kenningar sem þú hefur góð og gild rök gegn (Kant skrifaði ritgerðina ‘Hvað er upplýsing?’ árið 1784. Hún er prentuð í hausthefti Skírnis 1993 í þýðingu Elnu Katrínar Jónsdóttur og Önnu Þorsteinsdóttur).

Trú og efi í lífi fólks Í prestsstarfinu hef ég uppgötvað, að margir halda að trú og efi séu óvinir, halda að trúin sé alger andstæða efa og að trúmaðurinn eigi að stefna að fullkominni vissu, ef ekki um allt þá að minnsta kosti um öll helstu meginatriði himins. En slík afstaða er einfeldningsleg og rímar ekki við þekkingu okkar á manneðlinu, þekkingu almennt og alls ekki trúna. Efi hefur fylgt mönnum frá upphafi. Efinn er undursamlegur hæfileiki, sem getur hjálpað mönnum til vaxtar og þroska. Efinn er meðhjálpari allra framfara. Efinn er ljósmóðir frelsissóknar manna á öllum póstum og í öllum greinum.

En efann má misnota og gera hann að þræli. Efann má nota eins og aðra góða hæfileika til illvirkja. Sá má efa í huga fólks um það góða, elskuverða og mikilvæga og beita honum til að magna hatur og hræðslu. Efann má afvegaleiða illa. Þá er einskis góðs að vænta. Efinn má aldrei ana án íhygli og eftirþanka, prófunar og grandskoðunar.

Tómasarefinn Tómas lærisveinn Jesú efaðist. Og hver getur ekki sett sig í hans spor? Hann hafði tapað vini í dauðann. En allir, sem hafa puðað í fjallendi sorgarinnar, skilja hversu alger dauðinn er. Dáinn maður lifnar ekki. Um endanleika dauðans þarf ekki að efast.

Af frásögum guðspjallanna er ljóst, að Tómas var enginn vingull heldur staðfastur og traustur maður. Hann var með báða fætur á jörðinni en var líka hugsjónamaður, sem var reiðubúinn að fórna öryggi og jafnvel lífi fyrir málstað Jesú. En hann efaðist um efamál, efaðist með réttu. Vildi setja fingur í sár, sjá með eigin augum.

Takk fyrir efann Hinn öflugi prestur Sigurður Pálsson byrjaði fyrir nokkrum árum kyrrðarstund í Hallgrímskirkju með orðunum: “Guð, ég þakka þér fyrir efann.” Ég er sr. Sigurði sammála og segi amen við slíkri bæn. Efalaus kristindómur er hættulegur átrúnaður. Þegar efanum er úthýst úr trúarlífi nær einfeldningsleg bókstafstrú yfirhönd. Og henni fylgir alltaf einhver gerð af ofríki og oft ofbeldi. Þeir einstaklingar, hópar, samfélög og menning, sem ekki þola gagnrýnar og heillyndar spurningar, efa og umræður um túlkun og ólíkar leiðir eru á slæmri leið, á leið inn í kæfingu, þöggun, smættun og þar með dauða.

Svo er hættan líka á hinum vængnum. Það eru hinir öfgarnir. Einstaklingur, hópur, samfélag og menning sem skoppar bara á hafi efans líður undir lok. Við þörfnumst festu sem einstaklingar, hópar, þjóðfélög og menning. En tilveran er blendingur skipunar og nýsköpunar. Efinn þjónar sköpunarferlinu, er verkfæri lífsins til að vinsa vitleysurnar frá, vondar hindranir, blekkingar og lygar.

Ofstækismenn sækja alltaf að skipan og friði mannfélagsins. Öfgahópar berjast til valda á Vesturlöndum, í hinum íslamska heimi og raunar um allan heim. Efi er aldrei mikilvægari en gagnvart yfirgangi og einsýni af hvaða tagi sem er. Við verðum að spyrja um rök, stefnu, forsendur, markmið, leiðir og gildi í samfélagsefnum. Viljum við láta öfgahyggjuna breiðast út í samfélagi okkar. Nei - leyfum efanum að lifa og bregðast við.

Efi – arfurinn dýri Mér hefur verið hugsað æ oftar til upplýsingarinnar og Kants þegar ofbeldisverk öfgastjórnmála hafa æpt á okkur í fréttatímum fjölmiðlanna. Það vantar efann og hinar góðu gagnrýnandi raddir, sem spyrja og stöðva blóðhunda heimsins. Það hefur löngum verið vitað, að fæst hinna múslimsku samfélaga hafa gengið í gegnum altæka skólun efahefðar upplýsingarinnar. Þau eru ekki þjálfuð í og vön að leyfa allar heiðarlegar spurningar. Einstaklingarnir hafa ekki haft frelsi eða rými heldur til gagnrýninna og afvopnandi spurninga. Það er risastórt uppeldisverkefni framundan í hinum múslímska heimi, að kenna fólki að óttast ekki efann og rýnandi spurningar. Og það er mikilvægt verkefni ef heimsbyggðin á ekki að búa við stríð næstu hundrað árin. Hernaður vesturlandamanna í múslímskum ríkjum er ekki til hjálpar við það uppeldi, heldur þvert á móti.

Lítum okkur nær En lítum okkur nær. Verkefni okkar er hið innra og í okkar eigin samhengi. Það er áhyggjuefni ef við vesturlandabúar gleymum þeirri stefnu Kants, að við eigum að hugsa sjálf. Hin frjálsa, gruflandi og þróandi hugsun er eitt af dýrmætum okkar menningar, sem við megum aldrei gefa eftir eða uppá bátinn. Þetta er arfur, sem við trúmenn eigum líka og þurfum að minna okkur á og varðveita. Raunar eru ræturnar í gyðinglegri og grískri menningu. Jesús iðkaði og þjálfaði hinn heilbrigða efa. Hann spurði alltaf um sanleiksgildi kenninga manna og barðist einbeittur gegn vondum kerfum og venjum sem heftu líf fólks. Jesús er fyrirmynd sannleiksleitenda, sem efast um það sem kæfir og kastar því burt, en heldur hinu sem eflir.

Efi, trú og þor til þanka Hinn heilbrigði efi er nauðsyn öllum mönnum og samfélögum. Hann nýtist í vísindum, því frávik eru skoðuð til að bæta kenningar. Efinn sér frávikin og hjálpar til við endurskoðun kenninga og hefða. Í pólitíkinni þarf efinn að lifa og þöggun er óþolandi á þeim vettvangi eins og í vísindum. Í trúarlífinu má ekki heldur bæla heilbrigðan efa. Kenningar trúar, sem ekki þola spyrjandi efa eru e.t.v. áhugaverðar en kannski ekki annað en fornminjar, sem eiga best heima í safni hugmyndanna. Biblíuna eigum við ekki að gleypa alla í einu eins sagði í gömlum húsgangi. Nei, við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega. Við eigum að lesa hana með gagnrýni og heilbrigðum efa. Hið sama gildir um trúarkenningarnar. Trú getur ekki lifað þar sem nauðung og skyldutrú ríkja. Guð þarfnast ekki þess, að við pökkum honum í einhverjar auðveldlega gleypanlegar neyslupillur, sem fólk er skyldað til að taka inn. Guð er ástmögur en ekki kenningabrot eða eigum við að segja trúarpillur.

Tvær hliðar skapandi huga Ég á mér uppáhaldslíkingu af tengslum efa og trúar. Það er peningur og hliðar hans. Tíkallinn í hendi mér hefur tvær hliðar. Öðrum megin eru fjórir fiskar og svo stendur þar 10KR. Svo sný ég honum við og þar er stíliseruð mynd af skjaldarmerkinu og svo stendur ofan við merkið TÍU KRÓNUR og neðan við ÍSLAND og ártal.

Við sjáum aðeins aðra hliðina í einu og verðum að snúa við peningnum til að sjá hina hliðina greinilega. Við getum reynt að sjá báðar hliðarnar í einu, en þá sjáum við bara brot af myndinni og það m.a.s. brenglaða mynd.

Í trúnni sést önnur hlið veruleikans en á hinni hliðinni er efinn og mál efans. Tvær hliðar sama veruleika og mismunandi sjónarhorn. En svo eru margir, sem ekki þola tvíþættinguna og vilja útrýma efanum. Það er eins og að reyna að kljúfa tíkallinn og skera af honum aðra hliðina. Með því er peningurinn eyðilagður. Trú sem ekki þolir efann er á villigötum. En efi, sem ekki þolir trúna er á villigötum líka. Efinn er dásamlegur þegar hann fær að lifa í eðlilegu og heilbrigðu samhengi og líður ágætlega í skapandi víxlverkan við trúna.

Guðspjöllin greina frá, að Tómas hafi veið tvíburi. Trú og efi eru tvíburar. Efinn er bróðir trúarinnar. Í heilbrigðu trúarlífi er þor og rými til þanka. Og í heilbrigðu efalífi getur lifað traust til Guðs. Þegar efasemdamaðurinn hafði séð og var boðið að snerta kom játningin: “Drottinn minn og Guð minn!” Þannig getur góður efi snúið við blaðinu þegar tilefnið er ærið, en aðeins þá!

Amen.

Prédikun í Neskirkju, 1. sunnudag eftir páska, 30. mars, 2008. A-röð.   Lexían: Jes 43.8-13

Færið fram hina blindu þjóð sem þó hefur augu og hina heyrnarlausu menn sem þó hafa eyru. Allar þjóðir skulu safnast í einn hóp og lýðirnir koma saman. Hver þeirra gat boðað þetta og skýrt oss frá því sem varð? Leiði þeir fram vitni sín og færi sönnur á mál sitt svo að þeir sem heyra segi: „Þetta er rétt.“ Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn, þjónn minn sem ég hef útvalið svo að þér vitið og trúið mér. Skiljið að ég er hann.

Enginn guð var myndaður á undan mér og eftir mig verður enginn til. Ég er Drottinn, ég einn, og enginn frelsari er til nema ég. Það var ég sem boðaði, frelsaði og kunngjörði þetta en enginn framandi guð á meðal yðar. Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn, að það er ég sem er Guð. Héðan í frá er ég einnig hinn sami, enginn hrifsar neitt úr hendi minni, ég framkvæmi, hver fær aftrað því? 

Pistill: 1Jóh 5.4-12 Því að sérhvert barn Guðs sigrar heiminn og trú okkar er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn. Hver er sá sem sigrar heiminn nema sá sem trúir að Jesús sé sonur Guðs? Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu eingöngu heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar því að andinn er sannleikurinn. Þrír eru þeir sem vitna í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni: Andinn og vatnið og blóðið og þeim þremur ber saman. Við tökum manna vitnisburð gildan en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs sem hann hefur vitnað um son sinn. Sá sem trúir á son Guðs hefur vitnisburðinn innra með sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gert hann að lygara af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð sem Guð hefur vitnað um son sinn. Og þetta er vitnisburðurinn: Guð hefur gefið okkur eilíft líf og þetta líf er í syni hans. Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki á son Guðs á ekki lífið.

Guðspjall: Jóh 20.19-31

Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: „Friður sé með yður!“ Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ Og er hann hafði sagt þetta andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar fyrirgefur Guð þær. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar synjar Guð þeim.“ En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“ En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“  Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“ Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“ Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“ Jesús gerði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni.