Birta nándarinnar

Birta nándarinnar

Út í birtuna er innihaldsrík, falleg og eiguleg bók sem færir sögur Biblíunnar, bæði þær sem við þekkjum svo vel og miklu fleiri sem hafa fengið minni athygli, nær daglegri reynslu og lífinu í samtímanum. Hún höfðar á fallegan hátt til tilfinninga og skynjunar og er trúuðum góð leiðsögn í gleði og sorg.

Út í birtuna

Það var gaman að fá Út í birtuna – hugvekjur í máli og myndum í hendurnar. Og gleðin dalar ekki þegar blaðað er í þessari fallegu, nýju, íslensku bók eftir guðfræðiprófessorinn Arnfríði Guðmundsdóttur og listakonuna Æju, Þóreyju Magnúsdóttur. Bókin inniheldur 52 hugvekjur Arnfríðar út frá ritningartextum með myndum Æju. Textarnir eru valdir úr hinum ýmsu bókum Biblíunnar, bæði úr Gamla og Nýja testamentinu en fylgja ekki sérstakri röð.

Biblíutextarnir sjálfir eru mislangir og hugleiðingar Arnfríðar sömuleiðis en þær eru allar mjög aðgengilegar til lesturs. Markmið bókarinnar er að „túlka boðskap Biblíunnar í þeim tilgangi að gera hann aðgengilegri“ eins og segir í formálanum. Höfundar leggja upp með þá stöðu Biblíunnar í menningu okkar að hún sé ekki eingöngu trúarlegt rit heldur hafi haft djúpstæð á sögu, menningu og lagaramma þjóðarinnar, í mun lengri tíma en íslensk þýðing Biblíunnar hefur verið aðgengileg á prenti, sem fyrst var árið 1584.

Bókin hvílir mjög á samstarfi höfundanna tveggja og ber útkoman samstarfinu gott vitni. Það er mikil túlkun bæði í textum Arnfríðar og í myndum Æju og það er gaman að hvíla til skiptis í hinu skrifaða máli og í litríkum heimi myndverkanna. Hvoru tveggja leiðir lesandann á óvæntar og auðgandi slóðir og uppfyllir auðveldlega fyrirheit um að gera sögur Biblíunnar aðgengilegri nútímalesanda.

Í hugleiðingunum talar Arnfríður með röddu þess sem ráðleggur, leiðbeinir og hughreystir, með því að leggja út af lærdómum ritningargreinanna. Sálgæslu- og hvatningarbókmenntir af þessu tagi eiga sér langa hefð innan kristinnar trúarhefðar – og það er vitaskuld afar áhugavert að greina hvers konar guðsmynd og hvaða mannskilningur liggur að baki hinnar trúarlegu hvatningar.

Ef skilgreina ætti guðfræði Út í birtuna, þá er áherslan á nánd Guðs við manneskjuna í öllum hennar aðstæðum rauði þráðurinn í gegnum hugleiðingar Arnfríðar. Ekki ætti koma á óvart að henni eru hugleiknir textar sem draga fram móðurlega eiginleika Guðs. Hún leggur fallega út af þeim, eins og í þessari hugleiðingu út frá 66. kafla Jesaja á bls. 106:

Við skulum hugsa um kærleika Guðs, um umhyggju Guðs fyrir okkur, eins og móðurástina. Kannski munum við eftir þeirri huggun sem við sóttum í móðurfaðm. Kannski eigum við lítil börn sem sækja huggun til okkar. Þannig vill Guð mæta okkur; eins og móðir sem breiðir út faðminn á móti barni sínu; eins og móðir sem býður barni sem leitar huggunar brjóst sitt; eins og móðir sem leitast við af öllum mætti að mæta þörfum barnsins, að hugga það og styrkja, uppörva og hvetja.

Hér er það hin milda nánd og aktíva umhyggja Guðs sem skín í gegn, eins og hún gerir í foreldri-barn myndlíkingunni um samband Guðs og manneskju er gegnum gangandi í hugleiðingunum. Á einstaka stað skín í gegn svolítið gamaldags en lífseig nálgun í kristinni guðfræði sem gerir mikið úr ófullkomleika, breyskleika og smæð manneskjunnar gagnvart því að vera manneskja. Þessi nálgun talar manneskjuna niður að mínu mati – þótt það sé jafnvel ekki meðvitað af hálfu höfundarins. Dæmi um þetta er t.d. á bls. 79 þar sem segir um kærleika Guðs til manneskjunnar:

Kærleikur Guðs er ekki eitthvað sem við öðlumst vegna þess að við eigum hann skilið. Guð elskar okkur af því að við erum sköpun Guðs.

Hér sakna ég að Arnfríður taki sér skýrari stöðu með manneskjunni eins og hún er – góð sköpun Guðs sem er einmitt elskuð af því að hún er eins og hún er – en ekki þrátt fyrir að vera eins og hún er.

Vegna þess hve yfirgripsmikil bókin er og rík af ritningartextum sem lagt er út af í máli og myndum, hefði þurft að auðvelda lesendum að fletta upp á einstaka textum. Listi með slíkum tilvitnunum hefði óneitanlega gert verkið enn aðgengilegra. Það hefði líka skerpt á boðskapnum að hafa yfirskrift á hverri hugleiðingu sem hnykkir á nálgun höfundarins og dregur fram aðalatriði sem lesandinn getur tekið með sér út í daginn.

Út í birtuna er innihaldsrík, falleg og eiguleg bók sem færir sögur Biblíunnar, bæði þær sem við þekkjum svo vel og miklu fleiri sem hafa fengið minni athygli, nær daglegri reynslu og lífinu í samtímanum. Hún höfðar á fallegan hátt til tilfinninga og skynjunar og er trúuðum góð leiðsögn í gleði og sorg. Hún er sannarlega þess virði að rata í marga gjafapakka árið um kring – því hvað er betra en að gefa ástvinum fallega, uppbyggilega og nærandi bók sem tengir okkur við sígilda uppsprettu kærleika og visku?