Fátækt barna á Íslandi

Fátækt barna á Íslandi

Kaupmáttur og lífsgæði almennings á Íslandi í dag eru með því besta sem gerist í heiminum samkvæmt könnunum. Kannski er farsælasta fjárfestingin í dag að gefa börnunum tíma.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
20. desember 2006

Þingskjal 613 á haustþingi Alþingis inniheldur skýrslu forsætisráðherra um fátækt barna og hag þeirra. Sú lesning er býsna fróðleg, plaggið vel unnið og ýmislegt jákvætt þar að finna um stöðu íslensks samfélags.

Vandasamt getur reynst að nálgast viðfangsefni fátæktar því afstætt getur verið hvað felst í því að vera fátækur. Í skýrslunni kemur fram að mikilvægt er að gera sér grein fyrir því: „...að innan vissra marka þarf ekki að vera samsvörun milli lágra tekna foreldra og þess að börn líði skort. Margir foreldrar leggja hart að sér fyrir börnin sín. Þá geta börn liðið skort þótt foreldrarnir hafi nægar tekjur.“ Eins og segir í einum kafla skýrslunnar.

Aðferðarfræðin Í skýrslunni er notast við aðferðarfræði OECD um mælingu á fátækt. Þar er miðað við ráðstöfunartekjur fólks. Miðgildi tekna og ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eru síðan hjálparhugtök til að finna út sem réttasta niðurstöðu.

Með þessari aðferðarfræði verður að öllum líkindum alltaf svo að einhverjir lenda í þeim flokki að vera fátækir alveg sama hvernig haldið er á málum þjóðfélagsins. Því fólk með lægstu launin eru lengst frá miðgildinu sem samkvæmt aðferðarfræðinni flokkar það fólk í hópi fátækra. Aðferðarfræðin tónar því við orð Jesú Krists í Matteusarguðspjalli, er hann svarar gagnrýni á meðferð dýru smyrslanna, sem einhverjir vildu selja og gefa andvirðið fátækum: „Fátæka hafið þér jafnan hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.“ (Mt. 26:11) Þrátt fyrir þau orð frelsarans ber samfélagi okkar að bregðast við af festu og koma til móts við þá sem minnst hafa úr að spila.

Þess má geta að samkvæmt skýrslunni „...hafa fátækramörkin hækkað um næstum því 50% að raunvirði milli áranna 1994 og 2004.“ Það er vegna þess að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa aukist á síðustu árum. Það segir manni að ráðstöfunartekjur þeirra sem flokkast fátækir í dag eru meiri en þeirra sem voru í sama hóp hér á landi fyrir tíu árum. Fátækt í þessum skilningi er því mjög afstæð og snertir því að sumu leyti neysluhyggjuna í samfélaginu, aga og forgangsröðun fólks.

Áhrifaþættir Nokkrir þættir skýra að mestu mælda fátækt barna. Aldur foreldra og hjúskaparstaða þeirra virðist hafa áhrif á fjárhagsstöðu barnanna. Fátækt mælist hlutfallslega mest hjá einstæðum foreldrum, sem eru innan við tvítugt. Skýrslan leiddi einnig í ljós að fátækt var í flestum tilfellum tímabundið ástand. Þrír af hverjum fjórum sem mældust fátækir árið 2000 voru það ekki lengur árið 2004. En í ljósi þess að einn af hverjum fjórum þarf að glíma við fátækt til lengri tíma sinna þjónustumiðstöðvar mikilvægu hlutverki til aðstoðar og leiðbeiningar. Þjónustumiðstöðvar sveitafélaga þurfa því að standa styrkum fótum í þeirri þjónustu sinni.

Alþjóðlegur samanburður Erfitt er að meta og mæla fátækt með áreiðanlegum hætti og bera saman á milli landa. Hins vegar er það niðurstaða skýrslunnar að draga megi þá ályktun að Ísland sé í hópi þeirra OECD ríkja þar sem fátækt mælist hvað minnst.

Það er þrátt fyrir það óviðunandi að börn á Íslandi búi við fátækt. Við þeirri staðreynd þarf að bregðast með ábyrgum hætti svo börn á Íslandi þurfi ekki að líða skort. Margt í skýrslunni virðist benda til vænlegrar stöðu íslensks samfélags, en betur má efa duga skal.

Vítahringur fátæktar? Hvað er til ráða? Til að mæta fjárhagslegri fátækt þurfa foreldrar í auknum mæli að sækja út á vinnumarkaðinn og spurningin vaknar hvort íslenskar fjölskyldur séu sumar hverjar fastar í vítahring fátæktar? Við þeirri spurningu á ég ekki einhlýtt svar en mér finnst líklegt að sumir finni sig í þeim aðstæðum. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess hve neysluhyggja virðist ráðandi í samfélaginu.

Kaupmáttur og lífsgæði almennings á Íslandi í dag eru með því besta sem gerist í heiminum samkvæmt könnunum. Kannski er farsælasta fjárfestingin í dag að gefa börnunum tíma. Því börnin verða ekki að eilífu börn. Þau verða komin á legg og orðin fullorðin og verða mörg foreldrar sjálf áður en við vitum af.

Varðandi fátækt eða auðlegð komandi kynslóða velti ég fyrir mér hverjir það séu í dag sem sinna fjármálaráðgjöf, og leiðbeina fólki með lántöku og greiðslubyrgði. Að mestu eru það bankarnir sem sinna því hlutverki og þeirri menntun þjóðarinnar. Þeir hafa staðið sig vel í útrás sinni. Kannski þurfa fleiri að koma að þeirri fræðslu og þjónustu. Kannski ætti kirkjan eða félagsþjónusta sveitarfélaga að sinna þeim vettvangi meira en gert hefur verið, það er þeim vettvangi að fræða, kenna og veita jafnvel fyrirgreiðslu með öðru móti en veitt er í dag.

Það er hagsmunamál fyrir bankana að fólk taki lán og standi að sjálfsögðu í skilum, borgi vexti og kannski dráttarvexti. Ég velti því fyrir mér hvort það að láta bönkunum eftir svo stóran þátt í menntun og þjónustu við almenning, hvort það sé ekki eins og að senda ref inn í hænsnabúið að sækja eggin?