Náð og friður

Náð og friður

Náð er stutt orð, einsatkvæðisorð, sem felur þó svo mikið í sér. Það er náð þegar okkur er mætt með mildi en ekki hörku, þegar horft er framhjá misfellum, mistökum og misbrestum, þegar við erum meðtekin og elskuð þrátt fyrir það sem betur má fara.

Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: „Friður sé með yður!“ Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ Og er hann hafði sagt þetta andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar fyrirgefur Guð þær. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar synjar Guð þeim.“

En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“ En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“ Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“ Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“ Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“

Jesús gerði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni. Jóh 20.19-31

Flestar prédikanir í íslenskum kirkjum hefjast á þessum dásamlegu orðum. Náð og friður. Hver vill ekki verða þess aðnjótandi?

Náð er stutt orð, einsatkvæðisorð, sem felur þó svo mikið í sér. Það er náð þegar okkur er mætt með mildi en ekki hörku, þegar horft er framhjá misfellum, mistökum og misbrestum, þegar við erum meðtekin og elskuð þrátt fyrir það sem betur má fara.

Hver þarfnast ekki náðar?

Sömuleiðis viljum við njóta friðar og getum sannarlega þakkað fyrir að búa í landi þar sem friður hefur ríkt svo lengi. Það er ekki sjálfgefið. Víða í veröldinni æðir ófriður milli þjóða, þjóðflokka eða hagsmunahópa.

En þótt ekki sé barist með vopnum í nánasta umhverfi okkar, er því miður ekki sjálfgefið að við njótum friðar. Erill og asi samtímans, spenna og kröfur umhverfisins, óuppgerð mál í eigin sál eða samskiptum við aðra – allt þetta og fleira til stuðlar að ólgu og ófriði hið innra með okkur.

Hvergi ber meira á slíku en þar sem velmegun ríkir. Þar sem ytri þarfir hafa verið uppfylltar svo rækilega að ofgnótt er nærtækari en skortur – einmitt í þeim samfélögum verður innri tómleiki og andlegt hungur svo áberandi, svo æpandi.

Lífsleiði ungs fólks á Vesturlöndum er vaxandi vandamál og áhyggjuefni. Ekkert skortir þó á varðandi grunnþarfirnar, svo sem fæði, klæði og húsnæði. Tækifæri ungs fólks í þessum heimshluta varðandi menntun og starfssvið eru líka fleiri og meira spennandi en nokkru sinni fyrr. Framtíðin ætti að vera svo opin og björt.

Samt er of oft eins og eitthvað vanti, einhverja kjölfestu eða lífsfyllingu. Það þarf sterk bein til að þola góða daga.

Við vitum líka vel að innri friður og hugarró fæst ekki keypt fyrir öll heimsins auðæfi. Það er reynsla margra og á öllum tímum. Strax á 4. öld er sagt frá ungum manni sem reyndi að höndla gæfuna með frama, auðssöfnun, lúxuslífi og lystisemdum. Að endingu orðaði hann niðurstöðu sína á þessa leið: „Hjarta vort er órótt uns það hvílist í þér, ó, Guð.“ Síðar varð þessi ungi maður þekktur sem Ágústínus kirkjufaðir, einn merkasti leiðtogi fornkirkjunnar.

Vissulega voru ekki allir sammála honum. Trúleysi var til á dögum hans, rétt eins og á tíma postulanna og á öllum öldum, fyrr og síðar. Það er ómerkileg staðreyndafölsun þegar því er haldið fram að trúleysi sé eitthvað nútímalegra eða vísindalegra en trú. Hvort tvegga er trúarleg afstaða sem mannkynið hefur þekkt og glímt við frá örófi alda.

Stundum er það ekki annaðhvort eða – heldur bæði og. Innra með mörgum er spenna milli trúar og vantrúar. Hún kristallast í orðum mannsins sem sagði við Jesú: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni“ (Mark. 9:24).

Því fer nefnilega víðs fjarri að öll samtíð Jesú hafi trúað á hann. Auðvitað var allra erfiðast að trúa upprisunni. Þess vegna leggja guðspjöllin megináherslu á dauða og upprisu Jesú. Þau eru skrifuð til að vekja trú, eins og kemur fram í guðspjalli dagsins (v. 31).

Þar segir frá því þegar Jesús birtist lærisveinum sínum tvisvar í röð eftir upprisuna. Í bæði skiptin flutti hann þeim friðarkveðjuna: „Friður sé með yður“ (Jóh. 20:21 og 26B).

Orðum hans fylgdi friður. Lærisveinarnir vissu að sá friður er einstakur. Stuttu fyrir krossfestinguna hafði Jesús einmitt sagt við þá: „Minn frið gef ég yður...Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“ (Jóh. 14:27).

Nú stóð hann hjá þeim, upprisinn, og ekki einungis boðaði þeim frið heldur gaf þeim frið í hjörtun.

Þessa friðarkveðju fengu auðvitað þeir einir sem voru viðstaddir þegar Jesús birtist. Tómas var ekki með í fyrra skiptið. Hann fór á mis við kveðjuna og friðinn sem fylgdi.

Þess vegna leið honum illa. Hann gat ekki samsamað sig reynslu félaganna sem sögðust hafa mætt Kristi upprisnum. Orð þeirra nægðu honum ekki. Hann varð sjálfur að sjá, snerta og reyna.

Það er fullkomlega eðlilegt. Ekkert okkar getur lifað á trú annarra eða trúað fyrir orð annarra.

Iðulega er talað um Tómas sem hinn efagjarna. Hann var þó bara ósköp svipaður okkur hinum sem látum ekki segja okkur hvað sem er, okkur sem viljum standa á traustum grundvelli í andlegum efnum en ekki elta hvaða bágbiljur sem haldið er fram.

Fyrr í Jóhannesarguðspjalli kemur fram að Tómas er spyrjandi og alvarlega þenkjandi. Hann er reiðubúinn að ganga í dauðann með Jesú (Jóh. 11:16) og þegar Jesús fer að tala um að fara á undan lærisveinunum til Guðs föður, vill Tómas fá að vita hvert nákvæmlega Jesús er að fara og hvernig lærisveinarnir eigi að komast þangað (Jóh. 14:5).

Tómas vill hafa sitt á þurru. Viðbrögð hans við frásögn hinna postulanna eru yfirveguð: Ég get ekki trúað þessu nema Jesús mæti mér sjálfur og svari spurningum mínum.

Ekkert okkar ætti að trúa öðrum í blindni og allra síst í þeim málum sem mestu varða.

Tómas þurfti þess ekki. Jesús er Drottinn kærleikans og umburðarlyndisins. Hann hrekur ekki hinn efagjarna á brott heldur vill mæta honum, eyða efa hans og styrkja trú hans. Hann kom aftur til postulanna, að því er virðist gagngert til að svara spurningum Tómasar og styrkja trú hans.

Tökum vel eftir því að Jesús mætti Tómasi ekki í einrúmi heldur í postulahópnum, í samfélagi lærisveinanna. Þar hefur Jesús reyndar lofað sérstaklega að vera, alltaf. Hann sagði: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra“ (Matt. 18:20).

Það er eitt meginstefið í boðskap dagsins. Hinn upprisni Jesús er sjálfur þar sem við komum saman í nafni hans.

Stundum finnum við mjög sterkt fyrir nálægð Guðs í sköpunarverkinu, t. d. á fallegum dögum úti í náttúrunni eða með nýfætt barn í höndum.

Stundum eigum við heilagar stundir í einrúmi og finnum Anda Guðs tala til okkar gegnum bænina eða við lestur Biblíunnar.

Já, stundum. En við getum treyst því að Jesús er alltaf mitt á meðal þeirra sem koma saman til að rækja kristið samfélag. Það er hvorki háð aðstæðum né stemmningu heldur loforð hans sjálfs, loforð sem hann heldur.

Kristin trú er fyrst og fremst samfélag við upprisinn frelsara okkar, Jesú Krist. Við vitum að við þurfum að halda áfram að eiga samskipti við kunningja og vini ef vináttan og kunningsskapurinn á ekki að fjara út. Eins þurfum við að rækja áfram samfélag við Drottin okkar til að trúin lifi og dafni með okkur á lífsgöngunni.

Barnatrúin er mörgum dýrmæt. Það er vissulega yndislegt að eiga hana áfram á fullorðinsárunum. Enn betra er þó þegar trúin fær að þroskast með okkur og vera hluti af daglegu lífi alla ævi.

Það gerist einmitt í samfélagi kirkjunnar.

Við erum svo lánsöm, Íslendingar, að eiga greiðan aðgang að kirkjum. Hér á landi skipta þær hundruðum og í þeim öllum er flutt fagnaðarerindi vonarinnar, orð náðar og friðar – en ekki það eitt: Í þeim öllum er hinn upprisni sjálfur, reiðubúinn að mæta okkur, styrkja trú okkar og svara efasemdunum. Hann krefur okkur ekki um gallalausa trú eða fullkomið líferni heldur væntir þess að mega mæta okkur eins og við erum, eins og við hugsum, eins og við höfum lifað. Ef við mætum honum með opnum huga mun hann vinna verk sitt í hjörtum okkar, verk náðar sinnar og friðar síns.

Nýlega bárust fréttir af því að loka ætti nokkrum kirkjum í Kaupmannahöfn. Þetta er ekkert einsdæmi. Áður hafa kirkjur í öðrum evrópskum borgum hreinlega dáið og verið aflagðar. Kirkjuhúsið er ekki annað en ytri umgjörð um starf og samfélag. Ef það verður að engu, er auðvitað engin þörf fyrir húsið.

Það er líklega engin tilviljun að um svipað leyti var einnig greint frá því að ótrúlega stór hluti dönsku þjóðarinnar tryði á stjörnuspár og tilvist drauga.

Af þessu er ljóst að trúarþörf Dana er ekki horfin en hún virðist beinast í auknum mæli út fyrir kirkjuna.

Á tímum kommúnismans í Austur-Evrópu var reynt að bæla trúna niður með valdboði. Það tókst ekki. Trúarþörf virðist fólki eðlislæg og finnur sér alltaf farveg.

Frakkar státa sig af því að hafa aðskilið ríki og kirkju fyrir langalöngu. Kristin trú fær lítið svigrúm í opinberu lífi en þar með er ekki sagt að fólkið sé trúlaust. Ýmiss konar hjátrú lifir góðu lífi. Í liðinni viku var t. d. fullyrt í íslenskum fjölmiðli að landsliðsþjálfari Frakka í knattspyrnu hefði á sínum tíma ekki valið tiltekinn leikmann í landsliðið þótt flestir teldu hann eiga heima þar. Ástæða? Umræddur leikmaður var í röngu stjörnumerki!

Er það ekki svolítið mótsagnakennt að geta ekki trúað á upprisu Jesú en líta samt svokallaða andlega leit jákvæðum augum? Það er jafnvel talið samboðið vel upplýstu nútímafólki að kyngja mun ótrúlegri hlutum en upprisunni.

Já, oft er leitað langt yfir skammt því enginn annar en Jesús gefur náðina og friðinn sem við þráum öll.

En sumum þykir fínna að afskrifa kristnina og sniðganga kirkjuna. Til eru ótal afsakanir fyrir því að rækja ekki kristið samfélag. Formið er þunglamalegt, fólkið ekki spennandi, prestarnir leiðinlegir. Heyrst hefur að prestar séu ósýnilegir sex daga vikunnar og óskiljanlegir þann sjöunda!

Hún lýsti þessu þó vel, konan sem sagðist fara í kirkjuna sína óháð prestinum og söfnuðinum því hún færi þangað til að hitta Jesú. Það er rétta hugarfarið.

Auðvitað er þetta allt fyrst og fremst háð viðhorfi og afstöðu okkar sjálfra. Það ræður svo miklu um hvað verður okkur til gagns og gæfu.

Það er mjög ólíklegt að Tómasi hafi fundist neitt sérlega ánægjulegt að vera með hinum lærisveinunum eftir að þeir höfðu mætt Jesú upprisnum en hann ekki. Hann gerði það samt – og sá aldrei eftir því. Það breytti lífi hans!

Þetta var „örlagadagurinn“ í lífi Tómasar en fyrirfram bjóst hann örugglega ekki við neinu slíku! Eins og komið var langaði hann afar lítið til að hitta lærisveinahópinn. Samt varð það honum til ómældrar blessunar.

Tómas er ekki einn um þá reynslu. Við vitum aldrei fyrirfram hvenær það breytir lífi okkar til góðs að rækja samfélag kirkjunnar og leggja þannig rækt við trúna. Með því að vanrækja samfélag kirkjunnar getur hent að við förum á mis við blessunina.

Í samfélagi kirkjunnar erum við öll á sama báti – með öllum hinum sem leita, spyrja, vilja trúa; öllum hinum sem tekst stundum og stundum ekki, trúa stundum mikið en efast stundum meira. Öllu skiptir að kirkjan snýst um Jesú.

„Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó“ sagði Jesús við Tómas (v. 29B). Þar átti hann við alla kirkju sína á öllum öldum eftir daga postulanna, þar með okkur. Kristin kirkja er samfélag þeirra sem trúa og vona.

Því trúin er fullvissa um það sem við vonum, sannfæring um það sem ekki er hægt að sjá (sbr. Hebr. 11:1). Við sjáum ekki Jesú nema með augum trúarinnar.

Guðspjallið hefst á því að Jesús kom að luktum dyrum hjá lærisveinunum. Af óöryggi og ótta höfðu þeir lokað að sér en hann komst samt til þeirra. Þrátt fyrir læstar dyr voru dyr hjartna þeirra honum opnar.

Það voru hjartadyr Tómasar líka, jafnvel þótt hann væri skiljanlega ringlaður eftir atburði liðinna daga og ekki reiðubúinn að trúa því strax að félagar hans hefðu í raun og veru mætt Jesú. Hann vildi áþreifanlegar sannanir af því að þetta var of gott til að geta verið satt!

Hvergi kemur þó fram að Tómas hafi á endanum snert Jesú. Þess þurfti ekki lengur, hann var sannfærður og af vörum hans heyrðist játningin: „Drottinn minn og Guð minn!“ (v. 28).

Til þess að geta játað með þeim hætti þarf ekki fullkomna eða efalausa trú, aðeins þá afstöðu hugans að vilja treysta og fela sig Drottni á vald. Erum við opin eða lokuð í þeim skilningi?

Það er alvarlegt þegar dyr hjartna okkar eru lokaðar fyrir hinum upprisna, þegar við afneitum honum fyrirfram eða gefum trúnni ekki tækifæri.

Sum hjörtu eru lokuð af stærilæti og sjálfsréttlætingu. Önnur eru lokuð þegar við gerum okkur sjálf, reynslu okkar og skynsemi að miðpunkti tilverunnar en höfnum öllu sem er ofvaxið skilningi okkar eða utan eigin reynsluheims, t. d. upprisunni og öðrum kraftaverkum.

Hjartadyrnar eru líka lokaðar þegar við teljum okkur ekki hafa þörf fyrir Jesú sem frelsara, erum föst í eigin réttlætingu eða samanburði við þau sem á einhvern hátt eru ver stödd í tilverunni. Þá er hollt að hafa í huga að enginn verður hvítari þótt annan sverti!

Lokuð hjörtu í dag leiða af sér lokaðar kirkjur á morgun. Milli þess er beint samhengi! Trú er afstaða og afstaða okkar skiptir máli – afstaða sem er ekki einungis persónuleg, innra með okkur sjálfum, heldur afstaða sem kemur fram í verki, m. a. með því að taka þátt í samfélagi kirkjunnar.

Jesús kom í heiminn af því að við þörfnumst frelsara. Eilíft líf er að kristnum skilningi algjörlega háð Jesú. Í pistli dagsins stendur skýrum stöfum: „Guð hefur gefið okkur eilíft líf og þetta líf er í syni hans. Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki á son Guðs á ekki lífið“ (I.Jóh. 5:11B-12).

Í upprisunni og eilífa lífinu felst vonin sem er grunntónn kristninnar, vonin sem nær út yfir gröf og dauða en gefur okkur einnig styrk og vilja til að takast á við lífið, bæta böl, vinna að réttlæti, já, miðla áfram þeirri náð og þeim friði sem hinn upprisni gefur okkur.

Jesús er gjarnan afgreiddur sem athyglisverður spámaður, mikill meistari, kærleiksríkur kraftaverkamaður, fórnarlamb valdabaráttu. Allt þetta má til sanns vegar færa en aðalatriðið er samt að hann er krossfestur og upprisinn frelsari okkar mannanna, ekkert minna! Eina gilda, kristna afstaðan til hans er játning Tómasar: Drottinn minn og Guð minn!

Sú játning er ekki hugarsmíð okkar, heldur afleiðing þess að eiga samfélag við frelsarann, taka við honum inn í líf okkar, leyfa honum að svara efanum og styrkja trúna.

Þá gefur hann okkur ómælt náð sína og frið. Þá eigum við kjölfestuna og lífsfyllinguna sem samtíð okkar þráir svo heitt og leitar svo ákaft.

Dýrð sé Guði föður og syni og Heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.