Internetið og óravíddir himinsins

Internetið og óravíddir himinsins

„Ég held að á svo til öllum heimilum árið 2000 verði einskonar viðbót við símtækið, sem við höfum núna. Þá höfum við lítið ritvélarborð, við höfum sjónvarpsskerm, við getum fengið síðu á sjónvarpsskerminn úr hvaða alfræðibók eða fræðiriti sem okkur sýnist, þannig að við þurfum ekki að hlaupa á bókasöfnin og fletta upp í bókum.“

Íslensk forspá árið 1971 um internetið.

Fyrr í þessari viku, sem nú er vel á veg komin, mátti sjá nokkuð forvitnilega fyrirsögn á einum netmiðlinum sem flytur okkur fréttir og sér okkur fyrir afþreyingu. Þar stóð: “Íslenskur verkfræðingur spáði fyrir um inter-netið árið 1971.” Þó okkur finnist kannski ekki öllum árið 1971 vera í neinni sérstakri órafjarlægð þá verðum við samt að viðurkenna, að á þeim rúmlega fjörtíu árum, sem liðin eru hefur margt tekið stakkaskiptum í umhverfi okkar og lífsháttum. Ef við rétt sem snöggvast horfum til baka hugsa ég að fljótlega rifjist upp fyrir okkur að hringvegurinn í kringum landið var ekki kominn til sögunnar og ekki var heldur búið að byggja neina Borgarfjarðarbrú. Vestmanneyjagosið hafði ekki átt sér stað, og því var allt öðruvísi um að litast í Heimaey í þá daga en í dag. Hið háa Alþingi okkar Íslendinga, sem enn naut virðingar, starfaði í tveimur deildum – efri- og neðri deild - og einhver umdeildustu og umtöluðustu sakamál íslandssögunnar; Guðmundar- og Geirfinnsmálin, tilheyrðu algjörlega framtíðinni - og svona mætti áfram lengi telja. Þegar ég fór að velta aðeins betur fyrir mér þessari forspá verkfræðingsins um inter-netið áttaði ég mig á að í rauninni hlyti hér að hafa verið nokkuð merkilegur spádómur á ferðinni, því munið þið hvernig umhorfs var í tæknilegum efnum inni á venjulegum heimilum hér á Íslandi á því herrans ári 1971?

Svart-hvítt sjónvarp, skífusími og kasettutæki

Það er auðvelt að láta hugann reika nokkra áratugi aftur í tíma og rúmi og rifja upp hvernig umhorfs var í tæknilegum efnum á þessum árum. Sjálfur var ég ekki nema 10 ára gamall og einhver merkilegasta tækninýjungin sem ég þekkti til heimilisbrúks var sennilega svart-hvíta sjónvarpið, sem stóð þannig í stofunni heima að öll önnur uppröðun tók meira og minna mið af því. Litasjónvarp var ekki einu sinni komið til sögunnar hér á Íslandi og kom ekki fyrr en mörgum árum seinna – þó það þekktist úti í hinum stóra heimi. Kasettutæki þóttu líka með almerkilegustu tækjum, því þau var hægt að nota til að taka upp efni úr útvarpinu og síðan hlusta á aftur seinna. Með þessum hætti gat maður líka hlustað aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur á uppáhalds- lagið sitt öllum öðrum á heimilinu til ama og leiðinda. Síminn sem við notuðum var skífusími, og ég man að um þetta leyti fengum við heima hjá mér gráan skífusíma, sem var töluvert léttari og nettari en svörtu þunglamalegu skífusímarnir, sem fram að því höfðu verið á nánast hverju einasta heimili. Grár skífusími var eiginlega toppurinn á tilverunni. Þó hafði ég hugboð um – kannski vegna þess að ég hafði séð mynd í blaði eða kannski í bíómynd – að til væru miklu nýtískulegri símar, sem voru þannig útbúnir að þeir voru nánast eins og símtól í laginu sem hægt var að láta standa upp á endann og undir botninum var svo að finna skífuna góðu, sem á þessum árum fylgdi hverjum einasta síma. Takkasími var algjörlega óhugsandi - hvað þá farsími. Hins vegar man ég að til var hugmyndin um sjónarvarpssíma, en það var eiginlega það mesta sem ímyndunaraflið réði við en var samt í rauninni alveg ótrúlega fjarlægur möguleiki. Á þessum árum var Vídeó ekki ennþá komið til sögunnar og því síður geisladiskar eða DVD-spilarar, og inná heimilum var ekkert til sem hét tölva, hvað þá I-pod, I-pad eða I-phone, sem eru heiti sem í dag leika ungu fólki hratt og örugglega á tungu. Já, það hefur sannarlega margt breyst á síðustu 40 árum.

Spekingar spjalla

En hver var þessi verkfræðingur, sem árið 1971 reyndist svona forspár um inter-netið. Jú, maðurinn hét Helgi Sigvaldason og ástæða þess að hann setti þessa forspá fram, var að þetta ár komu saman nokkrir hugsuðir og spekingar og veltu fyrir sér hvernig umhorfs yrði hér á landi árið 2000, sem þá var vitaskuld ótrúlega fjarlægt ártal. Niðurstöðurnar af spjalli spekinganna voru svo birtar í tímaritinu Samvinnunni. En hvað var það sem Helgi Sigvaldason hafði fram að færa um lífið hér í landinu árið 2000. Það sem eftir honum er haft í Samvinnunni er eftirfarandi. Helgi segir: „Ég held að á svo til öllum heimilum árið 2000 verði einskonar viðbót við símtækið, sem við höfum núna. Þá höfum við lítið ritvélarborð, við höfum sjónvarpsskerm, við getum fengið síðu á sjónvarpsskerminn úr hvaða alfræðibók eða fræðiriti sem okkur sýnist, þannig að við þurfum ekki að hlaupa á bókasöfnin og fletta upp í bókum.“ Þessi orð láta ekki mikið yfir sér, og við sem hér erum í dag eigum auðvelt með að skilja þau, en samt hugsa ég að þau hafi árið 1971 hljómað nánast eins og fjarstæða í eyrum þeirra sem á hlýddu – a.m.k. sumra. En ýmislegt fleira bar á góma. Einn spekinganna spurði: „Verður farið að djúpfrysta menn árið 2000, þannig að þeir geti vaknað upp aftur eftir svosem 500 ár?“ Annar spekingur fullyrti að „árið 2000 yrði hægt að taka drauma uppá segulband“ Einn spaugari hefur verið í hópnum, því hann veltir fyrir sér hvort „Það verði ekki nokkurn veginn öruggt að þeir sem sitji í ráðherrastólum á Íslandi hljóti að verða farnir úr þeim árið 2000.“ Einn feministi hlýtur einnig að hafa verið meðal þátttakenda, því eftirfarandi fullyrðingu var varpað fram eins og ekkert væri sjálfsagðara: „Árið 2000 verður búið að leggja karlmenn niður, því þeir verða orðnir jafnóþarfir og karldýr hjá sumum fuglategundum“ Það hefur greinilega margt verið spjallað og spekúlerað hjá þessum spekingum sem komu saman árið 1971 og ýmsar áhyggjur hafa einnig gert vart við sig. Einn segir til dæmis: „Gereyðing er hugsanleg, en hefur ekki verið nefnd hér, sennilega vegna þess að stjórnendurnir hafa gefið sér að hún verði ekki“ Í hópi þessara spekingar voru hins vegar einnig bjartsýnismenn sem ólu í brjósti heiðríkar vonir fyrir hönd mannkynsins. Einn lætur t.d. hafa eftir sér að. „Kosmísk vitund verði orðin háþróuð,” og annar fullyrðir að „Dauðinn verði ekki til árið 2000 …“ Eins og sjá má á því sem hér hefur verið talið upp, þá voru hugmyndirnar af ýmsu tagi og framtíðarsýnirnar og áhyggjurnar margvíslegar. Sumt af því sem þarna var spjallað hefur ræst – eða komist nálægt því að rætast – en annað tilheyrir ennþá öllum þeim óravíddum, sem framtíðin býr yfir, og öllum þeim möguleikum, sem þar er að finna þó ekki verði þeir allir endilega að veruleika.

Verður dauðinn uppsvelgdur í sigur árið 2000?

Eitt af því sem þarna árið 1971 bar á góma í spjalli spekinganna - sem samanstóðu mestmegnis af rithöfundum, skólafólki, vísindamönnum og fræðingum – er dauðinn, en einhverjir þessara spekinga, sem þarna komu saman, virðast hafa séð fyrir sér að í krafti vísinda og læknisfræði yrðinn dauðinn að lokum yfirbugaður og þannig að engu hafður. Ég hugsa þó að við, sem hér erum í dag, yrðum fljót að átta okkur á því, að þó dauðinn yrði yfirbugaður með þessum hætti – sem ég reyndar tel ekki miklar líkur á – þá væri ekki þar með sagt að dauðinn yrði uppsvelgdur í sigur, eins og Páll postuli talar um í fyrra Korintubréfi, þegar hann vísar til upprisu Jesú Krists frá dauðum. Og í þessum orðum postulans er kannski kjarna málsins að finna. Það er vissulega hugsanlegt að í framtíðinni verði hægt að vinna bug á dauðanum með allskonar vísindalegum og læknisfræðilegum úrræðum. Hins vegar held ég að það blasi við, að það líf sem af hlytist yrði aldrei líf í fullri gnægð og með slíku lífi yrði dauðinn aldrei uppsvelgdur í sigur – þvert á móti eru líkurnar þær að slíkt líf yrði fyrst og fremst líf í ótta og angist, fjötrum og fátækt – andlegri fátækt.

Andi opinberunar og sjón hjartans

Sagan af verkfræðingnum Helga Sigvaldasyni, sem árið 1971 spáði fyrir um ótrúlegar tækniframfarir, er vissulega bæði skemmtileg og athyglisverð því hún undirstrikar þá gríðarlegu möguleika sem mannkyninu standa til boða í krafti nýjustu tækni og vísinda. Öll þessi tækni- og tölvuvæðing, sem við höfum fengið að kynnast og stöndum núna frammi fyrir í öllu sínu veldi, gerir hins vegar meira en bara að opna augu okkar fyrir möguleikum vísindanna og tækninnar því hún minnir okkur einnig á, að heimurinn býr yfir slíkum hæðum, dýptum og víddum, og þess konar ógnarkröftum og óræðum möguleikum, að mannlegur máttur mun seint – ef þá nokkru sinni - ná utan um það allt saman. Í textum dagsins er okkur hins vegar vísað á ákveðna vegferð; vegferð sem þeirrar gerðar, að ef hún er farinn, þá leiðir hún til uppbyggingar og upp-lýsingar, sem felur í sér nýja sýn og dýpri skilning á lífinu og tilverunni. Sú vegferð sem hér um ræðir er fyrst og fremst andleg og byggir á bæn, eða eins og segir í pistli dagsins, sem lesinn var hér áðan: “Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa ykkur anda speki og opinberunar svo að þið fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til…” og í guðspjallinu, sem lesið var frá altarinu, segir að hann hafi “lokið upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar.” Í þessum tilvitnuðu textum er talað um “anda speki” og “sjón hjartans,” og það er talað um að ljúka upp huga svo skilningur verði til. Hér er talað í myndum og líkingum, eins og jafnan er gert í Ritningunni, því umfjöllunarefnið er veruleiki, sem ekki er svo auðvelt að koma orðum að, vegna þess að hann er handan okkar venjulegu skynjunar og hefðbundna skilnings – og jafnvel handan vísindanna, því vísindin ganga alltaf út frá þeirri forsendu að heimurinn sé grundvallaður á efni en ekki anda, eins og trúin leggur til grundvallar. Ég er hins vegar ekki frá því, að eftir því sem árin færast yfir þá verði þessi handanveruleiki áþreifanlegri og raunverulegri, því við tökum að skynja betur en áður, og það jafnvel með nýjum hætti, að til er andlegur veruleiki, sem jafnvel er varanlegri og innilegri en sá síkviki og hverfuli efnisveruleiki, sem við jafnan finnum okkur í.

Sáð er forgengilegu en upp rís óforgengilegt.

Og í samræmi við þessa sannfæringu mína langar mig hér í dag að ljúka orðum mínum með því að vitna til orða Páls postula, þar sem hann í næst síðasta kafla Fyrra Korintubréfs hefur eftirfarandi að segja, þegar hann veltir fyrir sér eðli og inntaki eilífa lífsins: „Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir þegar þeir koma?“ Heimskulega spurt! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi. Og er þú sáir þá er það ekki sú jurt er vex upp síðar sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ. En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama. Ekki eru allir líkamir eins heldur hafa mennirnir sinn, kvikféð annan, fuglarnir sinn og fiskarnir annan. Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað. Eitt er ljómi sólarinnar, annað ljómi tunglsins og enn annað ljómi stjarnanna því að stjarna ber af stjörnu í ljóma. Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu en upp rís óforgengilegt. Sáð er í vansæmd en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika en upp rís í styrkleika. Sáð er jarðneskum líkama en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami. Þannig er og ritað: „Hinn fyrsti maður, Adam, varð lifandi sál,“ hinn síðari Adam lífgandi andi. En hið andlega kemur ekki fyrst heldur hið jarðneska, því næst hið andlega. Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni. Eins og hinn jarðneski var, þannig eru og hinir jarðnesku og eins og hinn himneski, þannig eru og hinir himnesku. Og eins og við höfum borið mynd hins jarðneska munum við einnig bera mynd hins himneska."

Og að þessu sögðu þá áttum við okkur kannski betur á en áður, að inter-netið og allar þær mikilfenglegu tækninýjungar sem nútíminn er farinn að hagnýta sér eru einfaldlega hjóm eitt sé mið tekið af þeim andlegu og himnesku óravíddum sem í rauninni umlykja okkur öll nú þegar á bak og brjóst og fela í sér óendanlega möguleika okkur mönnunum til handa til þess bæði að meðtaka allt það sem dýpst er, sannast og innilegast, en einnig óendanlega möguleika okkur til handa til þess að geta orðið farvegur þessa andlega, himneska og eilífa veruleika, sem í rauninni er undirstaða alls lífs, allrar vitundar og alls veruleika. Í Jesú nafni, amen!