Hvenær vaknar Guð?

Hvenær vaknar Guð?

Trúin á sér rætur í tilvist mannsins. Hún býr innra með honum, hún er aðferð mannsins til að takast á við tilvist sína. Er trúin í þessum skilningi ekki undirstraumurinn í heimspeki, bókmenntum og listum allra tíma, einnig okkar tíma?

Í ljóðinu Á sjöunda degi fylgir lesandinn skáldinu, Vilborgu Dagbjartsdóttur, inn í kennslustund í grunnskólanum þar sem umræður um sköpunarverkið eru greinilega í fullum gangi. Skaparinn hefur haft nóg að gera sex daga vikunnar, ekki síst þegar það er haft í huga að dagur hjá honum er eins og heil eilífð. Hann hafði skapað dýrin og blómin og svo rann sjöundi dagurinn upp. Hvað þá? Var Guð ekki þreyttur? Þurfti hann ekki að hvíla sig? Ljóðið tekur við:

“... og þá fann Guð að hann var þreyttur / hann fór að sofa./ Börnin brosa / þau skilja að Guð hlaut að vera þreyttur / Öll nema Siggi litli / skuggi færist yfir andlitið / hann réttir hikandi upp höndina / og spyr óttasleginn: / Hvenær vaknar Guð?”

Saklaus eins og höggormurinn, læðist tilvistarspurningin inn í opinn og einlægan huga Sigga litla: Hvenær vaknar Guð? Hann skyldi þó ekki vera sofandi ennþá? Börn eru trúarheimspekingar. En Siggi litli spyr hér ekki eins og fræðimaður, hann „spyr óttasleginn“, segir í ljóðinu, honum er ekki sama, „skuggi færist yfir andlitið“. Spurningin kemur frá hjartanu, sú hugsun hefur gripið hann föstum tökum að Guð gæti verið sofandi ennþá, eftir allan þennan tíma.

Í áhugaverðri nýrri bók eftir þýska rithöfundinn Martin Walser, er höfundurinn á sömu slóðum og Siggi litli í ljóðinu. Hann er að velta fyrir sér spurningunni um Guð sem hann segir að hafi ekki leitað á sig í langan tíma, raunar ekki síðan á yngri árum. En núna, á efri árum skáldsins, vaknar þessi hugsun skyndilega af ákveðnu tilefni og leitar á hann af fullum þunga. Í bókinni fer fram trúaruppgjör rithöfundar í fremstu röð, hér er enduruppgötvun trúarinnar og endurskilgreining í ljósi langrar og litríkrar lífsreynslu.

Martin Walser leiðir hugann að einum þeirra heimspekinga nítjándu aldar sem setti spurninguna um Guð á oddinn, Friedrich Nietzche og gerir sér grein fyrir því að hin þekkta yfirlýsing hans fyrir rúmri öld – um að Guð væri ekki til – hafði valdið þessum merka heimspekingi óbærilegri angist. Guðleysið var niðurstaða sem olli þessum hugsandi prestssyni ótta og angist sem leiddu til myrkvunar sálarinnar. Hann lést fyrir aldur fram eftir langvarandi líkamlegar þjáningar síðustu ár ævinnar.

Það er svo annað mál að Nietzsche, sem löngum hefur verið talinn helsti fulltrúi nútímaguðleysis – og af mörgum talinn upphafsmaður tómhyggju nútímans, – undirritaði síðustu bréf sín með orðunum „Hinn krossfesti“. Sjálfur taldi hann sig vera fulltrúa fagnaðarerindisins, og hlutverk hans væri að leysa guðshugmynd kristinna manna úr viðjum, til þeirrar trúar sem Jesús boðaði sjálfur. Þannig var ein hliðin á guðleysi hans.

Hann taldi að kirkjan á hans tímum hefði orðið að þeirri trúarstofnun, sem Jesús átti sjálfur í útistöðum við, stofnun lögmáls, játninga og helgisiða sem þröngvaði framandi boðskap upp á manninn í stað þess að svara tilvistarvanda mannsins, í stað þess að koma til móts við manninn með fagnaðarerindi. Guð hvarf úr hugarheimi Nietzsches, angistin kom í staðinn í öllu sínu veldi. Walser segist ekki finna þannig angist í því sem hann les og heyrir frá guðleysingjum samtímans. Sjálfur þekkir hann guðleysið í þeim stjórnmála- og hugmyndastefnum sem skildu eftir sig sviðna jörð um víða veröld á tuttugustu öld. Þar var hvorki frelsi né mannvirðing í hávegum haft heldur hið gagnstæða og þaðan af síður var hlustað á tilvistarspurningar mannsins. Ómeðvituð viðbrögð hjá Sigga litla er að óttast þá tilhugsun að Guð sé ennþá sofandi.

Fyrir rithöfundinum Martin Walser er trúin meira en fræðileg spurning um tilvist Guðs, hún er öðru fremur þrá í hjarta mannsins um merkingu og tilgang, hún snýst í reynd um tilvist mannsins. Það sé ekki skynsamlegt af manninum að daufheyrast við þeirri þrá til merkingar og tilgangs, sem hann finnur innra með sér, heldur ætti hann að láta hana leiða sig áfram. Hún kann að ganga undir ýmsum nöfnum og glíman við hana kann sömuleiðis að hafa á sér ýmsa merkimiða í bókmenntum samtímans, í heimspeki líðandi stundar og hvar sem maðurinn spyr um dýptina í eigin tilvist. Undan hinni trúartilvistarlegu glímu verður hins vegar ekki vikist.

Það á einnig við um myndlist, gott dæmi um það er verðlaunaleikritið Rautt sem nú er sýnt í Borgarleikhúsinu, áhrifa-mikið verk um tilvistarglímu bandaríska myndlistarmannsins Marc Rothko, eins stærsta nafnsins í listasögu tuttugustu aldar. Draumur hans um að kapella yrði reist utan um verk hans varð að veruleika í borginni Houston í Texas árið 1971, ári eftir að listamaðurinn lést. Þar vildi hann að þung tilvistarglíma hans í listinni ætti athvarf, á vettvangi hins heilaga, ástæðan er sú að tilvistarglíma mannsins er önnur hlið á spurningu hans um Guð. Þær haldast í hendur.

Trúin á sér rætur í tilvist mannsins, þar er hún ekki aðskota-hlutur því að hún hefur fylgt honum frá upphafi vega. Hún býr innra með honum, hún er aðferð mannsins til að takast á við tilvist sína. Er trúin í þessum skilningi ekki undirstraumurinn í heimspeki, bókmenntum og listum allra tíma, einnig okkar tíma?

Að trúa felst ekki í því að halda eitthvað fyrir satt af því sem haldið er fram í trúarlærdómum og trúarjátningum. Í gyðing-kristinni trúarhefð er „trú“ meira en þetta – og raunar annað. Hún er þar ekki fullvissa heldur þrá. Hún vísar þar til ákveðinna tengsla við orð eins og von, öryggi, hugrekki. Tilfinningarnar eru einnig inni í þeirri mynd því að engin trú er til án tilfinninga, sem hafa djúp áhrif á lífsvitund mannsins. Í trúnni leitar maðurinn staðfestingar á ákveðnu trausti sem honum er meðfætt, grundvallartrausti til lífsins.

Trúin lýkst upp í reynslunni, í sorg og söknuði, í augum barnsins, í fórn móðurinnar, í óttanum, í lífsháskanum, í gleðinni, í ástinni, í þránni til þess sem gott er, fagurt og fullkomið. Þangað sem maðurinn finnur lífi sínu borgið hneigist hugur hans og von. Trúin finnur sér farveg í lífsreynslunni, þar sem hún sannar gildi sitt. Kannski að reynslan hafi sannfært Sigga litla um að Guð er ekki sofandi.

Um þetta snýst trúin. Viðbrögðin við þeim trúartilvistarlegu spurningum sem vakna innra með hverju mannsins barni skipta í reynd meira máli en allt annað og móta líf og lífsviðhorf, lífsleikni og breytni í daglegu lífi.

Í þessu ljósi er mikilvægt og áhugavert að skoða trúarmenningu okkar Íslendinga – og menningu okkar alla – einnig vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið um stjórnarskrána og þátt trúar og kirkju í henni.

Eitt af einkennum á trúarsögu þjóðarinnar – og að mörgu leyti sérstakt einkenni – er hversu laustengd hún er kirkjunni sem stofnun og kirkjuhúsinu sem helgidómi. Trúarmenning okkar Íslendinga snýst ekki um kirkju heldur trú, hún var ekki í sama mæli iðkuð innan veggja kirkjuhússins og almennt gerðist og gerist enn á meginlandi álfunnar, heldur á heimilinu. Hún var aðeins laustengd trúarstofnuninni og einkenndist af einstaklingsbundinni trúarvitund. Hún var ekki til umræðu við gesti og gangandi heldur einkamál, hún bjó dýpst í hjarta mannsins og kom ekki fram í dagsljósið í trúarjátningum heldur í breytni einstaklingsins, í lífi hans, í lífsstíl og lífsleikni. Að því leyti var hún einkamál líkt og ástin eða svo gæti maður haldið af lestri gamalla bóka, jafnvel feimnismál, og lýsir sér þá stundum í ólíkindalátum sem er gömul íslensk þjóðarlist til að villa á sér heimildir.

Á vettvangi hinnar hversdagslegu lífsbaráttu var trúin til staðar ekki síður en á stórum stundum lífsins. Einnig í uppeldi og menningu, við lagasetningu, við siðferðislegar ákvarðanir, en þó öðru fremur sem svar við tilvistarlegum spurningum um merkingu og tilgang þess að vera manneskja. Hún var einnig áttavitinn sem gerði manninum kleift að gera staðarákvörðun á tímamótum lífsins, hún mótaði samviskuna og þar með vitund um rétt og rangt.

Hún gaf liðnum tíma merkingu og hið ókomna fékk sömuleiðis tilgang undir hennar sjónarhorni og þá einnig líðandi stund, sjónarhornið var ekki aðeins ár og dagar heldur eilífðin. Án margra orða var trúin mótandi lífstilfinning. Hún bjó í huga fólks við fæðingu barnsins, við andlát hinna nánustu, þegar barnið breyttist í fullorðna manneskju og þegar nýtt heimili var stofnað. Það er trú sem mótar enn samskipti þjóðarinnar við menn og náttúru, við skepnurnar og gróðurinn. Og hún fékk næringu sína úr þeim helgu ritum sem beindu huganum til Jesú Krists.

Þannig er menning okkar Íslendinga, þar er trúin samofin viðfangsefnum daglegs lífs – en án margra orða. Trúarmenningin byggist á forsendum sem hafa reynst áreiðanlegt tilboð um lífsgrundvöll, um lífstilgang, lífstúlkun og gerði þessa þjóð að menningarþjóð. Því munu fáir andmæla.

Í guðspjalli dagsins er Jesús að kenna í musterinu þegar hann fær ögrandi spurningar frá æðstu prestunum og öldungum lýðsins. Þeir ætla að hrekja þennan spámann kaldhæðninnar út í horn, með því að leggja fyrir hann ögrandi spurningar. Þær gætu orðið honum að falli. Eins og raunin varð á endanum. Hann hafði nýlega velt um borðum víxlaranna, nú heldur hann áfram, þegar hann sendir þeim þau ögrandi skilaboð að jafnvel tollheimtumenn og skækjur verði á undan þeim inn í guðsríkið.

Hvernig mátti það vera að tollheimtumenn, sem voru þekktir fyrir að skara eld að eigin köku, töldust óhrein stétt vegna samskipta við útlendinga og innheimtu þar að auki skatt fyrir guðlaust herveldið í Róm – og einnig skækjur sem gengu vísvitandi gegn lögum, reglum og siðferði samfélagsins – hvernig mátti það vera að einmitt þetta fólk yrði á undan hinum réttlátu inn í guðsríkið? Hvernig gat Jesús gert sig að talsmanni þessa fólks?

Kannski sá hann það undir öðru sjónarhorni, hér var fólkið sem hafði misst alla von í þessu lífi, hér var hugrekkið í rúst, sjálfsmyndin í molum og sjálfsvirðingin hrunin til grunna. Og þar með er komið að hinum stóru spurningum um manneskjuna. Inngrip Jesú í atburðarásina í musterinu felst í því að hann gerist þar eina ferðina enn talsmaður mannsins, markmiðið er að maðurinn – einnig, og ekki síst tollheimtumenn og skækjur – finni mennsku sína, finni að þeirra líf sé einnig tekið gilt, það megi einnig vera til.

Hann tekur manninn eins og hann er. Ekki vegna þess að hann hafi eitthvað sérstakt til þess unnið að líf hans sé metið, ekki vegna auðs, valds eða frægðar, ekki vegna vinsælda, dugnaðar eða greiðvikni. Nei, heldur fyrir það eitt að vera manneskja, sem hefur jafnvel ekkert fram að færa nema það eitt að vera. Einnig þannig ber henni virðing.

Í skjóli Jesú er jafnvel tollheimtumaðurinn tekinn gildur, skækjan sömuleiðis. „Það er í lagi með þig.“ Mennska þín er óendanlega dýrmæt. Þú mátt einnig vera manneskja, þér er óhætt eins og þú ert. Grundvöllur mannúðarinnar og mannúðarsamfél-agsins er ekki lög og reglur – og ekki einu sinni stjórnarskrá – heldur vitund dýpst í hjarta mannsins, sannfæring sem yfirgefur hann ekki. Í reynd erum við öll í sporum hins umkomulausa utangarðsfólks guðspjallsins, leitandi að fótfestu sem treystandi er á í blíðu og stríðu, í heimi sem býður ekki upp á augljós tilboð um tilgang og merkingu.

Jesús setur gildismatið og virðingu mannsins á oddinn með þeirri ögrandi fullyrðingu að þeir sem síst skyldi verði á undan æðstu prestunum og öldungunum inn í guðsríki, þannig táknmynd er brugðið á loft innan ramma þess táknheims sem samtíminn skildi. Louis Armstrong söng When the saints go marching in, þá vil ég að einnig sé gert ráð fyrir mér. Reglur samfélags sigurvegaranna eru ekki einu reglur lífsins, Jesús kom öðru vísi að málum, virðingarstiginn er smíðaður upp á nýtt, einnig hinn minnsti er óendanlega mikils virði.

Hitt vegur þó þyngst að faðmur Jesú er opinn öllum sem þrá návist hans, einnig þeim sem síst hafa til þess unnið. Guð sefur ekki. „Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels,“ segir í Davíðssálmum, orð sem margir kannast við. Hann er vörður um virðingu mannsins, hann stendur þar vörð um mannúð og mennsku. Til Jesú hefur maðurinn sótt þessa vitund þar sem allir eru jafnir, þar sem allir eru teknir gildir, einnig þeir sem hafa af engu að státa.

Það þarf enga stjórnarskrá til að verja þennan boðskap, þvert á móti eru það einmitt þessi afgerandi viðhorf til mannlegrar tilvistar sem hafa varið þá mannúð og það frelsi sem er svo aftur varin í mörgum stjórnarskrám heimsins.

Í gær gekk þjóðin til ráðgefandi atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Af því tilefni er vert að líta aftur til þúsund ára afmælis Íslands byggðar sumarið 1874 þegar Kristján IX. konungur afhenti Íslendingum fyrstu stjórnarskrána. Þá orti séra Matthías Jochumsson sálm sem síðar hefur verið þjóðsöngur okkar Íslendinga, hann var ortur erlendis veturinn eftir að séra Matthías lét af embætti hér í Brautarholtssókn eftir sex ára þjónustu.

Þegar Lofsöngurinn var fyrst sunginn í dómkirkjunni á þjóðhátíðinni 2. ágúst 1874 voru þar erlendir fréttamenn viðstaddir, m.a. frá bandaríska dagblaðinu New York Tribune og frá enska dagblaðinu Times. Þeim fór eins og öðrum að þeir heilluðust af Lofsöng séra Matthíasar og greindu svo frá að kirkjugestir hafi ekki getað dulið hrifningu sína þegar þeir hlustuðu tárvotum augum á tilkomumikið ljóð og stórbrotið tónverk. Sjálfur virtist séra Matthías ekki snortinn af eigin kveðskap og rétt lét þess getið í Þjóðólfi, blaði sínu, að Lofsöngur hefði verið fluttur en gat ekki um höfund textans, aðeins lagsins, Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Þjóðsöngur séra Matthíasar er stórbrotinn lofsöngur, ekki um land og þjóð, ekki um þjóðhöfðingja, ekki um fánann og þaðan af síður um styrjaldir og samstöðu gegn öðrum. Hér er Guð einn lofaður fyrir sköpun sína, hvort sem það er lítið eins og blómið eða stórt og mikilfenglegt eins og hnettir og himingeimur. Fáum íslenskum skáldum – ef nokkru – hefur tekist að yrkja um hið upphafna eins og séra Matthíasi í þessum lofsöng. Í hinu upphafna skynjar maðurinn dýpri tilgang eigin lífs.

Þjóðsöngurinn túlkar vitund þjóðarinnar um návist guðdómsins í stóru sem smáu, hann túlkar vitund okkar um Guð sem vakir yfir hinu smæsta sem hinu stærsta, í ást sinni og umhyggju fyrir hverju mannsins barni. Þetta er kjarni málsins, Lofsöngurinn lyftir huga mannsins til guðdómsins en hann opnar jafnframt leiðina inn í djúp mannlegrar tilvistar þar sem hann finnur að Guð er ekki fjarlægur heldur nálægur, ekki afskiptalaus heldur umhyggjusamur, ekki sofandi heldur vakandi.