Hroki og auðmýkt

Hroki og auðmýkt

Það er virðingin fyrir öðru fólki sem gerir gæfumuninn á milli hroka og auðmýktar. Hrokafullt fólk virðir aðra minna en sjálft sig á meðan auðmjúkar manneskjur virða bæði sjálfar sig og aðrar. “Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.”

 Predikun flutt í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð 27. ágúst 2006

Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra: Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður. Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast. En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.

Lúk. 18.9-14

Ein leiðin sem Jesús notaði til að ná eyrum fólks var að snúa hlutunum á haus. Sagan um atferli faríseans og tollheimtumannsins í helgidóminum er dæmi um það. Ég er handviss um að mæður þess tíma hafa bent börnum sínum á faríseana, sagt sonunum að taka sér þá til fyrirmyndar og hrósað happi ef dæturnar giftust inn í fjölskyldu farísea. En sæu þær tollheimtumann á ferli hafa mæðurnar án efa dregið börnin sín þéttar að sér og varað þau stórlega við öllu samneyti við slíka menn og þeirra fjölskyldur. Farísei var ímynd þess sem gott var og rétt, en tollheimtumaður andstæðan.

Jesús notaði þetta viðhorf samtímafólks síns til að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri. Það er ekki allt sem sýnist. Mat mannanna er ekki alltaf rétt. Dramb er falli næst, en í auðmýktinni býr upphafningin.

Bókin “Gæfuspor – Gildin í lífinu” eftir Gunnar Hersvein, heimspeking, barst mér í hendur nýverið. Höfundurinn, sem mér virðist öðru fremur byggja á kristnum grunni, greinir þar listilega ýmis hugtök sem varða okkar daglega líf. Meðal þeirra eru hrokinn og auðmýktin.

Gunnar Hersveinn dregur fram nokkrar myndir hrokans. Þær eru: embættishroki, lærdómshroki, trúar- og menningarhroki, ættarhroki, kynjahroki og það sem hann kýs að kalla kynþáttahroka, í stað orðsins kynþáttahaturs (bls. 56-57).

Eitthvert afbrigði alls þessa skýtur án efa upp kollinum í huga okkar flestra af og til. Við eigum það til að alhæfa: “Konur gera alltaf svona”. “Karlar geta aldrei gert þetta rétt”. “Þetta þágufallssjúka lið er bara illa gefið”. “Hann er svo vel ættaður, en hennar fólk er allt meira og minna bilað”. “Sjáðu þetta sértrúarfólk – það gengur um og dæmir mann og annan”. “Hvað er verið að láta þessa manneskju tala í kirkjunni; ekki hefur hún lært neina guðfræði”. Á bak við slíka sleggjudóma liggur það hrokafulla viðhorf að “ég” sé betri en “þú”, að “við” séum “hinum” fremri. “Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.”

Áður en við skoðum andhverfu hrokans, auðmýktina, ætla ég að skjóta inn nokkrum orðum um stoltið, sem Gunnar Hersveinn greinir svo ljómandi vel með þessum orðum: “Stolt er ánægjublandin tilfinning sem fullgerist þegar við rekum smiðshöggin á verkin” (bls. 55). Við megum ekki rugla saman hroka og heilbrigðu stolti yfir vel unnum störfum. Það er allt í lagi og eðlilegt að gleðjast yfir því sem vel tekst til. Heilbrigt sjálfsmat byggir m.a. á stoltinu og það er hverri manneskju nauðsynlegt að finna að hún er einhvers megnug. Um þetta segir Gunnar: “Stolt grundvallast á raunhæfu sjálfsmati en dramb er aftur á móti ofmat á afrekum sínum, að stæra sig og gera meira úr frammistöðunni en efni standa til” (bls. 54).

En þá að auðmýktinni. Hún er líklega ekki sú dyggð sem hæst lætur í samtímanum. Kvennabaráttan hefur stundum haft tilhneigingu til að fyrirlíta auðmýktina, ruglað henni saman við undirlægjuhátt, gólftusku-heilkennið. Þetta er alrangt. Auðmýkt er að umgangast sjálfa sig og umhverfi sitt, manneskjur og náttúru, af virðingu og umhyggju. Auðmýkt er náskyld kærleikanum og trúartilfinningunni; að kunna að lúta einhverju æðra sjálfri sér. Auðmýktin kallar fram gleði og þakklæti, og fær, eins og heimspekingurinn bendir á í bókinni “Gæfuspor”, oft miklu meira áorkað í hljóðlátri veru sinni en hrokinn sem hæst lætur (bls. 62-63).

Við eigum að þjálfa okkur í auðmýkt. Það gerum við meðal annars með því að sækja samfélagið við trúsystkini ykkar. Með því að vera reiðubúin að helgast, opin fyrir verkun heilags anda í orði og sakramenti messunnar, þiggjum við þá náð Guðs sem umbreytir okkur skref fyrir skref. Og í hverri messu biðjum við með tollheimtumanninum: Guð, vertu mér syndugri líknsamur! Drottinn, miskunna þú oss.

Í hnotskurn: Það er virðingin fyrir öðru fólki sem gerir gæfumuninn á milli hroka og auðmýktar. Hrokafullt fólk virðir aðra minna en sjálft sig (sem stundum kann að grunda í andhverfunni, lélegu sjálfsmati, en það er önnur saga) á meðan auðmjúkar manneskjur virða bæði sjálfar sig og aðrar. “Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.”