Ellefti september og Islam

Ellefti september og Islam

„Það eru múslimarnir sem eru ógnun framtíðarinnar, en ekki kommúnisminn,“ sagði félagi minn. „Rússland mun ekki skelfa neinn, Sovétríkin eru að baki og kalda stríðið er að þiðna.“ Bláeygur Íslendingur sat með ungum Eista á heldur nöturlegu kaffihúsi í Tallinn. Árið var 1990 og þá voru Sovétríkin enn til.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
10. september 2002

„Það eru múslimarnir sem eru ógnun framtíðarinnar, en ekki kommúnisminn,“ sagði félagi minn. „Rússland mun ekki skelfa neinn, Sovétríkin eru að baki og kalda stríðið er að þiðna.“ Bláeygur Íslendingur sat með ungum Eista á heldur nöturlegu kaffihúsi í Tallinn. Árið var 1990 og þá voru Sovétríkin enn til. Unglingar af rússnesku þjóðerni fóru um Tallin, rænandi og ruplandi og þeir börðu útlendinga og Eista. Félaginn á kaffihúsinu benti á gengið og sagði: “Þau eru bara að nýta sér aðstæður, sem eru að hverfa. Þó mér sé ekki vel við Rússana held ég að þeir verði tannlausir í heimsmálunum. Múslimarnir og Islam eru framtíðarógn heimsfriðarins.“

Orðin frá Tallinn hafa leitað á huga minn þetta ár sem liðið er frá 11. september. Auðvitað er ekki hægt að kenna Islam um djöfulæði bin Laden eða þeirra sem drápu flugmenn, farþega, sjálfa sig og fólk í tvíburaturnum. En það er hins vegar ekki einleikið hversu mörg hryðjuverk og stríð tengjast Islam eða múslimum. Allt verður þetta til að grýlugera Islam og efna til óvinagerðar, þ.e. halda fram að kristin Vesturlönd eigi í allsherjarstríði við múslimskan hluta heimsins. Enginn skyldi hrapa að ályktunum og einfeldningslegum niðurstöðum í svo flóknu máli. En enginn skyldi heldur vera kjáni í trúarefnum heldur.

Stríðandi Islam

Islam er áberandi í heimsfréttunum, en þó eru þau sem teljast til þess átrúnaðar aðeins fimmtungur mannkyns. Eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins er listinn yfir „múslimsk“ hryðjuverk og stríð sem múslimir eiga aðild að nánast endalaus. Þeir koma við sögu í Súdan, Nígeríu, Bosníu, Kosovo, Makedóníu, Tadsekistan, Kasmír, Pakistan, Filipseyjum, Indlandi, Tétseníu o.s. frv. Meira en helmingur allra stríðandi ættflokka síðustu árin berst í nafni Islam. Yfir 70% skipulagðra hryðjuverka í heiminum síðustu tvo áratugina er hægt að færa á sakaskrá múslima. Á liðlega þrjátíu átakasvæðum í veröldinni eru múslimar aðilar í um 70% tilvika.

Af hverju allt ofbeldið?

Ástæður óróans í heimi Islam og múslima eru margar og ólíkar. Ekkert eitt ríki hefur forystu í heimi Araba, hvað þá heimi Islam. Enn eru menn að nota vopn í þessum heimi til að gera út um trúfræði, nokkuð sem vestrænar þjóðar hafa ekki stundað lengi. Gríðarleg reiði, öfund, hræðsla og hefndarþorsti kraumar víða í garð vestrænna þjóða, sem lengi hafa verið herraþjóðir með tilheyrandi kúgun og niðurlægingu. Valdastéttir í heimi múslima eru víða spilltar, en eru þó studdar eða haldið við völd vegna vestrænna stöðuleikahagsmuna. Það er ekkert einkennilegt að reitt fólk og sært telji hinn vestræna heim (og þ.m.t. Bandaríkjamenn) vondan, fyrst hann viðheldur illskunni. Svo skellur nútímavæðing vestrænna þjóða á þessum samfélögum, sem mörg eru forn í skipan og gildum, með margföldum þunga. „Siðleysi“ vestrænna þjóða, sem kemur fram í upplausn gamalla höfuðgilda, fer illa í gamaldags samfélög, sem reyna með öllum mætti að viðhalda og varðveita stjórn sína, valdahópar, kerfi og stéttir. Allt er þetta skiljanlegt þó ekki sé það allt fallegt.

Hvaða gildi?

Kristnin hefur varið manngildið, en það gera sanntrúaðir múslimar líka. Kristnir vilja ekki hryðjuverk og ofbeldi, en það vilja múslimarnir ekki heldur. En það eru hins vegar aðstæður víða í hinu múslimska samfélagi sem valda óróa og við þeim verður að bregðast. Ofbeldisseggjum í islömskum löndum á að skella eins og ofbeldisseggjum í vestrænum heimi. En auðvitað verður að fara varlega í þeim efnum og sjálfskipað lögguhlutverk Bandaríkja Norður Ameríku er slæmt. Vestræn ríki hafa margar skyldur í stjórn heimsmála og verða að bregðast við með yfirveguðu viti. Leiðarstjörnur þess vits eru trúarlegar og siðferðilegar. Meðal þeirra eru manngildi og réttur einstaklinganna, sem við Vesturlandamenn verðum að verja, sem og höfuðgildi hinnar kristnu hefðar, siðferðisarf og ábyrgð.

Á heimaslóð einnig

Heimsmálin eru eitt og viðbrögð okkar á heimaslóð eru annað. Íslendingar eiga að láta kristin og mikilvæg vestræn gildi stýra för. Við eigum að bregðast hart við hvers konar ofbeldi. Við eigum að hafna algerlega kúgun kvenna, sem meðal annars hefur birst í heiðursmorðunum í Svíþjóð. Við eigum einnig að bregðast hart við hvers konar ofbeldisseggjum og koma þeim í hendur dómstóla. Við eigum að íhuga vendilega fræðslu um grunngildi samfélagsins nú þegar innflytjendum fjölgar á Íslandi. Við eigum að veita þeim möguleika á að bera saman gildin í gamla landinu og hinu nýja og læra að skilja hvað er rétt og hvað ekki, hvað er leyfilegt og hvað ekki. Yfirborðslegt frjálslyndi er ekki affarasælt í samskiptum fólks með ólíkan bakgrunn.

Ógnin og ábyrgðin

Múslimarnir eru ekki aðeins ógn í framtíðinni heldur samtíðinni. Það hefur komið í ljós að spádómsorðin í Tallin rættust. Bláeygri tíð er lokið og við verðum að horfa opineyg á aðstæður erlendis og heima. Viðurkennum að múslimar eru fullveðja manneskjur með sömu getu og sömu þrár og við. Verum umhyggjusöm, en heimilum þó ekki annað en það sem eflir fólk til lífs. Höfnum vitleysunni, höfnum hryllingnum, höfnum ofbeldi. Iðkum kærleika, en verum raunsæ í viðbrögðum okkar. Aldrei aftur 11. september. Leggjum okkar lóð á vogarskálar og gerum það með góðu viti.

Nánar um sama efni

Haukur Ingi Jónasson: Og þá kom steypiregn ... Magnús Þorkell Bernharðsson: Af hverju hata þau okkur?