Týndur og fundinn

Týndur og fundinn

EF enginn kemst í ríki Guðs nema fyrir trúna á Jesú… þá eru í raun ALLIR, hver einasti maður ,,týndur” Sagan um týnda soninn fullvissar okkur um að sá sem leitar Guðs er tekið fagnandi og með opnum örmum.

Lexía: Mík 7.18-19,  Pistill: Ef 2.4-10, Guðspjall: Lúk 15.1-10 Lágafellskirkja

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Í guðspjallinu talar Jesús inn í hjörtu fræðimanna og farisea, það eru þeir sem hlustuðu… Þeir höfðu margoft fundið að því að Jesús hafi læknað á hvíldardögum og guðspjallið segir að þeir ömuðust yfir því að Jesús borðaði með tollheimtumönnum og syndugum. Það kom ekki til greina hjá þeim, það var fyrir neðan þeirra virðingu.. Fyrir Jesú, var það tilgangur komu hans. Þó hann byrjaði starf sitt hjá gyðingum.. því hann sagði að hann væri sendur til týndra sauða af ísraelsætt þá fór hann ekki í manngreinarálit, heldur boðaði fagnaðarerindið hvar sem fólk var saman komið úti undir beru lofti… Jesús segir sögurnar um hið týnda, þ.e. týnda sauðinn, týndu drökmuna og í framhaldi af þeim tveim sagði hann söguna um týnda soninn…og hann segir sögurnar í þeirri von að þeim sem hlustuðu yrði ljóst að þeir voru sjálfir jafn týndir og persónurnar í sögunum… en sögurnar eru vitnisburðir um.. án Jesú erum við týnd og til þess að ,,finnast” þurfum við að ,,finna” trúna á Jesú… Jesús talaði í myndmáli dæmisagna…

Hann segir sjálfur að hann sé góði hirðirinn... hann er dyr sauðanna og að enginn komist inn nema gegnum dyrnar. Í Lúk segir hann: Mannsonurinn er kominn til að leita að hinu týnda og frelsa það… og hér fáum við nýtt umhugsunarefni.. Því að eftir að Jesús hóf starf sitt breytti hann áherslun- um fyrir frelsun.. frá lögmálsverkum í náðargjöf Guðs… Breytingin gerir það að verkum að EF enginn kemst í ríki Guðs nema fyrir trúna á Jesú… þá voru í raun ALLIR, hver einasti maður ,,týndur”… Þessi breyting hefur í för með sér að Guð fyrirgefur okkur afbrotin.. fyrir trúna í hjartanu…eins og segir í lexíunni: Hver er slíkur Guð sem þú, sem fyrirgefur misgjörðir og sýknar af syndum… og pistillinn segir: Guð er auðugur af miskunn. [..] af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því…
Fyrri sagan er um hirði sem á 100 sauði og týnir einum… og það er hægt að túlka dæmisöguna frá mörgum hliðum… Hirðirinn fer sjálfur að leita hins týnda… sem er einmitt ástæða þess að Jesús kom… .þ.e. til að leita að hinu týnda… En takið eftir að Jesús er ekki hirðirinn í dæmisögunni, því hann segir við fariseana og fræðimennina… ef einhver ykkar á 100 sauði og týnir einum, þá fer hann og leitar hans… svo þessir 99 sauðir sem voru skildir eftir, geta táknað hina týndu sauði af Ísraelsætt, sem töldu sig réttláta og ekki þurfa þess með, að taka sinnaskiptum, og hinn eini sem villtist frá hjörðinni, getur táknað tollheimtumann eða ótilgreindan syndara sem síðan finnur Jesú… því þegar hinn týndi sauður finnst, segir Jesús, þá fagnar hirðir sauðanna með nágrönnum sínum en þegar týnd sál finnur Jesú…  þá ber hirðirinn hann heim til sín… þ.e.a.s. í Guðs ríki og það verður meiri fögnuður á himni yfir honum, þessum eina syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir hinum níutíu og níu réttlátu sem þurfa þess ekki við.
Seinni sagan er um konu sem átti 10 drökmur og týnir einni… Drakma jafngilti denar eða daglaunum verkamanns og tapið var töluvert ef þetta var aleiga hennar… Við vitum öll hvað það er erfitt að leita í myrkri… og sagan segir að konan hafi þurft að kveikja á lampa til að geta leitað… hún þurfti ljós.. og Jesús sagði: Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ og hann sagði líka: Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer...   Jesús er bæði góði hirðirinn og ljósið… og hann sagði ennfremur: Ég er ljós í heiminn komið svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.
Þessar tvær sögur innifela fleiri ábendingar, hirðirinn var maður og vann utandyra en konan vann innandyra sem voru dæmigerð hlutverkaskipti þessa tíma… en sagan segir okkur að frelsunin sé einstaklingsmiðuð, fyrir bæði kyn, við hvaða störf sem þau vinna, þ.e. allt mannkynið og allur heimurinn þarf á góða hirðinum og ljósi heimsins að halda… Í framhaldi af þessum sögum sagði Jesús söguna um týnda soninn.. og sú saga fullvissar okkur um að sá sem leitar Guðs er tekið fagnandi og með opnum örmum.
Þemað í dag er: Týndur - fundinn. Jesús talaði í dæmisögum en samt þannig að þeir sem hlustuðu áttuðu sig á inntakinu. Hirðishlutverkið þekktu þeir og vissu hvað það var nauðsynlegt að halda utan um hjörðina og passa að enginn sauðanna villtist frá svo hann yrði ekki villidýrum að bráð… Tapið hefði líka verið sárt fyrir konuna ef drakman hefði glatast... Með sögunum gaf Jesús hlustendum sínum innsýn í gleði og fögnuð himinsins yfir hverjum sem var týndur en hefur fundist…því Guð vill ekki að neinn glatist. Sögurnar vitna um að í raun eru allir týndir þar til þeir finna trúna á Jesú… Mikill mannfjöldi fylgdi Jesú hvert sem hann fór, svo mikill að farisear höfðu áhyggjur og sögðu sín á milli: Allur heimurinn eltir hann. Með nýjum boðskap, sannkölluðu fagnaðarerindi, frelsast menn fyrir náðina og sannleikann sem kom með Jesú Kristi en ekki fyrir verk eins og lögmálið kvað um.. eða eins og pistillinn segir: af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen