Er Guð leikstjóri eða elskhugi?

Er Guð leikstjóri eða elskhugi?

Eru slys og áföll Guði að kenna? “... svo áttar maður sig á því að það getur ekki verið þannig,” sagði kvennaskólamærin. Eru kynslóðaskipti að verða á Íslandi í guðsafstöðu fólks?

Guðstengslin Í vikunni var ég kallaður í lífsleiknitíma niður í Kvennaskóla til að ræða við einn bekkinn um sorg og sorgarviðbrögð. Það er gjöfult að hitta unga fólkið. Þau tjáðu hvernig þau vinna með og hugsa um sorg, eftirköst og viðbrögð við áföllum. Ég gat miðlað þeim af reynslu prestsins og frætt um ferla og möguleika í sorglegum aðstæðum.

Við ræddum málin og meðal annars um Guð og hvernig Guð skipti sér af veröldinni. Ein stelpan orðaði afstöðu sína þannig, að auðvitað hugsaði maður um það hvort slysin og áföllin væru Guði að kenna. “En svo áttar maður sig á því að það getur ekki verið þannig,” sagði hún. Skólasystkini hennar voru á svipuðum nótum.

Ég velti því fyrir mér í kjölfarið á þessum orðaskiptum hvort kynslóðaskipti séu að verða á Íslandi í guðsafstöðu fólks, guðsmynd, hvernig menn hugsa um Guð og áhrif Guðs og tengsl við heiminn. Ég er ekki frá því að svo sé. Eldri kynslóð Íslendinga er líklegri til að trúa og tjá, að Guð hafi bein áhrif á hvernig atburðir verða. Kannski hikar fólk við að segja, að Guð valdi slysum, skelfilegum náttúruhamförum og stríðum. En flestir eldri guðstrúarmenn telja, að Guð beiti sér með beinum hætti í stjórn mála heims og einstaklinga. En yngri guðstrúarmenn telja síður, að Guð valdi stóru og smáu. Hvað eigum við þá að segja um Guð og veröld, samskipti og tjáskipti? Hvað gerir Guð og hvað ekki? Hin hliðin á sömu spurningu er: Hver veldur sorg, þjáningu, slysum og öðru böli?

Dramatexti Guðspjallstexti dagsins fjallar um þetta flókna efni. Textinn er dramatískur, eins og grunngerð leikverks eða kvikmyndar. Þarna eru nægilega margar persónur til að mynda burðarmikla fléttu; blindur maður og svo hópur fræðimanna, sem voru að spyrja meistarann frá Nasaret út úr. Þeir vilja fá hann til samtals um af hverju þessi blindi hafi enga sjón.

Jesús gerir hlé á orðum sínum og tekur til gerða sinna. Það einkenndi hann alltaf, að þó honum væri ekki orða vant varð honum ekki heldur gerða vant. Hann var ekki handalaus skraffinnur. Hann framkvæmdi til að skýra orð sín, orð og atferli fóru saman í lífi hans. Svo kemur þessi undursamlega lýsing á drullumallaranum Jesú, sem bleytir leir með munnvatni, klínir í hamin augu mannsins. Einhverjir hafa glennt upp skjáina yfir þessum gerningi og barnið í okkur minnist skemmtilegra stunda bernskunnar við hliðstætt drullumall. Maðurinn er svo sendur til að þvo sér og þetta er allt eins og í góðu handriti. Síðan er unnið úr orðum og gjörningi.

Nágrannarnir vilja ekki trúa, að maðurinn hafi bara allt í einu fengið sjón. Svo blandar Jesús inn í þetta orðum um ljós, myrkur, heim og himinn. Og sjálfur er hann sá, sem skilur á milli lífs og dauða, sjónar og blindu. Fléttan hefur grunngerð, er skýr varðandi tilgang mannlífs og ferla heims.

Hver veldur? Ein lífsskoðun samtímamanna Jesú var, að ef einhver var fatlaður, ætti í erfiðleikum eða byggi við fátækt mætti sjá í því refsingu Guðs vegna einhvers brots. Viðræðufélagar Jesú nota dæmið af hinum blinda til að reyna hann og spyrja. Hver eða hvað veldur blindu mannsins? Þeir gera ráð fyrir aðeins tveimur kostum. Að maðurinn hafi sjálfur gert eitthvað rangt og því orðið blindur. Eða að foreldrar hans hafi gert rangt og því hafi refsingin komið niður á þessu afkvæmi þeirra.

Jesús neitar lokaðu orsakakerfi um einfalt guðsstraff. Tilveran er flóknari en svo, Guðstengslin djúptækari en svo og Guð hegðar sér ekki eins og smásmugulegur og refsiglaður brotabókari.

Viðbrögð Jesú tjá og sýna, að hann vill að menn öðlist nýja sjón, nýja skynjun, ný tengsl Guðs og manna. Og ég held, að við þurfum að vitja þessar Jesúspeki og kannski er unga fólkið í íslensku samfélagi að opna okkur nýja leið. Kannski miðlar það okkur mikilvægum skilningi á tengslum Guðs og manna, skapara og heims?

Vísindin og trúarskýringar Hvernig eigum við að skýra böl og áföll? Það er rétt hjá Jesú, að við eigum ekki að reyna að rýna í afglapaskrá einstaklinga til að finna ástæðu blindu. Jú, slys verða og margir hafa af slysni valdið blindu – sinni eða annarra - eða af vangá öðrum örkumlum. Við þekkjum öll slíkar harmsögur. En það er ekki aðfinnsluefni Jesú. Nei, ástæður fæstra sorgarefna eru svo einfaldar. Guð er ekki leppur í einföldu kerfi orsaka og afleiðinga. Við eigum ekki að nota Guð sem vísindalega skýringu. Það eru aðeins bókstafstrúarmenn af forvísindalegu tagi sem einfalda svo barnalega. Og það er í raun guðlast að smætta Guð með því móti. Nei, Guð setur ekki fingur á hengjur svo snjóflóð æði af stað og valda dauða fjölda fólks. Guð pikkar ekki í frumur í fólki svo krabbamein myndast. Það er ekki heldur Guð, sem ýtir við blóðkögglum í fótum fólks, sem síðan fara í gegnum hjarta eða heila svo fólk deyi af. Það er ekki Guð, sem sendir engil dauðans í Barnaspítala Hringsins til að hrifsa með sér börnin okkar og ekki heldur á vöggudeildina til að taka nýfædd og ómálga kornabörn. Hvað þá?

Þrenns konar tengsl Guðs og heims Ef Guð veldur ekki, hver eru þá tengsl Guðs við veröldina? Ýmsar kenningar eru um það mál og í dag látum nægja að greina milli þrenns konar tengsla Guðs og sköpunar.

Alveldið - Í fyrsta lagi er það alvaldskenningin, sem við höfum talað um og gerir ráð fyrir, að Guð valdi öllu sem verður í veröldinni. Þessi kenning gengur ekki upp vegna þess að þar með er frelsi gert útlægt og tilveran - og menn þar með – verða leiksoppar einhverra geðþóttaduttlunga guðanna. Slík kenning er ekki kristindómur.

Hönnuðurinn - Í annan stað er kenningin um, að Guð hafi skapað heiminn en síðan dregið sig í hlé eins og klukkusmiðurinn, sem setur klukku saman, skellir í hana rafhlöðu en snýr sér svo að öðru. Þetta er kenning deistanna, sem gera ráð fyrir eða skapara en ekki, að sá mikli heimssmiður skipti sér af smíðisgrip sínum, nema kannski ef meiri háttar gagnverkstruflanir verða.

Frelsistengsl - Þriðja kenningin er, að Guð hafi vakandi áhuga á veröldinni, hafi skapað mönnum frelsi og gefið vilja. Þessi Guð hafi ekki dregið sig í hlé, en vilji samt ekki taka af mönnum sjálfræði. 

Frumspeki og frelsi Ég aðhyllist þessa síðustu útgáfu en með ýmsum viðbótum. Mín skoðun er, að Guð valdi ekki hamförum heims og sjúkdómum, en sé þó nærri öllum þeim sem reyna og líða. Guð veldur ekki en reynir að hafa áhrif til góðs, ekki með því að grípa inn í þegar illa stefnir, heldur með því að leggja til góðar leiðir, góðar hugmyndir, gefa samhengi og benda til vegar.

Til að skýra þetta geri ég grein fyrir eigin nálgun, sem er dæmi um ígrundun en auðvitað ekki annað en það sem dugar mér. Aðrar leiðir eru auðvitað færar. Ég hreifst fyrir löngu af grein frumspeki, sem kennd er við process eða ferli. Sú heimspeki- og guðfræðihreyfing er kennd við ensk-ameríska heimspekinginn Alfred North Whitehead og er bók hans Process and Reality höfuðrit og kom út fyrir áttatíu árum. Síðan hefur grúi bóka komið út og unnið með vísinda-heimspekileg efni og m.a. gert upp við gamla kjarna-frumspeki, að allt í veröldinni eigi sér kjarna eða óhreyfanleg ódeili. Whitehead, sem var raunvísindamaður - en líka áhugamaður um trúarheimspeki - setti fram sína eigin útgáfu af afstæðiskenningunni og þótti áhugaverð á sínum tíma, kenndi mörgum fremstu ljósum Breta og Bandaríkjamanna, dró lærdóm af hinni vísindalegu þekkingu, nýju eðlisfræði, inn í frumspeki og guðfræði og sagði þar með skilið við þá fornu frumspeki, að veröldin væri kjarnlæg og statísk í grunninn. Processfræðingarnir telja að tuttugustu aldar fræðin sýni, að allt sé á ferð og flugi, að grunngerð heimsins sé samfelld verðandi. Þetta rímar ágætlega við nútímafræði um atóm og kvarka.

Efni og andi í tvinnun En hvernig tengist þessi process eða ferilhugsun Guðstengslunum? Whitehead taldi allt í veröldinni vera efnislegt og andlegt. Sú tvenna væri grunngerð veraldar. En vegna þess að ferli og verðandi væri frumlægari en einhverjar einingar í veröldinni væru að baki atómum og stærri kerfum eins og plöntum, dýrum og þar með mönnum ókjör smáferla, sem væru samsett úr efni og anda. Í hverri verðandi væru teknar ákvarðanir um samspil efnis og anda. Hið andlega er þá ekki aðeins í huga mannsins eða þróaðra dýra, heldur alls staðar, líka í grjótinu, vindinum, sandinum, reikistjörnum. Tilveran er sem sé að öllu leyti flétta anda og efnis og á öllum stigum frá hinu frumlægu grunnferlum til hinna stærstu kerfa. Í allri verðandi ríkir frelsi og í hverri verðandi eru teknar ákvarðanir. Þegar rangt eða illa er ákvarðað verða til forsendur sjúkdóma og náttúruhamfara. En þegar vel er valið sprettur fram hið heila og góða. Whitehead taldi, að Guð virti frelsi en kæmi að starfi sem samnefnari alls hins besta, legði alltaf til bestu tillögurnar, drægi upp hin bestu plön, væri ráðhollur í smáu sem stóru. En vegna þess að hver verðandi tekur ákvörðun væri Guð áhrifavaldur en ekki orsakavaldur. Þetta er mikilvæg aðgreining, sem ég held að við getum vel nýtt okkur til skýringar.

Áhrifavaldurinn Guð sem laðar Guð sem áhrifavaldur en ekki orsakavaldur. Hvað merkir það í lífi manna? Jú, í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum úthellir Guð anda sínum, áhrifum, í öllum efnaferlum okkar, beitir sér fyrir heilsu og velferð, hvíslar í samvisku huga okkar, opnar nýjar hugsanir þegar allt virðist lokað, veitir nýja möguleika í líkama okkar þegar glímt er við sjúkdóma. Já, Guð er að andlegu áhrifastarfi í smæstu efnaferlum líkamans og líka í meðvitund mannsins. Guð sullar ekki sjálfur efnum, heldur skapar kjöraðstæður og bendir til betri leiðar, laðar til farsældar. En frelsið ríkir og í efnum og anda, líkama og vitund manna eru teknar fjölþættar ákvarðanir til góðs eða ills. Þar byrja forsendur sjúkdóma en þar eru líka teknar ákvarðanir til heilla og heilinda, þar eru forsendur hamfara í náttúrunni en líka allri þróun náttúrunnar.

Með hjálp vísinda rannsökum við orsakasamhengi lífsins, greinum og smíðum kenningar um hvað veldur hverju. Jesús hafnaði, að blinda væri afleiðing syndar einstaklings eða foreldra hans. Við samsinnum, en Jesús benti til annars samhengis, að því hvað gæti gerst. Jesús beinir því ljósi sínu frá hindrunum og að möguleikum. Með einföldum hætti bendir hann á mun þröngsýni guðleysis annars vegar og ríkidæmi guðssýnarinnar hins vegar.

Andstæðurnar Við, menn, spyrjum um orsakir, en Jesús um ávöxt. Menn spyrja um tildrög, en Jesús um merkingu. Menn leita aftur, en Jesús beinir sjónum fram á veginn. Menn sjá lokuð kerfi orsaka og afleiðinga, en Jesús sýnir plúsana í lífinu. Menn rækta löghyggju, en Jesús bendir til frelsis. Menn loka, Jesús opnar. Menn læsast, Jesús leysir. Menn blindast en Jesús opnar lífssýn.

Guð vill ekki vera leikstjóri heimsins, heldur ástmögur veraldar. Guð hefur ekki fingur í hári þér, heldur blæs möguleikum um ræturnar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur er þér andlegt fang til hjálpar. Guð gefur þér frelsi hins elskandi vinar og skapar þér vonarveröld til framtíðar. Hver er blinda þín? Leirkaka Jesú í nútíma megnar að opna lífið, opna veröldina fyrir læsingum, lokunum og heftingum. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar.

Amen

Prédikun í Neskirkju 14. október 2007

Lexían; Sl.30.1-6 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér. Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig. Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.

Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn. Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.

Pistillinn: Fil 4.8-13 Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.

Ég varð mjög glaður í Drottni yfir því, að hagur yðar hefur loks batnað svo aftur, að þér gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þér hugsað til mín, en gátuð ekki sýnt það. Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir. 

Guðspjallið: Jh 9.1-11 Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?

Jesús svaraði: Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.

Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam. Sílóam þýðir sendur. Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.

Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?

Sumir sögðu: Sá er maðurinn, en aðrir sögðu: Nei, en líkur er hann honum.

Sjálfur sagði hann: Ég er sá.

Þá sögðu þeir við hann: Hvernig opnuðust augu þín?

Hann svaraði: Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér.