Ekki lengur þörf fyrir guð — Guði sé lof!

Ekki lengur þörf fyrir guð — Guði sé lof!

Um daginn hafði Fréttablaðið (3. sept.) eftir ofurheilanum Stephen Hawking „að engin þörf sé fyrir guð til að útskýra tilurð heimsins.“ „Guði sé lof!“, var mín fyrsta hugsun. Sjaldan hefur samkrull trúar og náttúruvísinda lukkast vel til lengdar.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
08. september 2010

Um daginn hafði Fréttablaðið (3. sept.) eftir ofurheilanum Stephen Hawking „að engin þörf sé fyrir guð til að útskýra tilurð heimsins.“ „Guði sé lof!“, var mín fyrsta hugsun. Sjaldan hefur samkrull trúar og náttúruvísinda lukkast vel til lengdar. Einhvern veginn er það svo að mig minnir að yfirlýsingar af þessu tagi hafi oft komið fram áður þegar vísindamenn draga saman þræði eftir áratuga rannsóknir. Í ljósi nýjustu niðurstaðna og túlkana virðist þeim mannsandinn hafi unnið nýja sigra, tekist að leysa hina sístæðu gátu um upphaf heimsins, lífsins á jörðunni og mannsins, lífverunnar sem stöðugt spyr: Hvaðan kem ég og hvert fer ég? Þó hefur „guð“ alltaf skotið upp kollinum að nýju.

Sé hugað að hugmyndum eðlisfræðingsins Thomasar Kuhn um þróun þekkingar kemur hugsanlega á daginn hvers vegna guð hefur stöðugt verið dreginn fram að nýju sem vinnutilgáta í sambandi við upphaf heimsins. Samkvæmt líkani Kuhns þróast þekking okkar í stökkum sem verða þegar viðtekin þekking samsvarar ekki lengur nýjustu rannsóknarniðurstöðum eða svarar ekki nýjum spurningum sem þær vekja. Við slíkar aðstæður gliðnar ráðandi heimsmynd vísindanna smám saman uns hún lætur undan og ný ryður sér til rúms sem samsvarar betur þeim efasemdum sem vaknað hafa. Eftir slík heimsmyndarskipti ríkir um hríð jafnvægi, ný þekking þróast í ljósi nýrrar heimsmyndar. Senn taka þó efasemdir að vakna að nýju og þörf fyrir nýja byltingu eykst. Við þær aðstæður hefur oft verið gripið til vinnutilgátnnar „guðs“.

Sé þetta líkan viðurkennt sýna ummæli Hawkings fyrst og fremst hvar við erum stödd í þekkingarþróuninni. Við erum nú um stundir á hægu framfaraskeiði. Viðtekin þekking er í samræmi við ráðandi heimsmynd. Tilgáturnar um upphaf alheimsins virðast ganga upp. En er líklegt að hér eftir muni ríkja óbreytt ástand, „status quo“? Vonandi ekki. Við skulum vænta þess að í framtíðinni muni nýjar spurningar vakna, þörf fyrir nýja heimsmynd þrýsta á og hún í fyllingu tímans ryðja sér til rúms. Annað væri stöðnun. Eða erum við komin að útmörkum þekkingarinnar? Geta náttúruvísindin nú sagt sitt amen eða Q. E. D. eftir efninu?

Ég sé ekki að yfirlýsing á borð við þá sem höfð var eftir Hawking skipti nokkru máli fyrir guðstrú, kristni eða guðfræði. Ekki vegna þess að guðfræðingar eða trúfólk almennt hljóti að afneita tilgátum eða þekkingu þeirra sem hugsa á sömu brautum og hann. Þvert á móti geta tilgátur um alheim sem skapar sig sjálfur úr engu verið heillandi. Mergurinn málsins er aðeins sá að spurningar um upphaf heims, lífs og manns eru ekki uppistaðan í trúarlegri hugsun heldur spyr hún um tilgang, markmið og merkingu. Trúfólk spyr ekki fyst og síðast: Hvaðan kom ég?, heldur: Til hvers er ég hér og hvert er hlutverk mitt? Það finnur ekki tilgang sinn í tilgátum um upphaf lífs og heims í órafjarlægð tíma og rúms heldur í samfélagi manna og í samfélagi við Guð hér og nú. Fyrir því er Guð ekki nauðsynleg vinnutilgáta um upphaf heimsins. Þvert á móti getur slíkur samruni trúarlegrar og náttúruvísindalegrar hugsunar villt því sýn og dregið athygli þess frá því sem máli skiptir — leitinni að tilgangi og merkingu lífsins. Í glímunni við þann leyndardóm má vísa í ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk:

Og værir þú ei til að hlusta frá hæðum á hjarta mitt slá og veita mér huggun og verja mig falli og vekja mér þrá og sefa minn ótta við eilífan dauða í afgrunnsins hyl, já, værir þú ei til að vaka mér yfir, ég væri ekki til.

Hér er Guð ekki sá sem upphafinu veldur heldur sá sem hlustar, huggar, ver, vekur, sefar og vakir yfir, þ.e. gefur merkingu og mið.

P.s. Til að raska ekki jafnvægi ljóðsins skal þess getið að fyrr erindi þess hljóðar svo:

Ef lifði ég ei til að lofsyngja nafn þitt í ljóði og mynd og óttast þig reiðan og ákalla náð þína í angri og synd og reisa þér musteri, færa þér fórnir, hve fátt, sem ég skil, og verja þinn málstað og vígja þér börn mín, þú værir ei til.

Skáldið nefnir ljóðið „Jafntefli við Guð“ á sinn glettna hátt.