Er Jesús eitthvað merkilegri en aðrir?

Er Jesús eitthvað merkilegri en aðrir?

Þess vegna er sjálfsagt og mikilvægt að gefa börnum og ungmennum forsendur til að kynna sér kristna trú og taka afstöðu til hennar - rétt eins og þau velja á öðrum sviðum lífsins. Hið trúarlega á ekki að vera feimnismál sem lýtur öðrum lögmálum en allt hitt.

„Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars“ (v. 3)?

Á tímum landafundanna sigldi hópur Spánverja innfyrir ósa Amazonfljóts. Vatnsbirgðirnar um borð voru þrotnar eftir langa og erfiða siglingu yfir Atlantshafið. Sumir skipverjanna hreinlega dóu úr þorsta því engum datt í hug að drekka vatnið sem þeir sigldu á. Það er þó í rauninni stærsta ferskvatnslind í heimi en víðernið við ósa Amazon er slíkt að menn töldu sig enn sigla á söltum sjó. Lífsbjörgin var innan seilingar en samt dóu þeir.

Þessi gamla sorgarsaga er táknræn fyrir andlegt ástand nú til dags. Þorsti steðjar að mörgum. Tómleiki, óánægja og óuppfylltar þrár eru hlutskipti alltof margra. Hið lifandi vatn er við hendina en samt alltof sjaldan notað til að svala lífsþorstanum og styrkja sig.

Það var ekki nóg með að Spánverjarnir hefðu hreint og svalandi vatn innan seilingar. Það hreinlega hélt þeim uppi, þeir sigldu á því!

Í aldanna rás hefur þjóðfélag okkar með sama hætti hvílt á náðarboðskap kristinnar trúar. Jesús var með í för þegar þau fyrstu sigldu hingað, leituðu sér skjóls og settust hér að. Hann hefur verið hér síðan, flestum til blessunar en sumum einnig til ama. Á öllum öldum hefur einhverjum verið í nöp við hann. Svo er enn. Fólk finnur kristinni trú - eða trú almennt - allt til foráttu, vill losna við áhrif hennar úr umhverfi sínu. Því er jafnvel haldið fram að það yrði til góðs að útrýma trúarbrögðunum endanlega. Þeim er iðulega kennt um styrjaldir og mannfall, vissulega stundum með réttu.

Samt hafa mannfrekustu grimmdarverk sögunnar ekki verið af trúarlegum toga heldur þvert á móti framin í skjóli af guðlausum stefnum sem komust í tísku á 20. öld, þóttu fínar og þykja það jafnvel enn. Kommúnisminn og nasisminn leiddu af sér flestar skelfilegustu fjöldaaftökur og þjóðernishreinsanir sögunnar.

Mannkynið hefur sannarlega ekki hegðað sér betur þar sem trú er óvelkomin. Það er fullkomin rökleysa að ýta trúnni til hliðar vegna neikvæðra hliðarverkana.

Með sömu rökum ætti að banna íþróttir út af öllum íþróttameiðslunum.

Við ættum þá líka aldrei að vera heima hjá okkur því flest slys verða inni á heimilunum.

Svo yrði öllum sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum endanlega lokað því þar deyja auðvitað flestir.

Í slíku samhengi sést vel hve fáránlegt það er að einblína á neikvæða fylgisfiska einhvers sem er í sjálfu sér hollt og uppbyggilegt, jákvætt og nauðsynlegt.

Þrátt fyrir meiðslin er íþróttaiðkun holl og mikilvæg. Þrátt fyrir slysin er fátt dýrmætara en gott heimili. Þrátt fyrir dauðsföllin eru sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir mikilvægur liður í að vernda lífið og berjast við það sem ógnar því.

Hvernig getur það sama átt við um kristna trú?

Því mætti svara með langri útskýringu en því er líka hægt að svara eins og Jesús gerði: Sjáið það sem gerist, skoðið afleiðingarnar!

Í umræðu daganna er mikið lagt upp úr kenningum og rökleiðslu. Stundum gleymist að skoða afleiðingar og afsprengi hugmynda. Hvað verður úr þessu? Hvað leiðir af boðskapnum? Hvernig virkar kenningin í reynd?

„.... hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu....“ orti Tómas Guðmundsson forðum og það eru orð að sönnu. Enginn eðlismunur er á fólki eftir búsetu eða kynþætti eða trú einstaklinganna. Og almennt bera trúarbrögðin með sér gildi og kröfur sem þroska einstaklingana og fegra mannlífið.

Samt er mjög áberandi að mismunandi trúarbrögð leiða af sér ólík þjóðfélög. Hvers vegna sækist fólk úr öðrum heimshlutum eftir því að flytjast til þeirra landa þar sem kristin trú hefur mótað samfélagið lengst og mest, þ. e. a. s., Vesturlanda?

Upphaflega voru Vesturlönd þó hvorki auðugri né byggilegri en önnur lönd. Núna þykir samt greinilega eftirsóknarverðast að búa þar. Hvernig stendur á því?

Getur það verið vegna þess að þar er mest almenn velferð og best hugað að þeim sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu?

Ætli það sé vegna þess að þar er staða kvenna betri en annars staðar í heiminum?

Skýrist það af því að þar er meiri jöfnuður en í öðrum heimshlutum?

Eða skyldi það stafa af því að þar eru mannréttindi almennt best virt, svo sem skoðana- og tjáningarfrelsi, og lögð áhersla á umburðarlyndi?

Jesús hefði vel getað fært sterk rök fyrir því að hann og enginn annar væri Messías, frelsarinn sem þjóðin hafði beðið eftir.

Þess í stað svarar hann sendimönnum Jóhannesar með tilvísun í starf sitt, verk sín: „Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi“ (v. 5).

Sú lýsing á starfi Jesú er jafnframt bæði stefnuskrá kirkju hans frá upphafi og saga hennar allt til þessa. Hvar sem Kristur fer gerast enn sömu undur, bæði bókstaflega og í óeiginlegri merkingu. Líf einstaklinga, þjóðflokka og þjóða gerbreytist til hins betra þar sem hann fær að komast að. Það er margendurtekið stef í sögu og samtíð.

Þar með er vitanlega ekki sagt að saga kristninnar í veröldinni sé hnökralaus lýsing á samfelldri velgengni og yndisleika. Nei, svo sannarlega ekki! Í nafni Krists hafa verið gerð margvísleg mistök og framdar hræðilegar misgerðir. Enginn skyldi neita að horfast í augu við það.

Á hinn bóginn er líka slæmt ef við sjáum ekki skóginn fyrir trjánum, týnum okkur í ljótleika vissra drátta og missum sjónar á heildarmyndinni. Saga kristinnar kirkju er að vissu leyti eins og fjallganga í lausamöl: Við förum eitt skref aftur á bak fyrir hver tvö áfram. Með því göngulagi miðar okkur samt áleiðis, hægt og bítandi. Það staðfestir reynsla sögunnar.

Í frumkirkjunni ríkti einstök samheldni kvenna og karla úr öllum þjóðfélagshópum og af ýmsu þjóðerni. Í Kristi voru þau öll eitt og innbyrðis kærleikur þeirra laðaði aðra að kirkjunni.

Á miðöldum voru klaustrin menningarsetur og líknarmiðstöðvar í héruðunum. Þar var athvarf hrakinna og hrjáðra, fátækra og umkomulausra og annarra sem áttu ekki í nein hús að venda. Í klaustrunum mætti þeim kærleikur Krists og þar voru þau örugg.

Nú á dögum breiðist kristin trú út í fjarlægum löndum og ber með sér nýtt hugarfar sem með tímanum breytir hugsunarhætti og samfélagsgerð. Í fátækari ríkjum hefur kristniboðið haft í för með sér alger umskipti í menntun og heilsugæslu. Stór hluti af þróunaraðstoð í samtíð okkar er að frumkvæði kristinna kirkna og samtaka.

Þannig rætast orð Jesú á öllum tímum. Kristin trú ber ávöxt, hún kemur fram í góðu verki og af henni verða breytingar til batnaðar.

Þetta hefur þjóð okkar vitað í þúsund ár. Kristnin er samofin menningu okkar. Tungumál, hugsunarháttur, siðferðisviðmið og löggjöf - allt ber það vitni um kristin áhrif. Kristnin er ein af dýpstu og gildustu rótum okkar.

Þess vegna er sjálfsagt og mikilvægt að gefa börnum og ungmennum forsendur til að kynna sér kristna trú og taka afstöðu til hennar - rétt eins og þau velja á öðrum sviðum lífsins. Hið trúarlega á ekki að vera feimnismál sem lýtur öðrum lögmálum en allt hitt.

Um daginn gaf Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hópi grunnskólabarna stjörnukort til að vekja áhuga þeirra á stjörnufræði. Þetta er jákvætt og skemmtilegt framtak sem ber að fagna enda virtist engum detta í hug að leggjast gegn gjöfinni.

Fyrir nokkrum árum fengu íslensk grunnskólabörn gefna bók um skák í því skyni að efla áhuga þeirra á þessari miklu hugaríþrótt. Svona frumkvæði ber að fagna og engum datt í hug að agnúast út í gjöfina myndarlegu.

Í sextíu ár hafa Gídeonmenn gefið börnunum okkar litla bók. Hún inniheldur þau lífsgildi og viðmið sem samfélag okkar hefur lengstum byggt á, með áherslu á kærleika, umhyggju og samstöðu, mikilvægi þess að setja sig í spor annarra og níðast ekki á öðrum. Hver gæti haft neitt á móti þessari bókargjöf? Er nokkur ástæða til annars en að fagna henni?

Samt stefnir í að stór hópur 10 ára barna fái ekki lengur að þiggja Nýja testamentið í skólanum. Fórnfýsi og frumkvæði Gídeonmanna er ekki lengur fagnað. Allt í einu heitir það mismunun. Hávær minnihlutahópur vill setja trúnni skorður og ýta henni til hliðar. Þannig á að tryggja réttindi þeirra sem vilja tilveru án trúar.

Á einum sundstaðnum í Reykjavík var komið fyrir hárþurrku í útiklefa karla. Einn sköllóttur brást ókvæða við og taldi freklega að sér vegið, hér væri um alvarlega mismunun að ræða. Fyrst hann gæti ekki notað þetta tæki ætti það alls ekki að vera þarna í opinberu rými!

Þú mátt ekki af því að ég vil ekki. Þetta er sama röksemdafærsla og beitt er gegn Gídeonmönnum.

Hverjum er mismunað þótt tíu ára börn fái áfram Nýja testamentið að gjöf í skólum landsins?

Ætli mesta „hættan“ sé ekki sú að með lestri Nýja testamentisins geti börn og fullorðnir kynnst Jesú Kristi, tileinkað sér kenningar hans, lært að biðja og sækja til hans styrk og fengið að reyna þau kraftaverk sem enn fylgja nálægð hans?

Í þúsund ár hefur íslenska þjóðarskútan flotið á lind þess lifandi vatns sem Jesús einn gefur. Sú lind er eina varanlega svölunin við þeim andlega þorsta sem einkennir samtíðina. Leitum ekki langt yfir skammt í andlegum efnum. Umgöngumst ekki kristna trú eins og brimsaltan óþverra sem gerir illt verra heldur teygum af lífsins lind kristninnar eins og þörf krefur.

Látum heldur ekki eins og okkur komi þetta ekki við. Tími hlutleysisins er liðinn. Sinnuleysi fjöldans má ekki leiða til þess að trúnni verði skákað út af borðinu. Við erum kölluð til að taka afstöðu sem sést og hefur áhrif.

Jesús kallaði aldrei neinn til að samsinna sér en mörgum barst kall hans til eftirfylgdar og samverka. Vegna þeirra sem hlýddu kallinu eigum við enn kristna trú og kristna kirkju.

Núna beinist kallið til mín og þín: Er Jesús sá sem koma átti eða er einhvers annars að vænta, honum meiri?

Jesús svaraði Jóhannesi með tilvísun í verk sín. Í svari hans felst skírskotun til spyrjandans: Hvað heldur þú? Hvað sérð þú? Hvað finnst þér?

Því svörum við með lífi okkar. Við þurfum ekki að skilja allt og getum ekki útskýrt allt - en öll megum við fylgja Jesú Kristi.

Enn gerast kraftaverk þar sem Jesús fer um. „Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi“.

Á aðventunni kemur Jesús Kristur til okkar með afgerandi og áþreifanlegum hætti. Fögnum komu hans. Tökum á móti honum. Óttumst ekki áhrif hans. Sækjumst eftir návist hans. Þiggjum svölun hans. Göngum inn í verk hans. Hann er sá sem koma skal og einskis annars að vænta sem geti talist honum jafn, hvað þá fremri!