Best heppnaða útrásin

Best heppnaða útrásin

Mörg úthlaup Íslendinga hafa mistekist hrapalega, nokkur hafa lukkast, en best heppnaða útrás Íslendinga er íslenska kristniboðið.

Hvað dettur þér í hug þegar nefnt er orðið kristniboð? Kannski Kína, nöfnin Jóhann Hannesson og Ólafur Ólafsson. Kannski Eþíópía eða Kenýa. Kristniboð – er það eitthvað sem aðeins verður í útlöndum? Þegar kristniboð er nefnt dettur einhverjum í hug útflutningur á vestrænum hroka og menningarágangi, sem ekki gerir neinum gott. Aðrir hafna að málum sé svo háttað og benda með réttu á, að kristniboð hefur fyrir löngu látið af barnskap einfalds menningarlegs og trúarlegs yfirgangs og kristniboð nútímans sé menningarvinsamleg mannúðariðja, eyðleggi enga menningu og beiti sér ekki gegn neinu öðru en því sem niðurlægi fólk, viðhaldi kúgun og því sem almennt geti flokkast sem mannfjandsamlegt. Markmið kristniðboðs sé að boða Jesú Krist, efla einstaklinga, menntun, heilsugæslu og allt það best sem fólgið er í menningu viðkomandi þjóðar og fólks. Það er rétt, kristniboð má túlka með mismunandi hætti en nútímakristniboð er mannræktariðja en ekki kjánaleg útrás. Betanía Mín afstaða til kristniboðs á sér persónulegar rætur og bakland í reynslu af yndislegu fólki bernskunnar. Móðir mín var virk í Kristniboðsfélagi kvenna. Vikulega kom saman hópur í Betaníu við Laufásveg, sem nú er orðið félagsheimili Fríkirkjunnar. Betanía hét eftir húsi frægra biblíusystkina, Maríu velhlustandi, Mörtu iðnu, sem á kirkjuslangri hefur verið nefnd Marta smarta! Bróðir þeirra hét Lasarus. Betanía við Laufásveginn var engu síðri hinni biblíulegu. Ég komst að því, að konurnar, sem mamma hitti, voru englar í heimi manna, himneskar Mörtur og Maríur, og svo voru þarna Lasarusar í kristniboðsfélagi karla líka. Þetta fólk hafði þau hlutverk helst í lífinu að gera gott, biðja fyrir öðrum, vefja fólk og heim elsku. Betanía var vel sótt og kristniboðskonurnar héldu m.a. stórveislur á verkalýðsdeginum 1. maí. Verkamennirnir komu gjarnan eftir kröfugönguna í veislukaffið og þetta var stórmerkilegur söfnuður, sem spannaði allt pólitískt litróf og menningarkirma Íslands á þeirri tíð. Flestir Íslendingar hafa heyrt um Íslendinga, sem fóru um langan veg, til Afríku, til að segja fólki frá Jesú, byggja sjúkrahús og skóla. Ég sannfærðist um þegar í bernsku að yfir kristniboðum væri ótrúleg blessun. Það var ekki aðeins að þeir lifðu af í ljóna- og slöngu-landi, heldur var við orði þeirra tekið og svo áttu þeir fleir börn en venjulegt fólk. Þegar maður sá myndir af fjölskyldum kristniboðanna undraðist maður barnablessunina. Í Betaníu hengu á veggjum myndir af biblíuversum á kínversku, sem seiddu barnshugann. Þar var svo áleitin mynd af börnum í austrænu landslagi og húsi. Fremst á myndinni var vestrænt barn að benda öðru asísku á mynd sem greinilega átti að sýna Jesú. Það var greinilegt, að þau glöddust yfir að ræða um þennan fallega mann Jesú. Myndin var eins og altaristafla og túlkaði fyrir okkur, sem horfðum á hana, hina góðu merkingu þess að tala um og miðla góðu fréttunum um Jesú. Þetta var mín mynd af kristniboði og festist á sálarskjá minn og fléttaðist saman við elskusemi kvennanna í kristniboðsfélagi kvenna, sem vissu allt um stækkandi barnahóp kristniboðanna, um ástand vega á kristniboðaslóðum í Eþíópiu, um sjúkdóma og þróunarhjálp, um fræðslustarf í frumbyggjaaðstæðum í austur-Afríku, um kostnað og fjárþörf kristniboðsins. Og þessar konur vissu að lokaorð Matteusarguðspjalls eru kölluð kristinboðsskipun og hljóðar svo: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Hraðvaxtarkirkja Tölur segja ekki allan sannleikann en geta orðið okkur skilningsauki. Kirkjurnar, sem íslenskir kristniboðar stofnuðu í austur Afríku, eru einhverjar mestu hraðvaxtarkirkjur í heimi. Mörg úthlaup Íslendinga hafa mistekist hrapalega, verið gönuhlaup, og bankakreppan sýnir það vel. Nokkur hafa lukkast, en best heppnaða útrás Íslendinga er íslenska kristniboðið. Í Konsó í Eþíópíu hafa íslenskir trúboðar starfað yfir fimmtíu ár. Á “íslenska” svæðinu eru um hundrað söfnuðir með yfir 40.000 meðlimi. Konsóþjóðin er samtals um 180.000 manns. Vegna þess hve kirkjan er orðin öflug og fjölmenn hefur hún haft mikil áhrif til góðs á samfélag Konsómanna. Ýmsir lífsfjandsamlegir siðir hafa verið aflagðir eða eru á undanhaldi. Kristnin hefur valdið byltingu til góðs. Eins og Nessöfnuður er hluti af þjóðkirkjunni íslensku er Konsókirkjan hluti af lúthersku Mekane Yesus kirkjunni í Eþíópíu (kirkjuheitið merkir: Þar sem Jesús býr). Hún var stofnuð árið 1959 og þá voru meðlimir hennar um 20.000. Nú er fjöldi meðlima rétt um fimm milljónir. Engin lúthersk kirkja í heiminum vex jafnhratt og kirkjan nær þeirri sænsku fljótt með þessu áframhaldi og verður sú stærsta innan tíðar eða eftir örfá ár. Svipuðu máli gegnir um hina kirkjuna, sem íslenskir kristniboðar stofnuðu, þ.e. í Pokóthéraði í Kenýju. Þar hófst trúboð 1977 og á aldarfjórðungi hefur orðið til kirkja, sem er fjölmennari en allur Nessöfnuður. Á liðlega aldarfjórðungi gengu um fimmtán þúsund manns gengið Kristi á hönd. Eftir nokkur ár má búast við að fjöldin verði tvöfaldur á við okkar sókn eða eins og allur Vesturbærinn. Hvílík bylting og hvílíkur vöxtur og þar er innistæða fyrir öllu! Hvers vegna fórna menn lífi og heilsu fyrir þessa hugsjón að boða fjarlægum þjóðum, ókunnu fólki Krist? Af hverju leggja menn sig og sína í hættu við trúboðs- og lækningastörf, vera öðrum sem Kristur? Er það ævintýralöngun? Er það vegna einhvers menningarlegs hroka? Nei, það er vegna þess að til er meistari, sem vill hjálpa öllum og hefur tjáð skýrt með verki og orðum þann vilja sinn, að allar þjóðir fái að heyra boðskapinn um ást Guðs. Við erum hluti af því verki, sem umspennir allan heiminn, varðar alla veröld. Það skiptir máli hverju við trúum, hvernig við skipum málum samfélags og menningar. Heimsþorpið okkar er eitt. Við eigum aðild að öllum vanda og vegsemd veraldar.

Farið, kristnið, skírið, þjónið Gegn misrétti, kúgun, ójöfnuði, þjáningu, stendur boð Jesú Krists. „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið… skírið…  kennið. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Kristniboð. Er það bara í útlöndum og meðal fjarlægra þjóða? Nei, við ættum að líta okkur nær. Það er líka kristniboð sem við iðkum í kirkjunni. Allt sem við gerum til að efla líf fólks til góðs er boðun Jesú Krists. Það er kristniboð erlendis að boða fólki Jesú Krist í fjarlægum heimshlutum. En það er líka kristniboð að halda úti starfi kirkjunnar á Íslandi. þetta verður fólki æ ljósara í aukinni fjölbreytni. Það skiptir máli hverju við trúum og það er ekkert sjálfsagt í andlegu lífi þjóðarinnar né okkar sjálfra. Við veljum hvers konar gildi við viljum halda í heiðri og hver grunnur samfélags og okkar sjálfra á að vera.

Álög falla Tíminn, sem við lifum nú er eins og í ævintýrum þegar álögin falla. Við höfum verið hamin af peningahyggju. Vegna fjárfárs undanfarinna ára hefur samfélagið verið haldið af blindu. Brotalamir, brestir, skortur og þarfir hafa ekki sést eða hunsuð. Þegar spilaborgin hefur hrunið er eins og hamurinn hafi falli. Í ljós kemur, að það sem við héldum að væru framfarir, snilli, velsæld og aukin lífsgæði var bara blekking, villa, tál. Við vorum komin inn í draumheim ævintýrisins, höfðum tryllst. Það er vont þegar hamurinn fellur. Nýliðnar vikur hafa margir upplifað muninn á draumveruleika og raunveruleika og liðið illa. Það er sárt þegar við vöknum að nýju. Og við verðum að gera okkur skýra grein fyrir að það hefur alltaf verið betra að lifa í raunveruleikanum en í draumi. Hlutverk okkar er að fóta okkur að nýju í nýjum heimi. Á kristniboðsdegi eigum við að loka stórhringnum um veröldina og hugsa um hlutverk okkar. Jú, styðjum kristniboð erlendis, það er eðlieg skylda kirkjunnar og hér í Neskirkju höfum við meðal annars stutt kristniboð í Afríku með milljón kr. framlagi árlega síðustu ár. Kristniboð er fyrir lífið, heima og heiman. Kristniboð er fyrir fólk, til að efla gæði þess í bráð og lengd. Kristniboð er fyrir heiminn, til að auka elsku, velferð og frið í veröldinni. Já, margt í íslensku úrásinni hefur mislukkast illilega, en kristniboð er útrás Guðs. Henni er ætlað það eitt að efla fólk, efla þjóðir, færa veröldinni gæði til lífs og ævinlegan fagnað og án hruns. Amen. Kristniboðsdagur 9. nóvember 2008. Prédikun í Neskirkju. Lexían - Jesaja 12. 2-6 Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði. Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Og á þeim degi munuð þér segja: Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina. Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaró p, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín. Pistillinn - Rómverjabréfið 10. 8-17 Hvað segir það svo? Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu. Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum. Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða. "Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann;" því að hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða. En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu. En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum?

Guðspjall kristniboðsdags - Mattheusarguðspjall 28.18-20 Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.