Íhugun um pálmavið

Íhugun um pálmavið

Pálmasunnudagur var í sum um löndum kallaður græni sunnudagur. Með honum mætti kirkjan hinum forna sið náttúrudýrkunarinnar að fagna nýju lífi, nýjum gróanda, og gerði að helgum siðum kirkjunnar. Fólkið tók með sér sprota af brumandi trjám til kirkju þar sem þeir voru blessaðir.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
09. apríl 2006

Ísrael er á leið frá Egyptalandi. Sex vikur eru liðnar frá því að þau lögðu af stað þaðan. Í dag, pálmasunnudag, eru liðnir sex sunnudagar í föstu. Ísrael hvílist í Elím. Elím er vin, með vatnslindir og pálmavið. Vin er staður hvíldar og næringar. Þar er endurnæring til lífs og sálar.

* * *

Það voru pálmatré í Elím forðum. Pálmar eru heilög tré frá fornu fari. Pálmaviðurinn hefur mörg tákn sem orðið hafa til á löngum tíma. Eitt er tákn friðar og blessunar í fjölskyldu og heimili. Annað er tákn lífsins.

Í Róm var pálmageinin tákn um sigur í orustu. Hjá hinum kristnu varð hún tákn um sigurinn yfir dauðanum. Mynd af pálagrein er að finna á mörgum elstu legsteinum kristinnar. Pálmagreinar eru tákn píslarvottanna og boða sigur lífsins yfir máttarvöldum heimsins.

Sérstakar pálmavígslur voru hluti af trúariðkun kristninnar og komu snemma til sögunnar.

Pálmasunnudagur var í sum um löndum kallaður græni sunnudagur. Með honum mætti kirkjan hinum forna sið náttúrudýrkunarinnar að fagna nýju lífi, nýjum gróanda, og gerði að helgum siðum kirkjunnar. Fólkið tók með sér sprota af brumandi trjám til kirkju þar sem þeir voru blessaðir. Pálmageinar voru blessaðar og bornar heim. Þeim er stillt upp bak við krossinn heima í húsinu , eða úti á akri, eða í gripahúsunum.

Þannig minntist söfnuðurinn komu Krists í kirkjunni og komu vorsins í náttúrunni. Kirkjan blessaði pálmagreinarnar. Þær voru lagðar á leiði eða gefnar sjúkum, eða geymdar heima. Þær eru tákn um blessun hann sem kemur í nafni Drottins. Kirkjan hefur lagt alúð við það að börn geti fermst á pálmasunnudag.

Pálmaviðurinn hefur tengsl við ferminguna. Þú átt að vaxa í Kristi. Eins og jörðin skýtur fram frjóöngum sínum sem vaxa og dafna á vori lífsins, á fermingarbarnið að vaxa í trú og vaxa í Kristi

Þar sem Kristur er þar er Elím. Vin í eyðimörk. Næring og hvíld. Og skjól af pálmaviði.