Farísei og tollheimtumaður

Farísei og tollheimtumaður

Hingað á þennan helga stað, Þingvelli, koma þúsundir. Tölfræðin segir að þau séu líkast til 300 þúsund á þessu ári sem koma hér að kirkjunni, margir gægjast inn, margir setjast niður. Fáir dvelja lengur en nokkur andartök. Svo skrítið sem það kann nú að hljóma, þá er afar algengt, og reyndar miklu algengara en nokkuð annað, að megin spurning þeirra sem hingað koma sé ekki: Hvernig get ég tilbeðið Guð á þessum stað?

Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra: Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.

En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða. Lk. 18.9-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi, Amen.

Þá hryggur ég á brjóst mér ber ég ber á náðardyr hjá þér ég bið að opnist brjóstið mitt, ég bið að opnist ríki þitt, ég bið mín synd sé burtu máð en brjóst mitt fyllist þinni náð.

Valdimar Briem Sb.189/3

Kæri söfnuður.

Guðspjallið um fariseann og tollheimtumanninn sem við höfum til umhugsunar í dag hljómar í senn kunnuglega og framandi.

Við nálgumst það með því að draga upp tvær myndir.

Hin fyrri er þessi.

Hingað á þennan helga stað, Þingvelli, koma þúsundir. Tölfræðin segir að þau séu líkast til 300 þúsund á þessu ári sem koma hér að kirkjunni, margir gægjast inn, margir setjast niður. Fáir dvelja lengur en nokkur andartök. Svo skrítið sem það kann nú að hljóma, þá er afar algengt, og reyndar miklu algengara en nokkuð annað, að megin spurning þeirra sem hingað koma sé ekki:

Hvernig get ég tilbeðið Guð á þessum stað? Heldur: Er klósett hérna?

Nú er klósett ekki opið hér nema þegar prestur er á svæðinu og einhver kirkjuathöfn í gangi, þannig að hér er komin ný og afgerandi ástæða fyrir því að prestur sé alltaf á staðnum.

Af því sérstaka tilefni sem guðspjall dagsins leggur predikaranum á herðar, er rétt að dvelja örlítið lengur við klósett.

Fari svo að gestur í anddyri Grafarvogskirkju þurfi að leita staðar fyrir nauðþurftir getur hann, eða hún, orðið fyrir mjög sérstakri reynslu. Umræddur staður þar er þannig gjörður að þegar viðkomandi hefur sest á þar til gjört þjónustutæki og lítur upp kemur í ljós að allur veggurinn á móti er spegill.

Nú veit sá sem hér stendur ekki neitt um það hvaða guðfræði kirkjubyggingalistarinnar býr hér að baki og verður því að fara varlega. Hitt er nokkuð ljóst að myndin sem við blasir augum áhorfandans er ekki sú sem hinn sami myndi vilja að birtist í Morgunblaðinu eða sem kynning að lærðri grein.

Kæri söfnuður.

Mynd tvö er þessi: Sá sem hér stendur hefur ekki átt þess kost að horfa mikið á útsendingu sjónvarps frá Ólynpíuleikunum, og raunar alls ekki neitt, nema að fyrir skemmstu blöstu honum fyrir augum einstaklingar sem kepptu í samræmdu stökki út í sundlaug, - sem auðvitað heitir einhverju virðulegu nafni íþróttagreinanna.

Tengsl þessarar íþróttagreinar við guðspjall dagsins eru ekki augljós, en við þetta áhorf kom í hug gömul speki sem segir að þegar tveir gera hið sama, sé það samt ekki hið sama.

Ekki er þó alltaf auðvelt að benda á í hverju munurinn liggur og hvernig það sem virðist eins, getur þó verið mjög mismunandi. Við gætum líka lent í erfileikum með að koma í orð þeim mun sem við vildum gera.

Eitt er að skoða keppnisgrein á ólympíuleikum, annað er að fást við trúarefni eins og gert er ráð fyrir að predikun geri. Þá er vandinn miklu stærri Ekki síst þegar kemur að vangaveltum um það hversvegna gjörðir eins eru Guði þóknanlegar en annars ekki. Ekki síst þegar báðir gera hið sama.

Jesus segir í guðspjalli dagsins söguna um fariseann og tollheimtumanninn.

Þetta er saga sem mörgum er kunn að einhverju marki, jafnvel þótt Biblíuþekking sé annars ekki ríkuleg. Sömuleiðis er mörgum kunn hin einfalda og um leið varasama útleggingarniðurstaða: Fariseanum er vísað frá, en tollheimtumaðurinn vegsamaður.

Hvað er í gangi? Tveir menn. Báðir gera hið sama. Þeir fara í helgidóminn. Við gætum sagt: þeir fara í kirkju. Á meðan allur þorri fólks fer alls ekki þangað, er augljóst að þeir tveir eiga eitthvað sameiginlegt.

Og þeir fara til kirkju í sama tilgangi. Til að biðjast fyrir. Það er ekki heldur sjálfsagður hlutur. Það er jú hægt að fara í allt öðrum tilgangi í kirkju. Á þessum sumarmánuðum 2004 koma í Hallgrímskirkju allt að 2500 manns á einum degi. Flestir eru að skoða byggingarlist, næst flestir að hlusta á tónlist.

Það eru að vísu fleiri en tveir sem koma til að biðjast fyrir, - en það er samt dáltíð sérstakt tilefni.

Þó að það sé auðvitað alveg óleyfileg einföldun á textanum að færa hann inn í búning dagsins í dag, þá er væntanlega alveg leyfilegt að álykta að þegar tveir menn fara í sama tilgangi á sama stað, minnki verulega sá munur sem annars kann að vera á milli þeirra. En Guð segir já við annan, en nei við hinn.

Við annan segir hann: Það er í lagi með þig. Við hinn segir hann ekki neitt. Og ef hann segði eitthvað, þá myndi það vera eithvað þessu líkt: Hjá þér er allt í ólagi. Hver er munurinn á þessum tveim?

Ef til vill erum við alltaf í þeirri hættu að gera fariseanum rangt til og sýna tollheimtumanninn í öðru ljósi en rétt er. Það er lítil sanngirni í því að dæma farisea alla úr leik fyrir það eitt að vera farisear. Farieseinn er maður sem alla jafna nýtur virðingar vegna þess að hann iðkar trúna, og hann leggur áherslu á trúariðkun sína bæði í orðum og gjörðum.

Er það rangt? Hann heldur sig við fastar stundir til bænahalds. Ætti maður ekki að gera það? Hann færir fórnir í fullri alvöru og einlægni fyrir sitt trúarsamfélag, og lætur sína tíund af hendi með fúsleik.

Er það ekki betra en að borga sinn kirkjuskatt mánaðarlega án þess að vita nokkuð af því og telja það svo bara vera viðbótar skattheimtu ríkisins sem kirkjunni kemur ekki við?

Er ekki þessi maður að gera öllum þeim safnaðarmeðlimum skömm til sem aldrei vilja láta neitt af hendi rakna til kirkjustarfs, af því að í kirkjunni eigi allt að vera ókeypis, og þá líka væntanlega rafmgsreikningurinn og skatturinn til heilbrigðiseftirlitisins?

Hann fastar. Fastan er reyndar eitthvað sem er næstum því alveg týnt. Því miður. Því að fasta er góð og gagnleg ytri ögun hins innra manns og hefur sannað sig rækilega í sögu kristinnar trúar ekki síður en annarsstaðar meðal annarra trúarhreyfinga og lífsskoðana.

En fariseinn veit svo vel af þessu sem hann gerir. Já, rétt er það.

Þetta er nú dálítíð eins og með hinn sérstaka þjóðflokk þingeyinganna. Við liggjum undir sama ámæli. Við vitum um það sem við gerum vel, og við segjum frá því. Með mikilli ánægju.

En má þá hinn trúrækni ekki vita ef hann er á hinum góða vegi? Má hann ekki þakka Guði fyrir það, að náð Guðs hefur varðveitt hann fyrir því að falla í alvarlegan syndapytt, en hefur í staðinn vísað honum rétta leið? Er þetta ekki eitt hið besta dæmi hins kirkjurækna kristna manns?

Hvernig stendur á því að Guð fagnar ekki yfir honum? Notaði tollheimtumaðurinn kannski betri orð, og réttari orð? Er það kannski svona miklu betra að hann skuli stilla sér upp aftast? Eða er hann bara feiminn? Og fer hjá sér?

Þetta er nú algengt í kirkjum, að presturinn sjái fáa fremst en fleiri aftast. Það er sagt um Friedrich Bodelschwingh í Betel, einum af forkólfum diakoniunnar, að hann hafi verið vanur að bregðast við tómum bekkjum fremst með því að hrópa til hinna öftustu: Krakkar mínir, sýnið nú þá auðmýkt að setjast fremst.

Tollheimtumaðurinn horfir niður. Hann lyfti ekki höfði til að líta upp til Guðs. Er það Guði þóknanlegra?

Hann slær sér á brjóst? Er það málið? Mea culpa, mea culpa, mea maxima culpa.

Ég get alveg viðurkennt það fyrir söfnuðinum að mér þykir eðlilegt að gera þetta í kvöldbænaforminu. Öðrum finnst það bara sýndarmennska.

Eða eru það orðin: Guð ver mér syndugum líknsamur, sem allt snýst um? Og á það þá að vera okkar aðferð að fara með þau?

Syndajátning kirkjunnar er alltaf eins. Sama orðalag. Kemur sá dagur þegar orðin fljóta af vörunum, eitt af öðru, - en hjartað er ekki þar! Kynnir tollheimtumaðurinn sérstaka tegund trúariðkunar sem hægt er að hafa til fyrirmyndar og líkja eftir.

Líkast til kæmi þá líka eitthvað annað fram sem ekki hæfir. Á játning eigin syndalífs að koma í stað góðra verka? Er það rétta leiðin þegar manneskjan bregður fyrir sig eins og skildi réttlætingunni fyrir trúna eina og þakkar Guði fyrir það að vera alin upp í anda siðbótarinnar og sé þessvegna betri en hinir verkaréttlátu kaþólikkar.

Það héti þá bara: Ég þakka þér Guð fyrir það að ég ekki eins annað fólk, eins og þessir farisear og skriftlærðu, að ég tali nú ekki um kaþólikka.

Kæri söfnuður. Vandinn liggur víða.

Skáldið C.S.Lewis skrifaði hin frægu bréf púkans til yfirdjöfuls. Þar segir á einum stað í lauslegri þýðingu: Skjólstæðingur vor er orðinn auðmjúkur. Ertu búinn að vekja athygli hans á því? Allar dyggðir missa sinn óttalega mátt gagnvart okkur djöflunum, um leið og manneskjan gerir sér grein fyrir því að hún hefur öðlast dyggð. Þetta gildir alveg sérstaklega um auðmýktina. Gríptu hann á því augnabliki sem hann er verulega fátækur í anda og laumaðu inn í hugsun hans þessari þægilegu tilfinningu: Ég er orðinn auðmjúkur. Og um leið vaknar stoltið: Stoltið yfir auðmýktinni!

Spegillinn, hvar sem hann er, lýgur ekki. Hann birtir veruleika sem er raunverulegur, og hann birtir einnig það sem við kærum okkur ekki um að sjá. Í flestum tilfellum speglum við okkur ekki nema þegar við viljum sjá það sem við viljum sjá, og til að laga það sem við sjáum, til þess að geta sýnt það öðrum.

Fariseinn var að spegla sig. Tollheimtumaðurinn var ekki að spegla sig. Hinn fyrri horfði á sjálfan sig, hinn síðari til Guðs. Tollheimtumaðurinn stillir sér ekki upp gagnvart neinu sérstöku hlutverki, eins og hins iðrandi syndara. Hann er bara þarna. Guð er fyrir framan hann. Það er það eina sem honum finnst alveg víst.

Hann er ekki með neinar sérstakar hugmyndir um það hvað það táknar að vera frammi fyrir augliti Guðs, - hann er heldur ekki að hugleiða hvort iðrun hans og auðmýkt séu sönn, eða virk eða gild.

Ekkert af því sem maður sér í speglinum hljómar með í orðum hans: Þau eru ekkert nema einfalt hróp úr grunni hjartans: Guð, vertu mér syndugum líknsamur. Og einmitt þetta getur maður ekki leikið eftir.

Tollheimtumaðurinn er ekki fyrirmynd þess sem rétt er, en hann er huggun hverjum þeim sem lendir í svipaðri stöðu, þar sem allir öryggisventlar trúarbragðanna og siðferðisins eru farnir að leka og þar sem maðurinn getur hvorki skoðað dyggðir sínar eða synd sína í speglinum, heldur sér að hann er bara eins og hann er og þessvegn alveg a varnarlaus frammi fyrir Guði.

Það er hér sem mismunur þeirra tveggja sem getið var liggur. Og við getum ekki leikið það eftir. Þess vegna er þetta ekki heldur dæmisaga í venjulegum skilningi.

Og eitt enn. Með því að velja þessa tvo sem þátttakendur í sögunni var Jesús líka að segja þetta: Láttu ekki hið ytra villa um fyrir þér. Ekki umtalið, ekki starfið, ekki þjóðfélagsstöðuna. Þetta bara svona saga um það hvernig náð Guðs er og hvernig hún vinnur.

Það stórkostlega í boðskap sögunnar er að við erum hér og megum vera hér og að hann tekur á móti okkur og bænum okkar hvort sem við sitjum aftast eða fremst. Því að hið innra sem hann sér skiptir öllu en ekki hið ytra sem manneskjan sér.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Þingvallakirkja 22.ágúst 2004