Garimela er bróðir minn

Garimela er bróðir minn

Hvern einasta dag mætum við hinum lifandi Guði í náunga okkar og þörfum hans eða hennar. Við mætum þessari grundvallar þversögn og leyndardómi að Guð er viðkvæmur, svangur, þyrstur, kaldur, einmana, á flótta, á sjúkrahúsi eða í fangelsi.

Drottinn Guð. Hjálpa okkur að sjá þig í andliti þeirra sem við mætum, þannig að við fáum að uppgötva gleði og dýrð konungsríkis þíns, með því að láta okkur annt um aðra. Við biðjum í Jesú nafni, Amen.

Það var mikið um að vera hér í kirkjunni sl. þriðjudag þegar Foreldrafélag Laugarnesskóla í samstarfi við Laugarneskirkju hélt hinn árlega dótadag. Fyrir þau sem ekki hafa upplifað dótadaginn á eigin skinni ætla ég að reyna að lýsa því sem þar á sér stað. Á annað hundrað börn koma í fylgd einstaka foreldris, klyfjuð pokum með dóti sem þau hafa ákveðið að gefa nýtt líf, og vasana fulla af klinki.

Í safnaðarheimilinu var búið að koma fyrir löngum röðum af borðum og rými afmarkað með límbandi svo hvert og eitt barn fengi sitt pláss, svo var byrjað að raða dótinu upp og það vandlega verðmerkt, 50 kr., 100 kr., og einstaka gersemi alveg upp í 250 kr. Þegar bjallan hringdi hófust viðskiptin og ákafinn og verslunargleðin gaf stemningunni á Wall Street ekkert eftir. Dót skipti um hendur og fékk nýja eigendur og allir græddu eitthvað.

En sá sem græddi mest á dótadeginum var reyndar ekki á staðnum, heldur óralangt í burtu. Það var hann Garimela frá Indlandi, sem á enga fjölskyldu en býr og gengur í skóla hjá Indversku kirkjunni. Barnastarfið í Laugarneskirkju hefur styrkt Garimela í nokkur ár svo hann geti hlotið menntun og góðan og hollan mat, og allur ágóði af dótadeginum fór að venju til hans. Hér kemur líka hið fornkveðna á daginn, að margt smátt geri eitt stórt, því þegar smáklinkið safnaðist saman, varð útkoman rúmlega 33 þúsund krónur. Það er peningur sem kemur sér vel fyrir Garimela, bróður okkar á Indlandi, sem við höfum aldrei hitt og hittum líklega aldrei, en tilheyrir samt fjölskyldunni okkar hér í Laugarneskirkju á alveg sérstakan hátt.

Garimela er einn af okkar minnstu bræðrum, sem leika svo stórt hlutverk í guðspjalli dagsins. Það hvernig við mætum þessum minnstu bræðrum og systrum er hvorki meira né minna en það sem skilur á milli feigs og ófeigs, eða með orðum guðspjallsins, sker úr um hvort okkar bíði líf í dýrð eilífðarinnar eða dauði í eilífri refsingu.

Það er ekki létt stemning yfir guðspjallinu enda er dagurinn í dag nefndur Dómsunnudagurinn og er síðasti sunnudagur kirkjuársins, áður en aðventan hefst. Þemað er hinn hinsti dómur, og er tjáð með þessum hætti í 2. Kórintubréfi 5.10: Því öllum ber okkur að birtast fyrir dómstóli Krists. Hvernig tilhugsun er það að birtast fyrir dómstóli? Ég býst við að það kalli fram streitu og áhyggjur frekar en létti og tilhlökkun.

Það er líka þungur tónn í þessari dramatísku og alvarlegu sögu sem Jesús segir lærisveinum sínum á leiðinni til Jerúsalem, til að halda sína síðustu páska, og lifa sína síðustu daga, áður en hann var handtekinn - og jú, mikið rétt, dreginn fyrir dómstól, fundinn sekur og dæmdur til dauða. Dómstóll götunnar lék líka stórt hlutverk síðustu daga í í lífi Jesú. Við innreiðina í Jerúsalem var Jesús vinsælasti gaurinn í borginni og honum fagnað með látum. Örfáum dögum seinna hafði vindurinn snúist svo rækilega að sami hópurinn sem fagnaði Jesú og vildi gera hann að konungi, krafðist aftöku hans.

Andstæðurnar eru því allt umlykjandi í sögunni og Jesús virðist vera í báðum hlutverkum, sá sem dæmir og sá sem er dæmdur. Hann er bæði konungurinn sem kemur í dýrð og okkar minnsti bróðir og systir.

Boðskapur guðspjallsins er auðvitað kunnuglegur og klassískur og kemur okkur ekki á óvart. Áherslan virðist liggja á tveimur sviðum, annars vegar getum við sagt að sagan miðli þeirri sýn að án verka sé trúin dauð, hins vegar að það séu þessi sérstöku verk, að annast fátæka og jaðarsetta, sem séu það sem gildi. Það sem er hins vegar áhugavert fyrir okkur sem lesum og heyrum þessa frásögn í dag, er að það sama einkennir viðbrögð beggja hópanna sem sagan fjallar um, bæði þeirra sem standast kröfuna um að hjálpa öðrum og þeirra sem eru fordæmdir fyrir að bregðast. Í báðum tilfellum kemur þeim það mjög á óvart að það hafi verið Jesús sem þau hjálpuðu og Jesús sem þau brugðust. Ha? segja báðir hóparnir, hvenær sáum við þig?

Báðir hóparnir eru steinhissa yfir því sem Jesús segir, og það kemur einhvern veginn ekki heim og saman við myndina sem þau hafa af Mannsyninum, konunginum, sem kemur í dýrð, eins og sá sem valdið hefur og öllu ræður á himni og jörð. Hvernig getur það staðist að konungurinn sem öllu ræður kemur í dýrð og kallar lifandi og dauða fyrir dómstól sinn, sé á sama tíma nærverandi í þeim sem eru kallaðir okkar minnstu bræður, og mæti okkur þannig?

Já, bæði þau sem skipað er til hægri handar konungsins og fá lof fyrir rétta og góða breytni, og þau sem skipað er til vinstri handar og eru fordæmd fyrir að bregðast, eru gapandi hissa yfir því sem er opinberað þeim í dóminum sem kveðinn er upp. Það kemur þeim algjörlega í opna skjöldu að Guð sé þar sem neyðin er stærst, þar sem þörfin og skömmin yfir erfiðum aðstæðum nær yfirhöndinni.

Hvar eru þessar aðstæður og hverjir eru það sem við mætum þar? Í vikunni hittist Samtakahópurinn hér í hverfinu, þar sem skólar, félög og stofnanir hverfisins eiga fulltrúa. Í þetta sinn var gestur fundarins Vilborg sem er félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Það kemur iðulega í opna skjöldu að heyra um erfiðar aðstæður, fátækt og félagslega einangrun sem ríkir í okkar eigin borg og í okkar eigin hverfi. Það er líka hvetjandi að heyra um verkefni sem kirkjur, einstaklingar og fyrirtæki halda uppi, og miða að því að valdefla með mannvirðingu að leiðarljósi.

Laugarneskirkja tekur þátt í starfi Hjálparstarf kirkjunnar á svo margvíslegan hátt, t.d. með sparifatasöfnuninni sem nú stendur yfir, og miðar að því að gefa fallegum fötum framhaldslíf og koma að góðum notum þar sem þeirra er virkilega þörf. Það er ein leið til að vera vakandi yfir því sem okkar minnstu bræður og systur þurfa, og bregðast við því.

Kvenfélagið okkar er líka vakið og sofið yfir því að afla og styrkja, líka unga fólkið í Breytendum, sem hittist hér í kirkjunni og plottar góða hluti. Þeir, og krakkarnir í Laugarnesskóla sem eru tilbúin að gefa dót og vasapening til þess að Garimela á Indlandi fái mat að borða og geti gengið í skóla, eru fyrirmynd og hvatning til að gera gott, og velja að standa með okkar minnsta bróður og systur.

Hvern einasta dag mætum við hinum lifandi Guði í náunga okkar og þörfum hans eða hennar. Við mætum þessari grundvallar þversögn og leyndardómi að Guð er viðkvæmur, svangur, þyrstur, kaldur, einmana, á flótta, á sjúkrahúsi eða í fangelsi. Og við mætum okkur sjálfum í viðbrögðunum sem við sýnum gagnvart okkar minnstu bræðrum og systrum, frammi fyrir Guði sjálfum.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda. Amen.