Systkinin stóru

Systkinin stóru

Víst erum við alvön því að fólki sé skipt niður eftir verðleika. Sú iðja er ekki alltaf fögur, eins og við vitum. Hér er hins vegar augljóst hvað það er sem Kristur horfir til. Það er ekki kyn, ekki kynþáttur, ekki kynhneigð. Það er ekki tungumálið, ekki ættin, ekki stéttin...
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
16. desember 2010
Flokkar

Nú þegar við undirbúum komu jólanna er verðugt að leiða hugann að þeim sterku böndum sem tengja saman bræður og systur.

Bræður og systur

Kristin trú minnir okkur á það að öll erum við systkin. Við þekkjum orð Krists þegar hann boðar komu konungsins:

Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.

Öll erum við bræður og systur og í þessum texta boðar Kristur að æðsta skylda okkar er við okkar minnstu systkin. Þetta er í raun eitt fárra tilvika, þar sem hann sýnir hvað það er sem skilur á milli þeirra sem eru hólpnir og hinna sem valið hafa hina röngu leið. Já, það er fróðlegt að hugleiða það þegar aðventan er gengin í garð og við undirbúum okkur að mæta Kristi á helgum jólum.

Víst erum við alvön því að fólki sé skipt niður eftir verðleika. Sú iðja er ekki alltaf fögur, eins og við vitum. Hér er hins vegar augljóst hvað það er sem Kristur horfir til. Það er ekki kyn, ekki kynþáttur, ekki kynheigð. Það er ekki tungumálið, ekki ættin, ekki stéttin og við getum haldið áfram að telja það upp sem skiptir fólki í hópa í ýmsu samhengi. Hjá Kristi er það umhyggjan í garð þeirra sem minna mega sín sem skiptir höfuðmáli, framkoman við minnstu systkinin okkar.

Verðugt líf

Hvatning Krists snýst í raun um það að lifa því lífi sem okkur er samboðið. Við finnum það einmitt svo sterkt á Suðurnesjum eftir að atvinnuástandið hérna versnaði til mikilla muna hversu djúpt sú kennd býr í sálu okkar að hjálpa okkar minnstu systkinum. Ekki hef ég tölu á þeim fjölda sem hefur heimsótt okkur í Keflavíkurkirkju með gjafir, fjárstuðning, boð um vinnuframlag, góð ráð, dýrmæt tengsl og annað slíkt sem inn er af hendi með gleði í hjarta. Það gleður ekki síður að hafa átt þeirri gæfu að fagna að njóta samfélagsins við sjálfboðaliðana sem hafa eldað súpu í hádeginu á hverjum sunnudegi fyrir messugestina og messuþjónana sem hafa fært helgihaldið okkar á æðra stig með þjónustu sinni og framlagi.

Nú, þegar við undirbúum okkur í hjartanu fyrir að taka á móti Kristi á helgum jólum þá færist straumurinn í aukana, svo um munar. Á hverjum degi fáum við framlög, fleiri en eitt. Þarna mætir fólk sínum minnstu systkinum og styður þau til sjálfshjálpar. Síðar meir verða þau vonandi sjálf fær um að veita öðrum liðsstyrk.

Farvegur ljóssins

Kristur tekur sér ítrekað stöðu með þeim sem undirokaðir eru. Í jólaguðspjalli Lúkasar er því lýst er hann kemur inn í bæinn Bethlehem þar sem erillinn er slíkur að gistihúsin eru öll bókuð þegar María þarf sannarlega á húsaskjóli að halda. Í þeirri frásögn er horft til annarrar hliðar í þessu máli, þar sem hjörtun eru lokuð fyrir Kristi. En við þekkjum framhald sögunnar og vitum það að ljósið finnur sér sinn farveg. Sú hugsun á að fylla okkur bjartsýni, ekki síst í skammdeginu og mótlætinu. Sannarlega verðum við vitni að því ítrekað hversu bjart ljósin skína nú allt í kringum okkur, einmitt þegar þess er mest þörf.

Systur og bræður undirbúa komu jólanna. Hann felst öðru fremur í því að opna hjörtu okkar fyrir Kristi. Orð Krists tala sínu máli - við vitum hvernig hann birtist okkur í lífinu.

Guð gefi okkur öllum góða daga og gleðileg jól.