Dómur, uppgjör og Drottins blessun

Dómur, uppgjör og Drottins blessun

Það þarf kjark, áræði og þrautseigju við endurreisn landsins, að hugsa lengra en til morgundagsins og lengra en að eigin hagsmunum, ákvarðanir okkar varða ekki aðeins okkur sem nú berum hita dagsins og þunga, heldur líka börnin okkar, já, og aðrar þjóðir.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
01. janúar 2010
Flokkar

Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi. Lúk.2. 21
Guð gefi þér og landsmönnum öllum gleðilegt nýtt ár, í Jesú nafni. Hann launi og blessi alla góða samleið, gleði og blessun á árinu sem leið. Gleðilegt ár! Takk fyrir hið liðna. Mér hefur verið sagt að við Íslendingar einir þjóða eigum þetta svar: „Takk fyrir hið liðna.“ Það er merkileg sérstaða, sem við skulum halda.

Nú finnst okkur víst æði mörgum útlitið vera ískyggilegt í málum lands og þjóðar. Skiljanlega situr sorg og reiði í mörgum vegna atburða liðins árs. Einhverjir nota það sem skálkaskjól til að svala fýsn sinni með skemmdarverkum og eignaspjöllum og annarri óhæfu gegn einstaklingum og stofnunum, svo sem var nú í nótt við Grensáskirkju í Reykjavík. Það er hörmulegt og vegur að grunnstoðum siðaðs samfélags. En þótt ástandið sé ískyggilegt þá megum við þó síst láta hugfallast. Því eins og segir í gömlum húsgangi:

„Nú er dagur dýr og fagur af Drottni sendur. Við skulum breiða út báðar hendur því Drottins blessun yfir oss stendur!“

- Já, einmitt! Mér barst dreifibréf í tölvunni frá góðum vini þar sem sagði: „Ef þú átt mat í ísskápnum þínum, föt til skiptanna, þak yfir höfuðið og flet til að sofa á, þá ertu auðugri en 75 af hundraði jarðarbúa. Ef þú átt peninga í banka, smávegis í veskinu þínu og smápeninga í krukku einhvers staðar til að grípa til.... þá ertu meðal 8 af hundraði íbúa jarðar, sem ríkastir eru. Ef þú vaknaðir í morgun tiltölulega heilbrigður... þá ertu heppnari en milljónir sem munu ekki lifa af þennan dag. Hafirðu aldrei upplifað ógn og hættur stríðsátaka, einsemd fangavistar, kvalir pyntinga, sára hungurverki.... þá ertu betur settur en 500 milljón manns á jörðu. Ef þú getur farið til kirkju án þess að eiga á hættu að vera útsettur fyrir alls konar yfirgangi af hálfu yfirvalda og samfélagsins...þá ertu í betri málum en þrír milljarðar jarðarbúa. Ef þú berð höfuðið hátt með bros á vörum og í augum af þakklæti yfir lífinu, gæfu þess og fegurð, þá ertu sælli en flestir aðrir. Ef þú getur lesið þetta bréf ertu sælli en meir en tveir milljarðar manns í heiminum okkar sem ekki kunna að lesa.“

Já, svona var þessi vinarkveðja og áminning. Og ég horfði hugsi á skjáinn og þakkaði Guði þá blessun sem ég fæ að njóta, og við almennt Íslendingar. Í öllum þeim hrikalegu vandkvæðum sem að okkur stafa sem þjóð getum við samt glaðst yfir því sem við eigum í landinu okkar góða, og horft fram með vongleði.

Um næstu mánaðarmót má vænta niðurstöðu rannsóknarnefndar um bankahrunið. Þjóðin bíður í ofvæni og kvíða þess sem boðað hefur verið sem einhver verstu tíðindi sem nokkur nefnd hefur þurft að færa. Það verður dómsdagur þegar það sem hulið hefur verið verður opinbert. Og hvað verður gert með það, hvernig munum við sem þjóð vinna úr því? Það varðar mestu. Við megum ekki gleyma því að við erum ekki aðeins undir dómi manna. Það er annar dómur sem við stöndum öll undir: Dómur Guðs.

Shakespeare lætur Kládíus konung velta því fyrir sér hvernig hinstu reikningsskilum verði háttað:

„Gefst uppgjöf syndar ef að synd er haldið? Hér niðri í heimsins syndum sollna straumi, tekst glæpaverksins gulli-vörðu hönd að skotra stundum réttinum með refjum, og ránsféð sjálft opt yfirbýður lögin. En annars heims fer öðruvísi fram; þar stoða ei hrekkir, verkið sést þar sjálft, vér verðum þar að vitna gegn oss sjálfum, á meðan brot vor hvessa á oss augum. Nú, hvað þá? Er ei sjálfsagt þá að freista hvað iðran orkar, því að hvað kann hún ei?“ (Hamlet, þýð. Matt.Joch)

Já, hvað kann ei iðranin að orka? Hvað er annars iðrun? Iðrun er að ganga í sig, viðurkenna brot sín og snúa við af röngum vegi og á hinn rétta veg. Að ganga í sig er að vera heiðarlegur við sjálfan sig og aðra, að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna hver maður er og hvað ræður för. Og biðjast fyrirgefningar á mistökum, vanrækslu og synd.

Þjóðfundurinn sem haldinn var nú í vetur lagði megináherslu á að það sem mikilvægast væri alls fyrir Ísland nú væri heiðarleiki, auk jafnréttis, virðingar og réttlætis. Þjóðfundurinn vildi stefna að heiðarlegu og ábyrgu samfélagi. Iðulega er krafan um heiðarleika, sannleika og réttlæti sett fram á hendur öðrum, en síður horft í eigin barm. Menn eru gjarna ósparir á yfirlýsingarnar og sleggjudómana. Níð og mannorðsmorð eru söluvara og ósjaldan stundað af þeim sem hæst hrópa og ákafast veifa fánum siðavendninnar. Fyrirgefning er að breiða út báðar hendur samstöðunnar, umhyggju og kærleika sem laða fram það góða á ný. Sannarlega erum við öll sem einstaklingar og samfélag í þörf fyrir þann opna faðm. Sú var tíðin að Íslendingar voru þekktir fyrir orðheldni og heiðarleika. Menn stóðu við orð sín, handsöluðu skuldbindingar og stóðu við þær. Nú er sem mörgum finnist munnlegir samningar og fyrirheit lítils virði, flest allt sé afstætt. Okkar kynslóð hefur notað Exel til þess að kæfa samviskuna. Stjórnmálin hafa lengi snúist um ímyndir og slagorð, sýndarmennsku og gylliboð. Hin tæra, íslenska viðskiptasnilld var hátt rómuð, en lítt var spurt út í heilindi og heiðarleika, aga og trúfesti. Afleiðingin verður menning gagnkvæmrar tortryggni og vantrausts. Þá er illt í efni. Heiðarleiki er heilindi, að vera samkvæmur sjálfum sér, ráðvendni, sanngirni og ekki síst hógværð.

Hér fyrrum var mikið lagt upp úr því að innræta börnum og unglingum þakklæti, að kenna þeim að þakka fyrir sig. Áreiðanlega var ekki að sama skapi gætt að því að þjálfa menn í gagnrýnni hugsun og réttlætiskennd. Nú erum við sannarlega dugmeiri í gagnrýnni hugsun. Þakklæti þykir engin sérstök dyggð í dag, fremur en virðing og hógværð, menn telja sig eiga kröfu og rétt á meir og minna öllu góðu, og óánægjan, ófullnægjan og óþolið vex. Það er ein þverstæða okkar daga að þegar hagvöxturinn var sem mestur og veraldargengið hæst þá virtist sem fólki liði almennt ver. Kannanir um líðan barna og heilsu virðast leiða í ljós að þeim líði betur nú í kreppunni en í auðsældinni. Er það ekki umhugsunarvert? Mikilvægt er að temja sér djörfung að standa á réttinum og krefja hans, en krafan má ekki setjast að í hjarta manns, þá fær það aldrei nóg. Öllum er okkur hollt að muna að allt sem máli skiptir höfum við þegið af öðrum, ókeypis og óverðskuldað. Við höfum notið velferðarsamfélags á Íslandi, með þróað öryggisnet og almannaþjónustu. Það viljum við áreiðanlega flest að móti samfélag okkar til frambúðar og viljum talsverðu til kosta að viðhalda því og bæta. Velferð er samlegð samfélagsins, félagsleg, fjárhagsleg samlegð til hagsbóta heildinni. En annað og meir en það: Velferð er að farnast vel og ferðast vel á lífsleiðinni. Það snýst ekki bara um að komast af. Fararefnin eru vissulega margvísleg og ferðasniðið með ýmsu móti. Velferðin er sáttmáli samfélagsins um að enginn er einn á þessari för, við erum skuldbundin hvert öðru og okkur ber að gæta bróðurins og systurinnar, samferðamannsins á veginum, og hins sjúka, fatlaða eða þess sem halloka fer og umfram allt barnanna.

Fjögurþúsund manns leituðu ásjár jólaúthlutunar Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar og Rauðakross Íslands nú fyrir jólin. Stór hluti þeirra eru fólk sem aldrei áður hefur þurft að leita mataraðstoðar, vinnandi fólk sem gerir allt sem í þess valdi stendur til að standa í skilum með húsnæðislán sín og aðrar skuldbindingar og á þá lítið sem ekkert eftir til heimilisins. Það er þungbært að þurfa að leita hjálpar, en Guði sé lof að unnt var að mæta neyðinni vegna örlætis og gjafmildi hinna ótal mörgu sem lögðu hjálpar og líknarstarfi lið með einum eða öðrum hætti. Það skal þakkað hér heilum huga. En það er skelfilegt til að hugsa hve mörg heimili og fjölskyldur hér á landi standa bókstaflega á ystu nöf og má engu muna. Hitt er staðreynd að fjölmörgum á meðal okkar líður mun betur en þau hafa það vegna samfélags við annað fólk, borið uppi af umhyggju, örlæti og góðvild. Margir foreldrar, afar og ömmur leggja mikið á sig við halda uppi fjölskyldum og heimilum niðja sinna, og ekki verður tölu á komið það unga fólk sem styður við aldraða foreldra eða ættingja af mikilli fórnfýsi. Samfélagsvefurinn er þéttur og félagsauðurinn í þessu landi er undursamlegur. Til þess að standa vörð um það, rækta og næra félagsauðinn þurfum við á traustum stofnunum að halda, heimilium, skólum, opinberum stofnunum, já, og kirkjum, til að treysta samfélagið og samhengi sögu, hefða, minninga og menningar, móðurmáls sem framar öllu gerir okkur að frjálsri þjóð meðal þjóða. Markaðurinn mun aldrei leysa það af hendi sem skyldi. Reynt hefur verið að telja manni trú um möguleika markaðarins í þeim efnum og mikið var gert í því að tortryggja, veikla og afbyggja grunnstofnanirnar. Nú er mikilvægt að taka höndum saman um eflingu þeirra til lækningar menningar og samfélags.

Það þarf kjark, áræði og þrautseigju við endurreisn landsins, að hugsa lengra en til morgundagsins og lengra en að eigin hagsmunum, ákvarðanir okkar varða ekki aðeins okkur sem nú berum hita dagsins og þunga, heldur líka börnin okkar, já, og aðrar þjóðir. Friedrich Dürrematt skrifaði áhrifaríka smásögu sem hann nefnir Göngin. Þar segir hann sögu af ungum manni á leið með lestinni til Zürich, svo sem hann er vanur. Allt er eins og vant er, nema að skyndilega fer lestin inn í jarðgöng. Ungi maðurinn verður órólegur yfir þessu, en hinir farþegarnir virðast ekki taka eftir því, eða láta sér fátt um finnast. Lestin þýtur eftir niðdimmum göngunum. Ungi maðurinn fer og finnur lestarþjóninn og spyr hvað sé að gerast. Sá fer í fyrstu undan í flæmingi en fylgir honum síðan fram í stjórnklefann, sem er tómur, lestarstjórinn hefur stokkið af lestinni þegar hann uppgötvaði hvað var að gerast. Neyðarhemlarnir virka ekki, lestin þýtur áfram með æ meiri hraða og nú stefnir hún ofan í biksvart hyldýpi. Hvað eigum við að gera? Hrópar lestarþjónninn, og hinn svarar: Ekkert. Guð lét okkur hrapa, og nú föllum við til hans. Þessi saga hefur oft verið túlkuð sem dæmi um viljaleysi samfélagsins að horfast í augu við aðsteðjandi vá, blint traust á máttarvöld þessa heims og annars án þess að spyrja hvert þau stefni. Við höfum horft upp á landið okkar lenda á sporbraut sem við vildum síst þurfa að fara, í dimmum göngum sem virðast óendanleg. Það var ekki Guð sem olli kreppunni, heldur menn og mannleg kerfi sem brugðust. Og þegar neyðarhemlarnir virka ekki hvað er þá eftir? Að falla í arma Guðs. Og þeim örmum megum við treysta. Iðulega er það nú svo að menn finna fyrst tilgang og merkingu lífs síns mitt í ósigrunum og hruninu. Það þekkja þau sem hafa háð glímuna við eigin bresti og veikleika og náð botninum þar sem ekkert var eftir nema að sleppa krampatakinu og leyfa örmum Guðs að taka við, vera nógu smár til að geta sagt: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn....Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum...

Frásögnin af sjóslysinu við Fáskrúðsfjörð um daginn snart okkur djúpt, vitnisburðurinn um kveðjustund þeirra tengdafeðganna sem fóru saman með Faðir vor þarna í kafinu, augliti til auglitis við endalokin. Við sendum aðstandendum öllum innilegar kveðjur, sem og öllum þeim sem harma og syrgja vegna áfalla og auðnubrigða á árinu sem leið. Frásagan er enn einn vitnisburðurinn um áhrifamátt trúaruppeldis og trúarlífs, og vitnar um það sigurafl sem trúin og bænin er. Bænin breytir aðstæðum, bægir frá örðugleikum, læknar og reisir á fætur. Vegna þess að hún er tenging mannssálar við huga Guðs og hönd. Það umbreytir, það ummyndar og blessar. Þá erum við að ganga til liðs við ljós og líf, ást og umhyggju, frið og frelsi, von og framtíð. Sú samfylgd og óumræðileg blessun stendur einstaklingum og samfélagi æ til boða á lífsveginum.

Þar kemur að reikningsskil verða þegar allt upplýsist, ráðgátur og spurningar allar. En ekki aðeins eins og Kládíus segir að „vér verðum þar að vitna gegn oss sjálfum, á meðan brot vor hvessa á oss augum.“ Nei, það eru líka önnur augu sem á okkur hvíla í þeim dómi, auglit frelsarans Jesú. Til hans er lífi okkar stefnt, fram fyrir auglit hans, sem ber synd heimsins. „Ég þekki þig með nafni. Þú ert minn!“ segir hann við þig. Nafni hans er árið nýja helgað og árið sem leið í aldanna skaut er honum falið og signt, og við hvert og eitt.

„...Við skulum breiða út báðar hendur því Drottins blessun yfir oss stendur. “

Morgundaginn hef ég enn ei séð. Gærdagurinn er að baki. Og sjá, í dag hjálpar Drottinn. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen