Tap og gróði

Tap og gróði

Í liðinni viku fengum við Íslendingar að reyna bæði tap og gróða. Strákarnir okkar í handboltalandsliðinu töpuðu fyrir einu besta liði í Evrópu – ef ekki í heimi, að sagt er. En við græddum um tuttugu nýja Íslendinga sem komu þreyttir og þjáðir af ofbeldisástandi í heimalandi sínu, Sýrlandi. Alþjóðabankinn sýnir meira að segja fram á aukinn hagvöxt mótttökulands flóttamanna og hælisleitenda sem hlýtur að sannfæra að minnsta kosti hluta þeirra sem efast um réttmæti þess að fjölga landsmönnum með þessum hætti. Gleðin og þakklætið sem skein úr augum og brosum nýrra borgara sem nú sjá lífi sínu borgið sannfærir ef til vill einhverja aðra. Og glaður var Þórir Guðmundsson frá Rauða krossinum sem kom á málþing Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga um samvinnu við hjálparstarf síðast liðið þriðjudagskvöld, 19. janúar; nánast beint frá flugvellinum.

Að koma út í plús Það er gott að geta gefið með sér. „Guð elskar glaðan gjafara,“ segir í helgri bók (2Kor 9.7). Á þessu málþingi, sem var liður í Alþjóðlegri samkirkjulegri bænaviku fyrir einingu kristninnar, ræddum við meðal annars misvægið sem getur verið á milli þess sem gefur og þess sem þiggur og hvernig við öll erum í báðum hlutverkum. Sé gjöf borin fram af virðingu og veitt viðtaka með reisn koma báðir aðilar út í plús. „Sælla er að gefa en þiggja,“ segir ennfremur í Biblíunni og haft eftir Jesú sjálfum (Post 20.35) sem hvetur okkur til að vera veitult fólk og örlátt. Ef einhver tekur af þér skyrtuna, gefðu honum þá kápuna líka. Sértu knúin til að fylgja einhverjum spölkorn, vertu þá reiðubúin að ganga helmingi lengra en krafist er. „Gef þeim sem biður þig og snú ekki baki við þeim sem vill fá lán hjá þér,“ segir Jesús (sbr. Matt 5.40-42).

Við ræddum líka samspilið á milli þess að sinna neyðaraðstoð og berjast fyrir réttlæti. Sveltandi fólk þarf að fá að borða. Börn líka. Húsnæðislaust fólk þarf að hýsa. Börn sem búa þröngt þurfa meira rými. Þau sem eiga ekki skó til skiptana eða jafnvel enga skó þarf að útvega viðeigandi skófatnað. Skorturinn er svo margvíslegur eins og fram kom í könnun Hagstofunnar fyrir Unicef á kjörum íslenskra barna. Vilborg frá Hjálparstarfi kirkjunnar benti á í fréttunum að öll skorti okkur eitthvað á einu eða tveimur sviðum, ekki endilega efnislega heldur til dæmis félagslega eða tilfinningalega. En þegar skorturinn er farinn að taka yfir mörg svið lífsins verður eitthvað að gera í málunum. Þá er tvennt til ráða: Annars vegar að bregðast við beinni þörf með hagnýtri úrlausn eins fljótt og unnt er og hins vegar að ráðast að rótum vandans sem oft er kerfislægur.

Varanleg lausn Vandi fólksins í Sýrlandi og þeirra sem búa við svipaðar aðstæður stríðs og ofbeldis allt um kring verður ekki leystur með því að veita þeim neyðaraðstoð. En engu að síður verður alþjóðasamfélagið sem við Íslendingar viljum jú vera hluti af að bregðast við með því að tryggja eins mörgum og unnt er líf, helst mannsæmandi líf. Hitt benti Olav Fykse Tveit á í erindi á ráðstefnu norrænna trúfræðinga í Helsinki nýlega að eina varanlega lausnin er að stríðandi fylkingar komi sér saman um varanlega lausn. Að þessu er unnið, meðal annars á vegum Alkirkjuráðsins. En á meðan fólki er ekki líft í sínu upprunalandi, þar sem flestir jú allra helst vilja búa, getum við Íslendingar litið á það sem okkar siðferðilega ágóða að mega taka þátt í því að hlú að fólk sem flúið hefur heimili sín og oft á tíðum misst allt sitt. Það hindrar okkur ekki í að hlú betur að „okkar eigin“ börnum, eins og sumir segja. Að leysa vanda þeirra barna sem búa við fátækt á Íslandi er verkefni sem hægt er að leysa og kannski þiggjum við til þess hugvit og dug með þeim nýju Íslendingum sem bætast í hópinn okkar á þessu ári.

Í fyrirlestri sínum á málþingi á vegum Stofnunar Sigurbjarnar Einarssonar sl. föstudag sem hann flutti af gríðarlegri þekkingu og innsæi minnti dr. Magnús Þorkell Bernharðsson, sérfræðingur í málefnum Miðausturlanda, á þá fjölmörgu burtfluttu Araba sem auðgað hafa hinn vestræna heim með list sinni, hugarafli og kjarki. Sömuleiðis höfum við fylgst með þeirri grósku sem tengdabörn Íslands – kærlighedsimmigrant, ástarinnflytjanda, kallaði Charlotte Böving sjálfa sig þegar hún söng fyrir prins Jóakim og prinsessu Marie í Norræna húsinu á fimmtudagskvöldið í tilefni af 100 ára afmæli Dansk íslenska félagsins - og annað fólk af erlendu bergi brotið hefur fært með sér í þáttunum Rætur sem sýndur er á sunnudagskvöldum á Rúv. Þann mannauð sem flutningar fólks hingað til lands í gegn um árin og árhundruðin ætti ekki að vanmeta. Og þó að flest okkar séu afkomendur þeirra sem komu hingað fyrst og hafa „borið hita og þunga dagsins“ (eins og það er orðað í guðspjalli dagsins) af uppbyggingu samfélagsins eigum við ekki að mögla heldur þakka allt það góða sem við þegar höfum notið og að eiga þess kost að gefa með okkur.

Mælikvarði Guðs „Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi?“ segir húsbóndinn í dæmisögu Jesú (Matt 20.1-16). „Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?“ Okkur hættir til að láta þröngt sjónarhorn ráða um of dómgreind okkar. Réttlæti manna er svart-hvítt, annað-hvort-eða. Okkur finnst við eiga skilið eitt og annað, enda höfum við lagt svo mikið á okkur, og finnst hrópandi ranglæti ef einhver fær meira en okkur finnst viðkomandi hafa unnið fyrir. Dæmisaga Jesú minnir okkur á að í trúarlegu samhengi getum við ekki unnið okkur inn meiri náð en aðrar fá. Náð er náð, kærleikur er kærleikur og verður ekki mældur í veraldlegum einingum.

Hins vegar er alveg skýrt að Guð er virkur í kærleika sínum. Náð og kærleikur eru ekki bara falleg hugtök heldur lýsa verki Guðs: „Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, á því hef ég velþóknun,“ segir í lexíu dagsins (Jer 9.22-23). Á sama hátt kemur kærleiksþelið og traustið til Guðs sem gefur án framlags af okkar hálfu, fram í löngun til að gefa af sér og gefa með sér. Samtími okkar mælir allt í afköstum en Guð mælir á annan hátt. Biðjum Guð sem gefur okkur bæði vit og vilja til að ganga fram til góðs að leiða þá leið sem fær er í síbreytilegum samtíma okkar.