Vægi alúðar og umhyggju

Vægi alúðar og umhyggju

Á móti kröfum hátækni og háhraða og hámörkun afkasta þarf að koma vægi alúðar og umhyggju fyrir lífinu, landinu, náunganum, ungviðinu veika og brothætta. Það kennir meistarinn, sem dó á krossi og reis af gröf, frelsari heimsins, frelsari þinn.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
13. apríl 2009

Gleðilega páska, upprisuhátíð frelsarans Jesú Krists.

Upprisa hins krossfesta Jesú er gleðifregn páskanna og boðskapur vonar inn í vonbrigði og sorg okkar hér og nú. Upprisa hins krossfesta er sigur kærleika, fyrirgefningar, friðar og réttlætis. Upprisa hins krossfesta sýnir að útlitið er ekki vonlaust, engar aðstæður eru vonlausar. Upprisa hins krossfesta Jesú sýnir og sannar að baráttan og viðleitnin í þágu hins góða er aldrei árangurslaus og til einskis,. Við þurfum sannarlega á því að halda nú í vonbrigðum og vonleysi öllu andspænis efnahagshruni og hamförum, sem yfir ganga. Þegar við sjáum framtíð barna okkar og niðja ógnað af manna völdum, þegar við sjáum framtíð lífs á jörðu ógnað, af manna völdum, af völdum græðgi og hroka fólks, sem sást ekki fyrir.

Það gengur dómur yfir þennan heim og snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti. Öll þurfum við að horfa í eigin barm og endurmeta lífsstíl ágengni og sóunar og temja okkur lífsstíl hófsemi og hógværðar. Við þurfum öll að horfast í augu við að draumar og framtíðarsýnir okkar heimshluta og menningar hafa að svo miklu leyti verið byggðar á kolröngum forsendum. Áherslan á endalausar framfarir, sívaxandi auð og velsæld, á mátt hins hrausta, sterka og stælta, var byggð á goðsögn, og er tál. Sú goðsögn er hrunin. Á móti kröfum hátækni og háhraða og hámörkun afkasta þarf að koma vægi alúðar og umhyggju fyrir lífinu, landinu, náunganum, ungviðinu veika og brothætta. Það kennir meistarinn, sem dó á krossi og reis af gröf, frelsari heimsins, frelsari þinn. Páskarnir segja að sá málstaður, að málstaður hans er máttugri en allt sem ógnar honum og vill þagga hann niður eða deyða. Þess vegna eiga páskarnir erindi við okkur öll sem þráum að sjá þessi góðu, heilnæmu gildi dafna og móta samfélag og menningu.

Upprisutrúin, sem reiðir sig á návist frelsarans, treystir á dóm og náð Guðs, og trúir á upprisusigur hins góða hefur leitt margan gegnum erfiðleika og raunir, reist upp og gefið þolgæði í mótlæti, huggun í sorg, styrk í neyð, og gleðinni dýpt gæfu og náðar. Upprisutrúin hefur gefið afl og djörfung til að rísa gegn ranglætinu og mannvonskunni, og láta góðvild, mannúð og mildi stýra hugsunum sínum og gjörðum. Guð gefi þér þá trú, gleðiríka, vonarríka páskatrú í frelsarans Jesú nafni.