Ævintýri í álögum eða saga um lifandi barn?

Ævintýri í álögum eða saga um lifandi barn?

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
30. nóvember 2003
Flokkar

Guðspjall: Matt. 21: 1-9 Lexia: Jes. 62: 10-12 Pistill: Róm: 13: 11-14

Ævintýrið

Bækurnar um Harry Potter eru líkt og ævintýraguðspjöll sem börn um allan hinn vestræna heim hafa beðið óþreyjufull eftir að fá í hendur til að lesa. Fjölmargir hafa lagt á sig töluvert erfiði til þess að verða sér úti um fyrstu bækurnar sem komið hafa úr prentun og beðið langtímum saman eftir að verslunin opnaði. Margir þeirra hafa síðan ekki látið bókina frá sér fyrr en þeir eru búnir að lesa síðustu blaðsíðu hverrar bókar, jafnvel þótt nýjasta bókin sé rúmlega 800 blaðsíður. Bækurnar hafa selst í gríðarlega stórum upplögum og notið fádæma vinsælda barna og unglinga. Og margir fullorðnir hafa lesið þær sér til ánægju innan lands sem utan. Æ fleiri uppgötva ævintýraveröld Harry Potter þar sem hann og vinir hans heyja baráttu við óvininn með aðferðum sem þarf geysilega fjörugt ímyndunarafl til að móta veröld Harry Potter, Herminone og Weasleybræðra sem er gnóttarheimur viðburða, yfirnáttúrulegra möguleika, hræðilegra og djöfullegra vera.

Og veislunni er framhaldið á breiðtjaldinu í kvikmyndahúsum heimsins og á tölvuskjáum um víða veröld. Það er varla til það heimili í hinum vestræna heimi þar sem fjölskyldumeðlimirnir hafa ekki heyrt um Harry Potter og brugðist við honum með jákvæðum hætti. Kannski eru viðbrögðin við þessum ævintýraguðspjöllum viðnám við tæknihyggjunni allri sem ekki megnar að fullnægja þrá okkar í allri sinni dýpt. Þrá okkar eftir ævintýrinu þar sem hið góða berst við hið illa. Þeir eru ófáir hér í kirkjunni að þessu sinni sem ekki hafa kynnt sér Harry Potter eða leikið sér í tölvuleik þar sem einhvers konar barátta á sér stað. Víst má telja að auðvelt hefur verið fyrir lesandann og áhorfandann að gleyma sér í ævintýraveröld Harry Potter sem er ein samfelld veisla fyrir skilningarvitin

Ævintýrið í leikrænan búning

Með ótrúlegu viðskiptaviti var innreið Harry Potter undirbúin í upphafi og henni var síðan fylgt eftir með framleiðslu á kvikmyndum þar sem fyrstu bækurnar eru færðar upp á breiðtjaldið í leikrænum búningi með aðstoð nýjustu tölvutækni og það nýjasta og ekki síst er tölvuleikurinn sem selst hefur í stórum upplögum. Ýmislegt milli himins og jarðar hefur síðan verið framleitt sem minnir á Harry Potter. Allt er gert til að koma honum á framfæri. Viðskiptaháttunum er meira að segja snúið við hvað bækurnar varðar. Yfirleitt hafa greiðslurnar verið eftir á hvað hefðbundnar bækur varðar en Potter er ekkert smælki heldur stórviðburður eða reynsla sem fólk borgar áður en varan er í hendi.

En af hverju erum við að draga Harry Potter inn í kirkjuna með öllu sínu hafurtaski? Það kemur margt til.

Guðspjallið, hliðstæður við ævintýrið

Guðspjallið í dag er eins og sena úr nágrenni Hogwart skóla og það er margt sem má læra af hliðstæðum. Í guðspjallinu er sagt frá afar dularfullum atburði og við skulum rannsaka hann nánar.

Dularfullur hópur manna nálgaðist hæð sem kennd er við Olíu. Öðrum fannst þeir a.m.k. dularfullir og jafnvelstórskrýtnir því að þeir höfðu yfirgefið störf sín og fjölskyldur til þess eins að fylgja einum úr hópnum sem hét víst Jesús. Hann gekk einnig undir nafninu meistari. Hópurinn sem fylgdi Jesú nefndust lærsveinar og þeir hlýddu honum yfirleitt þrátt fyrir að þeir væru einnig fullir efasemda enda venjulegir fáfróðir alþýðumenn nema hvað varðar fiskveiðar sem þeir stunduðu flestir áður eða búskap.

Nú bar svo við að Jesús sendir tvo þeirra af stað. Í stað töfradufts sem flytur þá á milli staða eða kústskafts sem þeir hafa á milli fótanna þá eiga þeir að leita að asna og fola og finna þá. Þegar þeir finna dýrin þá eiga þeir að segja leyniorð við eigandann sem er: “Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip. Herrann þarf þeirra við”. Nú allt gekk eins og fyrirfram hafði verið sagt fyrir um. Leyniorðin voru mælt af vörum við eiganda dýranna sem lét þau af hendi án þess að spyrja, án þess að mögla eða þrátta við þá. Engum töfrasprota var veifað framan í eiganda dýranna.. Hann heyrði einungis leyniorðið sem Jesús hafði eftir spámanninum Sakaría sem var uppi mörg hundruð árum fyrir fæðingu Jesú. Svo teymdu þessir vinir Jesú dýrin til hans og hinna lærisveinanna líkt og þau væru hippogriffínar. Þeir lögðu föt á hrygg skepnunnar og Jesús steig á bak. Það var skrítið að Jesú skyldi ekki velja stæðilegan hest til fararinnar því að asninn fór hægt yfir líkt og hann velti hverju spori fyrir sér. Hann gat jafnvel átt það til að vera staður og fara hvergi ef hann var í þannig skapi. En sagði ekki spámaðurinn Sakaría að asninn væri tákn auðmýktar? Skyldi Jesús þess vegna hafa valið asnann til fararinnar? Hvað um það. Því næst hófst þessi undarlega reið inn í borgina Jerúsalem. Við borgarhliðið hafði fjöldi fólks safnast saman og veifaði greinum og lim af trjánum og sumir dreifðu þeim á veginn.

Ekki þorði ég að gera þetta í æsku. Ég lét mig þó hafa það að slíta rababaraplöntur úr görðum nágrannanna þegar þeir sáu ekki til,spennunnar vegna, og vegna þess að mér þóttu stilkarnir súrir og góðir á bragðið. Jesús fékk höfðinglegar, konunglegar móttökur og mannfjöldinn söng og hrópaði: Hósanna syni Davíðs. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins”. Hvað þýðir þessi söngur? Samtímamenn Jesú voru ekki í vafa um það að hann myndi með yfirnáttúrulegum hætti brjóta hernám Rómverja á bak aftur og veita þeim frelsi en Rómverjarnir höfðu hernumið landið nokkru fyrr og fæstum íbúanna líkaði við það. Þeir áttu von á einhverjum sem gæti gert hið ómögulega og breytt öllum aðstæðum Það var konungur með hershöfðingjalegt yfirbragð sem þeir áttu von á.

En hin ráðandi stétt í Jerúsalem, hernaðaryfirvöld og áhyggjufullir forráðamenn trúmála þjóðarinnar gerðu margt og sumt vont til að bregðast við og það voru mestu mistök þeirra. Þeir skildu ekki að Jesús var ekki sá sem ætlaði að koma með valdi, ríkidæmi, stríði og yfirgangi. Hann var ekki kominn til að vera Herra alheimur, forseti heimsins heldur þjónn, ekki veraldlegur konungur heldur auðmjúkur bróðir og þjónn, ekki hershöfðingi sem færi með ófriði heldur farvegur friðar, frelsis og réttlætis fyrir alla menn.

Jesús, ævintýrapersóna eða lifandi persóna?

Þess vegna er þessi texti rifjaður upp í dag til að við spyrjum okkur. Í hvaða hópi erum við? Erum við að rífa limið af trjánum og henda á götuna fyrir einhvern allt annan en Jesú eða erum við að undirbúa okkur undir komu barnsins: Guðs ljóssins, gleðinnar, blessunarinnar. Það er í þessum anda sem er svo mikilvægt að við stöldrum við og spyrjum okkur hvaða Jesú ætlum við að taka á móti á jólum? Er það einhver skáldsagnapersóna úr ævintýraheimi bókmenntanna eða Jesús Kristur, lifandi barn sem lagt var í jötu og sagnfræðilegar heimildir vitna um að hafi verið til fyrir rúmlega tvö þúsund árum og reynsla milljóna trúaðra kristinna manna staðfestir að lifir upprisinn í dag?

Aðventan er hafin og kveikt hefur verið á fyrsta kertinu á aðventukransinum sem nefnist spádómakertið til að minna okkur á spádómana um fæðingu frelsarans.Aðventan er ferðalag Jesú frá Guði föður inn í þennan heim þar sem hann afskrýðist sínum tignarskrúða og fæðist sem ósjálfbjarga barn fyrir tilstuðlan alþýðukonunnar Maríu sem Guð hafði falið þetta blessunarlega mikla hlutverk. Guð faðir ákvað þetta vegna þess að þessi heimur brennur í stríðum, er fullur af baráttu milli góðs og ills, reiði og gleði, sorgar og fagnaðar. Guð sér aumur á þessu stríðandi mannkyni.Hann vill ekki skilja okkur eftir í sárum. Hann vill bjarga okkur, hjálpa okkur, fyrirgefa okkur, benda okkur á hvernig komið sé fyrir okkur og leiðbeina okkur svo að okkur auðnist að finna réttu leiðina heim til Guðs föður. Hann er að koma og aðventan er tækifæri fyrir mig og þig til að undirbúa komu hans.

Jólin, ævintýri eða lífsreynsla?

Í ljós hefur komið að við erum alveg fær um að taka þátt í aðventu Harry Potter. Við pöntum næstu bók með löngum fyrirvara og hlökkum til að lesa hana spjaldanna á milli á nokkrum dögum. Við væntum og gleðjumst yfir þessari ævintýrapersónu og tökum vel á móti honum þótt hann sé enginn kóngur, enginn hershöfðingi, enginn undraráðgjafi eða friðarhöfðingi. Við tökum á móti honum með hátíð þó að hann sé ekki til nema í huga okkar.

Er þetta það sem við viljum og er þetta það sem við gerum á jólunum? Tökum við jólum með fögnuði af því að þau eru bara plat, fallegt ævintýri, saga sem vekur kenndir um eitthvað jákvætt innan í okkur? Erum við kannski í sporum þeirra sem voru við veginn forðum og köstuðum limi að ímynd okkar, manninum Jesú frá Nazaret sem við vörpuðum eigin draumum til. En Jesús vill ekki limið af trjánum, vill ekki hrópin um Davíðs son, Vill ekki tilbeiðslu fólks sem er að bíða eftir eigin draumi eða draumi um einhvern pólitískan stríðsherra. Hann vill setjast að í hjörtum okkar.

Aðventa – jól - lifandi trú

Aðventa – Jesús er að koma, þessi Guð á jörð, sem reynsla milljóna manna um allan heim staðfestir að er lifandi þrátt fyrir að hafa verið krossfestur og deyddur og grafinn. Hann bjargar og blessar og leysir fólk úr álögum, úr vítahring, hjálpar því að finna fótum sínum forráð á traustum grundvelli sem ekkert fær skekið. Þessi grundvöllur er traustið sem við berum til hans, hin lifandi trú á frelsarann sem nærist af orðum hans og sakramentum skírnar og kvöldmáltíðar. Jesús kemur vegna þess að veröldin er í álögum, er öfugsnúin og þráir frið, leiðsögn, visku að nýju, ást himins í garð þessa stríðandi heims. Jesús er á leiðinni og hann kemur ekki til með að birtast á hvítatjaldinu með töfrasprota. Hann kemur ekki til með að birtast í söluvarningi merktum sér, tölvuleik eða geisladisk, heldur með því að vera mennskur og tilfinningaríkur vinur okkar og bróðir, frábær kennari, einstakur leiðbeinandi og þjálfari í mannlegum samskiptum þar sem hógværðin er fremri hrokanum og kærleikurinn fremri illskunni. Hann er hinn sanni bjargvættur sem hægt er að treysta. Hann er framtíðin. Hann er lífið sjálft. Jesús er á leiðinni. Við hverjum tekur þú? Amen.