Einu sinni var rithöfundurinn Þórarinn Eldjárn í viðtali. Talið barst að þeirri einkunn sem samtími hans hafði gefið honum og nokkrum skáldsystkinum hans. Þau voru kölluð fyndna kynslóðin. Og spyrillinn innti hann eftir því hvort það bæri með sér að skáldskapur þeirra væri léttvægari en eldri höfunda. Svarið sem Þórarinn gaf er mér minnistætt: „grín er ekkert gamanmál.“
Gleðiboðorðið
Gagnsæ íslenskan sýnir tengslin á milli fyndni og fundvísi og bendir til þess að það þurfi skarpan og skapandi huga til að segja eitthvað sem fær fólk til að hlægja. En það hlýtur að vera krefjandi að starfa í þeim geira að kalla fram hlátur viðstaddra. Það er munur á því að finna eitthvað broslegt í dagsins erli eða þá að stíga á sviðið og standa undir þeim væntingum að vera fyndinn.
Þessi minning kom upp þegar ég hugleiddi þennan texta sem hér var lesinn. „Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð“. Eru þessi fyrirmæli ekki af sama toga spunnin og atvinnugrínanar þurfa að mæta: „Vertu fyndinn!“ „Verið glöð!“
Við þekkjum boðorðin tíu. Þar hljómar nánast eins og hamarshögg, „þú skalt ekki!“, „þú skalt ekki!“ Og svo er það kærleiksboðorðið tvöfalda, nú eða þrefalda ef við bætum ástinni á okkur sjálfum þar við. En þessi orð postulans getum við kallað gleðiboðorðið.
En gleðin er sennilega ekkert gamanmál heldur. Og úr þeirri áttinni er ekki allt jafn gott og gagnlegt.
Getur gleði valdið kvíða?
Björn Hjálmarsson, geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans hefur undanfarin ár flutt okkur dapurlegar fréttir sem snerta á geðheilsu ungmenna. Að hans áliti hafi sumir gleðivakar samtímans rænt ungmenni gleðinni og fyllt þau andstæðu hennar, kvíðanum.
Að hans sögn hafa „rúmlega 11 prósent stúlkna á aldrinum 12 til 17 ára [...] fengið uppáskrifuð þunglyndis- eða kvíðalyf á árinu samkvæmt Landlækni, og hafa þær aldrei verið fleiri. Línuleg aukning hefur orðið á notkun þessarra lyfja allt frá árinu 1998.“ Segja þessi orð ekki sitthvað um gleðitímana okkar sem hafa þó á sér nokkur einkenni þess að vera gleðisnauðari en í fyrstu mætti ætl?
Gleðin og fyndnin eru systur og fyndna kynslóðin þurfti að svara spurningum eins og þeirri sem hér var vísað til. En glaða kynslóðin? Hvað getum við sagt um þá kennt sem er hér allt um lykjandi í umhverfi hennar?
Tilefni gleðinnar
„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi: Verið glöð.“
Sjálfur var postulinn í fangelsi þegar hann skrifaði þessi orð. Það setur þessa afdráttarlausu skipun sem hann flytur Filippímönnum í annað samhengi Orðunum beinir hann því ekki síður að sjálfum sér: „Vertu glaður!“ Gleðin í þessu sambandi felur í sér styrk til að hefja sig yfir það sem umhverfið leggur á okkur.
Gleðin getur magnast upp við mótlætið ef við höfum háleit markmið sem við stefnum að. Postulinn talar líka um ljúflyndi fólks og vonina um að Drottinn sé í nánd sem ástæðu gleðinnar. Og þennan frið sem hann segir vera æðri öllum skilningi. Af hverju skyldi það vera? Getur ekki verið að friðurinn búi innra með fólki og víki ekki þótt umhverfið sé fjandsamlegt?
Blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King talar inn í þessa hefð enda þekkti hann vel til kúgunar og frelsissviptingar. Hann sagði á einum stað að þau sem væru ekki að leita hamingjunnar væru líklegust til að finna hana. Þau sem aftur á móti hafa gert hana að sínu æðsta markmiði vilja gleyma því að vísasta leiðin til hamingju er að gera aðra hamingjusama.
Hvatning Páls snýr að því að gleðin sé afleiðing þess að eiga sér tilgangsríkt líf, inntak og merkingu sem gefur dögunum aukið gildi og á nóttinni fær sálin frið og hvíld. Gleðin fléttast hér saman við trúna og þá sjálfsmynd sem heilbrigt trúarlíf mótar.
Glaða kynslóðin
Það vakti athygli mína hvert geðlæknirinn horfir þegar hann leitar að skýringum. Jú, hann bendir á glaðværðina sem mætir okkur hverja vökustund á samfélagsmiðlum. Hún getur grafið undan sjálfstrausti og sjálfsmati fólks. En hann sagði meira: „Sorgin er að verða meira og meira sjúkdómsvædd. Þeir sem eru sanntrúaðir, þeir geta sótt svo mikinn mátt í trúna. Trúarheimspeki, það að geta sótt styrk í æðri mátt, trúin á hið góða, hið fagra og hið fullkomna er mjög góður styrkur.“
Þetta er ekki innantómur hlátur og andartaks innlit í líf hinna fögru og frægu. Nei, þetta er raunveruleg sannfæring sem segir fólki að jafnvel þegar heimurinn sýnir á sér sínar verstu hliðar, er Guð alltaf nærri og hjálpin þar með. Það er þessi friður sem er æðri öllum skilningi.
Þessi „trúarheimspeki“ sem læknirinn orðar svo snýst öðru fremur um það að geta horft á lífið á erfiðum stundum og skynjað að við erum ekki ein í mótlæti okkar. Við greinum mögulega á milli yfirborðs og þess sem býr þar undir, á milli umbúða og innihalds. Við finnum og skynjum að við tilheyrum því sem er ekki forgengilegt heldur lifir þvert á móti áfram. Eins og Jesús sagði: „Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“
Geðlæknirinn talar um tómarúmið sem trúleysið skilur eftir. Tæknihyggjan reynir að mæta því með því að ávísa meiri og meiri lyfjum til ungra einstaklinga. En þau eru engin framtíðarlausn eins og hann bendir á. Þau veita ekki inntakið þaðan sem gleðin vex upp. En í heimi þar sem gleðin getur orðið óþægileg kvöð á fólk, ekki síst unga fólkið okkar, það til að fyllast sektarkennd ef hún er ekki til staðar.
Auðlindir kirkjunnar
Og eins og oft hefur verið bent á undanfarið er leitar nú ungt fólk til kirkjunnar í ríkari mæli en oft áður. Straumurinn fer vaxandi og kirkjurnar opna faðm sinn fyrir þessum þátttakendum. Sjálft segir unga fólkið svo frá, að þennan tíma sem þau sitja á kirkjubekk fái síminn frí, hann fær ekki að ónáða og raska frið þeirra. Og þau drekka í sig boðskapinn sem við miðlum, skynja dýptina, einlægnina og heilindin sem við miðlum í helgihaldi okkar.
Andlag trúarinnar er þessi skilyrðislausi kærleikur Guðs til breyskra manna. Við erum að sama skapi hvött til að miðla þeirri ást áfram til náungans og umhverfis okkar, þar sem hamingjan okkar sjálfra birtist óvænt – eins og leiðtoginn Martin Luther King benti á.
Þessi mannsmynd er orðuð á fyrstu blaðsíðum Biblíunnar þar sem manneskjan er sögð vera sköpuð í Guðs mynd, ,,Imago Dei" heitir það á tungu Rómverja og fer vel á því að nefna hér í helgidómi dr. Gunnlaugs. Sá tónn endurómar svo í gegnum þetta mikla rit í margvíslegri mynd. Boðskapurinn er oftar en ekki settur fram í sögum, já helgisögum þar sem atburðarrásin miðlar tímalausum sannindum sem eiga jafnmikið erindi við okkur í dag sem þau gerðu í árdaga þegar frásagnirnar bárust fólki fyrst til eyrna.
Sú mannsmynd sem kristin trú boðar byggir á jöfnuði og virðingu fyrir lífinu. Þegar við fögnum því sem er fjölbreytt, þegar við hlúum að því sem er brotið, þegar við reisum við það sem er fallið – þá uppfyllum við skyldur okkar sem kristnir einstaklingar.
Gleði er ekkert gamanmál
Postulinn boðar gleði í líf okkar. Og það er með gleðina eins og fyndnina að hún kemur ekki af sjálfu sér. Já, gleði er ekkert gamanmál.
Þess vegna hvetur Páll okkur í senn til að vera boðberar friðar en áminnir okkur um leið að vera þakklát fyrir þær gjafir sem Guð hefur fært okkur. Já, þar er lykillinn að sannri farsæld hverrar manneskju óháð því hvernig heimurinn kann að hafa leikið hana.
Þetta er sá friður sem postulinn vill að ríki í hjörtum okkar, friður til hjálpar og uppbyggingar sem byggir á réttlæti og kærleika. Og það er einmitt sá friður sem er uppspretta hinnar raunverulegu gleði.
Bréf Páls postula til Filippímanna (4.4-7)
Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú. Að endingu, systkin, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.