Energí og trú

Energí og trú

Landsmót ÆSKÞ lyftir upp öllu því sem er gott við íslensku Þjóðkirkjuna. Landsmót er borið uppi af hugsjón og sjálfboðnu starfi, er í boði fyrir allt landið, er stærsti einstaki viðburður kirkjunnar og hefur það að markmiði að hjálpa öðrum.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
24. október 2013

Landsmót ÆSKÞ 2012

Landsmót ÆSKÞ lyftir upp öllu því sem er gott við íslensku Þjóðkirkjuna. Landsmót er borið uppi af hugsjón og sjálfboðnu starfi, er í boði fyrir allt landið, er stærsti einstaki viðburður kirkjunnar og hefur það að markmiði að hjálpa öðrum.

Mótið sem haldið er næstu helgi, 25.-27. október í Reykjanesbæ, á sér langa sögu en hefur verið á höndum ÆSKÞ, Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar, frá árinu 2006.

Byggir á grasrótarstarfi

Að ÆSKÞ standa 26 æskulýðsfélög kirkjunnar, sem saman mynda frjáls félagasamtök. Stjórn félagsins, sem kosin er af aðildarfélögum, sinnir rekstri félagsins og framkvæmdarstjóri sambandsins er ráðinn af stjórn. Skipulag ÆSKÞ er því lýðræðislegt, gegnsætt og einfallt en það er helsti styrkur sambandsins. Öll vinna við Landsmót ÆSKÞ er unnin í sjálfboðavinnu, en með stjórn, landsmótsnefnd og leiðtogum eru yfir 50 manns sem gefa vinnu sína við mótið. Landsmót ÆSKÞ er því stærsta einstaka sjálfboðaliðaverkefni Þjóðkirkjunnar.

Landið allt

Þjóðkirkjan hefur þjónustuskyldu við allt Ísland og þátttakendur koma allsstaðar að af landinu. Mótið sækja hópar úr sveitum og þorpum, miðborg og úthverfum, og af öllum landshlutum, auk Íslendinga sem búsettir eru á Norðurlöndum. Mótið er haldið á nýjum stað á hverju ári, það var á Egilsstöðum í fyrra, þar á undan á Selfossi, þá Akureyri og svo framvegis. Sama verð er á mótið hvar sem þú býrð og kostnaði við ferðalög er dreift á alla þátttakendur, til tryggja að allir hafi sömu möguleika til að sækja mótið.

Landsmót eru góðar fréttir

Á Landsmót koma í ár 637 ungmenni, ásamt prestum og leiðtogum, af öllu landinu með það að markmiði að gleðjast yfir fagnaðarerindi Jesú Krists og láta gott af sér leiða. Á hverju ári er valið verkefni til að styðja og hafa þemu mótsins tekið mið af því. Í fyrra var afrískt þema, en þá var safnað til styrktar vatnsverkefnis Hjálparstarfs kirkjunnar í Malaví, og þar áður var japanskt þema, en þá var gefið fé til grunnskóla sem varð illa úti í fljóðbylgju sem skall á eyjuna 2011. Í ár verður sjónum beint að innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar og stutt sérstaklega við Framtíðarsjóð en hann hefur að markmiði að styðja ungmenni frá efnaminni fjölskyldum til náms og félagslegrar þátttöku.

Hápunktur Landsmóts er Karneval en þá er gestum og gangandi boðið að koma og skoða afrakstur ungmennanna á mótinu og láta gott af sér leiða. Karnival Landsmóts ÆSKÞ hefst kl. 14.00 í Íþróttahúsi Keflavíkur við Sunnubraut.

Komdu við og upplifðu ENERGÍ OG TRÚ!