Við höfum verk að vinna!

Við höfum verk að vinna!

Kæri söfnuður, hjartanlega til hamingju með þennan mikla dag í lífi Langholtssafnaðar, -þetta er gleðidagur okkar allra sem þykir vænt um þessa kirkju og þennan stað á jörðu og við fögnum honum, - og vonandi fá nú þau sem hér störfuðu fyrrum og farin eru á undan okkur heim til Guðs að gægjast út úr gáttum himnaríkis og sjá hvernig draumar hafa ræst og allt er prýtt og glæst hér í kringum kirkju og safnaðarheimili.

Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: Fylg þú mér! Og hann stóð upp og fylgdi honum.

Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum.

Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.

Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.

Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni.

Farísearnir sögðu þá við hann: Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?

Hann svaraði þeim: Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.

Og hann sagði við þá: Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins. Mk. 2:14-17, 23 - 28

Bæn.

Náðugi Guð af náð veit þú nær sem að klukkurnar kalla, söfnuðir Krists í sannri trú safnist um veröldu alla, lát þá í anda son þinn sjá sonar þíns kveðju heyrða fá: Friður sé öllum með yður. Amen (Sb. 285. 7.v.)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi, Amen.

Jesús gengur fram hjá tollbúðinni. Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi Þá koma menn til hans.

Herra hvíldardagsins. Fylg þú mér.

Kæri söfnuður, hjartanlega til hamingju með þennan mikla dag í lífi Langholtssafnaðar, -þetta er gleðidagur okkar allra sem þykir vænt um þessa kirkju og þennan stað á jörðu og við fögnum honum, - og vonandi fá nú þau sem hér störfuðu fyrrum og farin eru á undan okkur heim til Guðs að gægjast út úr gáttum himnaríkis og sjá hvernig draumar hafa ræst og allt er prýtt og glæst hér í kringum kirkju og safnaðarheimili. Risinn er fagur og glæsilegur klukkuturn svo sem hæfir á þessum stað og gefur klukkunum stuðning og endurhljóm. Við horfum til baka og minnumst í kærri þökk þeirra sem stóðu hér úti í ýmislegum veðrum og toguðu í kaðlana með höndum sínum og líkamsburðum, svo að raust Guðs mætti hljóma hér yfir hæðina og kalla söfnuðinn til kirkju.

Hingað kom fyrir tveim árum reyndur presta- og organistakennari frá Þýskalandi og horfði með aðdáun á þann sérstaka hringibúnað sem þá var, og sagði : það yljar um hjartað að sjá enn hringt með handafli, það þarf svo mikla elskusemi til að sinna því vel. Það er alveg rétt og þess vegna skal þess minnst og það þakkað á þessum tímamótum í fullvissu þess að umrædd elskusemi finnur alltaf farveg. Það eru tímamót, og kirkjuafmæli og tækifæri til að staldra við og horfa á tímans rás. Það er líka hreyfing tímans í guðpjalli dagsins. Jesús er á ferð.

Markús raðar saman íhugunarefnum eins og heilræðum þegar hann hefur sagt frá því sem henti tollvörðinn þennan dag. Jesús gengur fram hjá tollbúðinni, þar sem Leví Alfeusson er við vinnu sína. Maður í starfi sem samfélagið hafnar og lítur niður á. Fylg þú mér, segir Jesús. Og Leví hlýðir. Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, segir Jesús.

Það verður breyting í lífi þeirra sem fylgja honum. Snögg og algjör, eins og að standa upp frá vinnu sinni, eða hæg og vaxandi eins og fljót sem nálgast ósa.

Klukkan kallar. Hún kallar hið sama og Jesús þegar hann gengur hjá. Hún minnir á. Hún er raust Guð sem kallar: Heyrið málmsins mál! Lofið Guð sem gaf.

Og klukkan helgar hvíldardaginn og eyktamörk á ævi mannsins. Hún þegir nema þegar mikið liggur við. Hún gellur aldrei að óþörfu. Hún kallar inn hvíldardaginn. Hvíldardagurinn er til mannsins vegna, segir Jesús.

Hvíldardagurinn er ekki skyldukvöð til að uppfylla samkvæmt lögum, eins og að gera skattinn sinn og láta skoða bílinn. Það er líka fátítt að fólk hugsi þannig. Það er algengara að skoða eigin skírn og fermingu sem uppfyllta lögmáls- og skyldukvöð. Svo þarf ég ekki oftar í kirkju fyrr en ég er dauður, nema ef ég rekst þar inn til að gifta mig. Hvíldardagurinn er til vegna þess að maðurinn þarf hans með. Hvað þýðir það?

Hvíldardagurinn er til þess að líta til baka á liðna viku áður en við horfum fram til hinnar nýju, - til þess að þakka það sem vel gekk, skipuleggja og endurmeta það sem illa gekk og safna kröftum fyrir hina nýju viku.

Hvíldardagurinn er þess vegna kristnum manni líka stefnumót við Guð, til þess að þakka það sem vel gekk, til þess að leita aðstoðar við að laga það sem illa gekk og til þess að fela honum það sem kemur í nýrri viku.

Þetta segir klukkan þegar hún kallar til messu á sunnudegi: Komdu hingað fram fyrir Guð á helgum stað, ásamt trúsystkinum þínum og eigðu félag við þau og við Guð. Þannig helgar þú hvíldardaginn, eins og boðorðið segir þér að gera.

Hvað heyrum við þegar klukkan kallar? Hávaða?

Sífellt fjölgar þeim sem kvarta bæði við kirkjuverði og presta, með símhringingum og ávörpum á götum úti, og skrifa pistla í Moggann um þennan ólíðandi hávaða kirkjunnar á sunnudagsmorgnum. Enginn friður til að sofa, fyrir þreyttar sálir og hvíldarþurfi. Er þetta ekki hvíldardagur? Og ég ekki nema ný sofnaður!

Við getum vel haft fullan skilning á því að það fólk sem hefur engin afskipti af kirkju eða kristindómi, og vill fá að sofa í friði á sunnudögum, skammist út í þá truflun sem klukkan veldur.

En klukkunni kemur enginn til hjálpar. Með kinnroða má ég játa; ekki ég heldur. Enginn hringir í kirkjuvörðinn til að þakka fyrir klukknahljóminn, enginn skrifar grein í Moggann til að segja hvað það sé mikils virði að hafa klukknasönginn. Þá eru það skilaboð lýðræðisins, að það þurfi að skrúfa fyrir allar klukkur, vegna þess að þær eigi engan málsvara. Aðeins andstæðingar hennar tala. Þetta getur ekki endað nema á einn veg.

Á tilteknu landssvæði á meginlandinu var það niðurstaða að til þess að koma í veg fyrir að múslimarnir í borginni færu að kalla til bæna í moskunum úr mínarettunum sínum, að banna klukkunum að klingja.

Hvað syngur klukkan? Klukka truflar svefninn, en ef við þegjum alltaf, hvernig á þá samfélagið í heild að skilja að það séu ekki bara allir á móti klukknahringingum og á móti kirkjunni ef hún truflar svefninn?

Erum það kannski við hin sem erum sofandi og ætlum ekki að vakna fyrr en reglugerð borgaryfirvalda bannar kirkjuklukkur? Hver sefur? Hvað truflar svefninn? Er það ekki kannski eitthvað fleira en klukkan? Er það kanski Jesús sjálfur? Fylg þú mér.

Truflar það ekki líka svefninn?

Hvert ertu að fara? Til himna. Varstu búinn að athuga að það eru inntökuskilyrði? Þú þarf að hafa aðgöngumiða. Það er ekki frír aðgangur.

Kostar inn? Ja, þá fer ég eitthvað annað.

Þú þarft þess ekki. Það er búið að borga fyrir þig.

Kæri söfnuður. Á kirkjudegi, þegar heilsað er nýjum klukkuturni, fer ekki hjá því að textar dagsins fái sérstaka merkingu.Þannig heyrðum við í lexíunni þessi orð töluð til safnaðarins: Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra! Leitið þess, sem rétt er. Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar.

Kirkjudagur er safnaðardagur. Kirkjudagur er dagurinn þegar söfnuðurinn fagnar því að fá að vera sá félagsskapur sem hann er. Hvaða félag er þetta? Hefur það markmið? Hefur það skipulagsskrá? Hverju breytir það í lífi mínu að vera með í því félagi? Er ég skyldugur að mæta?

Eða er þetta bara svona fyrirbæri eins og almannatryggingar, - sem ég hugsa aldrei um meðan allt leikur í lyndi, en borga til með skattinum mínum – ef það skyldi henda mig að þurfa á þeim að halda.

Þegar horft er hér yfir söfnuðinn í dag, þegar næstum hvert sæti er skipað í kirkjunni verður ennþá frekar áberandi hversu hörmuleg algengasta kirkjusókn er í þessu landi. Miðað við hana þá má álykta sem svo að allur almenningur vilji að vísu fara til himna þegar lífsferðinni hér á jörðu lýkur, en telji fullnægjandi að greiða andvirði einnar brauðsneiðar á mánuði til að tryggja það, og vilji ekki vita neitt um annan tilkostnað, hvorki um dauða Krists á krossinum né um það samfélag hinna trúföstu sem kemur saman reglulega til þess að biðja þau inn í himinn, - þessi sem nenna ekki að vakna og fara í messu og klaga klukknaganginn.

Þess vegna var það eins og sérstakur gleðiboðskapur eftir hina hátíðlegu stund hér úti við nýja klukkuturninn, að heyra mann nokkurn segja við prestinn hér í anddyrinu á meðan klukkurnar sungu: Ég er nýr hér í sókninni! Það var rétt eins og : og með þínum anda, á eftir Drottinn sé með yður. Það er fluttur maður hér í sóknina, og hann kemur í kirkju!

Kæri söfnuður. Við höfum verk að vinna. Það er ekki endurtekning þess sem var. Það er nýtt verk Á hverjum nýjum sunnudegi tökumst við á hendur nýtt verk í nafni Krists.

Klukkurnar hér í nýja turninum eru ekki nýjar, - þær eru ekki gamlar heldur, þær eru samt komnar til ára sinna, en í hvert sinn og þær slá, gefa þær nýjan tón sem aldrei heyrðist fyrr.

Klukkan í Maríustúkunni í Skálholtskirkju er líkast til 800 ára. Hún er svo gömul að hún er orðin hluti af eilífðinni. En þegar hún verður (vonandi) slegin nú seinna í dag á 400 ára ártíð Brynjólfs biskups, verður tónn hennar nýr og tær og fæddur á því andartaki.

Þannig er hvert stefnumót Jesú Krists við söfnuð sinn, og klukkan kallar til, nýtt stefnumót, fullt af nýjum tækifærum hin síunga safnaðar, eins og fyrsti koss ungra elskenda, fullur fyrirheita um langa göngu saman undir sólu og regni, vetur, sumar vor og haust.

Við höfum verk að vinna. Með klukkunum: Að láta kall Krists hljóma: Fylg þú mér! Og fylgja því eftir í bókstaflegum skilningi með því að taka fólkið með til kirkjunnar, fram fyrir auglit Guðs, með það sem var, og það sem er og það sem verður.

Í eilífu samfélagi vorrar sameiginlegu móður, kristinnar kirkju, sem börn hennar og börn Guðs. Um það skulum við syngja: Kirkjan er oss kristnum móðir!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.