Svar Guðs sem þegir

Svar Guðs sem þegir

Sama spurning vaknaði eftir glæpaverkin í Noregi. Hvar var Guð á Úteyju? Getur verið að spurningin Hvar var Guð þá, blindi sjónina á það þegar hann er og heyrnina þegar hann svarar?

Þeir spurðu hann þá: Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú? Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: Brauð af himni gaf hann þeim að eta. Jesús sagði við þá: Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni. Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf. Þá sögðu þeir við hann: Herra, gef oss ætíð þetta brauð. Jesús sagði þeim: Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir. Guðspjallið Jh. 6.30-35

Kæri söfnuður. Þeir spurðu Jesú: Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Þetta er spurning dagsins. Nákvæmlega þetta. Við tökum eftir því að flestar ræður Jesú er fluttar undir beru lofti,  í góðu veðri undir skuggsælum trjám.  Það er eiginlega endalaus útihátíð  þegar Jesús gengur um með þeim sem fylgdu honum  og það er andblær af fegurð landsins og frjósemi þess í textunum.  Hann kennir þeim með orðum sínum og  gjörðum og birtir þeim vilja Guðs  og mátt hans. Guðspjallið er tekið úr slíkri ræðu.  Hún er flutt á fjalli  hinumegin við Galileuvatn. Það var sannarlega  útihátíð þann daginn. Og hann predikaði bæði með orðum og með gjörðum. Í þessum myndum guðspjallanna sjáum við hvernig Guð heldur öllu í faðmi sínum. Þar er sköpun hans öll, um láð og lög, menn og dýr, fuglar og fiskar, börn og gamalmenni, og mitt í þessu öllu er Jesús sjálfur, Guð sem skapar og endurleysir. Herra hins sýnilega og ósýnilega. Jesús sem er með heiminn í annarri hendinni eins og við sjáum á íkonamyndunum og með lykla Heljar í hinni. Og það er þessi mynd sem við syngjum um í dag og er svo skírt dregin upp í sálmum Sigurbjörns. Guð sýnir sig í táknum sínum allt um kring.

Meginhluti guðspjallsfrásagnarinnar sem ekki tilheyrir deginum í dag er  mettunarfrásögnin. Fimm byggbrauð og tveir fiskar, segir Jóhannes, verða í höndum Jesú að máltíð  fyrir þúsundir. Og það er grængresisilmur í guðspjallinu.  ,,Látið fólkið setjast niður”. En mikið gras var á staðnum.  (Eða: Þarna var gras mikið.) Og þau sem sátu í grasinu urðu öll södd. Líkamlega södd. Það var verk Drottins.

Það er miskunnarverk að gefa svöngum að borða. Það er líka kristin skylda að leggja eitthvað af mörkum til að seðja hungur hinna svöngu. Í dag í Sómalíu.  Kristur sem seður hungur  er hinn sanni Guðs sonur. Þjónusta hans og þjónusta við hann eru takn um nærveru hans. Feður voru átu manna í eyðimörkinni.  Sögðu þeir. Þannig var það þegar Móse var leiðtoginn héldu þeir. Jesús leiðréttir þá. Það var alldeilis ekki Móse. Guð gaf þeim að borða. Guð gaf saðningu. Guð gaf líf þegar einskis lífs var von.

Guðspjallið setur upp sem andstæður fæðuna sem Guð lætur vaxa á jörðinni ,svo fólkið verði satt, það er  gjöf himnanna og eiginlega himneskur matur, (manna) og þann jarðneska mat sem í höndum Jesú varð næring fyrir fjöldann.

Ég er brauð lífsins, segir Jesús. Neytið þess.  Gjöfin og gjafarinn er eitt og hið sama, sendiboðinn og boðskapurinn eru eitt. Ég er það sem ég er fulltrúi fyrir. Það segir Jesús með þessu.

Brauð lífsins er hin leyndardómsfulla eining  trúarinnar  milli Guðs og manns í Jesú Kristi.  Að vera í honum og hann í mér/ þér - og neyta máltíðar hans  við borð hans þar sem hann er sjálfur brauðið.

Við ætlum  neyta þessa leyndardóms hér á eftir eins og við erum vön. Í lotningu, í eigin smæð, frammi fyrir hinu fullkomna. Hér í Hallgrímskirkju eigum við þess ekki kost að krjúpa við borð Drottins. En  aðferðin við máltíðina breytir ekki innihaldi hennar. Það eitt skiptir máli að neyta hennar  í trú. Og trúin segir:   Já, ég trúi því að þú, Jesús Kristur sért að útdeila sjálfum þér til okkar, þó ég viti ekki hvernig, ég trúi því  að þú takir þér bólfestu í okkur  og að við séum hluti af þér, eins og greinar á sama tré eða hlutar sama líkama, - eins og hönd til að leiða lítinn eða villtan, til að snerta sorgmæddan eða firrtan, eða óhreinan að einhvers mati,  eins og fótur til að hlaupa með og flytja  gleðiboðskapinn,  eins og bak til að bera byrðarnar, eins og  tunga til að tala mál blessunarinnar, auga  til sjá  og spegla ást og elsku.

Ég heyri hvað hann segir: Ég er brauðið sem niður sté  frá himni og gefur heiminum líf.  Feður yðar átu manna í eyðimörkinni og dóu.  Sá sem etur af þessu brauði deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu.

Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf.  Himneskur veruleiki og jarðneskur.

Líkingin um brauð lífsins gerir samfélag þeirra sem játa trú á Jesú Krist að borðnautum. Það  sem sameinar þau sem eru við borðið er hin sameiginlega trú á hann.  Þar með er það hann sem er aðal atriðið en ekki þau sem játast honum.  Þau sem tilheyra honum horfa þess vegna til hans  en ekki á hvert annað þegar þau leita  leiðsagnar.  Með því að horfa til hans  kunna þau að veita leiðsögn hvert öðru.

Við horfum aftur til guðspjallsins. Það þarf að lesa allan 6. kaflann í Jóhannesarguðspjalli í samhengi.  Guðspjallið í dag er of stutt. Það sem Jesús er að segja þegar hann segist vera brauð lífsins er, að  þá er hann ekki bara að birta okkur sýn á sjálfan sig  heldur sýn til þess veruleika Guðs sem er utan og ofan þess hins sýnilega og jarðneska heims og býðst til að gefa okkur hlutdeild í honum með sér.

Trúin lætur okkur horfa dýpra og lengra en til þess sem augað sér eða fréttir herma. Við treystum því að til sé réttlæti og sannleikur þrátt fyrir óréttlætið og lygina og þrátt fyrir þau öll sem sýnast halda mest upp á hið síðara. Trúin leyfir okkur lík að hvíla örugg í faðmi Guð á sama tíma og hann virðist vera falinn bak við ský og heyri ekki þegar við köllum.

Jesús sagði: Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn heldur vilja þess sem sendi mig.  (Jh.6.38) Verið í mér, þá verð ég einnig í yður. (Jh.15.4)

Kæri söfnuður. Þeir spurðu um tákn. Og enn er spurt hins sama. Hvaða tákn fáum við til að sjá og trúa. Guð er meira en nálægð hans í sakramentinu. Það vissi líka Hallgrímur.

Herra minn, þú varst hulinn guð, þá hæðni leiðst og krossins nauð. Þó hafðir þú með hæstri dáð á himnaríki vald og ráð.

En hann sagði líka: Í sakramentinu sé ég þig , svo sem í liking skærri, með náð mér nærri. Margir spyrja: Hvernig get ég trúað á Guð ef ég sé ekkert til hans og heyri ekkert frá honum. Hvar er hann þegar við þurfum mest á honum að halda?

Eftir að síðari heimstyrjöldinni lauk kom fram fólk sem sagði: Útrýmingabúðirnar, glæpaverkin gegn gyðingunum sýna að Guð er ekki almáttugur Guð. Hann er Guð sem gengur með okkur inni í þjáninguna og grætur með okkur og elskar okkur, en hann getur ekki hjálpað nema með samkennd sinni, samúð og samfylgd.

Sama spurning vaknaði eftir glæpaverkin í Noregi. Hvar var Guð á Úteyju? Getur verið að spurningin Hvar var Guð þá, blindi sjónina á það þegar hann er og heyrnina þegar hann svarar? Einn af mínum bestu kennurum í Þýskalandi, Albrecht Peters, sem sjálfur var kallaður 17 ára í herinn, og fékk sprengjubrot í fótinn sem háði honum alla tíð, og dró hann síðast til dauða rúmlega sextugan, en hlífði honum við stórum hluta herþjónustutímans,  (og innan sviga , ég fór að hugsa um hann af því að Gisela ekkja hans dó í hárri elli í fyrradag) hann skrifar á einum stað:

Á sumum tímum er himininn opinn og okkur veitist gangan létt í jarðvistinni, til móts við Guð. En á öðrum tímum er himinninn lokaður, Guð  er óralangt í burtu og við hrópum til hans, að þvi er virðist, án árangurs. Án þess að hann heyri. Við erum fædd inn í slíka tíma. Þá hjálpar ekki að stinga höfðinu í sandinn, eða leggja huglaus á flótta.  Þá gildir að halda út í bæn. Aðeins er hjálp í því að við leitum styrks djúpt inni í fyrirheitum Heilagrar ritningar, og glímum svo við Guð með orði hans sjálfs. Glíma Jakobs við engilinn, bænaglíma Jesú í Getsemane og á Golgata minna okkur á að tímarnir þegar himinn Guðs er lokaður eru  engin undantekning. Miklu frekar reglan. Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig, sagði Jakob við engilinn. Það er líka okkar eigið hróp. Glímu mannsins við Guð lýkur aldrei. Hin leyndardómsfulla barátta Jakobs við engilinn, þessi nauðsynlega, en ójafna glíma  tók alla nóttina. Í krafti upprisu Jesú frá dauðum og uppstigningar hans til himna erum við þrátt fyrir alla ásókn efans  viss um að þessi glíma alls heimsins  muni finna endi og takmark sitt í morgunljóma efsta dags.

Þetta skrifar Albrecht Peters.

Kæri söfnuður. Þögn Guðs er erfiðasta prófraun trúarinnar. En kallinu eftir táknum svarar hann margvíslega ef við höfum augun hjá okkur. Og þegar augun eru haldin og heyrnin dauf megum við sækja okkur styrk og kraft og svar hvern sunnudag er við komum saman til guðsþjónustu. Sigurbjörn Einarsson biskup sem við höfum minnst á þessu sumri að liðum hundrað árum frá fæðingu hans, og talar til okkar í sálmum sínum í dag, skrifaði í hirðisbréfi sínu: Ljós yfir land svar við spurningunni um þau tákn um nærveru Guðs í Jesú Kristi sem við mætum í messunni. Hann skrifar:

Frumkristin guðsþjónusta var þakkar- og fagnaðarhátíð. Þar var beðið og lofsungið. Og þar var vissulega predikað. En hámarkið var evkaristian, þakkargjörðin sjálf, hin heilaga veisla. Þar var kirkjan í anddyri himinsins. Hún bar jarðnesk föng á borð, brauð og vín. Þau vitnuðu um það að vér þiggjum allt úr sömu góðu hendi, allan ávöxt jarðar, allan afla og erum systkin við sama borð. Þau voru játning þess að Guð á allt það sem vér þiggjum og þar með sjálfa oss. Vegna miskunnar Guðs skyldum vér bjóða fram líkami vora, að lifandi heilagri fórn. En sú vitund var borin uppi af krafti þeirrar fórnar sem fyrir oss var færð, af sigri þess kærleika er gaf sjálfan sig fyrir oss og vill reisa oss upp með sér til nýs eilífs lífs. Hin jarðnesku föng voru ekki aðeins ímynd gjafa hans, þau voru mynd hans sjálfs. Hann skipaði öndvegið við hið helga borð, umkringdur englasveitum himins, hinni sigrandi kirkju í dýrðinni. Hér varð fyrirheitið að veruleika: Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. (Ljós yfir land. Bls.124.)

Þannig skrifar Sigurbjörn. Allar tilraunir til að bæta hér við eru bara kjánalegar, nema breyta má þátíð í nútíð. Kæri söfnuður. Þetta gerist í dag. Hér og nú.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen