Hjálparstarfið

Hjálparstarfið

Ég brýni þau sem meira eiga og eru aflögufær að minnast hinna sem búa við bág kjör. Fyrir meðalgöngu Hjálparstarfs kirkjunnar komast öll framlög og góðar gjafir til þeirra sem þurfa. Einstök gleði felst í því að gefa og gleði barnafjölskyldna sem ná að halda jól með þokkalegum sóma, fyrir tilstilli Hjálparstarfs, þrátt fyrir skort er líka mikil og um hana get ég vitnað.
fullname - andlitsmynd Arnaldur Arnold Bárðarson
17. desember 2006

Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á. (Post. 2:44-45)
Þessi orð postulasögunnar bera samfélagi kristinna manna á árdögum kristni fagurt vitni og bendir okkur um leið til hins félagslega jöfnuðar og samhjálpar sem er svo dýrmætt að sé til staðar í mörgu tilliti. Mikilvægt er að það sé viðurkennt í samfélaginu að allar manneskjur hafi rétt til lífsins gæða en sannarlega er þeim þó oft misskipt. Í okkar ríka samfélagi af veraldargæðum er margt sem bendir til að bil milli ríkra og fátækra hafi breikkað. Starf prestsins veitir innsýn í kjör og lífsaðstæður fólks og má þar sjá alsnægtirnar í glæsilegum húsum, í veislum og munaði þar sem fólk leitast við að gera sér dagamun á ýmsum hátíðarstundum en einnig neyð og vanlíðan þeirra sem hafa lítið fyrir sig að leggja. Sannarlega er ljóst að veraldargæði ein og sér skapa ekki velferð eða lífsfyllingu eða tryggja hamingju og heill. En að sama skapi er líka víst að áhyggjur af morgundeginum, að hafa í sig og á, fela í sér margvíslegt böl og þjáningu. Sem betur fer eru þeir margir sem meira eiga er minnast ábyrgðar sinnar og veita af allsnægtum sínum til þeirra er lítið hafa. Hjálparstarf kirkjunnar tekur við góðum gjöfum og kemur þeim áfram þar sem þær nýtast hvað best.

Hjálparstarfið hefur þannig mjög miklu og góðu hlutverki að gegna. Sumum reynast sporin þung að leita til prestsins og óska eftir aðstoð, það veit ég en mikilvægt er að varpa frá sér slíkri hugsun. Það að hafa fæði og klæði er heilagur réttur hverrar manneskju í kristnu samfélagi og að sama skapi er hugur þeirra sem gefa góður og viljinn eindreginn í þá átt að gleðja og koma til aðstoðar. Jólahátíðin sem við köllum stundum barnahátíð, bæði vegna þess að gjöf Guðs var Jesús frelsarinn og eins hitt að fáir kunna eins að gleðjast um jól sem börnin, á að færa okkur kærleiksboðskapinn um samfélag allra manna og jafnrétti til lífs og lífsins gæða. Mikilvægt er því að allir geti haldið jól og skortur á veraldargæðum spilli ekki helgri hátíð.

Hjálparstarf kirkjunnar er mjög mikilvægt að mínu mati og get ég vitnað um þá þörf sem það mætir og þá gleði sem aðstoðin veitir. Umsóknir um aðstoð eru allnokkrar og ástæður sem fólk gefur oft af svipuðum toga en þar má nefna veikindi, atvinnumissi og ýmis áföll sem dunið hafa yfir í lífsvegferðinni. Enginn veit sína ævina og manneskja sem er sterk og siglir hraðbyri á lífsgæðavegferðinni kann að bíða óvænt skipbrot og þurfa að leita aðstoðar, í því fellst þó engin minnkun. Öll erum við guðsbörn og sem slík erum við verðmæt, ekki aðeins í augum skaparans heldur líka hvert öðru, samfélagsheildin er eitt hið mikilvægasta í manlegri vegferð líkt og tilvitnaður texti postulasögunnar benti á. Ég þakka oft fyrir að hafa Hjálparstarfið, þó betra væri að fátækt hyrfi úr samfélagi okkar en það er e.t.v. fjarlægur draumur. Það er ekki aðeins fyrir stórhátíðar sem fólk kemur til kirkjunnar í leit að aðstoð þó fjöldinn sé þá mestur. Á öðrum tímum er neyðin líka sár og þá er hönd Hjálparstarfsins líka útrétt og það er mjög mikils virði.

Ég brýni þau sem meira eiga og eru aflögufær að minnast hinna sem búa við bág kjör. Fyrir meðalgöngu Hjálparstarfs kirkjunnar komast öll framlög og góðar gjafir til þeirra sem þurfa. Einstök gleði felst í því að gefa og gleði barnafjölskyldna sem ná að halda jól með þokkalegum sóma, fyrir tilstilli Hjálparstarfs, þrátt fyrir skort er líka mikil og um hana get ég vitnað. Minnumst þess að öll erum við þiggjendur góðra gjafa Guðs, megi gjafir hans verða okkur augljósar og hátíð jólanna helga hverja sál.